Earnings Release • Dec 31, 2025
Earnings Release
Open in ViewerOpens in native device viewer
Alvotech tryggir 100 milljóna dollara fjármögnun
REYKJAVÍK (31. DESEMBER 2025) - Alvotech (NASDAQ: ALVO, ALVO SDB) tilkynnti í dag að fyrirtækið hafi tryggt lánsfjármögnun að fjárhæð 100 milljónir bandaríkjadollara til tveggja ára. Fjármögnunin mun styrkja lausafjárstöðu félagsins og styðja við stefnumarkandi verkefni á árinu 2026 og áframhaldandi fjárfestingu í þróun nýrra hliðstæðna líftæknilyfja.
„Þessi fjármögnun undirstrikar það traust sem alþjóðlegir fjárfestar hafa á stefnu og framtíðarsýn félagsins,“ sagði Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech. „Fjármögnunin styrkir getu okkar til áframhaldandi vaxtar og fjárfestingar í nýsköpun. Þannig höldum við áfram að auka aðgengi sjúklinga um allan heim að hágæða líftæknilyfjum.“
Fjármögnunin var leidd af GoldenTree Asset Management fyrir hönd fjárfesta sem deila sýn félagsins um vöxt á næstu árum samhliða markaðssetningu á fjölbreyttara úrvali lyfja, öflugri sókn á alþjóðlega markaði og áframhaldandi þróun á nýjum líftæknilyfjahliðstæðum.
Alvotech er nú að þróa 30 hliðstæður líftæknilyfja sem er eitt verðmætasta safn hliðstæðna í lyfjaiðnaðinum. Þá er félagið að auka framleiðslugetu sína þar sem 4 nýjar hliðstæður eru á leið á markað.
Fjármögnunin er að fjárhæð 100 milljónir bandaríkjadollara til tveggja ára og ber lánið 12,5% vexti sem eru greiddir mánaðarlega. Lánið kemur í stað 100 milljón dollara veltufjármögnunar (ABL) sem áður hafði verið upplýst um og veitir þessi fjármögnun félaginu aukinn sveigjanleika.
GoldenTree Asset Management leiddi í júní 2024 lánveitingu til Alvotech með lokagjalddaga í júní 2029. Ári síðar lækkuðu þessir vextir í 6,0% álag ofan á SOFR-millibankavexti, sem samsvarar um 9,8% vöxtum byggt á 30 daga meðaltali á SOFR-millibankavöxtum sem eru um 3,8%. Til að styrkja enn frekar fjárhagsstöðu félagsins, var einnig nýlega tilkynnt um útgáfu breytanlegra skuldabréfa að upphæð 108 milljón dollara með gjalddaga á árinu 2030. Með þessu er félagið vel í stakk búið til að viðhalda leiðandi stöðu sinni á markaði og styðja við áframhaldandi fjárfestingu í þróun á líftæknilyfjahliðstæðum.
Frekari upplýsingar:
Benedikt Stefánsson, forstöðumaður
Um Alvotech
Alvotech er líftæknifyrirtæki stofnað af Róberti Wessman sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þróunar- og framleiðsluþættir í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur meðal annars að þróun líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu og krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu, Rómönsku Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum.
Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðu Alvotech, á fjárfestasíðu okkar og á almennri vefsíðu félagsins á ensku. Fylgjast má með starfsemi Alvotech á LinkedIn, Facebook, Instagram og YouTube.

Building tools?
Free accounts include 100 API calls/year for testing.
Have a question? We'll get back to you promptly.