Earnings Release • Aug 15, 2024
Earnings Release
Open in ViewerOpens in native device viewer
Tap eftir skatta nam 314 millj.kr. Eignir félagsins námu 49.136 millj.kr. Eigið fé nam 36.602 millj.kr. sem samsvarar 19,5 á hvern útgefinn hlut Afkoma af skráðum eignum var neikvæð um 426 m.kr. Afkoma af óskráðum eignum var jákvæð um 510 m.kr.
Afkoma af skráðum verðbréfum var neikvæð um 426 m.kr. Heildareign í skráðum verðbréfum nam 9.396 m.kr. í upphafi árs og 8.844 m.kr. þann 30. júní sl. Verðmætustu skráðu eignir SKEL í lok tímabils voru 15,3% eignarhlutur í Kaldalóni sem hefur markaðsvirðið 2.840 m.kr. og 8,2% hlutur í Skaga sem var að markaðsvirði 2.334 m.kr. í lok tímabils. Önnur skráð hlutabréf í eignasafni SKEL voru að markaðsvirði 3.666 m.kr. í lok tímabils. Skráðar eignir voru því 18% eigna SKEL, en til lengri tíma er stefnt að því að 50% eigna félagsins séu á skráðum markaði.
Orkan // Löður eru að fullu í eigu SKEL. Fjöldi afgreiðslna jókst um 3% á fyrri hluta ársins samanborið við sama tímabil og í fyrra. Þá jókst fjöldi seldra lítra um 1%. Löður kynnti til sögunnar nýtt áskriftarmódel sem hefur mælst vel fyrir. Nýjar þvottastöðvar voru opnaðar í Vestmannaeyjum og á Einhellu í Hafnarfirði. Tafir urðu á opnun á Vesturlandsvegi sem hefur nú opnað. Á árinu munu einnig stöðvar opna á Akureyri og í Fellsmúla í Reykjavík. Á sama tímabili var átta þvottastöðvum Löðurs lokað á þjónustustöðvum N1. Samanlögð EBITDA Orkunnar og Löðurs er 954 m.kr. fyrir tímabilið en var áætluð 923 m.kr. Samstæðan er færð upp í árshlutauppgjöri sem nemur 479 m.kr., sem er aðallega vegna góðrar rekstrarafkomu og framtíðarfjárflæðis sem færist nær í tíma.
Heimkaup // Lyfjaval eru að 81% hluta í eigu SKEL. Rekstur Heimkaupa hefur falið í sér áskoranir og litast að hluta af opnun nýrrar lágvöruverðsverslunar, Prís. Afkoma Heimkaup á fyrri árshelmingi er neikvæð um 241 m.kr., en áætlanir gerðu ráð fyrir neikvæðri afkomu upp á 145 m.kr. Rekstur Lyfjavals er á ágætri siglingu og hefur fjöldi afgreiðsla aukist um 13% á milli ára og opnaði félagið nýverið apótek á Miklubraut í Reykjavík og fyrirhugað er að opna á Selfossi síðar á árinu. Samstæða Heimkaupa er færð niður um sem nemur 794 m.kr. á tímabilinu. Á næstu dögum opnar Prís, sem er lágvöruverðsverslun í rekstri Heimkaupa. Að því tilefni verður fjárfestakynning SKEL haldin þar, á morgun 16. ágúst.
Í byrjun júlí keypti SKEL 50% í INNO sem er verslunarkeðja (e. department store) í Belgíu ásamt Axcent of Scandaniva sem leitt er af Ayad Al-Saffar. Ayad Al-Saffar og meðfjárfestar hans eignuðust verslunarkeðjuna Åhléns árið 2022 og hafa náð eftirtektarverðum árangri í rekstri félagsins. Åhléns rekur 49 verslanir í Svíþjóð og eru starfsmenn um 3.000 talsins. INNO er ein stærsta og þekktasta verslunarkeðja Belgíu með 16 stórverslanir í eftirsóttum þjónustukjörnum í öllum helstu borgum landsins. INNO býður vinsæl vörumerki í tískufatnaði,

snyrtivörum, leikföngum, húsbúnaði, heimilisvörum, húsgögnum og fleiri vöruflokkum. Fyrirtækið rekur einnig netverslun og heildverslun og eru starfsmenn samtals 1.360. Fjárfestingin er liður í að auka vægi erlendra eigna í eignasafni SKEL. Til lengri tíma er stefnt að því að erlendar eignir SKEL nemi 30% af eignasafninu. Þetta hlutfall er í lok tímabils 4%, en rétt er að taka fram að INNO fjárfestingin var ekki komin inn þar sem viðskiptin gengu í gegn í byrjun júlí.
Samrunaviðræður SKEL og Samkaupa vegna samruna Samkaupa og tiltekinna félaga í eigu SKEL, nánar tiltekið Orkunnar IS ehf., Löður ehf., Heimkaupa ehf., Lyfjavals ehf. hafa verið yfirstandandi á þessu ári. Viljayfirlýsing var undirrituð í maí sl. Niðurstöður áreiðanleikakannanna allra félaga liggja nú fyrir og eru samningsaðilar í frekari viðræðum. SKEL mun greina frekar frá framvindu eftir því sem tilefni er til.
Styrkás er 63,4% í eigu SKEL. Rekstur Styrkás gengur vel og er útlit fyrir að afkoma félagsins verði um 10% umfram áætlun á árinu. Á tímabilinu fékk Styrkás afhent Stólpa og tengd félög og er afkoma þess að fullu inni í árinu. Þá hefur Styrkás gert samning um kaup á öllu hlutafé í Krafti ehf. Kraftur selur MAN, Palfinger og Bucher-Municipal á Íslandi. Kraftur rekur jafnframt þjónustuverkstæði fyrir MAN-bifreiðar. Kaupsamningurinn er háður fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og birgja. Styrkás er bókfært hjá SKEL á síðasta viðskiptaverði og er verðmæti eignarhluta SKEL 9.684 m.kr.
Gallon er 100% í eigu SKEL. Rekstur félagsins er á áætlun. Við lok þriðja ársfjórðungs 2023 var tilkynnt að SKEL hefði ákveðið að kanna möguleg tækifæri til sölu eða frekari þróunar félagsins. Samningaviðræður standa yfir við aðila um kaup á 80% hlutafjár Gallon, en þær eru á frumstigi. Niðurstaða viðræðna er háð niðurstöðum áreiðanleikakannanna og öðrum hefðbundnum fyrirvörum. Gerð verður nánari grein fyrir framgangi málsins eftir því sem tilefni er til. Virði Gallon er bókfært á 2.903 m.kr. við lok tímabils.
Íbúðir SKEL við Stefnisvog eru færðar upp um 309 m.kr. sem er hækkun um 6,2% skv. vísitölu íbúðaverðs yfir tímabilið. Á tímabilinu var einnig ákveðið að nýta kauprétt á 35 íbúðum við Stefnisvog sem var skrifað undir haustið 2023. Ásamt því að nýta kauprétt var náð samkomulagi um kaup SKEL á fleiri íbúðum og samanlagt er félagið að kaupa 50 íbúðir við Stefnisvog, samtals 5.534 fm. að stærð. Kaupverð er 4.704 m.kr. sem jafngildir 850 þús./fm. Áætlað er að íbúðirnar verði afhentar á fjórða ársfjórðungi 2024. SKEL mun bjóða umræddar íbúðir til langtímaleigu í gegnum leigumiðlara.
Fjöldi hluthafa 30. júní 2024 var 1.018 sem er fækkun um 1% frá áramótum. Fjöldi hluta er 1.878.479.032 eftir lækkun hlutafjár á tímabilinu og á félagið enga eigin hluti í lok tímabils. Arður var greiddur 16. apríl sl. að fjárhæð 750 m.kr.
"Afkoma fyrri árshelmings er tap sem nemur 0,6% af eignum félagsins. Tapið orsakast aðallega af neikvæðri afkomu af skráðum hlutabréfum og varúðarfærslu á verðmæti eignar okkar á smásölumarkaði.
Styrkás og Orkan eru umfram áætlanir á fyrri árshelmingi, sem er mjög jákvætt enda eru þetta verðmætustu eignir SKEL. Heimsóknum viðskiptavina á þjónustustöðvar Orkunnar fjölgar sem og seldum lítrum. Uppbygging og rekstur Styrkáss gengur framar vonum. Með Styrkási tel ég að við séum að byggja upp félag sem mun taka virkan þátt í uppbyggingu innviða og orkuöflunar hérlendis.
Hjá smásöluverslunum okkar var erfiðari rekstur en við bjuggumst við á fyrri árshelmingi. Við reiknum með að það sé tímabundið og erum mjög spennt að sjá hvernig neytendur taka opnun nýrrar smásöluverslunar - Prís.
Nýlega voru tekin afgerandi skref í erlendum fjárfestingum með kaupum á 50% hlut í belgísku verslunarkeðjunni INNO í samstarfi við eigendur Åhléns. Til lengri tíma litið er stefna SKEL að hlutfall erlendra eigna af safni sé allt að 30%.
Viðræður okkar við Samkaup eru yfirstandandi. Áreiðanleikakönnunum er lokið og ég vonast til að við getum greint frá niðurstöðu viðræðna á næstu dögum."
Afkomukynning fyrri hluta ársins 2024: 16. ágúst í húsnæði Prís við Smáratorg 3, Kópavogi kl. 8:30 Uppgjör seinni hluta ársins 2024 og ársuppgjör 2024: 6. febrúar 2025 Aðalfundur 2025: 6. mars 2025
Í framangreindri fréttatilkynningu er vísað til áætlana um framtíðarhorfur sem eru háðar óvissuþáttum og getur þýtt að raunverulegur árangur verði frábrugðinn því sem áætlað er í þessari fréttatilkynningu. SKEL hefur ekki skyldu til að, og mun ekki, uppfæra þessar spár um framtíðarhorfur félagsins til að endurspegla atburði og aðstæður sem eiga sér stað eftir útgáfu þessarar fréttatilkynningar. Það er ábyrgð fjárfestis að reiða sig ekki seinna meir á spár um framtíðarhorfur sem eru settar fram í þessari fréttatilkynningu þar sem þær eiga eingöngu við á þeim tíma sem hún er gefin út.
Nánari upplýsingar veitir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, [email protected] og í síma 444-3040
Building tools?
Free accounts include 100 API calls/year for testing.
Have a question? We'll get back to you promptly.