Earnings Release • Feb 6, 2025
Earnings Release
Open in ViewerOpens in native device viewer

6. febrúar 2025 – Fréttatilkynning
Rekstrarniðurstaða ársins 2024 endurspeglar afar sterkan grunnrekstur félagsins þrátt fyrir krefjandi umhverfi á árinu, einkum vegna óvenju margra brunatjóna. Rekstur vátryggingastarfseminnar einkenndist af undirliggjandi hagfelldri tjónaþróun, framþróun á þjónustuleiðum og áframhaldandi áherslum á framúrskarandi þjónustu sem skilar sér í mjög góðri rekstrarniðurstöðu og samsettu hlutfalli á árinu miðað við aðstæður. Hagnaður ársins nam 4.241 m.kr. og arðsemi eiginfjár var 17,5%.
Afkoma ársins 2024 af vátryggingasamningum fyrir skatta nam 1.283 m.kr. og samsett hlutfall var 96,2%. Tekjuvöxtur nam 7,4% sem var í takt við áætlanir en minni en síðustu ár en hafa verður í huga að markaðshlutdeild hefur aukist mikið undanfarin ár með heilbrigðum vexti. Áfram verður lögð áhersla á arðbæran og ábyrgan tryggingarekstur með framúrskarandi þjónustu en vöxtur er gjarnan afleiðing þess eins og hefur verið í tilfelli okkar.

Afkoma af fjárfestingastarfsemi fyrir skatta nam 3.435 m.kr. og var ávöxtun fjárfestingaeigna í stýringu 9,4% á árinu. Það er í samræmi við væntingar okkar í upphafi árs en er ánægjulegt í ljósi erfiðra eignamarkaða langt framan af ári bæði á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði. Markaðir tóku við sér á haustmánuðum með lækkandi verðbólgu og væntingum um að vaxtalækkunarferli gæti hafist sem svo varð raunin. Allir eignaflokkar skiluðu jákvæðri afkomu fyrir utan óskráð hlutabréf þar sem stærsta einstaka breytingin var á virði eignarhlutar í Controlant sem var færður niður um 77% á árinu eða um 675 m.kr.
Afkoma á fjórða ársfjórðungi var afar góð en hún nam 2.812 m.kr. Afkoma af vátryggingasamningum var 313 m.kr. og samsett hlutfall var 96,3%. Afkoma af vátryggingarekstri var í takt við væntingar en ber þess merki að tíðarfar var eins og við er að búast á þessum tíma árs. Afkoma af fjárfestingastarfsemi fyrir skatta var mjög góð á fjórðungnum og nam 2.679 m.kr. og var ávöxtun fjárfestingaeigna í stýringu 5,4%.
Í góðu samstarfi við Samgöngustofu fór forvarnarverkefnið "Ekki taka skjáhættuna" af stað á árinu 2024 og miðar að því að draga úr símnotkun við akstur. Erlendar rannsóknir sýna að allt að 20% umferðaslysa megi rekja beint til notkunar á farsímum við akstur og því um mikilvæg forvarnarskilaboð að ræða.
Í nóvember var haldinn morgunfundur undir yfirskriftinni "Brunar í Evrópu og á Íslandi, hvað er til ráða?", í kjölfar aukinnar tíðni alvarlegra bruna bæði hér á landi og erlendis á bygginga- og framkvæmdasvæðum. Markmið fundarins var að vekja athygli á þessari þróun og virkja viðeigandi aðila til frekara samtals um hvað megi betur fara og hvernig forvörnum skuli háttað svo hægt sé að lágmarka og/eða koma í veg fyrir brunatjón.
Sjóvá fékk bæði viðurkenninguna Fyrirmyndarfyrirtæki VR ásamt viðurkenningunni Fræðslufyrirtæki VR árið 2024. Um er að ræða stærstu vinnumarkaðsgreiningu á landsvísu þar sem Sjóvá hefur mörg undanfarin ár verið á meðal 5 efstu fyrirtækja í flokki stórra fyrirtækja. Þessar niðurstöður eru okkur mjög mikilvægar því að sterk fyrirtækjamenning og mikil starfsánægja leggur grunn að góðri þjónustu. Það er skýrt markmið okkar að vera þjónustufyrirtæki í fremstu röð og því einkar ánægjulegt að uppskera efsta sæti tryggingafélaga í ánægjuvoginni á árinu 2024, áttunda árið í röð. Fengum við jafnframt Gullmerki ánægjuvogarinnar þar sem mikill munur var á okkur og á næstu fyrirtækjum. Engu fyrirtæki á vátryggingamarkaði hefur áður tekist að halda fyrsta sætinu óslitið átta ár í röð.
Sjóvá hefur verið aðalstyrktaraðili Landsbjargar frá 1999 eða í 25 ár. Samstarfið hefur verið okkur mikilvægt og árangursríkt. Fyrir utan fjárhagslega styrki hefur samstarf okkar lotið að forvörnum, vátryggingavernd félagsmanna, þeirra verðmætu tækja og nú síðast að endurnýjun björgunarskipaflotans sem er orðið löngu tímabært. Nýju björgunarskipin hafa bætt viðbragðstíma á hafinu í kringum Ísland og er styrkurinn stærsti einstaki styrkur sem veittur hefur verið til leitar- og björgunarstarfa á Íslandi.
Stofn, vildar- og tryggðarkerfi Sjóvá hélt upp á 30 ára afmæli sitt á árinu. Stofn er með þekktari vildarkerfum landsins og er ein helsta aðgreining okkar á markaði og nema greiðslur til tjónlausra Stofn félaga um 11 ma.kr. yfir þetta 30 ára tímabil.
Á árinu var Sjóvá efst tryggingarfélaga í Sjálfbærniásnum en það var í fyrsta sinn sem þessi nýja viðurkenning var veitt. Sjálfbærniásinn er nýr samræmdur mælikvarði sem mælir viðhorf íslenskra neytenda til frammistöðu fyrirtækja og stofnana í sjálfbærni.

Á árinu 2025 munum við hér eftir sem hingað til leggja áherslu á arðbæran og ábyrgan vátryggingarekstur. Saga okkar í 10 ár sem skráð félag í Kauphöll hefur sýnt að við höfum staðið undir okkar höfuðáherslu um að vera öflugt arðgreiðslufélag sem byggir á öguðum grunnrekstri, þar sem vátryggingar eru okkar fag.
Horfur fyrir árið 2025 gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verði á bilinu 1.700 – 2.400 m.kr. og samsett hlutfall 93 - 95%. Ekki verða birtar horfur fyrir afkomu af fjárfestingastarfsemi en áætlanir félagsins gera ráð fyrir að ávöxtun fjárfestingaeigna í stýringu nemi 8,5% á ári til lengri tíma miðað við núverandi vaxtastig og fjárfestingastefnu. Ekki verður upplýst um frávik frá afkomu af fjárfestingastarfsemi nema þær verði raktar til verulegra breytinga á óskráðum eignum eða á eignasafni. Þá má ætla að áhrif áfallinna vaxta (vöxtunar) vátryggingaskuldar verði neikvæð um 1.500 m.kr. miðað við óbreytt vaxtastig og stærð vátryggingaskuldarinnar.
Við gerð áætlunar er stuðst við ýmis opinber gögn, t.d. spár um þróun vísitalna, hagvöxt og áætlaðan ferðamannafjölda. Þá er litið til tjónaþróunar undanfarinna ára auk þess sem áætlað er fyrir tveimur til þremur stórtjónum á árinu.
Arðgreiðslustefna félagsins miðar við að greiða að lágmarki 50% af hagnaði hvers árs til hluthafa í formi arð að teknu tilliti til gjaldþols. Samþykkt var á stjórnarfundi í dag að leggja til við hluthafafund að greiða út arð að fjárhæð 3.400 m.kr. eða 2,94 kr. á hlut.
Fjármálaeftirlitið hefur veitt félaginu heimild til endurkaupa á eigin bréfum á árinu 2025 sem byggir á heimild aðalfundar Sjóvár 7. mars sl. Endurkaup munu sem fyrr taka mið af gjaldþolsviðmiðum stjórnar.
Markaðsaðilum og fjárfestum er boðið á kynningarfund í fundarsal félagsins í Kringlunni 5, 6. hæð þann 6. febrúar kl. 16:15. Þar munu Hermann Björnsson forstjóri, Sigríður Vala Halldórsdóttir framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni og Þórður Pálsson forstöðumaður fjárfestinga kynna uppgjörið og fara yfir afkomu félagsins. Kynningunni verður jafnframt streymt á slóðinni https://www.sjova.is/um-okkur/fjarfestar/afkomukynning-4f-2024/. Vilji aðilar bera upp spurningar má senda þær á netfangið [email protected] fyrir fundinn eða á meðan á fundi stendur og verður þeim svarað í lok kynningarinnar.
Uppgjörsefni verður aðgengilegt á vef Sjóvár www.sjova.is/fjarfestar frá þeim tíma er kynningin hefst og verður upptaka af fundinum aðgengileg á sömu síðu að fundi loknum.
| Aðalfundur 2025……………………………………. 13. mars 2025 | |
|---|---|
| 1. ársfjórðungur 2025……………………………. 30. apríl 2025 | |
| 2. ársfjórðungur 2025……………………………. 17. júlí 2025 | |
| 3. ársfjórðungur 2025……………………………. 30. október 2025 | |
| Ársuppgjör 2025……………………………………. 12. febrúar 2026 |
Meðfylgjandi er fréttatilkynning, ársreikningur samstæðunnar og fjárfestakynning Sjóvá-Almennra trygginga hf. vegna fjórða ársfjórðungs og ársuppgjörs 2024.
Í samræmi við lög birtir Sjóvá ársreikning á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði (e. European Single Electronic Format eða ESEF) og má finna gildandi útgáfu í meðfylgjandi .zip skrá.
Nánari upplýsingar veitir Davíð Scheving Thorsteinsson í síma 869-8109 eða [email protected].

| 4F 2024 | 4F 2023 | % | 12M 2024 | 12M 2023 | % | |
|---|---|---|---|---|---|---|
| Tekjur af vátryggingasamningum | 8.547.123 | 8.017.608 | 5,5% | 33.597.519 | 31.273.382 | 7,4% |
| Tjón tímabilsins | (6.714.155) | (5.578.983) | 20,3% | (25.104.761) | (23.425.571) | 7,2% |
| Rekstrarkostnaður af vátryggingasamningum | (1.790.297) | (1.680.903) | 6,5% | (6.615.263) | (6.122.677) | 8,0% |
| Afkoma af endurtryggingasamningum | 360.619 | (58.249) | - | (594.420) | (30.390) | - |
| Afkoma af vátryggingasamningum | 313.291 | 699.473 | -55,2% | 1.283.075 | 1.694.744 | -24,3% |
| Hreinar fjármunatekjur | 88.541 | 92.510 | -4,3% | 671.116 | 931.142 | -27,9% |
| Gangvirðisbreytingar fjáreigna | 3.080.836 | 2.356.944 | 30,7% | 4.802.767 | 3.868.729 | 24,1% |
| Rekstrarkostnaður af fjárfestingastarfsemi | (105.338) | (81.941) | 28,6% | (393.624) | (299.600) | 31,4% |
| Afkoma fjárfestinga | 3.064.038 | 2.367.512 | 29,4% | 5.080.258 | 4.500.271 | 12,9% |
| Fjármagnsliðir vátryggingasamninga | (385.373) | (477.722) | -19,3% | (1.645.026) | (893.865) | 84,0% |
| Afkoma fjárfestinga eftir fjármagnsliði | 2.678.665 | 1.889.790 | 41,7% | 3.435.233 | 3.606.406 | -4,7% |
| Afkoma af vátryggingasamningum og | ||||||
| fjárfestingum | 2.991.956 | 2.589.263 | 15,6% | 4.718.308 | 5.301.149 | -11,0% |
| Aðrar tekjur | 35.481 | 41.272 | -14,0% | 170.460 | 157.276 | 8,4% |
| Annar rekstrarkostnaður | (17.057) | (11.806) | 44,5% | (53.241) | (46.001) | 15,7% |
| Annar fjármagnskostnaður | (16.798) | (17.036) | -1,4% | (67.037) | (68.157) | -1,6% |
| Hagnaður fyrir tekjuskatt | 2.993.582 | 2.601.694 | 15,1% | 4.768.490 | 5.344.267 | -10,8% |
| Tekjuskattur | (181.611) | (280.218) | -35,2% | (527.588) | (718.719) | -26,6% |
| Hagnaður og heildarhagnaður tímabilsins | 2.811.971 | 2.321.475 | 21,1% | 4.240.902 | 4.625.549 | -8,3% |
| Helstu kennitölur | 4F 2024 | 4F 2023 | 12M 2024 | 12M 2023 | ||
| Tjónahlutfall | 79,4% | 69,6% | 74,7% | 74,9% | ||
| Endurtryggingahlutfall | (4,3%) | 0,7% | 1,8% | 0,1% | ||
| Kostnaðarhlutfall | 21,2% | 21,0% | 19,7% | 19,6% | ||
| Samsett hlutfall | 96,3% | 91,3% | 96,2% | 94,6% | ||
| Arðsemi eigin fjár fyrir skatta á ársgrundvelli | 50,5% | 46,8% | 19,7% | 23,9% | ||
| Arðsemi eigin fjár eftir skatta á ársgrundvelli | 47,4% | 41,8% | 17,5% | 20,7% | ||
| Eiginfjárhlutfall | 33,2% | 33,7% | ||||
| Gjaldþolshlutfall eftir fyrirhugaða arðgreiðslu Lágmarksfjármagnshlutfall eftir |
1,42 | 1,40 | ||||
| fyrirhugaða arðgreiðslu | 3,32 | 3,40 | ||||
| Helstu liðir úr efnahagsreikningi | 31.12.2024 | 31.12.2023 | ||||
| Verðbréf | 62.575.602 | 54.267.272 | ||||
| Endurtryggingaeignir | 2.040.927 | 1.815.922 | ||||
| Eignir samtals | 75.692.333 | 69.304.836 | ||||
| Skuldbinding vegna vátryggingasamninga | 41.712.958 | 36.748.810 | ||||
| Eigið fé samtals | 25.128.078 | 23.321.301 |
Fjárhæðir eru í þúsundum króna
Ársreikningur samstæðunnar fyrir árið 2024 var samþykktur af stjórn og forstjóra á stjórnarfundi þann 6. febrúar 2024.
Building tools?
Free accounts include 100 API calls/year for testing.
Have a question? We'll get back to you promptly.