Earnings Release • Nov 29, 2024
Earnings Release
Open in ViewerOpens in native device viewer
Uppgjör Ísfélags á þriðja ársfjórðungi 2024
Helsta úr starfseminni.
Makrílveiðin var mun lakari en vonir stóðu til og uppsjávarskipið Sigurður VE var meira og minna frá vegna bilana.
Makrílvinnslan gekk vel og verð fyrir afurðirnar var hátt.
Veiðar og vinnsla á norsk-íslenskri síld gengu vel.
Kvótar í makríl og norsk-íslenskri síld hafa farið minnkandi undanfarin ár.
Verð hefur almennt hækkað á frosnum afurðum félagsins.
Verð á mjöli hefur verið gott en lýsisverð hefur lækkað umtalsvert.
Sigurbjörg, nýr ísfisktogari félagsins, hóf veiðar um miðjan ágúst.
Fiskvinnslu í Þorlákshöfn var hætt í lok september.
Afli skipa félagsins á fyrstu 9 mánuðunum var tæp 49.000 tonn.
Framleiddar afurðir voru um 31.700 tonn.
Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins.
Rekstrartekjur á þriðja ársfjórðungi námu 52,3 m.USD og 120,6 m.USD á fyrstu 9 mánuðum ársins.
Hagnaður tímabilsins nam 9,4 m.USD á þriðja ársfjórðungi og 9,7 m.USD, fyrstu 9 mánuðina.
EBITDA framlegð þriðja ársfjórðungs var 19,7 m.USD eða 37,7%. Á fyrstu 9 mánuðum ársins var EBITDA framlegðin 33 m.USD eða 27,3%.
Heildareignir námu 780,2 m.USD í lok þriðja ársfjórðungs og var eiginfjárhlutfall 70,1%.
Nettó vaxtaberandi skuldir voru 102,7 m.USD í lok ársfjórðungsins.
Rekstur.
Rekstrartekjur á þriðja ársfjórðungi námu 52,3 m.USD og á fyrstu 9 mánuðum ársins 2024 námu þær 120,6 m.USD samanborið við 148,5 m.USD á fyrstu 9 mánuðum ársins 2023. Loðnubrestur á vetrarvertíð 2023/2024 hafði mikil áhrif til tekjulækkunar og einnig léleg veiði á makrílvertíð.
Hagnaður á þriðja ársfjórðungi nam 9,4 m.USD og var hagnaður á fyrstu 9 mánuðum ársins 2024 því 9,7 m.USD, samanborið við hagnað upp á 37 m.USD á fyrstu 9 mánuðum ársins 2023.
Sama á við um lægri hagnað og lægri tekjur, þ.e. ástæðan er fyrst og fremst að ekki var veidd loðna á vetrarvertíðinni 2023/2024.
EBITDA framlegð á þriðja ársfjórðungi var 19,7 m.USD eða 37,7%. Á fyrstu 9 mánuðum ársins 2024 var EBITDA framlegðin 33 m.USD eða 27,3% af rekstrartekjum.
Efnahagur.
Heildareignir Ísfélagsins voru 780,2 m.USD í lok september 2024, þar af voru fastafjármunir 688,8 m.USD og veltufjármunir 91,4 m.USD.
Í árslok 2023 voru heildareignir 804,4 m.USD, þar af voru fastafjármunir 663,4 m.USD og veltufjármunir 141 m.USD. Heildareignir lækkuðu um 24,2 m.USD á fyrstu 9 mánuðum ársins 2024. Rekja má lækkunina að mestu til minnkunar birgða og lækkunar á handbæru fé.
Eigið fé Ísfélagsins var 546,6 m.USD í lok september, en var 554,2 m.USD í lok árs 2023. Eiginfjárhlutfallið var 70% í lok september, en í lok árs 2023 var eiginfjárhlutfallið 68,9%.
Langtímaskuldir og skuldbindingar voru 182,8 m.USD í lok september, en voru 201,3 m.USD í lok árs 2023. Skammtímaskuldir voru 50,8 m.USD í lok tímabilsins, en í lok árs 2023 voru þær 48,9 m.USD. Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins voru 102,7 m.USD í lok september en voru í árslok 2023, 98,5 m.USD.
Sjóðstreymi.
Á fyrstu 9 mánuðum ársins 2024 var handbært fé frá rekstri 45,5 m.USD. Fjárfestingarhreyfingar fyrstu 9 mánuði ársins voru neikvæðar um 34,1 m.USD. Fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 34,9 m.USD. Lækkun á handbæru fé, fyrstu 9 mánuði ársins 2024 var 23,5 m.USD og var handbært fé í lok tímabilsins 20,4 m.USD.
Meginniðurstöður í íslenskum krónum fyrstu 9 mánuði ársins 2024.
Þegar helstu niðurstöður úr rekstrarreikningi tímabilsins eru færðar yfir í íslenskar krónur á meðalgengi fyrstu 9 mánuði ársins 2024 (138,02) voru rekstrartekjur félagsins 16,6 milljarðar króna, rekstrarhagnaður 3 milljarðar króna, hagnaður eftir skatta 1,3 milljarðar króna og EBITDA 4,6 milljarðar króna.
Sé staða á efnahag félagsins í lok september 2024, færð í íslenskar krónur á lokagengi tímabilsins (134,6), eru heildareignir 105 milljarðar króna, fastafjármunir 92,7 milljarðar króna og veltufjármunir 12,3 milljarðar króna. Eigið fé í lok september 2024 var 73,6 milljarðar króna og skuldir og skuldbindingar 31,4 milljarðar króna.
Kynningarfundur 29. nóvember 2024.
Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn í vefstreymi föstudaginn 29. nóvember klukkan 16:00. Streymið verður aðgengilegt á vefsíðu Ísfélagsins https://isfelag.is/streymi. Hægt er að senda spurningar á netfangið [email protected].
Frá Stefáni Friðrikssyni forstjóra
Makrílveiðar gengu illa og voru það mikil vonbrigði. Ástæðurnar voru fyrst og fremst þær að minna var af makríl bæði í íslensku lögsögunni og á alþjóðlega veiðisvæðinu milli lögsagna Íslands, Noregs og Færeyja. Auk þess bætti ekki úr skák að Sigurður VE, öflugasta uppsjávarskip félagsins, var meira og minna frá veiðum á makrílvertíðinni vegna bilana.
Veiðar á norsk-íslensku síldinni hófust í byrjun september og stóðu fram í miðjan október. Veiðar og vinnsla gengu vel.
Verð á flestöllum frosnum afurðum sem félagið framleiðir hefur hækkað og á það bæði við afurðir í bolfiski og uppsjávarfiski. Mjölverð hefur verið stöðugt en gera má ráð fyrir einhverjum lækkunum á nýju ári. Verð á lýsi hefur hins vegar lækkað umtalsvert í haust.
Sigurbjörg, nýr togari félagsins, hóf veiðar um miðjan ágúst. Í skipinu er flókinn búnaður sem ennþá er verið að slípa til en veiðigeta skipsins er í samræmi við væntingar.
Fiskvinnslu félagins í Þorlákshöfn var hætt í lok september. Ástæðurnar eru, eins og áður hefur komið fram, annars vegar að ekki eru nægar aflaheimildir til þess að vera með bolfiskvinnslu á fjórum starfsstöðvum og hins vegar aflabrestur í humarveiðum.
Afurðabirgðir félagsins minnkuðu á tímabilinu.
Heildarafli skipa félagsins fyrstu níu mánuði ársins var tæp 49.000 tonn samanborið við rúm 122.000 tonn á sama tímabili í fyrra og framleiddar afurðir voru 31.700 tonn samanborið við 66.000 tonn í fyrra.
Fjárhagsdagatal:
Birting ársuppgjörs 2024 – 27. mars 2025.
Fyrsti árfjórðungur 2025 – 27. maí 2025.
Nánari upplýsingar veitir Stefán Friðriksson, forstjóri.

Viðhengi:
Building tools?
Free accounts include 100 API calls/year for testing.
Have a question? We'll get back to you promptly.