Earnings Release • Oct 28, 2022
Earnings Release
Open in ViewerOpens in native device viewer
•
•
"Góður rekstur einkennir uppgjör Origo á þriðja ársfjórðungi 2022. Tekjur vaxa um 14,7% og félagið skilar 9,8% EBITDA á fjórðungnum sem er 8% aukning frá fyrra ári. Tekjuvöxtur er í öllum starfsþáttum félagsins en þó mestur í Notendabúnaði upp á 22,8%. Rekstrarkostnaður Origo fer úr 22% í 22,4% á tímabilinu, einkum vegna aukinnar fjárfestingar í hugbúnaðarþróun sem eykst á fjórðungnum um rúmar 70 mkr frá síðasta ári en einnig gætir áhrifa af fjárfestingum í fyrirtækjum sem farið var í á síðasta ári. Á fyrstu níu mánuðum ársins er tekjuvöxtur 10% og EBITDA hlutfall 8,4%% á móti 8,5% á sl. ári.
Áfram er góð eftirspurn eftir lausnum og vörum í Notendabúnaði og jukust tekjur um 22,8% á þriðja ársfjórðungi eftir að óverulegur samdráttur hafði verið á öðrum ársfjórðungi. Góð tekjuaukning er heilt yfir eininguna en þó almennt betri á fyrirtækjamarkaði en á einstaklingsmarkaði. Góð afkoma er hjá einingunni og EBITDA 9,3% af veltu. Horfur eru heilt yfir ágætar og meira jafnvægi er að komast á vöruflæði.
Þjónustulausnir Origo, sem tilheyra rekstrarþjónustu félagsins, hafa verið í mikilli umbreytingu s.l. 12-18 mánuði með breytingum á vöru- og þjónustuframboði sem skilað hefur mun betri rekstri, ásamt því að búa til nokkur góð tækifæri til sóknar. 6% tekjaukning er á þriðja ársfjórðungi en 46% bati í EBITDA afkomu. Skerpt
hefur verið á áherslum og sköpuð sterkari umgjörð í kringum þjónustuafhendingu, auk betri nýtingar á tækifærum sem liggja í umbreytingu hjá okkar viðskiptavinum.
Vaxtarverkefni Rekstrarþjónustu og innviða Origo liggja í Syndis, Responsible Compute og Datalab. Á fjórðungnum kynnti Responsible Compute, sem er samstarfsverkefni Origo og Borealis Data Center, HPC innviðaþjónustu í gagnaverum Borealis sem eru keyrð á umhverfisvænum orkugjöfum og kæld með umhverfisvænum leiðum. Þróun hefur staðið yfir í nærri tvö ár og er áherslan nú á tekjuuppbyggingu en félagið fékk nú á haustmánuðum sinn fyrsta stóra viðskiptavin eftir verulegar prófanir. Vöxtur Syndis heldur áfram og hefur félagið vaxið og dafnað frá því að Origo keypti það á vormánuðum 2021 en starfsmannafjöldi er að nálgast fimmtíu. Starfsemin er fjórþætt; á sviði ráðgjafar, öryggisþjónustu (SOC), rannsóknar og þróunar, sem og hugbúnaðargerðar. Félagið mun nú í október keyra fyrstu viðskiptavinaprófanir á nýjum hugbúnaði sem metur hversu aðlaðandi fyrirtæki eru í augum hakkara en Syndis hefur fjárfest verulegu rekstrarfé í hugbúnaðinum á síðustu fimmtán mánuðum.
Velta Origo í hugbúnaðargerð heldur áfram að vaxa og skilaði 7,3% tekjuaukningu á fjórðungnum. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá 26,4% aukningu í tekjum á eigin hugbúnaði og 17,4% fyrir fyrstu níu mánuði ársins. Áfram er sterkur tekjuvöxtur innan hugbúnaðar á kjarnasviðum eins og mannauðslausnum, gæðakerfum og fjárhagskerfum. Frábært er að sjá að eftir tvö mögur ár í ferðaiðnaði varð tvöföldun á veltu ferðalausna á þriðja ársfjórðungi. Félagið hefur um nokkurt skeið fjárfest í þróun ferðalausna og er afar ánægjulegt að sjá að bæði Booking Factory og bílaleigukerfið Caren eiga fullt erindi á markaðinn. Við munum halda áfram fjárfestingu þessara tveggja lausna og horfum fram á að báðar lausnir geti orðið sjálfbærar á næstu 12 – 18 mánuðum.
Heldur dregur úr veltu Heilbrigðislausna eftir Covid en verkefnastaðan er þó góð og áhersla er hjá Origo að auka eigin hugbúnaðargerð fyrir heilbrigðisgeirann. Smáforritið Smásaga hefur nú verið tekið til notkunar hjá öllu starfsfólki landsins sem sinnir heimahjúkrun. Innleiðingin á Smásögu gekk vonum framar og endurgjöf frá notendum hefur verið mjög jákvæð. Starfsfólk heimahjúkrunar á landinu hefur tekið leiðandi skref í notkun á tækni í sínum störfum, til að bæði auðvelda starf sitt og auka öryggi sinna skjólstæðinga.
Í öðrum hugbúnaðareiningum er góður tekjuvöxtur milli ára og félagið er í dag mjög framarlega þegar kemur að notendaviðmóti og framendaþróun. Ráðgjöf og sérþróun lausna fyrir viðskiptavini hefur einnig gengið vel, bæði hvað varðar verkefni tengd stafrænni umbreytingu, sem og þróun sértækra og skalanlegra vara á sviði viðskiptagreindar. Félagið hefur nýtt sér þekkingu sína á gagnavísindum og mannauðs- og launakerfum til að skapa aukin verðmæti fyrir notendur upplýsingakerfa. Sölupípa hugbúnaðarverkefna lítur almennt vel út og verkefnastaða er góð.
Rekstur Applicon er stöðugur miðað við síðasta ár. Tekjur aukast aðeins á þriðja ársfjórðungi en rekstrarniðurstaða er sambærileg við síðasta ár. Félagið hefur á síðustu árum aukið áherslu sína á kaupleigufyrirtæki, sem og fjárstýringu hjá almennum fyrirtækjum. Applicon vinnur nú jafnframt að hugbúnaðarþróun tveggja vara sem mun hafa áhrif á tekjusamsetningu framtíðarinnar. Fjárfestingar í nýjum vörum er um 22 m.kr. hærri á fyrstu níu mánuðum.
Origo hlaut nú í október hvatningarverðlaun Creditinfo fyrir framúrskapandi nýsköpun. Það er vissulega frábært að fyrirtæki sem rekur sögu sína 70 ár aftur í tímann hafi náð að endurskapa sig aftur og aftur á síðustu árum og sé í dag eitt sterkasta nýsköpunarfyrirtæki landsins á sviði hugbúnaðar.
Þann 5. október sl. var tilkynnt að Origo og félag á vegum bandaríska tæknifjárfestingarsjóðsins Diversis Capital hefðu náð samkomulagi um skuldbindandi kaupsamning um sölu Origo á öllum eignarhlut félagsins í Tempo Ultimate Parent til Diversis. Um var að ræða tæplega 40% eignarhlut í Tempo. Virði Tempo í viðskiptunum (e. Enterprise Value) er um 600 milljónir USD. Samkvæmt kaupsamningi fær Origo greiddar í reiðufé 195 milljónir USD fyrir eignarhlut sinn. Áætlaður söluhagnaður Origo er um 156 milljónir USD að teknu tilliti til bókfærðs virðis og kostnaðar vegna viðskiptanna. Söluandvirði eignarhlutarins samkvæmt kaupsamningi hefur nú verið greitt að fullu til Origo. Origo hefur nú þegar varið sig fyrir gengissveiflum í USD og ljóst er að söluandvirðið í ISK er um 28 milljarðar. Salan á Tempo mun hafa umtalsverð jákvæð áhrif á efnahagsreikning Origo þar sem lausafjárstaða styrkist og geta til innri og ytri vaxtar verður umtalsverð. Stjórn og framkvæmdastjórn Origo
vinna áfram að tillögu um ráðstöfun söluandvirðisins og gerir ráð fyrir að á komandi dögum verði boðaður hluthafafundur þar sem tillögur stjórnar verða kynntar.
Horfur í rekstri eru ágætar. Við erum í innleiðingarfasa á þeirri stefnumótun sem við fórum í á síðasta ári og höfum úr töluverðu að vinna, sem mun styrkja fyrirtækið enn frekar til sóknar - til hagsbóta fyrir viðskiptavini, starfsfólk og hluthafa. Til skemmri tíma erum við að horfa á þau tækifæri sem umbreyting Rekstrarþjónustu félagsins hefur skapað. Að ná fram aukinni vöruvæðingu, svo við eigum auðveldara með að viðhalda gæðum í þjónustu, lægra verði, skapa sterkari umgjörð í kringum viðskiptalegan þátt hugbúnðargerðar, auk þess sem við viljum nýta betur styrk okkar á markaði fyrir notendabúnað. Til lengri tíma vinnum við eftir skýrum framtíðaráherslum og munum nýta það traust sem við höfum til að vera í stöðugri þróun þegar kemur að starfsfólki og tækniumhverfi og þróa þannig vörur sem bæta lífið. Fyrirtækið er rekstrarlega sterkt og hefur góða stjórn á þeim fjárfestingum sem félagið hefur lagt í og getur dregið úr, verði breyting á hagfelldu umhverfi upplýsingatækni."
| Í milljónum ISK | F3 2022 | F3 2021 | % | 9M 2022 | 9M 2021 | % |
|---|---|---|---|---|---|---|
| Seldar vörur og þjónusta | 4.884 | 4.257 | 14,7% | 14.145 | 12.865 | 10.0% |
| Vörunotkun og kostnaðarverð seldrar þjónustu | (3.583) | (3.116) | 15,0% | (10.338) | (9.503) | 8,8% |
| Framlegð | 1.301 | 1.142 | 13,9% | 3.807 | 3.354 | 13,3% |
| Framlegð/tekjur (%) | 26,6% | 28% | 26,9% | 26,1% | ||
| Rekstrarkostnaður | (1.096) | (938) | 16,8% | (3.380) | (2.884) | 17,2% |
| Rekstrarhagnaður | 205 | 204 | 427 | 469 | ||
| Rekstrarhagnaður/tekjur (%) | 4,2% | 4,8% | 3,0% | 3,7% | ||
| Hrein fjármagnsgjöld | (50) | (36) | (133) | (69) | ||
| Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélags | 160 | 60 | 588 | 210 | ||
| Tekjuskattur | (40) | (36) | (71) | (83) | ||
| Hagnaður tímabilsins | 275 | 192 | 810 | 527 | ||
| Rekstrarliðir færðir beint á eigið fé | 429 | 172 | 455 | 85 | ||
| Heildarhagnaður tímabilsins | 704 | 365 | 1.265 | 612 | ||
| EBITDA | 476 | 441 | 1.184 | 1.098 | ||
| EBITDA% | 9,8% | 10,4% | 8,4% | 8,5% |
| Í milljónum ISK | 30.09.2022 | 31.12.2021 |
|---|---|---|
| Fastafjármunir | 10.819 | 9.742 |
| Veltufjármunir | 4.946 | 5.402 |
| Eignir samtals | 15.765 | 15.144 |
| Eigið fé | 9.647 | 8.619 |
| Langtímaskuldir | 2.843 | 2.733 |
| Skammtímaskuldir | 3.275 | 3.793 |
| Eigið fé og skuldir samtals | 15.765 | 15.144 |
| Veltufjárhlutfall | 1,51 | 1,42 |
| Eiginfjárhlutfall | 61,2% | 56,9% |
Markaðsvirði fyrirtækisins í lok þriðja ársfjórðungs 2022 var 27.840 mkr., lokaverð hlutabréfa í ársfjórðungnum var kr. 64 á hlut. Fjöldi útgefinna hluta þann 30. september 2022 voru 435 milljónir og voru hluthafar 1.011 talsins. Origo hf. á eigin bréf að nafnvirði 4.066.935.
Origo býður fjárfestum og markaðsaðilum til fundar með Syndis, föstudaginn 4. nóvember kl. 8:30. Á fundinum munu stjórnendur kynna fyrirtækið og þá vegferð sem það er á.
Fundurinn verður haldinn í húsnæði Origo og Syndis, Borgartúni 37, 105 Reykjavík.
Skráning á fundinn fer fram hér: https://www.origo.is/fjarfestakynning
| 2. febrúar 2023 | Ársuppgjör 2022 |
|---|---|
| 9. mars 2023 | Aðalfundur Origo |
Árshlutareikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Origo hf. þann 28. október 2022. Uppgjör Origo hf. er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS-International Financial Reporting Standards).
Origo er framsækið þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni. Hjá Origo starfar öflugur hópur fólks sem nýtir hugvit sitt til að efla árangur, hagsæld og öryggi viðskiptavina. Hlutabréf Origo hf. eru skráð í NASDAQ OMX Iceland hf. (Kauphöll Íslands) undir auðkenninu ORIGO.
Gunnar Petersen, framkvæmdastjóri fjármálasviðs í síma 825-9001 eða og Jón Björnsson, forstjóri í síma 693-5000 eða [email protected].
Til athugunar fyrir fjárfesta
Origo vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna af birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari fréttatilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar fréttatilkynningin er birt og takmarkast gildi þeirra við það sem segir í fyrirvara þessum.
Building tools?
Free accounts include 100 API calls/year for testing.
Have a question? We'll get back to you promptly.