Earnings Release • Apr 29, 2020
Earnings Release
Open in ViewerOpens in native device viewer

Heildarhagnaður 425 mkr og EBITDA 237 mkr.
REYKJAVÍK – 29. apríl 2020 - Origo kynnti í dag uppgjör fyrsta ársfjórðungs 2020
"Vegna heimsfaraldurs Covid-19 var lagt í umfangsmiklar aðgerðir á fyrsta ársfjórðungi til að standa vörð um öryggi og heilsu starfsfólks, tryggja samfellu í rekstri Origo og þjónustu við viðskiptavini. Stærstur hluti starfsfólks Origo hefur undanfarnar vikur sinnt vinnu sinni að heiman og með góðum undirbúningi, dugnaði og nýtingu upplýsingatæknilausna hefur tekist að halda úti hefðbundinni starfsemi án frávika í rekstri. Það er ánægjulegt að sjá hvað þessi vinna hefur gengið vel og sérstaklega að vita til þess að með stuðningi tæknilausna frá Origo hefur fjöldi fyrirtækja náð að gera slíkt hið sama, laga starfsemi að gerbreyttum aðstæðum og viðhalda þjónustu við sína viðskiptavini. Það er fátt sem veitir okkur meiri ánægju.
Þrátt fyrir töluverða röskun á daglegri starfsemi vegna Covid-19 gekk rekstur Origo á fjórðungnum vel. Tekjur Origo numu 4.277 mkr og jukust um 20% miðað við sama tímabil í fyrra. EBITDA var 237 mkr en þar höfum við tekið tillit til niðurfærslu viðskiptakrafna vegna mikillar efnahagslegrar óvissu sem stafar af veirufaraldrinum. Heildarhagnaður var 425 mkr og tvöfaldast á milli ára, en þessi ágæta niðurstaða er að stórum hluta til komin vegna gengishreyfinga sem hafa jákvæð áhrif á þýðingarmun vegna starfsemi dóttur- og hlutdeildarfélaga, einkum Tempo. Fjárhagsstaða Origo er því áfram mjög sterk og félagið vel í stakk búið til að kljást við rekstraróvissu og mögulega ágjöf á næstu mánuðum og misserum.

TIL BIRTINGAR MIÐVIKUDAGINN 29. APRÍL 2020 origo.is/um-origo/fjarfestar/
Almennt má segja að rekstur Origo hafi þróast með jákvæðum hætti á fjórðungnum. Kröftugan tekjuvöxt má að stórum hluta rekja til aukinnar eftirspurnar eftir notendabúnaði til fjarvinnu, tölvum og fjarfundarlausnum og alger viðsnúningur hefur orðið í afkomu á þessu sviði. Að sama skapi hefur afkoma af hýsingar- og rekstrarþjónustu batnað umtalsvert frá fyrra ári og fjárfesting í þekkingu á sviði skýja- og öryggislausna og sjálfvirknivæðingar ferla hefur skilað nýjum tekjum. Þessi ágæta rekstrarniðurstaða á sviðum Notenda- og Þjónustulausna er afrakstur mikillar vinnu við hagræðingu og einföldun á rekstri beggja eininga á síðasta ári og í byrjun þessa.
Hugbúnaði og tengdri þjónustu heldur áfram að vaxa fiskur um hrygg, þó með þeirri undantekningu að vegna áhrifa Covid-19 á ferðaþjónustu hefur eðlilega orðið nokkuð bakslag í sölu og þróun á ferðatengdum lausnum. Það vegur hins vegar á móti að eftirspurn eftir hugbúnaðarlausnum fyrir heilbrigðisþjónustu hefur líklega aldrei verið meiri og mjög ánægjulegt að á síðustu vikum hefur Origo leikið beint hlutverk í baráttunni við veiruna með þróun á nýrri virkni fyrir Heilsuvera.is, eins og myndsamtöl, birtingu niðurstaðna úr veiruskimun eða stýringu á lyfjaávísunum. Svipaða sögu er að segja af sölu og ráðgjöf á viðskiptahugbúnaði, tekjur halda áfram að aukast, æ stærra hlutfall í mánaðarlegri áskrift og afkoma var góð.
Það er öllum ljóst að mikil óvissa ríkir um þróun efnahagslífs á Íslandi og um leið um horfur í rekstri flestra fyrirtækja. Origo er þar engin undantekning og fyrir liggur að áhrif veirufaraldursins á okkar rekstur verða töluverð, neikvæð á sumum sviðum en jákvæð á öðrum. Sterk staða félagsins, sérstaklega fjárhagsleg, gerir okkur kleift að fást við óvissuástand og ágjöf sem er á næsta leiti. Við horfum hinsvegar til þess að upplýsingatækni er ein af þeim undirstöðum sem heldur íslensku samfélagi eins vel virkandi og raun ber vitni og að vegna faraldursins mun vægi upplýsingatækni og stafrænna lausna aukast frekar en hitt. Þar er Origo í lykilstöðu til að nýta tækifærin og horfum við því hóflega bjartsýn til framtíðar."

| Rekstrarreikningur - Lykiltölur | ||
|---|---|---|
| l milljónum ISK | F1 2020 | 1 2019 |
| Seldar vörur og þjónusta | 4.277 | 3.553 |
| Vörunotkun og kostnaðarverð seldrar þjónustu |
(3.227) | (2.631) |
| Framlegð | 1.050 | 922 |
| Rekstrarkostnaður | (983) | (825) |
| Rekstrarhagnaður | 68 | 96 |
| Hrein fjármagnsgjöld | (126) | (43) |
| Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélags | 11 | 21 |
| (Tap) hagnaður fyrir tekjuskatt | (48) | 75 |
| Tekjuskattur | 12 | (11) |
| (Tap) hagnaður tímabilsins | (35) | 64 |
| Þýðingarmunur vegna starfsemi dóttur- og hlutdeildarfélaga |
460 | 149 |
| Heildarhagnaður tímabilsins | 425 | 213 |
| EBITDA | 237 | 237 |

TIL BIRTINGAR MIÐVIKUDAGINN 29. APRÍL 2020 origo.is/um-origo/fjarfestar/
| Efnahagsreikningur | ||
|---|---|---|
| l milljónum ISK | 31.03.2020 | 31.12.2019 |
| Fastafjármunir | 8.135 | 7.738 |
| Veltufjarmunir | 4.141 | 4.147 |
| Eignir samtals | 12.277 | 11.885 |
| Eigið fé | 7.209 | 6.817 |
| Langtimaskuldir | 1.923 | 1.972 |
| Skammtímaskuldir | 3.145 | 3.095 |
| Eigið fé og skuldir samtals | 12.277 | 11.885 |
| Veltufjárhlutfall | 1,32 | 1,34 |
| Eiginfjárhlutfall | 58,7% | 57,1% |

| Sjóðstreymi - Lykiltölur | ||
|---|---|---|
| l milljónum ISK | 1.1 .- 31.03. 2020 |
1.1 .- 31.03. 2019 |
| Handbært fé frá rekstri | 295 | (777) |
| Fjárfestingarhreyfingar | (88) | (19) |
| Fjármögnunarhreyfingar | (135) | (1.193) |
| Hækkun (lækkun) á handbæru fé | 72 | (1.989) |
| Ahrif gengisbreytinga á handbært fé | 2 | 0 |
| Handbært fé í ársbyrjun | 826 | 3.175 |
| Handbært fé í lok tímabilsins | 900 | 1.187 |

Origo starfar eftir vottuðu stjórnkerfi UT öryggis ISO 27001 og vel skilgreindri viðlagaáætlun vegna sjúkdóma. Viðlagaáætlun var virkjuð í janúar, færð á hættustig 28. febrúar og neyðarstig 8. mars. Sérstakt viðbragðsteymi hefur síðan fundað nánast daglega og stýrt og samræmt allar aðgerðir til að treysta öryggi og heilsu starfsfólks, draga úr líkum á hópsmiti og tryggja samfellu í rekstri og þjónustu Origo. Félagið er eitt þeirra sem styðja við kerfislega mikilvæga innviði samfélagsins, m.a. á sviði heilbrigðisþjónustu, í verslun, samgöngum og fjármálaþjónustu og því mikið undir að þjónustu sé viðhaldið án óeðlilegra hnökra.
Strax í febrúar var gripið til öryggisráðstafana á öllum sviðum Origo. Starfstöðvum var skipt upp í smærri hópa og enginn samgangur á milli hópa og vinnustöðva. Tæplega 90% af öllu starfsfólki hefur síðustu vikur unnið að heiman en sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja öryggi starfsfólks sem nauðsynlega þarf að mæta á vinnustaðinn. Öll ferðalög vegna ráðstefna og funda voru felld niður og stafrænar leiðir nýttar til fundarhalda innan félagsins og með viðskiptavinum. Gagngerar breytingar voru gerðar á öllu kynningarstarfi á vegum Origo með nýtingu á nýju og vel búnu Stúdío Origo. Þaðan hafa vörukynningar og starfsmannafundir verið haldnir undanfarnar vikur við mjög góðar undirtektir, sérstaklega frá viðskiptavinum.
Vandaður undirbúningur, skipulag og mikil vinna og árvekni starfsfólks hefur skilað tilætluðum árangri. Þjónustugeta Origo hefur haldist nánast óskert og engin frávik hafa orðið í rekstri sem rekja má til faraldursins. Það er svo sérlega uppörvandi að viðskiptavinir Origo og samstarfsaðilar hafa lýst yfir mikilli ánægju með þjónustu og fagleg forvarnarvinnubrögð á þeim tíma sem fólk og fyrirtæki voru að laga að sig að breyttum veruleika vegna farsóttarinnar.
Þrátt fyrir að Covid-19 faraldurinn hafi haft veruleg áhrif á dagleg verkefni starfsfólks Origo, þá voru áhrif á rekstur og afkomu Origo á fyrsta ársfjórðungi ekki afgerandi. Eins og fram kemur hér neðar, þá má rekja nokkra aukningu í sölu á notendabúnaði til Covid-19, einkum tölvum og fjarfundalausnum, auk þess sem aukið álag varð tímabundið á vettvangsþjónustu og þjónustuborð. Því til viðbótar þá er í reikningum félagsins gert ráð fyrir nokkuð auknum afskriftum á viðskiptakröfum vegna fyrsta ársfjórðungs.
Óvissa um þróun Covid-19 faraldursins, högun samkomubanns á Íslandi og áhrif á ferðaþjónustu gerir erfitt um vik að sjá fyrir áhrif á rekstur Origo til næstu mánaða og lengri framtíðar. Fyrir liggur að neikvæð áhrif á ferðaþjónustu munu að einhverju leyti smitast yfir á Origo, en félagið þjónar nokkrum viðskiptavinum á því sviði, Icelandair þeirra stærstur. Hins vegar byggir mestur hluti tekna Origo á þjónustu við stöndug fyrirtæki og stofnanir í atvinnugreinum sem ekki verða fyrir beinum neikvæðum áhrifum af veirufaraldrinum svipað og ferðaþjónustan. Þar má m.a. nefna fjármála- og tryggingarstarfsemi, verslun, upplýsingatækni, fjarskipti og opinbera stjórnsýsla, allt atvinnugreinar sem á undanförnum árum hafa reitt sig æ meira á stafræna tækni til að sinna þjónustu við sína viðskiptavini.
Ólíklegt er að þarna verði breyting á, nema ef vera skyldi til þess að vægi upplýsingatækni verði enn aukið. Veirufaraldurinn hefur orðið til þess að nánast allir hafa þurft að tileinka sér ný vinnubrögð og á augabragði hefur bæst í hóp þeirra sem nýta stafrænar lausnir í hvers kyns verkefni og tækifærin sem felast í breyttum vinnubrögðum blasa við. Með öðrum orðum, þá hefur faraldurinn orðið til þess að fleyta á nokkrum dögum áfram þróun sem annars hefði tekið ára og áratugi, sem aftur mun kalla á mikla nýsköpun og verulega fjárfestingu atvinnulífs í stafrænni tækni, t.d. í netverslun og afhendingarlausnum, fjarvinnu- og samstarfslausnum, sjálfvirkni viðskiptaferla, gervigreind og róbótavæðingu, allt til að auka skilvirkni og

fækka þeim verkefnum sem mannshöndin þarf að koma að. Öll þessi þróun byggir á upplýsingatækni og í henni felast tækifæri fyrir öll fyrirtæki sem sérhæfa sig á því sviði.
Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að því að styrkja Origo á sviði hugbúnaðarþróunar og tengdrar þjónustu, viðskiptakerfum, afgreiðslulausnum og sjálfvirknivæðingu. Félagið er því í ákjósanlegri stöðu til að styðja viðskiptavini sem setja aukinn kraft í stafræna þróun til að sníða vinnulag og verkefni að nýjum veruleika í kjölfar veirufaraldursins.
Jákvæður viðsnúningur varð í sölu á notendabúnaði og tengdri þjónustu á fyrsta ársfjórðungi og námu tekjur 1.689 mkr (38% veltuaukning frá F1 2019) og EBITDA 73 mkr. Fjöldi fyrirtækja og stofnana hefur gripið til aðgerða til að verja starfsemi fyrir áhrifum Covid-19 faraldursins, m.a. með því að flytja starfsstöðvar í heimahús, auka sjálfvirkni og sjálfsafgreiðslumöguleika viðskiptavina.
Fremstu vörumerki heims, mjög reynslumiklir sérfræðingar og mjög öflug þjónusta ásamt frammúrskarandi netverslun gerir það að verkum að Origo er í einstakri stöðu þegar kemur að sölu og þjónustu í notendabúnaði. Það kom vel í ljós hversu mikilvæg og sterk einingin er þegar álagið jókst umtalsvert í mars og lagði starfsfólk Origo á tímabili nótt við dag við að taka við pöntunum, afgreiða vörur og tryggja lagerstöðu og framboð á mikilvægustu vörunum.
Origo hefur fjárfest mikið í netverslun undanfarinna ára og hefur salan í gegnum netverslunina hefur tvöfaldast á hverju ári undanfarin ár. Gera má ráð fyrir áframhaldandi eftirspurn eftir fjarfundalausnum, fartölvun, skjám, hljóð- og myndlausnum ásamt öllum búnaði sem snýr að heimilum landsins. Origo er í mjög sterkri stöðu til að selja og þjónusta slíkar lausnir.
Þó svo að Covid-19 faraldurinn hafi ýtt undir sölu á notendabúnaði á undanförnum vikum er ekki ljóst hvernig áhrifin verða til skemmri og millilangs tíma. Almennt má þó gera ráð fyrir að áfram verði töluvert byggt á fjarvinnu í íslensku atvinnulífi og því sennilegt að eftirspurn eftir notendabúnaði og tengdri þjónustu verði áfram ágæt.
Tekjur tengdar rekstrarþjónustu og innviðum námu 1.374 mkr á fyrsta ársfjórðungi 2020 og jukust um 17% frá sama tímabili í fyrra. Ánægjulegur viðsnúningur var í afkomu, en EBITDA nam um 5% af veltu, sem er umtalsvert betra en í fyrra. Þessi jákvæða breyting á afkomu er merki þess að vel hafi gengið að ná tökum á rekstrarkostnaði, hagræða og einfalda í rekstri á þessu sviði. Á sama tíma hefur verið lögð áherslu á efla þekkingu og innviði í skýja- og öryggislausnum, sjálfvæðingu í upplýsingatæknirekstri og viðskiptaferlum.
Sala á innviðalausnum var góð í fjórðungnum, m.a. varafls- og kælilausnir frá Schneider og netþjóna og tengdan búnað frá Lenovo og gagnageymslum frá IBM. Sala á þjónustusamningum og sértækum skýja- og öryggislausnum hefur farið vel af stað í upphafi árs. Viðskiptavinir vilja í auknum mæli útvista rekstri og hýsingu upplýsingatæknikerfa að hluta eða að öllu leyti, koma kerfum í öruggara skjól fyrir netárásum annars vegar og dreifa hins vegar áhættu er kemur að staðsetningum innviða og gagna.
Sem liður í að bæta stöðugt þjónustu við viðskiptavini og auka öryggi, þá bíður Origo viðskiptavinum nú upp á þjónustu í þremur fullkomnum gagnaverum sem staðsett eru á þremur stöðum á landinu, þ.e. á Reykjanesi, á Korpurtorgi og á Blönduósi. Markmiðið er að gera viðskiptavinum Origo kleift að tryggja

TIL BIRTINGAR MIÐVIKUDAGINN 29. APRÍL 2020 origo.is/um-origo/fjarfestar/
landfræðilegan aðskilnað kerfa og gagna og tryggja hámarks uppitíma til þeirra sem vilja fjárfesta í auknu rekstraröryggi.
Covid-19 faraldurinn mun hafa margvísleg áhrif á rekstur og starfsemi Þjónustusviðs Origo. Til næstu mánaðar er svo ljóst að veiran hefur í för með sér töluverða óvissu um rekstur nokkurra lykilviðskiptavina Origo. Origo hefur litið svo á að eitt mikilvægasta áherslumál til skemmri tíma er að styðja góða viðskiptavini í gegnum erfið tímabil, með sveigjanleika í þjónustu og nýjum lausnum. Til skemmri tíma má gera ráð fyrir einhverjum samdrætti í umsvifum í rekstrarþjónustu, en að því marki sem tekjur dragast saman mun verða dregið úr rekstrarkostnaði til samræmis, með almennri hagræðingu og nýtingu tímabundinna úrræða stjórnvalda vegna veirufaraldursins. Að sama skapi er líklegt að aukinn eftirspurn verði eftir lausnum sem tengjast sjálfvirkni og fjarvinnu, en Þjónustusvið Origo hefur á undanförnum árum fjárfest í þekkingu á því sviði.
Rekstur hugbúnaðareininga Origo gekk um margt vel á fjórðungnum, sem markaðist m.a. af áframhaldandi mikilli áherslu á þróun eigin lausna. Velta jókst um 6% á milli tímabila, nam 1.213 mkr, en afkoma dróst töluvert saman og stóð EBITDA hlutfall í tæpum 8%. Megin skýringar á lakari afkomu liggja í töluverðri aukningu í gjaldfærðri vöruþróun, undirbúningi fyrir ný þróunarverkefni á borð við Stafrænt Ísland, tímabundnum samdrætti í útseldri forritunarvinnu og afskriftum krafna vegna áfalla í ferðaþjónustu.
Tekjur af sölu viðskiptahugbúnaði tengdri ráðgjöf jukust töluvert á fyrsta ársfjórðungi. Vöxturinn dreifist jafnt yfir sviðið, vegna margra ólíkra verkefna og frá breikkandi hópi viðskiptavina. Uppbyggingu og þróun á Kjarna mannauðs og launakerfi var haldið áfram og vöxtur áskriftartekna var góður, enda telst lausnin líklega sú fremsta á þessu sviði á Íslandi. Áhugaverð verkefni í SAP S/4HANA eru í vinnslu og undirbúningi og sala á lausnum fyrir fjármálastarfsemi gekk vel. Þar, eins og víðar, er mikill áhugi á nýsköpun og sjálfvirknivæðingu sem Origo getur stutt við, m.a. má þar nefna umfangsmikil verkefni í Svíþjóð, innleiðingu hraðbanka hjá Arion banka og netbanka hjá Sparisjóðunum.
Origo hefur á undanförnum misserum markvisst byggt upp þekkingu og framboð á lausnum fyrir snertilaus, sjálfvirk og rafræn viðskipti. Viðskiptavinir hafa verið áhugasamir um að taka slíkar lausnir í notkun til að ná fram auknu hagræði, en gera má ráð fyrir að áhuginn aukist til muna vegna áhrifa Covid-19 faraldursins.
Ferðalausnasvið Origo hefur á síðastliðnum árum þróað og selt sérsniðnar lausnir fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, m.a. hótel og gististaði, bílaleigur og afþreyingarfyrirtæki. Á síðasta ári var m.a. gengið frá kaupum á breska hótelstjórnunarkerfinu The Booking Factory (TBF) og Paxflow (Bus Travel IT) og voru þær, ásamt öðrum lausnum á þessu sviði, þróaðar áfram á fyrsta fjórðungi ársins. Í ljósi áhrifa Covid-19 faraldurs á ferðaþjónustu á heimsvísu er gert ráð fyrir að áætlanir um tekjuvöxt vegna sölu á ferðalausnum gangi ekki eftir á árinu og mögulegt að einhverjir viðskiptavina Origo á þessu sviði dragi saman segl eða jafnvel hætti starfsemi alfarið. Á meðan óvissa er um hvenær ferðaþjónusta kemst aftur á kjölinn þá verður dregið verulega úr þróun slíkra lausna hjá Origo og launakostnaður lækkaður samhliða. Til lengri tíma er hins vegar gert ráð fyrir að lausnir Origo fyrir ferðaþjónustu eigi erindi á bæði íslenskan og ekki síður erlendan markað, enda hannaðar til að vera einfaldar og hagkvæmar í notkun. Tekjur ferðalausnasviðs telja eingöngu lítið hlutfall hugbúnaðartekna Origo.
Fyrsta útgáfa af Servado kom út í byrjun árs, en Servado er ný lausn sem Origo hefur þróað og notað innanhúss í nokkurn tíma. Hún vinnur á móti Jira umhverfinu frá Atlassian með svipuðum hætti og Tempo.

TIL BIRTINGAR MIÐVIKUDAGINN 29. APRÍL 2020 origo.is/um-origo/fjarfestar/
Servado er gátt sem tengir saman Jira umhverfi fyrirtækja, einfaldar þjónustuferla og flæði beiðna og auðveldar notendum að auka sjálfvirkni í öllu innra starfi sem lítur að þjónustustýringu. Servado fór inn á Marketplace Atlassian í byrjun mars og er nú í prófunum hjá nokkrum aðilum.
Heilbrigðislausnasvið Origo hefur staðið í ströngu það sem af er ári, eins og almennt má segja um heilbrigðisgeirann á tímum veirufaraldurs. Mjög mikil eftirspurn var eftir vörum og þjónustu Heilbrigðislausna á fjórðungnum, m.a. til að styðja enn betur við stafræn samskipti og fjarþjónustu sem þjónað hefur lykilhlutverki í baráttu heilbrigðisyfirvalda við Covid-19 faraldurinn. Þróun á Heilsuvera.is hefur verið hraðað, m.a. innleiðingu myndsamtala heilbrigðisstarfsmanna við skjólstæðinga, útgáfu vottorða vegna sóttkvíar, stýringu á ávísunum og innlausn á lyfjum, birtingu niðurstaðna úr skimunum, auk margvíslegrar aðstoðar við heilbrigðisþjónstuna til að takast á við aukið álag á starfsfólk og tölvukerfi.
Applicon í Svíþjóð, dótturfélags Origo, sérhæfir sig í sölu og ráðgjöf á viðskiptalausnum fyrir fjármálafyrirtæki. Tekjur félagsins jukust um 9% í fjórðunginum og afkoma styrktist einnig m.v. fyrra ár. Verkefnastaða Applicon er góð næstu mánuði, en mögulega má búast við að eitthvað hægi á með nk. hausti ef til þess kemur að fyrirtæki haldi að sér höndum í fjárfestingu á nýjum verkefnum vegna óvissu sem Covid-19 faraldurinn skapar fyrir sænskt efnahagslíf.
Rekstur og uppbygging Tempo gekk vel á fyrsta fjórðungi ársins. Tekjur jukust um 27% á milli tímabila og námu 7,5 mUSD á fjórðungnum. EBITDA afkoma var töluvert yfir áætlunum og hagnaður var af starfseminni, þar sem hlutur Origo er um 11 mkr.
Lokið var við flutning höfuðstöðva Tempo til Bandaríkjanna í mars. Megin starfsstöðvar félagsins verða engu að síður áfram í Reykjavík og Montreal og eru ekki fyrirhugaðar neinar breytingar þar á.
Í byrjun árs var gengið frá kaupum á fyrirtækinu Prime Timesheets sem er næst stærsti framleiðandi tímaskráningarlausna á Atlassian Marketplace. Fleiri kauptækifæri til að styrkja starfsemi Tempo eru í skoðun.
Tempo greip til svipaðra aðgerða og Origo til að verja öryggi starfsfólks og treysta rekstur fyrir áhrifum Covid-19 faraldursins. Þar fyrir utan voru áhrif veirunnar á rekstrarniðurstöðu Tempo á fjórðungnum óveruleg. Til lengri tíma geta áhrif Covid-19 á rekstur Tempo verið af ýmsum toga, bæði neikvæð og jákvæð. Hins vegar virðist ljóst að faraldurinn hefur ýtt undir eftirspurn eftir lausnum sem styðja við stýringu starfsfólks í fjarvinnu. Því má gera ráð fyrir að áhrif faraldursins á rekstur Tempo verði frekar jákvæð en neikvæð, enda lausnir fyrir tímaskráningu og áætlunargerð mikilvægar í verkfærakassa stjórnenda sem aldrei fyrr.
Töluverð óvissa er um þróun íslensks efnahagslífs á næstu mánuðum og það sama gildir að einhverju leyti um rekstur Origo. Upplýsingatækni er hins vegar ein af þeim undirstöðum sem heldur íslensku samfélagi eins vel virkandi og raun ber vitni og það er líklegt að vegna Covid-19 eigi vægi upplýsingatækni eftir að aukast frekar en hitt. Við gerum því ráð fyrir að horfur í rekstri Origo séu almennt ágætar, sérstaklega til lengri tíma.

Markaðsvirði fyrirtækisins í lok fyrsta ársfjórðungs 2020 var 10.686 mkr., lokaverð hlutabréfa í ársfjórðungnum var kr. 23,25 á hlut. Fjöldi útgefinna hluta þann 31. mars 2020 voru 459,6 milljónir og voru hluthafar 519 talsins.
Origo hf. heldur rafrænan kynningarfund fyrir hluthafa og fjárfesta vegna uppgjörs 1. ársfjórðungs félagsins fimmtudaginn 30. apríl næstkomandi. Á fundinum munu Finnur Oddsson forstjóri og Gunnar Petersen framkvæmdastjóri fjármálasviðs kynna rekstur og afkomu félagsins og svara fyrirspurnum. Kynningin hefst kl. 08:30 og fer fram í gegnum fjarfundabúnað, en einnig verður hægt að fylgjast með netstreymi af fundinum. Skráning fer fram hér: origo.is/fjarfestakynning. Kynningarefni af fundinum verður hægt að nálgast á heimasíðu félagsins, origo.is, að honum loknum.
| 19.08.2020 | Annar ársfjórðungur 2020 uppgjör |
|---|---|
| 21.10.2020 | Þriðji ársfjórðungur 2020 uppgjör |
| 28.01.2021 | Fjórði ársfjórðungur og ársuppgjör 2020 |
| 04.03.2021 | Aðalfundur vegna 2020 |
Árshlutareikningur var samþykktur á stjórnarfundi Origo hf. þann 29. apríl 2020. Uppgjör Origo hf. er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS-International Financial Reporting Standards).
Origo er framsækið þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni. Hjá Origo starfar öflugur hópur fólks sem nýtir hugvit sitt til að efla árangur, hagsæld og öryggi viðskiptavina. Hlutabréf Origo hf. eru skráð í NASDAQ OMX Iceland hf. (Kauphöll Íslands) undir auðkenninu ORIGO.
Í stjórn Origo eru Guðmundur Jóhann Jónsson, Hildur Dungal, Hjalti Þórarinsson (formaður stjórnar), Ívar Kristjánsson og Svafa Grönfeldt. Finnur Oddsson er forstjóri Origo.
Finnur Oddsson forstjóri í síma 862-0310 eða [email protected] og Gunnar Petersen framkvæmdastjóri fjármálasviðs í síma 825-9001 eða [email protected].
Til athugunar fyrir fjárfesta
Origo vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins, en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna af birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari fréttatilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar fréttatilkynningin er birt og takmarkast gildi þeirra við það sem segir í fyrirvara þessum.
Building tools?
Free accounts include 100 API calls/year for testing.
Have a question? We'll get back to you promptly.