AI Terminal

MODULE: AI_ANALYST
Interactive Q&A, Risk Assessment, Summarization
MODULE: DATA_EXTRACT
Excel Export, XBRL Parsing, Table Digitization
MODULE: PEER_COMP
Sector Benchmarking, Sentiment Analysis
SYSTEM ACCESS LOCKED
Authenticate / Register Log In

Kvika banki

Pre-Annual General Meeting Information Mar 5, 2025

2199_cgr_2025-03-05_a770ce14-ad45-4751-8c5b-fb2046418b40.pdf

Pre-Annual General Meeting Information

Open in Viewer

Opens in native device viewer

Skýrsla og tillögur tilnefningarnefndar Kviku banka hf. fyrir aðalfund Kviku banka hf. haldinn þann 26. mars 2025

Meðfylgjandi er skýrsla tilnefningarnefndar Kviku banka hf. ("tilnefningarnefnd" eða "nefndin") og tillögur nefndarinnar vegna dagskrárliðar nr. 6 á aðalfundi félagsins árið 2025.

Samantekt á tillögum tilnefningarnefndar Kviku banka hf.

Tilnefningarnefnd Kviku banka hf. gerir tillögu um að eftirtaldir einstaklingar verði kjörnir í aðalstjórn Kviku banka hf. á aðalfundi félagsins þann 26. mars 2025 (í stafrófsröð):

  • Guðjón Reynisson
  • Helga Kristín Biering Auðunsdóttir
  • Ingunn Svala Leifsdóttir
  • Páll Harðarson
  • Sigurður Hannesson

Þá gerir nefndin eftirfarandi tillögu vegna kjörs varamanns í stjórn félagsins:

• Kolbrún Jónsdóttir

Tvö framboð bárust tilnefningarnefnd til varastjórnar innan framboðsfrests en annað þeirra var dregið til baka. Var nefndinni því aðeins unnt að tilnefna einn varamann, en þeir skulu samkvæmt samþykktum félagsins og lögum vera tveir.

Efnisyfirlit

    1. Hlutverk og skipan tilnefningarnefndar
    1. Störf tilnefningarnefndar
    1. Tillaga til breytinga á starfsreglum tilnefningarnefndar
    1. Mat nefndarinnar
    1. Tillögur tilnefningarnefndar um stjórnarmenn Kviku banka hf.

1. Hlutverk og skipan tilnefningarnefndar

Á vettvangi Kviku banka hf. starfar tilnefningarnefnd, sem hefur það hlutverk að undirbúa og gera tillögur um frambjóðendur við kjör stjórnar félagsins á aðalfundi þess ár hvert og á þeim hluthafafundum þar sem stjórnarkjör er á dagskrá. Tillögur nefndarinnar skulu miða að því að stjórnin sé á hverjum tíma þannig samsett að hún búi yfir fjölbreyttri þekkingu og reynslu sem nýtist félaginu við stefnumótun og eftirlit í því umhverfi sem félagið starfar á hverjum tíma.

Tilnefningarnefnd, sem komið var á fót á aðalfundi félagsins 21. mars 2024, starfar í samræmi við samþykktir félagsins og starfsreglur nefndarinnar sem hluthafafundur samþykkir, ásamt því að hliðsjón er höfð af ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá skal nefndin einnig hafa hliðsjón af leiðbeiningum Viðskiptaráðs Íslands, Nasdaq Iceland og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja ("leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja").

Tilnefningarnefnd hefur ráðgefandi hlutverk við val á stjórnarmönnum hjá Kviku banka hf. og leggur tillögur sínar fyrir hluthafafund þar sem stjórnarkjör er á dagskrá. Í störfum sínum skal nefndin hafa heildarhagsmuni allra hluthafa félagsins að leiðarljósi. Í starfsreglum, sem finna má á heimasíðu bankans, er nánar kveðið á um hlutverk og ábyrgðarsvið nefndarinnar.

Í tilnefningarnefnd Kviku banka hf. starfsárið 2024-2025 sitja Helga Melkorka Óttarsdóttir og Jóhann Ásgeir Baldurs, og var skipun þeirra staðfest á aðalfundi, og Jakobína H. Árnadóttir sem var tilnefnd af stjórn. Formaður nefndarinnar er Jakobína H. Árnadóttir. Tengiliður stjórnar við nefndina á starfsárinu var Sigurður Hannesson, stjórnarformaður.

Nefndarmenn eru allir óháðir félaginu, daglegum stjórnendum þess og stórum hluthöfum þess.

2. Störf tilnefningarnefndar

Í störfum tilnefningarnefndar í aðdraganda aðalfundar hefur nefndin fundað fjölmörgu sinnum með stjórnendum, hluthöfum, frambjóðendum og stjórnarmönnum.

Þetta starfsár er fyrsta starfsár tilnefningarnefndar hjá Kviku banka hf. Nefndin hittist í fyrsta skipti í byrjun september 2024 með tengilið stjórnar til að fara yfir starfsreglurnar og vinnuna fram undan. Í kjölfarið setti nefndin sér starfsáætlun og lét setja upp netfangið [email protected]. Í nóvember og desember fór fram yfirferð á tiltækum gögnum, kynning á starfsemi bankans auk þess sem nefndin hitti sitjandi stjórnamenn hvern fyrir sig. Jafnframt var fundað með forstjóra og yfirlögfræðingi Kviku banka hf.

Nefndin fékk aðgang að árangursmati og sjálfsmati stjórnar og er það ásamt hæfni, þekkingu, reynslu og viðtölum við stjórnarmenn lagt til grundvallar við mat nefndarinnar á störfum og samsetningu stjórnar.

Þann 9 janúar sl. var birt tilkynning þar sem óskað var eftir framboðum eða tilnefningum til stjórnar Kviku banka hf. og var framboðsfrestur til 12. febrúar 2025 tilkynntur. Sett var upp undirsíða tilnefningarnefndar á vef Kviku banka hf. þar sem helstu upplýsingar um nefndina, frestinn til að skila framboðum eða ósk um tilnefningu og framboðsgögn koma fram.

Í byrjun janúar sl. var sent út boð til hluthafa um að hitta tilnefningarnefndina. Sent var boð á um 15 stærstu hluthafa bankans sem eiga samtals meira en 50% eignarhlut í bankanum. Alls þáðu átta hluthafar fund með nefndinni.

Tilnefningarnefndin leggur í störfum sínum áherslu á að ná fram viðhorfum hluthafa til félagsins og stjórnar þess, auk upplýsinga um hvaða væntingar hluthafar hafa til framtíðar litið. Á fundum með hluthöfum var kallað eftir sýn hluthafa á stöðu og árangur félagsins, frammistöðu núverandi stjórnar og hvaða eiginleika, hæfni, reynslu og þekkingu stjórnarmenn Kviku banka hf. þyrftu að hafa að mati hluthafa.

Nefndin hefur notið aðstoðar Ernu Heiðrúnar Jónsdóttur, lögmanns og ritara stjórnar félagsins, við störf sín og færir henni bestu þakkir fyrir aðstoðina.

Alls bárust ellefu framboð til aðalstjórnar en fimm þeirra voru síðar dregin til baka. Tvö framboð bárust til varastjórnar en annað var dregið til baka. Framboðum sem bárust eftir boðaðan framboðsfrest var vísað til stjórnar.

Tilnefningarnefnd gætir trúnaðar um nöfn þeirra einstaklinga sem sendu inn framboð eða ósk um tilnefningu, önnur en nöfn þeirra sem nefndin leggur til að verði kjörin í stjórn félagsins og þeirra sem óska eftir að halda framboði sínu án þess að vera meðal þeirra sem nefndin tilnefnir til stjórnarsetu. Nefndin vill þakka þann áhuga sem umsækjendur sýndu félaginu og störfum nefndarinnar.

Þess ber að geta að einstaklingur sem nefndin gerir ekki tillögu um sem stjórnarmann Kviku banka hf. getur ávallt gefið kost á sér til stjórnarsetu með því að skila inn framboði til stjórnar innan hins almenna framboðsfrest sem gildir samkvæmt samþykktum félagsins.

Eftirfarandi framboð bárust til aðalstjórnar:

Áslaug Eva Björnsdóttir

Guðjón Reynisson

Helga Kristín Auðunsdóttir

Ingunn Svala Leifsdóttir

Páll Harðarson

Sigurður Hannesson

Tvö framboðbárust til varastjórnar en annað þeirra var dregið til baka. Mat nefndin því aðeins framboð frá Kolbrúnu Jónsdóttur til setu í varastjórn félagsins.

3. Tillaga til breytinga á starfsreglum tilnefningarnefndar

Tilnefningarnefnd ber árlega að fara yfir starfsreglur nefndarinnar og leggja fram tillögur að breytingum til stjórnar fyrir aðalfund ef nefndin telur ástæðu til. Gildandi starfsreglur voru samþykktar á aðalfundi félagsins þann 21. mars 2024 og má líkt og fyrr greinir finna á heimasíðu Kviku banka hf..

Tilnefningarnefnd tók því til skoðunar hvort ástæða væri til að gera breytingar á starfsreglum nefndarinnar. Upplýsingar höfðu borist nefndinni um að ábendingar höfðu komið frá hluthöfum um að gera tilteknar breytingar á starfsreglum nefndarinnar. Lúta þær einkum að því að allir þrír nefndarmenn verði kosnir af hluthöfum á aðalfundi, sem og að hluthafar hafi tækifæri til að koma á framfæri tilnefningum til stjórnar um nefndarmenn í tilnefningarnefnd. Ef tilnefningar eru fleiri en þrjár fer fram kosning nefndarmanna á aðalfundi. Þá er jafnframt lagt til að gera þá breytingu á starfsreglum að frambjóðendur til stjórnar geti veitt tilnefningarnefnd heimild til að upplýsa um nafn viðkomandi, sem og að nefndin skuli meta óhæði þeirra frambjóðenda sem tillaga nefndarinnar nær til.

Tilnefningarnefnd sendi framangreindar tillögur að breytingum á starfsreglum til stjórnar þann 21. febrúar sl. Stjórn hefur afgreitt starfsreglurnar með breytingum fyrir sitt leyti og eru þær meðal fundargagna sem lögð eru fram fyrir aðalfund samhliða aðalfundarboði.

4. Mat nefndarinnar

Samkvæmt starfsreglum tilnefningarnefndar skulu tillögur nefndarinnar stefna að því að stjórnin sé á hverjum tíma þannig samsett að hún búi að fjölbreyttri þekkingu og reynslu sem nýtist félaginu við stefnumótun og eftirlit í því umhverfi sem félagið starfar á hverjum tíma. Skal nefndin horfa til hæfni, reynslu og þekkingar, m.a. með tilliti til leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja og niðurstöðu árangursmats stjórnar, auk kynjajafnvægis. Þá skal þess gætt að tillagan samræmist ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki, hlutafélagalaga og samþykkta félagsins.

Eftir samtöl við hluthafa, stjórnarmenn og stjórnendur félagsins, yfirferð starfsreglna stjórnar og samþykktir Kviku banka hf., auk yfirferðar gagna og með tilliti til áskilnaðar laga, setti nefndin fram ramma um lykilhæfni og þekkingu fyrir stjórn félagsins.

Þessir lykilþættir eru:

  • Þekking og reynsla af fjármálum, bankastarfsemi og/eða viðskipum
  • Áhættustjórnun
  • Stefnumótun og leiðtogahæfni
  • Reynsla af stjórnarstörfum og störfum fyrir skráð félög
  • Siðferði, sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð
  • Samskiptahæfni og teymisvinna
  • Skilningur á tækninýjungum/fjártækni

Auk þess að horfa til þessara lykilþátta þarf tilnefningarnefnd að horfa til þess að stjórnin sé vel samsett og búi sameiginlega yfir fjölbreyttum bakgrunni, menntun og reynslu.

Við matið er jafnframt horft til árangursmats stjórnar og leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja. Að auki er horft til samtala við núverandi stjórnarmenn og lykilstjórnendur innan bankans. Eftir yfirferð er það niðurstaða tilnefningarnefndar að helgun sitjandi stjórnarmanna í Kviku banka hf. sé góð, þeir mæti vel undirbúnir til funda og allir taki virkan þátt í umræðum á fundum. Góð samvinna og traust virðist ríkja í hópnum og hefur stjórnin markvisst verið að vinna að því.

Breyting varð á stjórn á liðnu starfsári þar sem Guðmundur Þórðarson vék úr stjórninni og Sigurgeir Guðlaugsson, sem hafði setið sem varamaður, kom inn í aðalstjórn í lok ágúst 2024.

5. Tillögur tilnefningarnefndar um stjórnarmenn Kviku banka hf.

Það er mat tilnefningarnefndar eftir þá matsvinnu og skoðun sem farið hefur fram að núverandi stjórn Kviku banka hf. sé skipuð hæfum einstaklingum sem helga sig stjórnarstörfum og hafa mikinn metnað í starfi sínu. Stjórnin er samstíga í störfum sínum, traust ríkir milli aðila og samstarfið hefur gengið vel. Á starfsárinu varð eins og áður segir breyting á stjórninni þegar Guðmundur Þórðarson gekk úr stjórninni og í hans stað kom Sigurgeir Guðlaugsson, án þess að stjórnarkjör hafi farið fram en síðarnefndur sat áður í varastjórn félagsins. Er það mat tilnefningarnefndar að núverandi stjórn félagsins sé skipuð hæfum einstaklingum sem hafa unnið vel saman að undanförnu og vel hafi tekist til í rekstri félagsins á síðasta starfsári sem skilaði bæði bættri afkomu og ávöxtun fyrir hluthafa.

Tilnefningarnefnd félagsins hefur átt samtöl við stærstu hluthafa Kviku banka hf. og fram kom það sjónarmið hjá nokkrum hluthöfum að taka ætti til skoðunar að gera reglulega breytingar á stjórn félagsins. Með það í huga hefur nefndin metið alla frambjóðendur sem buðu fram krafta sína til tilnefningarnefndar í tengslum við komandi stjórnarkjör í félaginu og metið þá í samanburði við núverandi stjórnarmenn. Við slíkan samanburð var horft til þess að ef skipta ætti út sitjandi stjórnarmanni þyrfti nýr stjórnarmaður að hafa þekkingu, reynslu og hæfni sem bætti við þekkingu, reynslu og hæfni þeirra sem fyrir sitja í stjórn bankans og hafa gefið kost á sér auk þess sem horfa þurfi til samsetningar stjórnarinnar. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem starf sitjandi stjórnar hefur gengið vel og árangursmat og sjálfsmat komu vel út.

Einn af þeim sem sendu framboð til tilnefningarnefndar var Páll Harðarson en hann hefur ekki áður setið í stjórninni. Það er mat tilnefningarnefndar að Páll Harðarson hafi menntun, þekkingu og reynslu sem getur aukið breidd innan stjórnarinnar. Menntun og áralöng stjórnunarreynsla í alþjóðlegu stórfyrirtæki auk djúprar þekkingar á kauphallarviðskiptum og viðskiptum almennt gerir hann afar hæfan til setu í stjórn Kviku banka hf. að mati nefndarinnar. Páll hefur víðtæka reynslu af stjórnun og stefnumótun, stjórnarháttum og áhættustjórnun bæði sem stjórnandi og stjórnarmaður í alþjóðlegu umhverfi. Allt þetta metur nefndin sem mikilvæga viðbót við þekkingu, reynslu og hæfni núverandi stjórnarmanna. Því hlýtur hann tilnefningu nefndarinnar sem nýr stjórnarmaður í stjórn Kviku banka hf.

Með vísan til framangreinds leggur tilnefningarnefnd Kviku banka hf. til að eftirfarandi fimm einstaklingar verði kjörnir í stjórn bankans á aðalfundi Kviku banka hf. þann 26. mars 2025 (nefndir í stafrófsröð):

Guðjón Reynisson: Guðjón er stjórnarmaður í Kviku banka hf. og hefur gegnt því hlutverki síðan í mars 2018. Hann er fæddur árið 1963 og starfar sem sjálfstætt starfandi fjárfestir, ráðgjafi og stjórnarmaður. Guðjón lauk MBA gráðu frá Háskóla Íslands árið 2002, rekstrar- og viðskiptanámi frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands árið 1999, og útskrifaðist með íþróttakennararéttindi frá Íþróttakennaraskóla Íslands árið 1986. Á árunum 2008 til 2017 starfaði Guðjón sem forstjóri Hamleys of London. Hann gegndi stöðu framkvæmdastjóra 10-11 verslana frá 2003 til 2008 og framkvæmdastjóra sölusviðs Tals frá 1998 til 2003. Guðjón hefur setið í stjórn Festi hf. frá 2014, þar sem hann er nú stjórnarformaður, og Securitas hf. frá 2018. Hann ræður yfir 10.410.789 hlutum í Kviku banka hf. í gegnum einkahlutafélag sitt Hakk ehf., en hefur ekki hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila, samkeppnisaðila eða stóra hluthafa í skilningi leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja. Tilnefningarnefnd telur að Guðjón búi yfir nauðsynlegri þekkingu og reynslu til að sitja í stjórn Kviku banka hf.

Helga Kristín Biering Auðunsdóttir: Helga Kristín er stjórnarmaður í Kviku banka hf. og hefur gegnt því hlutverki síðan árið 2020. Hún er fædd árið 1980 og hefur víðtæka menntun og starfsreynslu á sviði lögfræði og viðskipta. Helga Kristín lauk doktorsgráðu í lögfræði frá Fordham háskóla í New York, BS gráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst árið 2004, ML gráðu í lögfræði árið 2006 frá sama skóla, og LL.M. gráðu í alþjóðlegum viðskiptarétti og samningagerð frá háskólanum í Miami. Helga Kristín starfaði sem stjórnandi og lektor við Háskólann á Bifröst í um tíu ár en starfar nú sem lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Þar áður starfaði hún sem lögfræðingur hjá FGM/Auðkenni, nú hluti af Seðlabanka Íslands, sem lögfræðingur hjá Stoðum hf. (áður FL Group), og sem kennari við lagadeild University of Miami. Hún sat einnig í aðalstjórn TM hf. frá árinu 2020 og í varastjórn Tryggingamiðstöðvarinnar hf. á árunum 2012-2015. Helga Kristín á ekki hluti í Kviku banka hf. og hefur ekki hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila, samkeppnisaðila eða stóra hluthafa í skilningi leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja. Tilnefningarnefnd telur að Helga Kristín búi yfir nauðsynlegri þekkingu og reynslu til að sitja í stjórn Kviku banka hf.

Ingunn Svala Leifsdóttir: Ingunn Svala er stjórnarmaður í Kviku banka hf. og hefur gegnt því hlutverki síðan í september 2021. Hún er fædd árið 1976 og hefur víðtæka menntun og starfsreynslu á sviði viðskipta og fjármála. Ingunn Svala lauk BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1999, með áherslu á reikningshald og fjármál, og Cand.Oecon prófi í viðskiptafræði frá sama skóla árið 2001, með áherslu á reikningshald og stjórnun. Hún lauk einnig Advanced Management Program (AMP) frá IESE Business School í New York árið 2018. Ingunn Svala starfar nú sem framkvæmdastjóri hjá Olís. Áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri rekstrar hjá Dohop og sem framkvæmdastjóri rekstrar hjá Háskólanum í Reykjavík í um sjö ár. Hún hefur einnig reynslu úr fjármálageiranum, þar á meðal sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá skilanefnd Kaupþings á árunum 2009 til 2011 og sem rekstrarstjóri á fjárfestingabankasviði hjá Kaupþingi banka frá 2007 til 2009. Ingunn Svala starfaði innan Actavis Group PTC samsteypunnar á árunum 2006 til 2007 sem fjármálastjóri Actavis hf., Medís ehf., Actavis Group hf. og Actavis Group PTC ehf. Ingunn Svala hefur mikla reynslu af stjórnarstörfum og sat í stjórnum lyfjafyrirtækisins Ósar og dótturfélags þess, Parlogis ehf. Hún sat í stjórn Líftryggingafélags Íslands (Lífís) frá 2017 til 2021 og í endurskoðunarnefnd VÍS frá 2019 til 2021. Ingunn Svala á ekki hluti í Kviku banka hf. og hefur ekki hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila, samkeppnisaðila eða stóra hluthafa í skilningi leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja. Tilnefningarnefnd telur að Ingunn Svala búi yfir nauðsynlegri þekkingu og reynslu til að sitja í stjórn Kviku banka hf.

Páll Harðarson: Páll er fæddur árið 1966 og hefur víðtæka menntun og starfsreynslu á sviði fjármála og viðskipta. Páll lauk BA gráðu í hagfræði frá Macalester College árið 1989 og Ph.D. gráðu í hagfræði frá Yale University árið 1998. Páll starfaði sem fjármálastjóri evrópskra markaða hjá Nasdaq 2019-2023 en þar starfa 8 kauphallir, auk Nasdaq verðbréfamiðstöðvar og Puro.earth. Frá 2023-2024 var hann fjármálastjóri markaðsviðskipta hjá Nasdaq í 18 kauphöllum í Ameríku og Evrópu. Áður starfaði hann sem forstjóri Kauphallar Íslands (Nasdaq Iceland) frá 2011 til 2019, og aðstoðarforstjóri og forstöðumaður rekstrarsviðs frá 2002-2011. Þá var Páll hagfræðingur hjá Þjóðhagsstofnun 1999-2002. Á árunum 2011-2019 kom Páll mikið að vinnu tengt stjórnarháttum með setu í starfshópi og ráðgjafaráði um stjórnarhætti. Páll hefur mikla reynslu af stjórnarstörfum og hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og samtaka, þar á meðal Nasdaq kauphalla á Norðurlöndunum. Hann á 700.000 hluti í Kviku banka hf. en hefur ekki hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila, samkeppnisaðila eða stóra hluthafa í skilningi leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja. Það er mat tilnefningarnefndar að Páll búi yfir nauðsynlegri þekkingu og reynslu til að sitja í stjórn Kviku banka hf.

Sigurður Hannesson: Sigurður er stjórnarformaður Kviku banka hf. og hefur gegnt því hlutverki síðan í mars 2021, þegar hann kom inn í stjórn bankans. Hann er fæddur árið 1980 og starfar einnig sem framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Sigurður hefur víðtæka menntun og starfsreynslu; hann lauk D.Phil. gráðu í stærðfræði frá Oxford háskóla og BS gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur einnig lokið prófi í löggildri verðbréfamiðlun. Á árunum 2013-2017 starfaði Sigurður sem framkvæmdastjóri eignastýringarsviðs hjá MP banka, síðar Kviku banka hf. Hann var varaformaður framkvæmdahóps stjórnvalda um losun fjármagnshafta árið 2015 og formaður sérfræðingahóps um aðgerðir í þágu skuldsettra heimila árið 2013. Sigurður hefur einnig starfað sem framkvæmdastjóri Júpíters rekstrarfélags og á sviði markaðsviðskipta hjá Straumi fjárfestingabanka. Sigurður situr í stjórnum ýmissa fyrirtækja og samtaka, þar á meðal Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Háskólans í Reykjavík og Krabbameinsfélags Íslands. Sigurður er með yfirgripsmikla þekkingu á bankastarfsemi og eignastýringu. Þá hefur hann reynslu af íslensku viðskiptalífi, sem og af alþjóðlegri fjármálastarfsemi í gegnum störf sín í framkvæmdahóp um losun fjármagnshafta. Hann ræður yfir 8.550.107 hlutum í Kviku banka hf. í gegnum einkahlutafélag sitt BBL ehf., en hefur ekki hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila, samkeppnisaðila eða stóra hluthafa í skilningi leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja. Það er mat tilnefningarnefndar að Sigurður búi yfir nauðsynlegri þekkingu til að sitja í stjórn Kviku banka hf.

Tillögur tilnefningarnefndar um skipan varamanns í stjórn Kviku banka hf.

Tvö framboð bárust tilnefningarnefnd til varastjórnar en annað þeirra var dregið til baka. Var nefndinni því aðeins unnt að tilnefna einn varamann, en þeir skulu samkvæmt samþykktum félagsins og lögum vera tveir.

Tilnefninganefnd leggur til að eftirfarandi einstaklingur verði kjörin varamaður í stjórn Kviku banka hf. á aðalfundi félagsins þann 26. mars 2025.

Kolbrún Jónsdóttir: Kolbrún er fædd árið 1962. Hún lauk Cand. Oecon. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1987 og stjórnendamenntun frá Kenan-Flagler Business School árið 2000. Hún var framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Íslandshótelum (2016-2024) og fjárfestingafélagsins Kjölfestu (2012-2016). Kolbrún starfaði einnig hjá Vátryggingafélagi Íslands, Íslandsbanka og Húsasmiðjunni. Kolbrún hefur setið í stjórnum margra fyrirtækja, þar á meðal Íslandsbanka og Húsasmiðjunnar, og verið formaður endurskoðunarnefndar Sameinaða lífeyrissjóðsins. Hún ræður yfir 12.850 hlutum í Kviku banka í gegnum einkahlutafélag sitt Tópas ehf., en hefur ekki hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila, samkeppnisaðila eða stóra hluthafa í skilningi leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja. Tilnefningarnefnd telur að Kolbrún búi yfir nauðsynlegri þekkingu og reynslu til að gegna starfi sem varamaður í stjórn Kviku banka.

Aðrir frambjóðendur til aðalstjórnar Kviku banka hf.

Alls bárust ellefu framboð til aðalstjórnar félagsins. Fimm af sex frambjóðendum sem ekki hlutu tilnefningu frá tilnefningarnefnd drógu framboð sín til baka þegar tilkynnt var að þau hlytu ekki tilnefningu.

Það skal sérstaklega tekið fram að tilnefningarnefnd hvatti ekki frambjóðendur til að draga framboð sín til baka þó svo að viðkomandi hlytu ekki tilnefningu stjórnar. Öllum stóð það þó til boða í samræmi við starfsreglur nefndarinnar.

Einn frambjóðandi, sem tilnefningarnefnd tilnefnir ekki, hefur lýst vilja sínum til að vera í framboði til stjórnar á aðalfundi Kviku banka hf. þann 26. mars 2025. Það er Áslaug Eva Björnsdóttir.

Það er mat tilnefningarnefndar að vel flestir þeirra sem sóttust eftir setu í stjórn Kviku banka hf. og fengu ekki tilnefningu nefndarinnar hefðu menntun, þekkingu og hæfni til að sitja í stjórn Kviku banka hf. þó svo að hæfni þeirra væri mismunandi mikil. Við mat á frambjóðendum voru lagðir til grundvallar tilteknir lykilhæfnisþættir auk þess að hugað var að samsetningu stjórnarinnar og mismunandi reynslu og þekkingu innan hennar.

Það er mat tilnefningarnefndar að til þess að hægt væri að rökstyðja frekari breytingar á stjórninni þá þyrftu nýir stjórnarmenn að hafa betri hæfni, þekkingu og reynslu en þeir sem fyrir sætu auk þess sem huga þyrfti að því hvort þörf væri fyrir nýja eiginleika inn í stjórn bankans. Af þeim sem hlutu ekki tilnefningu voru einstaklingar sem voru með sérþekkingu og reynslu á sviðum sem núverandi stjórnarmenn eru einnig með og var hæfni, reynsla og þekking núverandi stjórnarmanna jafngóð eða meiri en þeirra frambjóðenda sem sóttust eftir stjórnarsæti og fengu ekki tilnefningu. Þá höfðu tilteknir frambjóðendur þekkingu á ákveðnum sviðum þar sem ekki var til staðar sérþekking innan stjórnarinnar, en skorti þekkingu á öðrum sviðum sem tilnefningarnefndin taldi mikilvægri í rekstri í Kviku banka hf. og vó þyngra í mati á frambjóðendum.

Verði stjórn bankans skipuð þeim einstaklingum sem nefndin tilnefnir er það mat nefndarinnar að hún muni hafi nægilega breidd hvað varðar þekkingu, reynslu og bakgrunn sem nýtist félaginu við stefnumótun og eftirlit í því umhverfi sem félagið starfar nú í, með vísan til þeirra upplýsinga um frambjóðendur sem að ofan greinir.

Jafnframt uppfylli stjórn viðeigandi ákvæði laga og samþykkta bankans um hlutfall hvors kyns í stjórn og endurspegli fjölbreyttan hóp einstaklinga, meðal annars m.t.t. hæfni, menntunar og starfsreynslu. Nefndin mat óhæði frambjóðenda í samræmi við leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja.

Tilnefningarnefnd Kviku banka hf.

Reykjavík, 5. mars 2025

Helga Melkorka Óttarsdóttir Jakobína H. Árnadóttir, nefndarformaður

Jóhann Ásgeir Baldurs

Talk to a Data Expert

Have a question? We'll get back to you promptly.