Annual / Quarterly Financial Statement • Apr 1, 2025
Annual / Quarterly Financial Statement
Open in ViewerOpens in native device viewer



Skýrsla um gjaldþol og fjárhagslega stöðu (SFCR) fyrir árið 2024
| Samantekt | 2 | |
|---|---|---|
| A | Rekstur og afkoma A.1 Rekstur . A.2 Árangur í vátryggingastarfsemi . A.3 Árangur af fjárfestingum . A.4 Árangur af annarri starfsemi . A.5 Aðrar upplýsingar . |
5 5 7 13 16 16 |
| B | Stjórnkerfi B.1 Almennar upplýsingar um stjórnkerfi . B.2 Kröfur um hæfi og hæfni . B.3 Áhættustýring og eigið áhættu- og gjaldþolsmat . B.4 Innra eftirlit hjá Sjóvá og regluvarsla . B.5 Starfssvið innri endurskoðanda . B.6 Starfssvið tryggingastærðfræðings . B.7 Útvistun . B.8 Aðrar upplýsingar um stjórnkerfi . |
19 19 26 27 29 31 32 32 33 |
| C | Áhættusnið C.1 Samantekt áhættusniðs . C.2 Vátryggingaáhætta . C.3 Markaðsáhætta . C.4 Kröfuáhætta . C.5 Lausafjáráhætta . C.6 Rekstraráhætta . C.7 Önnur veigamikil áhætta . C.8 Aðrar upplýsingar um áhættusnið . |
34 34 34 38 41 43 44 45 47 |
| D | Mat á gjaldþolsstöðu D.1 Eignir . D.2 Vátryggingaskuld . D.3 Aðrar skuldir . D.4 Aðrar matsaðferðir . D.5 Aðrar upplýsingar . |
48 48 50 53 53 54 |
| E | Eiginfjárstýring E.1 Gjaldþol . E.2 Gjaldþolskrafa og lágmarksfjármagn eigin fjár . E.3 Notkun á "duration-based equity risk sub-model" . E.4 Mismunur á niðurstöðum staðalreglu og eigin líkans . E.5 Krafa um lágmarksfjármagn ekki uppfyllt . E.6 Aðrar upplýsingar . |
55 55 58 59 60 60 60 |

Sjóvá samstæðan starfar á vátryggingamarkaði og er alhliða vátryggingafélag með starfsemi á Íslandi á sviði skaða- og líftrygginga. Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Sjóvá) var stofnað 20. júní 2009. Sjóvá-Almennar líftryggingar hf. (Sjóvá líf) er dótturfélag Sjóvár og er allri daglegri starfsemi þess útvistað til móðurfélagsins. Félögin starfa m.a. samkvæmt lögum um hlutafélög nr. 2/1995 og lögum um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016. Í skýrslu þessari er fjallað um samstæðuna í heild nema annað sé tekið fram.
Hagnaður samstæðunnar 2024 var 4.241 m.kr. (2023: 4.626 m.kr.). Rekstrarniðurstaða ársins 2024 endurspeglar afar sterkan grunnrekstur félagsins þrátt fyrir krefjandi umhverfi á árinu, einkum vegna óvenju margra brunatjóna. Rekstur vátryggingastarfseminnar einkenndist af undirliggjandi hagfelldri tjónaþróun sem mildar áhrif tíðra brunatjóna á árinu, framþróun á þjónustuleiðum og áframhaldandi áherslum á framúrskarandi þjónustu sem skilar sér í mjög góðri rekstrarniðurstöðu og samsettu hlutfalli á árinu miðað við aðstæður. Tekjuvöxtur var í takt við áætlanir en minni en síðustu ár en hafa verður í huga að markaðshlutdeild hefur vaxið mikið undanfarin ár.
Afkoma af fjárfestingastarfsemi var mjög góð í ljósi erfiðra eignamarkaða langt framan af ári bæði á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði sem tóku við sér á haustmánuðum með lækkandi verðbólgu og væntingum um að vaxtalækkunarferli gæti hafist sem svo varð raunin. Allir eignaflokkar skiluðu jákvæðri afkomu fyrir utan óskráð hlutabréf þar sem stærsta einstaka breytingin var á virði eignarhlutar í Controlant sem var færður niður um 77% á árinu eða um 675 m.kr.
Afkoma af vátryggingarekstri fyrir skatta nam á árinu 2024 1.283 millj. kr. (2023: 1.695 millj. kr.). Tekjur af vátryggingasamningum námu 33.598 millj. kr. (2023: 31.273 millj. kr.) og jukust um 7,4% á milli ára. Kostnaður af vátryggingasamningum nam 31.720 millj. kr. á árinu 2024 (2023: 29.548 millj. kr.) og jókst um 7,3% á milli ára. Samsett hlutfall var 96,2% á árinu 2024 (2023: 94,6%). Afkoma af fjárfestingastarfsemi fyrir skatta nam á árinu 2024 3.435 millj. kr. (2023: 3.606 millj. kr.). Fjárfestingatekjur námu 5.474 millj. kr. á árinu 2024 (2023: 4.800 millj. kr.) og ávöxtun af fjárfestingareignum í stýringu var 9,4% á árinu (2023: 9,0%). Sjá nánar um rekstur og afkomu í kafla A.
Sterk ímynd og staða félagsins á vátryggingamarkaði var staðfest þegar niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar sýndu að Sjóvá er efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni á árinu 2024, áttunda árið í röð og að þessu sinni með marktækum mun. Ánægja viðskiptavina helst í hendur við ánægju starfsfólks en starfsánægja mældist á árinu 2024 með því hæsta sem mælist hjá íslenskum fyrirtækjum. Stefna félagsins er að vera þjónustufyrirtæki í fremstu röð og er áhersla lögð á að þjónusta viðskiptavini á þeirra forsendum og eftir leiðum sem hentar þeim best.

Stjórn fer með málefni félagsins og skal sjá um að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórn, ásamt forstjóra, hefur forystu um að móta stefnu, setja markmið og skilgreina áhættuviðmið félaganna bæði til skemmri og lengri tíma. Hluthafafundur fer með æðsta vald í málefnum félags samkvæmt því sem lög og samþykktir þess kveða á um. Forstjóri annast daglegan rekstur og fer í þeim efnum eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórn hefur gefið. Fjögur lykilstarfssvið samkvæmt Solvency II reglugerðinni eru starfrækt en það eru áhættustýring, starfssvið tryggingastærðfræðings, innri endurskoðun og regluvarsla. Samhæfð áhættustýring er einn af grunnþáttum í stjórnkerfinu og felur í sér sjálfsmat á öllum fyrirsjáanlegum áhættum starfseminnar. Samhæfð áhættustýring er höfð til grundvallar í skipulagi og ákvarðanatöku og hefur verklag verið innleitt til að greina, mæla og draga úr og/eða dreifa áhættum sem steðjað geta að í rekstri með það að markmiði að vernda félögin, viðskiptavini og vátryggða. Komið hefur verið á virku innra eftirlitskerfi, sem mótað er af stjórn, stjórnendum og starfsmönnum, sem á að veita hæfilega vissu um að félögin nái settum markmiðum sínum. Þriggja þrepa líkan hefur verið innleitt með það að markmiði að hjálpa félaginu að ná settum markmiðum, stuðla að sterkri stjórnsýslu og áhættustýringu og tryggja skilvirk samskipti. Sjá nánar um stjórnkerfi Sjóvá í kafla B.
Gjaldþol félagsins er 25.887 m.kr. (fyrir áætlaða arðgreiðslu) í árslok 2024 í samanburði við 23.791 m.kr. í árslok 2023. Sjá nánar um gjaldþol í kafla E. Gjaldþolskrafa félagsins hækkaði um 3% á milli ára. Markaðsáhætta hækkar einungis um 1% á milli ára en mótaðilaáhætta lækkar hins vegar um 9%-stig. Vátryggingaáhætta hækkar um 10% á milli ára vegna stækkunar vátryggingastofns, þ.m.t. aukning tekna og hækkun tjónaskuldar. Þróun gjaldþolskröfu á milli ára má sjá á mynd 1 hér fyrir neðan.

Mynd 1: Þróun gjaldþolskröfu (í m.kr.) milli ársloka 2023 og 2024
Lágmarksfjármagn (MCR) félagsins var 6.766 m.kr. í árslok 2024 í samanburði við 6.268 m.kr. í árslok 2023. Allt eigið fé félagsins flokkast undir eiginfjárþátt 1 (e. tier 1). Gjaldþolshlutfall félagsins var 162% í árslok 2024, fyrir áætlaða arðgreiðslu.
Fjárhagsstaða Sjóvár og Sjóvá lífs er sterk og uppfylla félögin kröfur um lágmarksfjármagn MCR og gjaldþolskröfu SCR. Á árinu 2024 var ekki um nein frávik frá kröfu um lágmarsfjármagn (MCR) eða gjaldþolskröfu (SCR). Sjá nánar um eiginfjárstýringu í kafla E.
Helsta áhætta félagsins er vátryggingaáhætta og markaðsáhætta og voru nokkur áföll reiknuð og áhrif þeirra á gjaldþolshlutfall kannað.

Mynd 2: Solvency II hlutfall næmnigreining m.v. árslok 2024
Mynd 2 sýnir áhrif mismunandi sviðsmynda á gjaldþolshlutfall félagsins. Öll áföll voru skoðuð ein og sér þ.e. gert var ráð fyrir að allt annað myndi haldast óbreytt (einföldun). Sjá nánar um áhættusnið og áföll í kafla C.
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Sjóvá) er hlutafélag sem stofnað var 20. júní 2009. Sjóvá-Almennar líftryggingar hf. (Sjóvá líf) er dótturfélag Sjóvár. Félögin eru vátryggingafélög og starfa m.a. samkvæmt lögum um hlutafélög nr. 2/1995 og lögum um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016. Höfuðstöðvar eru í Kringlunni 5, 103 Reykjavík.
Sjóvá og Sjóvá líf lúta eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (FME), Kalkofnsvegi 1, 101 Reykjavík.
Í samræmi við lög um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016 skal ársreikningur vátryggingafélags endurskoðaður af endurskoðanda. Endurskoðun ársreiknings er í höndum KPMG ehf. sem kosið var á aðalfundi árið 2018 fyrir rekstrarárin 2018-2022. Sá samningur hefur verið framlengdur um eitt ár í senn og gildir einnig fyrir rekstrarárið 2024. Endurskoðendurnir Sigríður Soffía Sigurðardóttir og Díana Hilmarsdóttir árita ársreikning fyrir hönd KPMG. Heimilisfang KPMG er Borgartún 27, 105 Reykjavík.
Í árslok 2024 voru hluthafar 1.105 en þeir voru 1.146 í ársbyrjun og fækkaði þeim því um 41 á árinu. 51,3% hluta eru í eigu lífeyrissjóða, 36,6% í eigu einstaklinga og fyrirtækja, 4,4% í eigu erlendra verðbréfasjóða, 6,0% í eigu innlendra verðbréfasjóða og 1,7% í eigu fjármálafyrirtækja. Einn hluthafi fer með virkan eignarhlut í félaginu (yfir 10% hlut) en það er Hrólfssker ehf. með 15,9% hlut.
Sjóvá samstæðan starfar á vátryggingamarkaði og er með starfsemi á Íslandi á sviði skaðaog líftrygginga. Sjóvá-Almennar líftryggingar hf. er dótturfélag Sjóvár og er allri daglegri starfsemi þess útvistað til móðurfélagsins. Beinn eignarhlutur Sjóvár er 99%. Annað dótturfélag Sjóvár er Sjóvá Forvarnahúsið ehf. sem á 1% hlutafjár í Sjóvá líf.
Sjóvá samstæðan starfar á sviði skaða- og líftrygginga, og er einungis starfrækt á Íslandi. Skaðatryggingar eru tryggingar gegn tjóni eða eyðileggingu á hlut, réttindum eða öðrum hagsmunum. Vátryggingarekstrinum er skipt í einstaklings- og fyrirtækjaráðgjöf og er um 64% tekna hjá einstaklingsráðgjöf en um 36% hjá fyrirtækjaráðgjöf. Sala trygginga er einungis í höndum starfsmanna og umboðsaðila Sjóvár en sala líf- og sjúkdómatrygginga fara einnig fram með rafrænum hætti. Hjá stærri fyrirtækjum eru viðskiptastjórar sem sjá um að þjónusta viðskiptavini. Dæmi um skaðatryggingar eru munatryggingar, þ.e.

vátryggingar á fasteignum og lausafé, ábyrgðartryggingar og slysatryggingar. Persónutryggingar eru vátryggingar þar sem vátryggð áhætta er bundin lífi og heilsu þess sem vátryggður er, þ.e. líf- og heilsutryggingar, slysatryggingar og sjúkratryggingar. Tæp 74% tekna eru í stærstu skaðatryggingaflokkunum: lögboðnum ökutækjatryggingum (35%), eignatryggingum (21%) og frjálsum ökutækjatryggingum (18%). Þá eru rúm 10% tekna í heilsu- og líftryggingum hjá Sjóvá líf. Vátryggingagreinum er skipt niður í einsleita greinaflokka og er skipting tekna í þá flokka eins og fram kemur á mynd A.1.

Mynd A.1: Hlutfallsskipting tekna ársins 2024 eftir vátryggingagreinum raðað eftir stærð flokka.
Meðalfjöldi starfsmanna á árinu 2024, umreiknaður í heilsársstörf var 186,6 (2023: 182,5). Karlar eru 52% starfsmanna en konur 48% og í hópi stjórnenda eru karlar 56% en konur 44%. Sjóvá hefur á að skipa 13 útibúum auk umboða og þjónustuskrifstofa víðs vegar um landið. Höfuðstöðvar eru staðsettar í Kringlunni 5, 105 Reykjavík, auk þess eru útibú staðsett á Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði, Akureyri, Dalvík, Húsavík, Egilsstöðum, Selfossi, Vestmannaeyjum, Stykkishólmi, Höfn og Reykjanesbæ.
Rekstrarmarkmið á árinu 2024 náðust í vátryggingarekstri og endurspeglar rekstrarniðurstaða ársins afar sterkan grunnrekstur þrátt fyrir krefjandi umhverfi á árinu, einkum vegna óvenju margra brunatjóna. Afkoma af fjárfestingastarfsemi var mjög góð í ljósi erfiðra eignamarkaða langt framan af ári bæði á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði. Allir eignaflokkar skiluðu jákvæðri afkomu fyrir utan óskráð hlutabréf þar sem stærsta einstaka breytingin var á virði eignarhlutar í Controlant sem var færður niður um 77% á árinu eða um 675 m.kr. Engir aðrir atburðir eða viðskipti höfðu veruleg áhrif á afkomu félagsins. Breytingar á eignasamsetningu fjárfestingasafns má finna á mynd A.3 í kafla A.3.

Í rekstraráætlun fyrir árið 2025 er gert ráð fyrir hóflegum hagvexti og að ferðaþjónustuiðnaðurinn haldist áfram sterkur þrátt fyrir að dragi úr vexti í fjölgun ferðamanna til landsins. Gert er ráð fyrir áframhaldandi vexti á vátryggingastofni á fyrirtækja- og einstaklingsmarkaði samhliða iðgjaldavexti og að verðlagning taki mið af undirliggjandi áhættu. Vöxtur iðgjalda er drifinn af vexti á stofni, vísitölubreytingum og breytingum á iðgjaldaskrá eftir þörfum. Stuðst er við útgefnar þjóðhagsspár viðskiptabankanna og Seðlabanka Íslands þegar spáð er fyrir um þróun á helstu vísitölum. Gert er ráð fyrir að samsett hlutfall á árinu 2024 verði á bilinu 93-95% og að afkoma af vátryggingasamningum verði 1.700-2.400 m.kr. Markmið stjórnenda er að vátryggingarekstur haldist sterkur og skili að jafnaði 95% samsettu hlutfalli yfir lengri tímabil.
Allt kapp er lagt á að þjónusta Sjóvá sé öllum aðgengileg, á forsendum hvers og eins og stöðugt er unnið að því að þróa stafrænar samskiptaleiðir með þarfir viðskiptavina að leiðarljósi. Viðskiptavinir nýta sér í auknum mæli þær leiðir hvort sem þeir eru að kaupa tryggingar, fá ráðgjöf, tilkynna tjón eða annað. Á vef félagsins, www.sjova.is, er lögð áhersla á að viðskiptavinir geti nálgast allar upplýsingar á einfaldan og aðgengilegan hátt.
Sterk ímynd og staða félagsins á markaði var enn á ný staðfest í janúar 2025 þegar niðurstöður ánægjuvogarinnar voru opinberaðar og í ljós kom að Sjóvá átti ánægðustu viðskiptavini á vátryggingamarkaði á árinu 2024, áttunda árið í röð.
Heildarhagnaður samstæðunnar drógst saman um rúm 8% á milli ára og var 4.241 m.kr. árið 2024 samanborið við 4.626 m.kr. á árinu 2023 og munar þar mestu um lægri afkomu á vátryggingasamningum.
Afkoma af vátryggingasamningum félagsins fyrir skatta drógst saman um rúm 24% á milli ára og var 1.283 m.kr. á árinu 2024 samanborið við 1.695 m.kr. á árinu 2023. Tekjuvöxtur var 7,4% á milli ára á meðan kostnaður á vátryggingasamningum jókst um 7,2%. Afkoma af fjárfestingum, ef tekið er tillit til fjármagnsliða vátryggingasamninga, drógst saman um 4,7%. Skiptingu tekna af vátryggingasamningum eftir greinarflokkum má sjá á töflu A.1.
Yfirlit yfir afkomu samstæðunnar ásamt helstu kennitölum má sjá í töflum A.2 og A.3.
Samsett hlutfall er einn þeirra mælikvarða sem horft er til þegar afkoma af vátryggingastarfsemi er metin og sýnir hlutfall tjóna-, endurtrygginga- og rekstrarkostnaðar af iðgjöldum. Fjármagnsliðir vátryggingasamninga eru ekki reiknaðar inn í samsett hlutfall.
Tekjur, tjón og samsett hlutfall greinaflokka í skaðatryggingum fyrir árið 2024 má sjá í töflu A.4. Tekjur greiðslu- og efndavátrygginga (21 m.kr.) eru sameinaðar hér ábyrgðartryggingum og tekjur sjúkrakostnaðartrygginga (41 m.kr.) flokkast hér með almennum slysa- og sjúkratryggingum.
Sambærileg tafla fyrir greinaflokka Sjóvá líf má sjá í töflu A.5.
Á mynd A.2 má sjá samsett hlutfall greinaflokka árin 2024 og 2023.
| 2024 | 2023 | Breyting | |
|---|---|---|---|
| Eignatryggingar | 6.989 | 6.647 | 5% |
| Sjó-, flug og farmtryggingar | 1.056 | 944 | 12% |
| Lögb. ökutækjatryggingar | 11.813 | 11.026 | 7% |
| Frjálsar ökuttryggingar | 5.920 | 5.389 | 10% |
| Ábyrgðartryggingar | 1.844 | 1.747 | 6% |
| Greiðslu- og efndatryggingar | 21 | 27 | -24% |
| Alm slysa- og sjúkratryggingar | 1.366 | 1.230 | 11% |
| Atvinnuslysatryggingar | 1.145 | 1.129 | 1% |
| Sjúkrakostnaðartryggingar | 41 | 40 | 2% |
| Líftryggingar | 1.548 | 1.412 | 10% |
| Heilsutryggingar (líf) | 1.855 | 1.681 | 10% |
| Samtals | 33.598 | 31.273 | 7% |
Tafla A.1: Tekjur (í m.kr.) eftir greinaflokkum árið 2024 og 2023.
| 2024 | 2023 | Breyting | |
|---|---|---|---|
| Tekjur af vátryggingasamningum | 33.598 | 31.273 | 7,4% |
| Kostnaður af vátryggingasamningum | -31.720 | -29.548 | 7,3% |
| Afkoma af endurtryggingasamningum | -594 | -30 | 1856,0% |
| Afkoma af vátryggingasamningum | 1.283 | 1.695 | -24,3% |
| Hreinar fjármunatekjur | 671 | 931 | -27,9% |
| Gangvirðisbreytingar fjáreigna | 4.803 | 3.869 | 24,1% |
| Rekstrarkostnaður af fjárfestingastarfsemi | -394 | -300 | 31,4% |
| Afkoma fjárfestinga | 5.080 | 4.500 | 12,9% |
| Fjármagnsliðir vátryggingasamninga | -1.645 | -894 | 84,0% |
| Afkoma fjárfestinga eftir fjármagnsliði | 3.435 | 3.606 | -4,7% |
| Afkoma af vátryggingasamningum og fjárfestingum |
4.718 | 5.301 | -11,0% |
| Aðrar tekjur | 170 | 157 | 8,4% |
| Annar rekstrarkostnaður | -67 | -68 | -1,6% |
| Annar fjármagnskostnaður | -53 | -46 | 15,7% |
| Hagnaður fyrir tekjuskatt | 4.768 | 5.344 | -10,8% |
| Tekjuskattur | -528 | -719 | -26,6% |
| Hagnaður ársins eftir skatt | 4.241 | 4.626 | -8,3% |
Tafla A.2: Rekstrarreikningur (í m.kr.) samstæðunnar 2024 og 2023.
Um allar tryggingarnar gildir að vátryggingavernd er skilgreind nákvæmlega í skilmálum þeirra. Hægt er að finna skilmála á heimasíðu Sjóvá hér.
Helstu vátryggingagreinar eignatrygginga eru:
| 2024 | 2023 | |
|---|---|---|
| Tjónahlutfall | 74,7% | 74,9% |
| Endurtryggingahlutfall | 1,8% | 0,1% |
| Tjóna- og endurtryggingahlutfall | 76,5% | 75,0% |
| Kostnaðarhlutfall | 19,7% | 19,6% |
| Samsett hlutfall | 96,2% | 94,6% |
| Ávöxtun eigin fjár | 17,5% | 20,7% |
| Hagnaður á hlut | 3,67 | 3,97 |
| Þynntur hagnaður á hlut | 3,66 | 3,97 |
| Gjaldþol e. áætlaða arðgreiðslu | 22.487 | 21.341 |
| Gjaldþolshlutfall | 1,42 | 1,40 |
Tafla A.3: Helstu kennitölur úr rekstrarreikningi samstæðunnar 2024 og 2023.
| Eignatr | Sjó-, flug- og farmtr |
Lögb öku tækjatr |
Frjálsar ökuttr |
Ábyrgð artr |
Alm slysa- og sjúkratr |
Atvinnu slysatr |
Samtals frumtr. |
|
|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
| Tekjur ársins | 6.989 | 1.056 | 11.813 | 5.920 | 1.865 | 1.407 | 1.145 | 30.195 |
| Tjón ársins | -5.198 | -523 | -9.262 | -5.392 | -1.543 | -880 | -881 | -23.678 |
| Tekjur/Gjöld af endurtryggingum |
-191 | -123 | -91 | 0 | -105 | -3 | 2 | -510 |
| Rekstarkostn. | -1.382 | -166 | -2.273 | -1.369 | -251 | -282 | -152 | -5.883 |
| Tjónshlutfall | 74,4% | 49,5% | 78,4% | 91,1% | 82,7% | 62,5% | 77,0% | 78,4% |
| Endurtryggingahlutfall | 2,7% | 11,6% | 0,8% | 0,0% | 5,7% | 0,2% | -0,2% | 1,7% |
| Tjóna- og endurtryggingahlutfall |
77,1% | 61,2% | 79,2% | 91,1% | 88,4% | 62,7% | 76,8% | 80,1% |
| Kostnaðarhlutfall | 19,8% | 15,8% | 19,2% | 23,1% | 13,5% | 20,0% | 13,3% | 19,5% |
| Samsett hlutfall | 96,9% | 76,9% | 98,4% | 114,2% | 101,8% | 82,7% | 90,0% | 99,6% |
Tafla A.4: Skipting eftir greinaflokkum Solvency II í skaðatryggingum 2024 (í m.kr.)
Lögboðin brunatrygging húseigna - uppbygging eða lagfæring á húseignum og föstum innréttingum vegna tjóns af völdum bruna og er vátryggingafjárhæð brunabótamat eins og það er skráð hjá fasteignaskrá HMS. Á vefsíðu HMS er góð sundurliðun á því hvað fellur undir brunabótamat fasteignar.
Rekstrarstöðvunartrygging - vátryggingin tekur til fjárhagslegs tjóns sem hinn vátryggðri verður fyrir vegna samdráttar í vörusölu og þjónustu af völdum tjóns sem leiða má til bruna-, þjófnaðar- eða vatnstjónstryggingar, sem seld er samhliða vátryggingu þessari.
Víðtæk trygging þar sem innbú og lausafé heimila er tryggt gegn bruna- vatni, innbrotum o.fl. Val er um þrjár mismunandi víðtækar tryggingar, eftir þörfum viðskiptavinar.
| Líf tryggingar |
Heilsu tryggingar |
Samtals | |
|---|---|---|---|
| Tekjur ársins | 1.548 | 1.855 | 3.403 |
| Tjón ársins | -722 | -704 | -1.426 |
| Tekjur/Gjöld af endurtryggingum |
14 | -98 | -84 |
| Rekstarkostn. | -345 | -395 | -739 |
| Tjónshlutfall | 46,6% | 38,0% | 41,9% |
| Endurtryggingahlutfall | -0,9% | 5,3% | 2,5% |
| Tjóna- og endurtryggingahlutfall |
45,7% | 43,3% | 44,4% |
| Kostnaðarhlutfall | 22,3% | 21,3% | 21,7% |
| Samsett hlutfall | 68,0% | 64,5% | 66,1% |
Tafla A.5: Skipting eftir greinaflokkum Solvency II í líftryggingum 2024 (í m.kr.)

Mynd A.2: Samsett hlutfall í greinaflokkum 2024 og 2023.
Er samsett trygging sem tryggir íbúðarhúsnæði gegn vatnsskaða, glertjónum, innbroti, foki o.fl.
Tekur til tjóns á lausafé af völdum bruna, eldingar eða sprengingar. Til viðbótar brunatryggingu, er hægt að kaupa vatnstjóns- og foktryggingu og innbrotstryggingu. Greinargott yfirlit yfir aðrar eignatryggingar sem og aðra greinaflokka er að finna á heimasíðu Sjóvá https://www.sjova.is/tryggingar
Skiptast í áhafnatryggingar, húftryggingar skipa, nótatryggingu, afla- og veiðifæratrygg-

ingu og farmtryggingar. Áhafnatrygging er samsett trygging sem tekur til þeirra trygginga sem tengjast áhöfn skips. Slysatrygging sjómanna flokkast í greinaflokkinn Atvinnuslysatryggingar og ábyrgðartrygging útgerðamanna í Ábyrgðartryggingar. Húftrygging bætir altjón eða skemmdir er kunna að verða á skipi vegna óhappa. Nótatryggingin tekur á bótaskyldum tjónum sem verða á nót. Afla- og veiðafæratyggingin tekur til bótaskyldra tjóna sem verða á afla- og veiðafærum. Farmtrygging bætir skemmdir á farmi sem fluttur er til og frá landi sem og flutningur innanlands.
Flugtrygging samanstendur af þremur megin þáttum: lögboðinni ábyrgðartryggingu, slysatryggingu flugmanns og farþega og húftryggingu loftfarsins. Ábyrgðartryggingin byggir á reglugerð um skylduvátryggingar vegna loftferða nr. 78/2006. Slysatrygging flugmanns er valkvæð trygging sem tekur eingöngu til einka- og kennsluflugvéla. Húftrygging er valkvæð trygging sem bætir hlutatjón og altjón á loftfarinu af völdum skyndilegs og utanaðkomandi atviks.
Lögboðin trygging sem greiðir bætur fyrir tjón á fólki og munum sem ökutæki veldur. Annar hluti vátryggingategundarinnar eru bætur greiddar fyrir skemmdir á ökutækjum sem ekið er á sem og öðrum hlutum sem kunna að skemmast við tjónið. Hinn hlutinn eru greiddar bætur vegna slysa á fólki, það er farþegum og ökumanni ökutækis sem ekið er á, farþegum í ökutæki tjónvalds og tjón vegna slysa á gangandi eða hjólandi vegfarendum sem ökutækið veldur. Eigandi og ökumaður ökutækisins sem tjóninu veldur fá hins vegar sitt slysatjón bætt úr slysatryggingu ökumanns og eiganda sem einnig er lögboðin trygging.
Kaskótrygging ökutækja bætir tjón á hinu vátryggða ökutæki vegna skyndilegra og óvæntra utanaðkomandi atvika svo sem áreksturs, þjófnaðar og skemmdarverka.
Bætir skemmdir á rúðum ökutækis. Annars vegar er um rúðuskipti að ræða en einnig er í mörgum tilfellum mögulegt að gera við rúður. Tjónakostnaður er mun lægri þegar mögulegt er að gera við rúður um leið og um minni sóun er að ræða. Viðskiptavinir greiða ekki eigin áhættu ef þeir velja rúðuviðgerð og tjónið hefur ekki áhrif á Stofnendurgreiðslu þar sem 10% iðgjalda eru endurgreidd til tjónlausra viðskiptavina. Hvatinn er því mikill að velja viðgerð á rúðu ef það er mögulegt.
Ábyrgðartryggingar flokkast í starfsábyrgðartryggingar sem ýmist eru lögboðnar eða frjálsar og almennar ábyrgðartryggingar. Vátryggingavernd í stærstu greininni, frjálsri ábyrgðartryggingu, tekur til skaðabótaábyrgðar, sem fellur á vátryggðan vegna líkamstjóns eða skemmda á munum vegna starfsemi þeirrar sem um ræðir enda verði líkamstjónið eða

skemmdirnar raktar til atburðar sem vátryggingataki ber skaðabótaábyrgð á. Á sama hátt er vátryggt gegn skaðabótaábyrgð, er fellur á vátryggðan sem eiganda eða notanda húss eða fasteignar, þar sem starfsemin fer fram. Ábyrgðartryggingar eru líka seldar til einstaklinga en þær eru hluti af fjölskyldutryggingum og einnig seldar sérstaklega t.d. vegna skotvopna og hunda.
Stærstu greinar sjúkra- og slysatrygginga eru tryggingar þar sem bætur greiðast við starfsorkumissi af völdum slyss eða sjúkdóms. Slysatryggingar í frítíma sem er hluti af flestum fjölskyldutryggingum er stærsti þáttur greinaflokksins en þar greiðast bætur verði vátryggður fyrir slysi í frítíma sem veldur missi starfsorku í lengri eða skemmri tíma. Auk þessa eru ferðatryggingar tengdar fjölskyldutryggingum stór hluti greinaflokksins.
Í atvinnuslysatryggingar flokkast slysatrygging launþega og slysatrygging sjómanna. Launþegar eru tryggðir samkvæmt kjarasamningum verði þeir fyrir slysi í vinnu sem leiðir til þess að þeir verða frá vinnu í lengri eða skemmri tíma. Vátryggingafjárhæðir eru ákvarðaðar í kjarasamningum. Slysatrygging sjómanna greiðir bætur verði sjómenn fyrir slysi við vinnu sína en þar eru bætur til þeirra sem slasast ákvarðaðar samkvæmt skaðabótalögum og er stór hluti bóta vegna áætlaðs tekjutaps framtíðarinnar.
Stærstu vátryggingagreinarnar eru líf- og sjúkdómatryggingar.
Líftrygging greiðir rétthöfum bætur ef líftryggður einstaklingur fellur frá af völdum slyss eða sjúkdóms. Einnig eru greiddar bætur vegna andláts barns líftryggðs að átján ára aldri.
Stærstu greinarnar eru:
Sjúkdómatrygging greiðir bætur ef vátryggður greinist með einhvern af þeim sjúkdómum sem tryggingin tekur til, óháð því hvort sjúkdómurinn leiðir til óvinnufærni, örorku eða ekki. Bæturnar eru greiddar í einu lagi og eru skattfrjálsar. Þannig geta vátryggðir mætt óvæntum útgjöldum og launatapi í kjölfar alvarlegra veikinda.
Barnatrygging er fyrir börn frá eins mánaða aldri til 20 ára. Hún er samsett trygging sem verndar barnið fyrir framtíðartekjutapi sem slys eða alvarlegir sjúkdómar geta valdið auk þess sem hún kemur til móts við foreldra sem verða fyrir tekjumissi og ófyrirséðum kostnaði vegna veikinda barna.

Verðbréfaeignir samstæðunnar námu 68.069 m.kr. í lok árs 2024 samanborið við 59.831 m.kr. í lok árs 2023. Þær eignir sem tilheyra ekki eignum í stýringu eru hlutdeildarsjóðir þar sem líftryggingatakar bera fjárfestingaráhættu, eignir Sjóvá lífs í verðbréfasjóðum, laust fé sem notað er í daglegum rekstri og hlutafé í dótturfélögum Sjóvár, Sjóvá lífs og Forvarnarhúsinu ehf. Verðbréfaeignir sem samstæðan ber fjárfestingaráhættu af námu í lok árs 2024 62.830 m.kr. samanborið við 56.834 m.kr. í lok árs 2023. Samstæðan ber hvorki fjárfestingaráhættu af afleiðum né verðbréfun. Fjárfestingatekjur Sjóvár voru 5.474 m.kr. á árinu en voru 4.800 m.kr. á árinu 2023. Ávöxtun fjárfestingaeigna í stýringu félagsins var 9,4% á árinu 2024 samanborið við 9,0% árið áður. Fjárfestingatekjur greinast annars vegar í fjármunatekjur sem samanstanda af vaxtatekjum af handbæru fé, fengnum arði og gengismun og hins vegar af gangvirðisbreytingu verðbréfa sem samanstendur af söluhagnaði verðbréfa, gangvirðisbreytingum og vaxtatekjum. Fjármunatekjur námu 671 m.kr. árið 2024 og 931 m.kr. árið 2023 og lækka um 27,9% á milli ára. Gangvirðisbreyting verðbréfa nam 4.803 m.kr. árið 2024 og 3.869 m.kr. árið 2023. Niðurbrot fjárfestingatekna (m.kr.) má sjá í töflu A.6.
| 2024 | 2023 | |
|---|---|---|
| Vaxtatekjur af handbæru fé | 260 | 181 |
| Fenginn arður | 370 | 667 |
| Gengismunur | 41 | 82 |
| Fjármunatekjur | 671 | 931 |
| Gangvirðisbreyting verðbréfa | 4.803 | 3.869 |
| Fjárfestingatekjur | 5.474 | 4.800 |
Tafla A.6: Niðurbrot fjárfestingatekna skv. IFRS (í m.kr.)
Fjárfestingatekjur samstæðunnar af eignum í stýringu námu 5.355 m.kr. á árinu 2024 og beinn kostnaður nam 59 m.kr. Beinn kostnaður vegna fjárfestingastarfsemi samanstendur af viðskiptaþóknunum og vörslu – og uppgjörsgjöldum á tímabilinu. Fjárfestingatekjur samstæðunnar af eignum í stýringu ásamt beinum kostnaði henni tengdri eftir eignaflokkum má sjá í töflu A.7.
Stærstu breytingar á eignasafninu á árinu 2024 voru aukið vægi skuldabréfa með ríkisábyrgð og skuldabréfa án ríkisábyrgðar. Einnig lækkaði hlutfall óskráðra hlutabréfa og dregið var nokkuð úr hlutfalli lausafjár. Sjá breytingar á eignasamsetningu eignasafnsins á árinu 2024 á mynd A.3.
Afkoma af fjárfestingum var góð í ljósi erfiðra eignamarkaða langt framan af ári bæði á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði. Markaðir tóku við sér á haustmánuðum með lækkandi verðbólgu og væntingum um að vaxtalækkunarferli gæti hafist sem svo varð raunin. Ávöxtun ársins var 9,4% og var afkoman nokkuð mismunandi á milli eignaflokka. Ávöxtun skráðra hlutabréfa nam 16,7% en skráðu hlutabréfin í eignasafninu sem skiluðu bestu afkomu á árinu, í krónum talið, voru Amaroq Minerals, Marel og Kaldalón. Þá nam ávöxtun ríkisskuldabréfa 7,8%, annarra skuldabréfa 8,9% og óskráðra hlutabréfa -10,1% á árinu þar sem stærsta einstaka breytingin var á virði eignarhlutar í Controlant sem var færð-

| Virði 31.12.2024 |
Virði 31.12.2023 |
Afkoma 2024 | Gjöld 2024 | |
|---|---|---|---|---|
| Ríkiskuldabréf, skráð á markað | 21.877 | 16.740 | 1.374 | 12 |
| Fyrirtækjaskuldabréf, skráð á markað |
16.444 | 14.718 | 1.350 | 5 |
| Hlutabréf, skráð á markað | 16.324 | 15.743 | 2.578 | 39 |
| Afleiður | 0 | 0 | 0 | 0 |
| Fyrirtækjaskuldabréf, óskráð | 1.693 | 1.259 | 110 | 0 |
| Hlutabréf, óskráð | 1.980 | 2.314 | -395 | 0 |
| Sjóðir | 2.711 | 2.607 | 212 | 1 |
| Innstæður skemmri en eitt ár | 1.800 | 3.452 | 126 | 1 |
| Samtals | 62.830 | 56.834 | 5.355 | 59 |
Tafla A.7: Afkoma og gjöld (í m.kr.) af eignum í stýringu 2024 m.v. CIC flokkun

Mynd A.3: – Breytingar á samsetningu eigna í stýringu á árinu 2024 m.v. CIC flokkun
ur niður um 77% á árinu eða um 675 m.kr. Árið 2024 var ansi viðburðarríkt með tilliti til verðbréfamarkaða hérlendis. Kaup bandaríska fyrirtækisins JBT á Marel kláruðust á árinu, ríkisstjórninni var slitið og í kjölfarið var boðað til Alþingiskosninga, verðbólga hélt áfram að hjaðna og vaxtalækkunarferli Seðlabankans hófst í október. Verðbólga hefur reynst þrálátari en margir áttu von á og endaði árið í 4,8%. Seðlabankinn lækkaði þó stýrivexti um samtals 0,75% á árinu en hélt raunvaxtaaðhaldinu áfram nokkuð þéttu. Ljóst er að þensla í hagkerfinu hefur minnkað töluvert frá því sem var en spár gera ráð fyrir að hagvöxtur hafi verið neikvæður á árinu 2024. Hlutabréfamarkaðurinn hérlendis hækkaði um 14,7% árið 2024 og ávöxtunarkröfur ríkisskuldabréfa, sér í lagi óverðtryggðra, breyttust lítið á árinu í heild þó töluverðar sveiflur hafi verið innan ársins. Gengi krónunnar hækkaði um 3,8% á árinu 2024 miðað við skráða gengisvísitölu og um 4,4% gagnvart evru. Seðlabankinn greip einu sinni inn í gjaldeyrismarkaðinn þegar hann keypti gjaldeyri fyrir um 9,2 ma.kr. í febrúar til að bregðast við innflæði erlends fjármagns í ríkisskuldabréf.

Árið byrjaði nokkuð kröftuglega á innlendum hlutabréfamarkaði og hækkaði markaðurinn um 10% á fyrsta mánuði ársins. Í kjölfarið tók við nokkuð samfelldur lækkunarfasi og var hlutabréfamarkaður hérlendis búinn að lækka um 5% á árinu í lok júlí. Markaðurinn tók við sér í haustmánuðum samhliða væntingum um að vaxtalækkunarferli Seðlabankans gæti hafist. Það varð síðar raunin, Seðlabankinn lækkaði vexti um alls 0,75% á árinu, og hækkaði innlendur hlutabréfamarkaður um 14,7%. Þá voru ýmis tíðindi af markaðinum á árinu. Þar ber helst að nefna að Alvotech fékk leyfi frá FDA til að selja líftæknilyfjahliðstæðu sína við Humira til Bandaríkjanna, framleiðsla á gulli hófst hjá Amaroq Minerals í Nalunaq, hluthafar Marel samþykktu yfirtökutilboð JBT og Landsbankinn keypti TM. Þá færði Oculis sig yfir á Aðalmarkað kauphallarinnar og laxeldisfyrirtækið Kaldvík var skráð á First North vaxtarmarkaðinn. Sjá yfirlit yfir afkomu stærstu eignaflokka félagsins í töflu A.8.
| Virði 31.12.2024 |
Vægi | Virði 31.12.2023 |
Hreyfingar | Ávöxtun | Afkoma | |
|---|---|---|---|---|---|---|
| Laust fé | 1.800 | 3% | 3.452 | -1.781 | 4.9% | 129 |
| Skuldabréf með ríkisábyrgð | 21.647 | 34% | 16.827 | 3.479 | 7.8% | 1.341 |
| Önnur skuldabréf | 20.190 | 32% | 17.595 | 974 | 8.9% | 1.621 |
| Skráð hlutabréf | 16.324 | 26% | 15.743 | -2.003 | 16.7% | 2.584 |
| Óskráð hlutabréf | 2.869 | 5% | 3.218 | -28 | -10.1% | -321 |
| Verðbréf samtals | 62.830 | 100% | 56.834 | 641 | 9.4% | 5.355 |
Tafla A.8: Afkoma og ávöxtun (í m.kr.) af eignum samstæðu í stýringu á árinu 2024 m.v. eigin flokkun
Samanburður á ávöxtun nokkurra ríkisskuldabréfasjóða annars vegar og hlutabréfasjóða hins vegar á árinu 2024 má sjá í töflu A.9.
| Skuldabréfasjóðir | 2024 |
|---|---|
| Sjóvá – samstæða | 7.8% |
| Stefnir - Ríkisverðbréfasjóður millilangur |
6.9% |
| IS Ríkisskuldabréf meðallöng | 6.6% |
| Kvika - Ríkisverðbréf | 6.5% |
| Landsbréf - Sparibréf meðallöng |
6.2% |
| ÍV Áskriftarsjóður ríkisverðbréfa |
6.0% |
| Hlutabréfasjóðir | 2024 |
|---|---|
| Sjóvá – samstæða | 16.7% |
| Kvika - Innlend hlutabréf | 19.0% |
| IS Hlutabréfasjóðurinn | 15.9% |
| Landsbréf - Úrvalsbréf | 14.5% |
| ÍV Stokkur | 14.0% |
| Stefnir - Innlend hlutabréf | 10.4% |
| Akta Stokkur | -21.7% |
Tafla A.9: Ávöxtun nokkurra ríkisskuldabréfa- og hlutabréfasjóða, 2024
Ekki er um aðra starfsemi að ræða en fram kemur í köflum A.1-A.3.
Sjóvá hefur lengi lagt sitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærni og vernd umhverfisins, auk þess sem það hefur lengi unnið að margvíslegum samfélagslegum verkefnum. Félagið hefur sett stefnu um sjálfbærni og samfélagsábyrgð og er markmið stefnunnar að stuðla að samþættingu á sjálfbærni og samfélagsábyrgð í starfseminni, að starfsemin uppfylli kröfur sem til hennar eru gerðar og að Sjóvá sé í fararbroddi á þessu sviði. Félagið gefur út sérstaka skýrslu um sjálfbærni og samfélagsábyrgð, hana má finna hér á vefsíðu Sjóvá.
Á árinu 2023 var framkvæmd tvíátta mikilvægisgreining hjá Sjóvá í fyrsta sinn, en samkvæmt tilskipun ESB um sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja (CSRD) skal upplýsingagjöf fyrirtækja byggja á slíkri greiningu. Með henni er afmarkað hvaða sjálfbærniþættir hafa mest áhrif á fyrirtæki og hagaðila þess og hvaða sjálfbærniþætti starfsemi fyrirtækis hefur helst áhrif á. Þessari vinnu var haldið áfram á árinu 2024 og unnið að því að ná betur utan um mikilvægustu sjálfbærniþættina með hliðsjón af leiðbeiningum ESB um framkvæmdina sem komu út um sumarið. Í kjölfar þessarar vinnu var tekin ákvörðun um að fækka mikilvægisþáttunum nokkuð frá fyrri greiningu. Samkvæmt uppfærðri mikilvægisgreiningu eru mikilvægustu sjálfbærniþættir í rekstri Sjóvár og virðiskeðju þess:
Við framkvæmd mikilvægisgreiningar í lok árs 2023 var rætt við breiðan hóp innri og ytri hagaðila og þeir fengnir til að meta áhrif tengd sjálfbærniþáttum. Á árinu 2024 var unnið áfram með starfsfólki sem býr yfir sérþekkingu sem tengist sjálfbærniþáttunum og það fengið til að meta jákvæð og neikvæð áhrif starfsemi Sjóvár á sjálfbærniþáttinn, bæði núverandi og möguleg áhrif, sem og fjárhagsleg áhrif sjálfbærniþáttar á starfsemi Sjóvár, áhættur og tækifæri. Fjallað er um niðurstöður þessarar vinnu í umfjöllunum um mikilvægustu sjálfbærniþætti Sjóvár. Í upplýsingagjöf um mikilvægustu sjálfbærniþættina eru hafðir til hliðsjónar viðeigandi ESRS staðlar, sem segja til um hvernig skul birta upplýsingarnar sem fjallað er um í CSRD tilskipun þegar hún hefur tekið gildi.
Þær stefnur sem eru til staðar hjá félaginu og tengjast umhverfisþáttum, félagsþáttum og stjórnarháttum eru m.a. stefna um sjálfbærni og samfélagsábyrgð, umhverfisstefna, mannréttindastefna sem felur í sér jafnréttisstefnu og stefnu um fjölbreytileika auk stefnu gegn áreitni, siðareglur, stefna um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, stefnur um upplýsingaöryggi, persónuverndarstefna, stefna um varnir gegn mútum og spillingu, skattastefna og starfsreglur stjórna samstæðunnar.

Um er að ræða lykilstefnur og reglur sem ætlað er að styðja við árangur á þessum sviðum.
Sjóvá hefur um árabil lagt áherslu á að tryggja jöfn tækifæri og jafnrétti kynja til ábyrgðar og launa í samræmi við heimsmarkmið 5 og 8. Mannréttindastefna og árleg aðgerðaáætlun eru rammi utan um framkvæmd stefnunnar. Félagið hefur sett sér umhverfisstefnu, fylgist með þróun umhverfisvísa og notkun auðlinda í rekstrinum, og leitast er við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Sjóvá hefur bundið kolefni sem svarar eigin losun vegna rekstrar og hefur verið með samning við Kolvið frá árinu 2015 og samning við SoGreen um menntaverkefni fyrir stúlkur frá árinu 2023.
Heildarniðurstaða UFS áhættumats Reitunar á Sjóvá sem gefið var út 2024 var lokaeinkunn B1 og 80 punktar af 100 mögulegum. Meðaltal íslenska markaðarins stóð þá í 71 punkti af 100 mögulegum. Félagið fékk 71 stig af 100 mögulegum og einkunnina B2 fyrir stjórnarhætti í UFS mati Reitunar. Fyrir undirflokkinn Almennir stjórnarhættir fékk félagið 93 stig af 100 eða einkunnina A2.
Sjóvá veitir árlega styrki til aðila sem vinna að forvörnum og mikilvægum málefnum í þágu samfélagsins. Lögð er áhersla á að styrkja verkefni sem styðja við hlutverk og stefnu félagsins. Sjóvá hefur átt farsælt samstarf við Slysavarnafélagið Landsbjörg í 25 ár. Sjóvá er aðalstyrktaraðili samtakanna og hefur unnið með þeim á vettvangi fjölbreyttra forvarnaverkefna, öryggismála og vátrygginga og ber sérstaklega að nefna styrk til kaupa á þremur nýjum björgunarskipum sem öll hafa verið tekin í notkun og bætt hafa viðbragðstíma á hafinu í kringum Ísland og er stærsti einstaki styrkur sem veittur hefur verið til leitar- og björgunarstarfa á Íslandi. Í góðu samstarfi við Samgöngustofu fór forvarnarverkefnið "Ekki taka skjáhættuna" af stað á árinu 2024 og miðar að því að draga úr símanotkun við akstur. Erlendar rannsóknir sýna að allt að 20% umferðaslysa megi rekja beint til notkunar á farsímum við akstur og því um mikilvæg forvarnarskilaboð að ræða. Í nóvember var haldinn morgunfundur undir yfirskriftinni "Brunar í Evrópu og á Íslandi, hvað er til ráða?", í kjölfar aukinnar tíðni alvarlegra bruna bæði hér á landi og erlendis á bygginga- og framkvæmdasvæðum. Markmið fundarins var að vekja athygli á þessari þróun og virkja viðeigandi aðila til frekara samtals um hvað megi betur fara og hvernig forvörnum skuli háttað svo hægt sé að lágmarka og/eða koma í veg fyrir brunatjón á bygginga- og framkvæmdasvæðum. Sjóvá veitir árlega styrki til fjölmargra aðila sem vinna að málefnum í þágu samfélagsins, þar á meðal til Landsbjargar, Bláa Hersins, Umhyggju, Samhjálpar og Ljóssins og er lögð áhersla á að fjármunir sem fara til styrktarmála styðji við hlutverk og stefnu félagsins og þau heimsmarkmið sem lögð er áhersla á.
Í tjónum og tjónavinnslu er leitast við að minnka sóun og stuðla að umhverfisvænum lausnum. Notkun á fjarskoðunarlausninni Innsýn fer vaxandi. Lausnin hafði aðallega verið notuð fyrir tjónaskoðanir í eignatjónum en á árinu 2024 var farið af stað með áhættumat á fasteignum í gegnum Innsýn og í einhverjum tilvikum var hún nýtt við tjónamat á ökutækjum. Þetta skilaði sér í umtalsvert minni akstri vegna skoðana og jafnframt hraðari þjónustu. Á árinu 2024 kom notkun Innsýnar í stað aksturs sem annars hefði verið 33.348 km miðað við útreikninga í lausninni. Á árinu var haldið áfram að vekja athygli viðskiptavina á umhverfislegum ávinningi sem fæst með framrúðuviðgerð í stað framrúðuskipta, í góðri samvinnu við samstarfsaðila á verkstæðum. Gert var við 17,2% framrúða árið 2024 sem er góð hækkun frá 2023 þegar hlutfallið var 14,5%, en

það hefur hækkað jafnt og örugglega síðustu 5 árin.
Unnið var að aukinni vefskráningu tjóna og fjölgun viðskiptavina í rafrænum viðskiptum. Viðskiptavinir Sjóvár kjósa í vaxandi mæli að skrá tjón sín sjálfir með rafrænum hætti. Mikill árangur hefur náðst í að auka hlutfall rafrænna tjónstilkynninga á síðustu árum og hækkaði hlutfallið áfram á árinu en 80,4% tjónstilkynninga voru skráðar rafrænt árið 2024. Á árinu var hætt að senda út pappír til viðskiptavina nema þeir óskuðu sérstaklega eftir því. Við þetta snar jókst hlutfall viðskiptavina í rafrænum viðskiptum, sem þó var komið upp í 72,4% í árslok 2023. Í árslok 2024 var þetta hlutfall orðið 94,1%. Þá sparaðist mikill akstur með notkun rafrænna undirskrifta, eða sem nemur 680.665 km samkvæmt reiknivél hugbúnaðarfyrirtækisins Taktikal, sem er um 24% aukning frá árinu 2023. Útskipti bíla fyrir hreinorkubíla héldu áfram á árinu 2024 og eru þeir nú 63% bíla í rekstri hjá Sjóvá
Í janúar 2025 var tilkynnt að Sjóvá væri með ánægðustu viðskiptavinina á íslenskum tryggingamarkaði, samkvæmt niðurstöðum Íslensku ánægjuvogarinnar 2024. Sjóvá mældist með 69,1 stig, sem er hækkun um tæp 2 stig milli ára, og er marktækt hærri einkunn en önnur tryggingafélög fengu. Þetta er 8. árið í röð sem Sjóvá er efst tryggingafélaga í Ánægjuvoginni. Samkvæmt niðurstöðunum mældist Sjóvá ekki aðeins með ánægðustu viðskiptavinina á íslenskum tryggingamarkaði árið 2024 heldur upplifðu viðskiptavinir okkar einnig mest gæði þjónustu og vöru, þeir voru tryggastir og líklegri til að mæla með okkur en viðskiptavinir annarra tryggingafélaga voru til að mæla með sínu félagi. Þessi árangur er engin tilviljun þar sem unnið hefur verið markvisst að því um margra ára skeið að auka stöðugt ánægju viðskiptavina. Árangurinn þökkum við sterkri liðsheild starfsfólks sem brennur fyrir að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu hverju sinni og vilja til að gera sífellt betur í þeim efnum. Við gleðjumst því sannarlega yfir niðurstöðunum og lítum á þær sem hvatningu til að halda áfram á sömu braut.

Sjóvá-Almennar tryggingar hf. er hlutafélag sem stofnað var 20. júní 2009. Sjóvá er vátryggingafélag og starfar samkvæmt lögum um hlutafélög nr. 2/1995, lögum um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016 og lögum um vátryggingasamstæður nr. 60/2017. Stjórn fer með málefni félagsins og skal annast um að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórn skal jafnframt stuðla að viðgangi félagsins og langtímaárangri og hafa eftirlit með daglegum rekstri þess. Hluthafafundur fer með æðsta vald í málefnum félags samkvæmt því sem lög og samþykktir þess kveða á um. Forstjóri annast daglegan rekstur og fer í þeim efnum eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórn hefur gefið. Sjóvá starfar á vátryggingamarkaði og er alhliða vátryggingafélag með starfsemi á Íslandi á sviði skaða- og líftrygginga. Sjóvá líf er dótturfélag Sjóvár og er allri daglegri starfsemi þess útvistað til móðurfélagsins. Félögin fylgja reglum um stjórnarhætti sem fjallað er um í lögum um ársreikninga, lögum um hlutafélög, lögum um vátryggingastarfsemi og reglugerðum Evrópusambandsins um vátryggingastarfsemi og vátryggingasamstæður nr. 940/2018, og leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem gefnar voru út af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq Iceland og Samtökum atvinnulífsins.
Meginhlutverk stjórna er að hafa forystu um að móta stefnu, setja markmið og skilgreina áhættuviðmið félaganna bæði til skemmri og lengri tíma. Hlutverk og ábyrgð stjórna félaganna er að hafa eftirlit með því að starfsemi þeirra sé í samræmi við stefnu og áætlanir, lög og samþykktir og hafa eftirlit með rekstri og ráðstöfun fjármuna. Stjórnirnar hafa eftirlit með árangri og skilvirkni félaganna og stuðla að því að markmið þeirra náist og að til staðar sé skilvirkt innra eftirlit, áhættustýring og hlíting við lög og reglur. Þær skulu tryggja að viðmiðum og lágmarkskröfum um gjaldþol sé ævinlega fylgt og skulu staðfesta að staðalregla um útreikninga gjaldþols sé viðeigandi fyrir félögin og að niðurstöður gjaldþolsútreikninga séu nýttar í rekstrinum. Þá skulu stjórnirnar tryggja að gildi og stefna samstæðunnar séu þekkt og innleidd í starfseminni.
Stjórn móðurfélags er skipuð fimm einstaklingum; lögfræðingi, tölvunarfræðingi og þremur viðskiptafræðingum, og var endurkjörin á síðasta aðalfundi sem haldinn var þann 13. mars 2025. Styrkleikar stjórnarinnar eru fjölbreytt samsetning, víðtæk þekking úr atvinnulífinu og reynsla af stjórnarsetu félaga í fjölbreyttum rekstri. Sérfræðiþekking og reynsla hvers stjórnarmanns nýtist vel í störfum stjórnarinnar. Stjórnin starfar eftir starfsáætlun sem samþykkt er frá aðalfundi til aðalfundar. Fundir eru að jafnaði haldnir mánaðarlega og oftar ef þurfa þykir. Stjórnarfundir voru í föstum skorðum á árinu 2024 og haldnir voru 18 fundir. Stjórn móðurfélags endurskoðar starfsreglur sínar árlega en þær kveða meðal annars á um hæfi stjórnarmanna, verkaskiptingu og skyldur stjórnarmanna. Reglurnar ná einnig yfir hlutverk og verksvið stjórnar og forstjóra, fyrirsvar stjórnar, upplýsingagjöf til stjórnar, fundarsköp og fundargerðir, ákvörðunarvald og skipan undirnefnda.
Stjórnin metur árlega störf sín og gerir sjálfsmat á samsetningu stjórnarinnar en hún telur sig búa yfir nauðsynlegri þekkingu og reynslu til að sinna störfum sínum.
Stjórn Sjóvá lífs er skipuð þremur einstaklingum; tölvunarfræðingi, viðskiptafræðingi og lögfræðingi. Stjórnin metur árlega störf sín og gerir sjálfsmat á samsetningu stjórnarinnar en hún telur sig búa yfir nauðsynlegri þekkingu og reynslu til að sinna störfum sínum. Stjórn Sjóvá lífs átti 8 fundi á árinu 2024.
Allir stjórnarmenn hafa undirgengist hæfismat Fjármálaeftirlitsins Skipurit Sjóvár kemur fram í eftirfarandi mynd:

Mynd B.1: Skipurit Sjóvár
Forstjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri samkvæmt stefnu og fyrirmælum stjórnar, sbr. 2 mgr. 68 gr., hlutafélagalaga. Áhættustýring, persónuvernd, regluvarsla, fjárfestingar, mannauður og gæði og starfsvið tryggingastærðfræðings heyra beint undir forstjóra. Allri daglegri starfsemi dótturfélagsins Sjóvá lífs er útvistað til móðurfélagsins. Framkvæmda-

stjórn skipa forstjóri og framkvæmdastjórar fjögurra meginsviða félagsins. Forstjóri er einnig framkvæmdastjóri dótturfélags Sjóvá, Sjóvá Forvarnarhúsið.
Starfseminni er skipt upp í fjögur meginsvið: fjármál og upplýsingatækni, sala og ráðgjöf, tjónaþjónusta og markaðsmál og viðskiptaþróun. Hver framkvæmdastjóri ber ábyrgð á tilteknu ábyrgðarsviði gagnvart forstjóra:
Sviðið ber ábyrgð á innheimtu og reikningshaldi, uppgjörum, fjárhagsupplýsingum, áætlanagerð, viðskiptagreind og upplýsingatækni.
Sviðið ber ábyrgð á ráðgjöf, þjónustu og sölu á sviði líf- og skaðatrygginga, útibúum og umboðsneti, tekjustýringu auk endurtrygginga.
Sviðið ber ábyrgð á tjónaskráningu, uppgjöri tjóna, bótaákvörðunum, tjónaskoðun og endurmati á skráðum tjónum. Undir tjónasvið fellur einnig lögfræðiráðgjöf.
Sviðið ber ábyrgð á stafrænni þróun, vörustjórnun og þróun skilmála auk annarra verkefna sem snúa að þróun. Jafnframt ber sviðið ábyrgð á markaðsmálum og forvörnum.
Hlutverk tilnefningarnefndar er að tilnefna einstaklinga til stjórnarsetu fyrir aðalfund félagsins. Skal nefndin vinna að hagsmunum allra hluthafa og gæta þess að einstaklingar sem tilnefndir eru búi sem heild yfir nægilegri þekkingu og reynslu til að rækja hlutverk sitt. Nefndinni ber einnig að leggja mat á hvort frambjóðendur séu óháðir gagnvart félaginu eða hluthöfum sem eiga 10% hlut í félaginu eða meira. Tilnefningarnefnd er skipuð þremur nefndarmönnum sem kjörin er af hluthöfum á aðalfundi annað hvert ár. Starfsreglur tilnefningarnefndar má finna hér á vefsíðu Sjóvá.
Nefndin markar starfskjarastefnu sem miðar að því að félagið sé ávallt samkeppnishæft og geti ráðið til sín framúrskarandi starfsfólk. Stefnan nær yfir helstu atriði í starfs- og launakjörum forstjóra, stjórnenda og starfsmanna og skal fylgja mannréttindastefnu félagsins ásamt því að taka afstöðu til áhrifa launa á áhættutöku og -stýringu félagsins í samráði við endurskoðunarnefnd. Starfskjarastefnu skal endurskoða árlega og skal greiða atkvæði um hana á aðalfundi. Starfskjaranefnd er skipuð þremur stjórnarmönnum móðurfélags. Starfskjarastefnu má finna hér á vefsíðu Sjóvá.
Endurskoðunarnefnd Sjóvár er skipuð þremur nefndarmönnum. Aðalfundur tilnefnir tvo nefndarmenn og stjórn þann þriðja. Hlutverk nefndarinnar er einkum að hafa

eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila, áhættustýringu og virkni innra eftirlits, jafnframt hefur nefndin umsjón með mati á innri og ytri endurskoðendum. Starfsreglur endurskoðunarnefndar má finna hér á vefsíðu Sjóvá.
Sjálfbærninefnd Sjóvár hefur það hlutverk að styðja við og styrkja stöðu félagsins á sviði sjálfbærni og UFS þátta, þ.e. umhverfismála, félagsþátta og stjórnarhátta. Stjórn félagsins skipar fulltrúa í sjálfbærninefnd sem í sitja auk hans forstjóri, fjármálastjóri og sérfræðingar úr hópi starfsmanna. Fulltrúi stjórnar er jafnframt formaður nefndarinnar. Stefnu um sjálfbærni og samfélagsábyrgð má finna hér á vefsíðu Sjóvá.
Hlutverk nefndarinnar er að vera framkvæmdastjórn samstæðunnar til stuðnings við greiningu og stýringu á þeim áhættum sem félögin standa frammi fyrir. Áhættu- og öryggisnefnd hefur einnig yfirumsjón með því að unnið sé að samhæfðri áhættustýringu. Nefndin skal hafa yfirsýn yfir virkni gæðakerfis, innra eftirlit og að öryggismál séu ávallt í takti við þarfir félaganna og uppfylli lög og reglur. Nefndin rýnir áhættustefnu, ORSA stefnu, upplýsingaöryggisstefnu, upplýsingatæknistefnu, stefnu um útvistun, stefnu um gæði gagna og gæðastefnu áður en þær eru lagðar fyrir stjórn til samþykktar. Framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar kynnir fyrir áhættu- og öryggisnefnd sem og tryggingastærðfræðingi þá samninga sem í gildi eru og þær breytingar sem hann áætlar að fara í og leita tilboða fyrir. Þegar tilboð liggja fyrir um endurtryggingakjör kynnir framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar tilboð fyrir áhættu- og öryggisnefnd og tryggingastærðfræðingi sem og þær forsendur sem endurtryggingarsamningum fylgja. Í nefndinni sitja áhættustjóri sem er formaður nefndarinnar, forstjóri og framkvæmdastjórn.
Nefndin gegnir lykilhlutverki í stýringu áhættu tengdri fjárfestingum. Í reglum stjórnar Sjóvár annars vegar og Sjóvá lífs hins vegar um fjárfestingastarfsemi félaganna eru skýrðar heimildir forstjóra, og framkvæmdastjóra Sjóvá lífs, til ákvarðana um fjárfestingar án fyrirfram ákveðins samþykkis stjórnar. Fjárfestinganefnd, sem skipuð er forstjóra, framkvæmdastjóra fjármála og upplýsingatæknisviðs, forstöðumanni fjárfestinga og staðgengli forstöðumanns fjárfestinga, fer sameiginlega með fjárfestingaumboð forstjóra. Hlutverk nefndarinnar er að hafa yfirumsjón með fjárfestingum samstæðunnar og ber nefndin ábyrgð á að rýna fjárfestingastefnurnar og bera undir stjórnir til samþykktar að minnsta kosti einu sinni á ári.
Upplýsingaöryggisnefnd Sjóvá samstæðunnar fer yfir mál tengd upplýsingaöryggi félagsins. Nefndina leiðir forstöðumaður UT sem ásamt honum er skipuð framkvæmdastjóra fjármála og upplýsingatækni, þróunarstjórar vef og SAP lausna, rekstrarstjóri UT, sem er jafnframt öryggisstjóri UT ásamt sérfræðing gæðamála hjá UT og upplýsingaöryggisfulltrúa. Nefndin hittist að jafnaði fjórum sinnum á ári og fer yfir niðurstöður endurskoðunar og öryggisúttekta, skráningu frávika og aðra rýni tengda upplýsingaöryggi.
Sjóvá hefur tilnefnt persónuverndarfulltrúa sem einstaklingar geta haft samband við

með öll mál er tengjast vinnslu persónuupplýsinga þeirra og hvernig þeir geta neytt réttar síns samkvæmt lögum um persónuvernd. Að auki starfar samstarfshópur um mál er snúa að persónuvernd og álitamálum þar um er upp kunna að koma.
Fjögur lykilstarfssvið samkvæmt Solvency II reglugerðinni eru starfrækt en það eru áhættustýring, starfssvið tryggingastærðfræðings, innri endurskoðun og regluvarsla. Einingarnar áhættustýring, starfssvið tryggingastærðfræðings og regluvarsla heyra beint undir forstjóra. Innri endurskoðun er útvistað og heyrir beint undir stjórn.
Deildin hefur yfirumsjón með samhæfðri áhættustýringu og eftirliti, sem nær til allra rekstrarþátta félaganna, og tryggir viðeigandi umgjörð samhæfðar áhættustýringar og gjaldþolsreglna. Einingin heyrir beint undir forstjóra sem tryggir sjálfstæði hennar og hefur einingin víðtækar heimildir til upplýsingaöflunar. Forstöðumaður áhættustýringar ber einnig ábyrgð á mótun og verkstjórn með reglum um greiningu áhættuþátta. Hann leiðir vinnu við áhættustefnu félagsins, sem lýsir umgjörð áhættustýringar, í samstarfi við stjórnir og framkvæmdastjórn félaganna, þ.m.t. að skilgreina áhættumælikvarða og þolmörk með stjórnum. Einnig leiðir hann áhættu- og öryggisnefnd sem m.a. mótar áhættustefnu félaganna og endurskoðar hana. Nefndin hefur eftirlit með að reglum um áhættustýringu sé framfylgt og ber ábyrgð á því að gripið sé til viðeigandi aðgerða. Forstöðumaður áhættustýringar ber ábyrgð á eftirliti með áhættustefnum. Auk þeirra krafna um hæfi og hæfni sem getið er í lögum nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi er gerð krafa um víðtæka þekkingu áhættustjóra á áhættustýringu og umtalsverða reynslu af störfum á sviði áhættustýringar.
Tryggingastærðfræðingur ber meðal annars ábyrgð á útreikningi á vátryggingaskuld. Eftirfarandi þættir eru á starfssviði tryggingastærðfræðings auk ofangreinds; mat á gæðum gagna sem notuð eru við útreikninga á vátryggingaskuld, upplýsingar til stjórnar um áreiðanleika vátryggingaskuldar, álit tryggingastærðfræðings á áhættutöku félaganna vegna vátrygginga, álit á endurtryggingavernd félaganna, ábyrgð á útreikningi gjaldsþolskröfu SCR og hann gætir að samkvæmni sé á milli gjaldþolskröfu og yfirfærslu vátryggingaáhættu. Þá eru skýrslur til Fjármálaeftirlitsins á ábyrgð hans sem og skýrsla um gjaldþol og fjárhagslega stöðu í samvinnu við áhættustýringu.
Innri endurskoðun er útvistað. Stjórnir Sjóvár og Sjóvá lífs ráða innri endurskoðanda og endurskoðunarnefnd metur óhæði hans og hefur eftirlit með störfum hans. Innri endurskoðun veitir óháða og hlutlæga staðfestingu og ráðgjöf sem er virðisaukandi og bætir rekstur félaganna. Innri endurskoðandi hefur ótakmarkaðan aðgang að öllum þáttum í starfsemi Sjóvár sem tryggir að hann nái markmiðum endurskoðunar. Innri endurskoðandi fer yfir niðurstöður sínar á fundi með stjórnendum annars vegar og endurskoðunarnefnd og stjórn hins vegar. Formaður endurskoðunarnefndar er ábyrgðarmaður vegna útvistunar.

Regluvarsla ber ábyrgð á að fylgjast með og meta reglulega stefnur, verkferla og verklagsreglur Sjóvár sem miða að því að félögin, stjórnir og starfsmenn þess starfi í samræmi við lög, reglur og önnur stjórnvaldsfyrirmæli. Regluvörður metur áhrif lagabreytinga á starfsemi félaganna og veitir ráðgjöf til stjórna og starfsmanna. Forstjóri skal ráða regluvörð og skal stjórn samþykkja ráðningu hans og er hann sjálfstæður í störfum sínum. Regluvörður mótar og viðheldur hlítingarstefnu ásamt því að greina og meta hlítingaráhættu. Hann ber ábyrgð á eftirliti með hlítingaráhættu og að hún sé auðkennd og metin innan félaganna. Þá hefur hann umsjón með því að reglum félagsins um viðskipti aðila á innherjalista og meðferð innherjaupplýsinga sé framfylgt og að eftirfylgni sé í samræmi við lög um aðgerðir gegn markaðssvikum og reglur Fjármálaeftirlitsins nr. 1050/2012 um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja. Innri endurskoðandi skal hafa eftirlit með störfum regluvarðar.
Steinunn Guðjónsdóttir tók við af Hermanni Björnssyni sem framkvæmdastjóri Sjóvá líf og á sama tíma tók Þórir Óskarsson við starfsviði tryggingastærðfræðings af Steinunni. Þá tók Ásta Björg Ingadóttir við nýju hlutverki sem forstöðumaður Tekjustýringar, sem er ný eining á Sölu og ráðgjafasviði Sjóvá og kemur í staðinn fyrir stofnstýringu.
Starfskjarastefnan nær yfir helstu atriði í starfs- og launakjörum forstjóra, stjórnenda og starfsmanna félagsins. Við framkvæmd stefnunnar skal jafnframt farið eftir mannréttindastefnu félagsins sem kveður á um að starfsfólk skuli fá greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu og jafnverðmæt störf, óháð kyni. Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir allt starfsfólk óháð kyni eða öðrum ómálefnalegum þáttum. Starfskjarastefnu má finna hér á vefsíðu Sjóvá.
Starfskjör stjórnarmanna eru ákveðin fyrir komandi starfsár á aðalfundi félagsins ár hvert. Skulu laun stjórnarmanna taka mið af þeim tíma sem þeir þurfa að verja til starfsins og þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir.
Starfskjör forstjóra félagsins skulu ítarlega tilgreind í skriflegum ráðningarsamningi þar sem skýrt kemur fram hver eru föst laun, lífeyrisréttindi, orlof, önnur hlunnindi og uppsagnarfrestur. Við gerð ráðningarsamnings skal haft að leiðarljósi að ekki komi til frekari greiðslna við starfslok en fram koma í ráðningarsamningi. Einungis er heimilt við sérstök skilyrði, að mati stjórnar, að gera sérstakan starfslokasamning við forstjóra. Skal sérstaklega færa þá ákvörðun til bókar á stjórnarfundi ásamt röksemdum.
Starfskjör allra starfsmanna skulu ítarlega tilgreind í skriflegum ráðningarsamningi þar sem skýrt kemur fram hver eru föst laun, lífeyrisréttindi, orlof, önnur hlunnindi og uppsagnarfrestur. Einungis er heimilt að gera sérstakan starfslokasamning við æðstu stjórnendur og gilda sömu skilyrði og hjá forstjóra, eins og kemur fram hér að ofan.
Í árslok 2024 áttu forstjóri og framkvæmdastjórar félagsins 1.506 þús. hluti í félaginu og hlutafé í Sjóvá í eigu stjórnarmanna og tengdra félaga voru 222.843 þús. hlutir.
Stjórn félagsins er heimilt að greiða starfsmönnum og stjórnendum árangurstengdar greiðslur, kaupauka, sem stjórnin samþykkir að fengnu áliti starfskjaranefndar. Með kaupauka er átt við greiðslur og hlunnindi til starfsmanns, meðal annars reiðufé, sérstakar lífeyrisgreiðslur og kaupréttir, tengdum fyrir fram ákveðnum og mælanlegum árangursviðmiðum að teknu tilliti til heildarafkomu og framtíðarstefnu vátryggingafélagsins yfir lengri tíma, undirliggjandi áhættu og fjármagnskostnaðar þess. Greiðslan er ekki þáttur í föstum starfskjörum starfsmanns, þar sem endanleg fjárhæð eða umfang greiðslu liggur ekki fyrir með nákvæmum hætti fyrirfram. Einungis er um að ræða heimild en ekki skyldu félagsins til greiðslu kaupauka. Kaupauki til starfsmanna og stjórnenda skal uppfylla kröfur 51. gr. laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi og skal samtala veitts kaupauka til starfsmanns, þ.m.t. á grundvelli kauprétta, á ársgrundvelli ekki nema hærri fjárhæð en 25% af árslaunum viðkomandi án kaupauka. Félaginu er óheimilt að veita lán eða ábyrgðir af nokkru tagi í tengslum við úthlutun kaupauka.
Félaginu er heimilt að setja á stofn kaupaukakerfi í formi kauprétta sem hafi það að markmiði að tengja hagsmuni starfsmanna félagsins við hluthafa, auk þess að hjálpa til við að laða að hæft starfsfólk og auka tryggð innan félagsins við afkomu og langtímamarkmið félagsins og hluthafa þess. Í því skyni hefur félagið sett sér kaupréttaráætlun sem uppfyllir skilyrði 10. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 51. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi. Var það gert á árinu 2024, í samræmi við heimild aðalfundar félagsins þann 7. mars 2024. Stjórn er heimilt að útfæra frekari kaupréttaráætlanir og kaupréttarsamninga á grundvelli mælikvarða um árangur fyrir stjórnendur og aðra starfsmenn sem skal lögð fyrir hluthafafund félagsins til samþykktar. Slíkar kaupréttaráætlanir og kaupréttarsamningar gerðir á grundvelli þeirra skulu almennt miða við að fjárhagslegir mælikvarðar um árangur (s.s. um arðsemi eiginfjár félagsins, eiginfjárhlutfall, samsett hlutfall, lausafjárhlutfall og annan rekstrarárangur) vegi um 50%, en um 50% ráðist af stefnumarkandi markmiðum í rekstri félagsins, s.s. fylgni við lög og reglur, kostnaðarvitund, umbótavilja, ánægju viðskiptavina og áhættuvitund starfsmanns.
Hluti stjórnenda á hlutafé í Sjóvá og engin kaup eða sölur voru gerðar af þeim eða aðilum þeim nátengdum á árinu 2024. Öllum fastráðnum starfsmönnum félagsins stóð til boða að gera kaupréttarsamning við félagið og gerðu allir framkvæmdastjórar félagsins samning í samræmi við kaupréttaráætlun félagsins. Um er að ræða kauprétt að hlutabréfum að hámarksfjárhæð, 1.500.000 kr. á ári í 3 ár og skal slíkum hlutabréfum fylgja sömu réttindi og öðrum hlutabréfum í félaginu.
Viðskipti við tengda aðila, þ.e. við aðila sem hafa veruleg áhrif á félagið, stjórnarmenn,

stóra hluthafa, forstjóra, lykilstjórnendur, endurskoðunarnefnd og aðra aðila þeim tengdum, eru einungis tryggingaviðskipti. Viðskipti við þessa tengdu aðila eru gerð á sambærilegum grundvelli og viðskipti við ótengda aðila og eru ekki veigamikil. Í heildina eru tekjur vegna tengdra aðila 139 m.kr. og gjöld 132 m.kr. vegna ársins 2024.
Kröfur eru gerðar um færni, þekkingu og sérfræðikunnáttu þeirra er stjórna fyrirtækinu og ábyrgðarmanna lykilstarfssviða þess. Fyrir ráðningu í starf eru skilgreindar kröfur um viðeigandi menntun og reynslu og lagt mat á færni sem fram kemur í ferilskrá viðkomandi. Leitast er við að senda aðila í persónuleikapróf og hæfnismat eftir því sem við á ásamt því að kanna umsagnir meðmælenda. Fyrir upphaf starfstíma skulu aðilar skila inn staðfestingu á menntun og sakavottorði.
Tilnefningarnefnd fór yfir lykilhæfni og þekkingu fyrir stjórn Sjóvá, sem nefndin hafði áður skilgreint. Í kjölfarið lagði hún mat á þekkingu og hæfni frambjóðenda út frá lykilhæfniramma sem sjá má í töflu B.1.
| Lykilhæfni og þekking | Grunnhæfni | Persónuhæfni | Áherslur |
|---|---|---|---|
| Stjórnunarreynsla í stórum fyr irtækjum |
Rekstrarþekking | Gott siðferði | Áhersla á langtíma ávinning hluthafa |
| Reynsla af tryggingamarkaði | Fjármálaþekking | Framsýni | Áhersla á jafnrétti og fjölbreytileika |
| Reynsla af fjármálamarkaði | Lögfræðiþekking | Geta til að taka erf iðar ákvarðanir |
|
| Reynsla af áhættustjórnun | Stjórnunarþekking | Ákveðni | |
| Sérþekking á lögum | Tækniþekking | Góður liðsmaður | |
| Reynsla og skilningur á mark aðsmálum |
Endurskoðun | Samstarfshæfni | |
| Reynsla af langtíma stefnumót un |
Setur fyrirtækið í forgang |
||
| Reynsla af stjórnarsetu | Hæfni til að spyrja réttu spurninganna |
Tafla B.1: Lykilhæfni og þekking stjórn Sjóvá.
Við mat á tilnefningum til stjórnar horfir tilnefningarnefnd til þess að stjórnin myndi sterka og faglega heild í þágu félagsins og hluthafa þess. Æskilegt er að einstakir stjórnarmenn búi að þekkingu og hæfni á sem flestum ofangreindum sviðum og að sem flestir þættir endurspeglist í sitjandi stjórn. Aðrir þættir s.s. þekking á starfsemi félagsins, samfella í stjórnun, aðstaða frambjóðenda til að sinna þeim krefjandi verkefnum sem stjórnarseta felur í sér, kynjahlutföll, aldursdreifing og fleiri þættir komu einnig til skoðunar við gerð endanlegrar tillögu tilnefningarnefndar.

Auk fyrrnefndra krafna í B.2.1 hefur Sjóvá sett fram hæfismat fyrir ábyrgðarmenn lykilstarfssviða sem byggir í grunninn á sömu efnisþáttum og teknir eru fyrir í mati Fjármálaeftirlitsins á hæfi forstjóra vátryggingafélaga. Er tilgangur hæfismatsins jafnframt sá hinn sami, þ.e. að kanna þekkingu, skilning og viðhorf til helstu efnisatriða sem tengjast starfssviði viðkomandi lykilstarfsmanns. Fjármálaeftirlitið metur hæfi forstjóra og stjórnarmanna. Árlegt mat er framkvæmt á hæfi forstjóra og formanna stjórna af hálfu stjórna. Stjórnir framkvæma árlega mat á eigin störfum.
Áhættustefna lýsir umgjörð samhæfðrar áhættustýringar hjá móðurfélaginu Sjóvá og hjá dótturfélaginu Sjóvá líf. Áhættustefnan er sett í samræmi við lög um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016. Stefnan er rýnd árlega og var núverandi stefna samþykkt af stjórn móðurfélags í desember 2024 og stjórn Sjóvá lífs í janúar 2025. Samhæfð áhættustýring er einn af grunnþáttum í stjórnkerfi og felur í sér sjálfsmat á öllum fyrirsjáanlegum áhættum starfseminnar. Samhæfð áhættustýring er höfð til grundvallar í skipulagi og ákvarðanatöku og hefur verklag verið innleitt til að greina, mæla og draga úr og/eða dreifa áhættum sem steðjað geta að í rekstri með það að markmiði að vernda félögin, viðskiptavini og vátryggða.
Áhættustýring nær yfir þá áhættuþætti sem notaðir eru við útreikning á gjaldþolskröfu; vátryggingaáhættu, áhættu við eigna- og skuldastýringu, markaðsáhættu, lausafjáráhættu, samþjöppunaráhættu, rekstraráhættu, eiginfjáráhættu og áhættu vegna mótaðila og endurtryggingaverndar. Í útreikningi á gjaldþolskröfu er jafnframt tekið tillit til tapgleypni frestaðra skatta.
Félögin hafa skilgreint ábyrgðaraðila og áhættumælikvarða fyrir einstaka áhættuþætti ásamt áhættuvilja og þolmörk fyrir mælikvarðana. Áhættuvilji segir til um hvar eftirsóknarvert sé að félögin standi en þolmörk segja til um hvar fullnægjandi er að félögin standi. Ef mæling reynist umfram þolmörk skal forstöðumaður áhættustýringar eða áhættu- og öryggisnefnd upplýst um það. Frávik frá áhættustefnu skulu kynnt stjórn á næsta stjórnarfundi nema frávik á rekstrarhæfi félaganna sem skulu tilkynnt stjórnum tafarlaust. Lögð er rík áhersla á ábyrgð stjórnenda á áhættum sem tengjast þeirra ábyrgðarsviði. Þá kemur forstöðumaður áhættustýringar reglulega fyrir stjórnir til að fjalla um starfsemi áhættustýringar, áhættuskýrslu og eigið áhættu- og gjaldþolsmati (ORSA).
Forstöðumaður áhættustýringar og tryggingastærðfræðingur hafa eftirlit með Solvency II tilskipuninni hjá Sjóvá. Forstöðumaður áhættustýringar leiðir áhættustýringu og hefur eftirlit með samhæfðri áhættustýringu og áhættumælingum og að unnið sé í samræmi við áhættustefnu. Hann ber einnig ábyrgð á skýrslugjöf til stjórnar varðandi áhættustýringu. Þá ber forstöðumaður áhættustýringar ábyrgð á ORSA og hefur eftirlit


Mynd B.2: Áhættustefnur
með að framkvæmdar séu áhættugreiningar á öllum þáttum í starfseminni.
Áhættu- og öryggisnefnd endurskoðar reglulega uppbyggingu áhættustýringar, yfirfer helstu áhættur með ábyrgðaraðilum og tekur ákvörðun um umfang endurtryggingaverndar.
Áhættustýring hefur eftirlit með hlítingu fjárfestingastefna en hún rammar inn þær fjárfestingaheimildir sem stjórnir hafa sett. Ársfjórðungslega er lagt mat á gjaldþol en oftar ef þörf krefur. Í reglum um fjárfestingastarfsemi og fjárfestingarstefnum er skilgreint í hvaða tilfellum það er.
Félögin hafa komið upp verklagi sem tryggir að stjórnendur og starfsmenn fái þjálfun í að þekkja áhættur sem geta haft áhrif á rekstur, viðskiptavini og vátryggða. Þetta verklag segir jafnframt til um hvernig skuli tilkynna, skrá, meta, mæla, stýra og/eða milda þær áhættur sem um ræðir og víxltengsl milli þeirra. Einnig leggur framkvæmdarstjórn mat á þær áhættur sem skipta reksturinn hvað mestu máli og eru stærstar á líðandi stundu, svokallaðar ORSA áhættur.
Að minnsta kosti árlega er framkvæmt eigið áhættu- og gjaldþolsmat (ORSA) til að greina og meta áhættur félagsins og til að meta virkni áhættustýringar og gjaldþolskröfu, bæði núverandi sem og sýn til framtíðar. Matið er einnig framkvæmt við stórfelldar breytingar eða þegar nýjar áhættur yfir ákveðnu umfangi greinast eða skapast í rekstri eða starfsemi. Í stefnu stjórnar um ORSA kemur fram að fari gjaldþolshlutfall undir skilgreindan áhættuvilja stjórnar þá skuli fara fram nýtt áhættu- og gjaldþolsmat.
Í tengslum við gerð rekstraráætlunar er stillt upp efnahagsreikningi sem lýsir sýn Sjóvár til fimm ára. Niðurstaðan er kynnt stjórn til samþykktar og liggur því til grundvallar stefnumótunar. Stjórn og framkvæmdastjórn koma að yfirferð og mati á stærstu

Mynd B.3: Áhættustýring - verklag og nefndir
áhættum og er markvisst unnið að því að tilgreina, meta og mæla þær áhættur sem félagið samþykkir.
Gjaldþolskröfur Sjóvár og Sjóvá lífs eru reiknaðar samkvæmt svokallaðri staðalreglu sem gefin er út af EIOPA (European Insurance and Occupational Pension Authority) og lagt mat á hve vel reglan á við starfsemi og áhættusnið. Markmiðið er að leggja mat á hvort reiknað heildargjaldþol sé nægilegt miðað við undirliggjandi áhættur. Á heildina litið telja félögin staðalregluna lýsandi fyrir áhættusnið samstæðunnar þó ákveðnir þættir séu kannaðir sérstaklega. Í eigin áhættu- og gjaldþolsmati eru þeir þættir útlistaðir og eigið mat á gjaldþolskröfunni birt. Félögin meta niðurstöðu beggja útreikninga en styðjast við niðurstöður staðalreglunnar. Heimilt er skv. 104. gr. laga nr. 100/2016 að nota eigið líkan telji Sjóvá áhættusnið víkja verulega frá staðalreglunni. Ekki eru áform um hjá Sjóvá að sækja um eigið líkan.
Innra eftirlitskerfi Sjóvár er ferli sem mótað er af stjórn, stjórnendum og starfsmönnum. Komið hefur verið á virku innra eftirlitskerfi sem á að veita hæfilega vissu um að félögin nái settum markmiðum sínum, bæði fjárhags- og stjórnunarlegum, að veittar séu réttar og áreiðanlegar fjárhags- og ófjárhagslegar upplýsingar á réttum tíma og að starfað sé í samræmi við lög, reglugerðir og innri reglur. Árlega er rýnd stefna um innra eftirlit, nú síðast í október 2024. Innra eftirlitskerfið skiptist í eftirlitsumhverfið, áhættumat, eftirlitsaðgerðir, upplýsingar og samskipti og stjórnendaeftirlit.
Þriggja þrepa líkan hefur verið innleitt með það að markmiði að hjálpa félaginu að

ná settum markmiðum, stuðla að sterkri stjórnsýslu og áhættustýringu og tryggja skilvirk samskipti.
Fyrsta þrep samanstendur af stjórnendum og almennu starfsfólki sem sér um daglegan rekstur. Fyrsta þrep er ábyrgt fyrir daglegri starfsemi, mati á áhættu, fylgni við lög og reglur, framkvæmd innra eftirlits og stýringu áhættu byggðri á stefnum og verklagsreglum og tryggir hún fylgni við lög, reglur og innri stefnur félagsins. Því er ætlað að koma á og viðhalda viðeigandi skipulagi og ferlum fyrir stjórnun á rekstri og áhættu, þ.m.t. innra eftirliti og stýringu fjármagns til að ná settum markmiðum.
Annað þrep samanstendur af eftirlitseiningunum áhættustýringu, regluvörslu og starfssviði tryggingastærðfræðings ásamt innri úttektum. Það aðstoðar við áhættumat og mótun innra eftirlitskerfis félagsins og er hlutverk þess stuðningur og eftirlit með fyrsta þrepi, m.a. að farið sé að stjórnvaldsfyrirmælum og innri stefnum.
Að lokum er þriðja og síðasta þrep og undir það fellur innri endurskoðandi, sem er sjálfstæður og óháður í störfum sínum. Mikilvægt er að öll þrjú þrepin vinni þétt saman sem skapar skilvirkt eftirlitskerfi og stjórnkerfi. Líta má svo á að ytri endurskoðandi og vottunaraðilar séu hluti af svokallaðri fjórða þrepi, þar sem það er ekki hluti af innra eftirlitinu, en gegnir samt sem áður mikilvægu hlutverki fyrir félagið.

Mynd B.4: Þriggja þrepa líkan
Eftirlitskerfið samanstendur af stefnum, ferlum og öðrum gæðaskjölum félaganna. Það byggir meðal annars á samtímaeftirliti, skráningu og meðhöndlun á áhættum, ábendingum, áhættugreiningum, úrbótaverkefnum, sem og athugasemdum innri úttekta, endurskoðenda og annarra eftirlits- og úttektaraðila. Reglulega er farið yfir skráningar í kerfinu í áhættu- og öryggisnefnd. Þessi atriði geta orðið hluti af þeim áhættum sem félögin telja vera helstu áhættur. Endurskoðunarnefndir hafa eftirlit með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlitsins. Innri endurskoðendur framkvæma endurskoðun og úttektir
Sjóvá kt. 650909-1270 - Sjóvá Líf kt. 680568-2789 Kringlunni 5, 103 Reykjavík [email protected] 30

til að tryggja hæfilega vissu um að félögin nái árangri og skilvirkni í starfseminni. Innri úttektir eru framkvæmdar af starfsmönnum sem hafa fengið sérstaka þjálfun til þess. Tilgangur innri úttekta er að sannreyna hvort að unnið sé eftir skráðum stefnum, reglum og verkferlum.
Í gegnum gæðakerfi hefur Sjóvá innleitt skilvirkt stjórnkerfi sem inniheldur skráð verklag og skýra skiptingu ábyrgðar. Gæðakerfið gegnir lykilhlutverki í stýringu áhættu. Stjórnendur bera ábyrgð á að starfsmenn fylgi skráðu verklagi í gæðakerfinu en áhersla er lögð á að hver og einn starfsmaður beri ábyrgð á gæðum vinnu sinnar, þjónustu og upplýsingaöryggi. Öll skjöl í gæðakerfinu hafa ábyrgðaraðila sem skal rýna þau árlega. Fylgst er með framkvæmd verklags í reglulegum innri úttektum sem og í innri og ytri endurskoðun. Gæðastjóri ber ábyrgð á því að gæðakerfið sé virkt og sé áreiðanlegur vegvísir fyrir starfsfólk.
Regluvörður hefur eftirlit með skráningu á innherjalista og meðferð innherjaupplýsinga. Regluvörður hefur eftirlit með skráningu á lista yfir einstaklinga sem gegna stjórnunarstöðu eða aðila nákomna þeim, móttekur tilkynningar um viðskipti þessara aðila og ber ábyrgð á að upplýsingar um viðskipti þeirra séu gerð opinberar. Regluvörður skráir samskipti sem fara fram á grundvelli laga um aðgerðir gegn markaðssvikum í samskiptaskrá, auk þess sem hann sér reglulega um fræðslu til stjórnarmanna, stjórnenda og starfsmanna félagsins. Hann hefur eftirlit með breytingum á almennum lögum og reglum er varðar starfsemina. Mótuð og innleidd hefur verið hlítingarstefna og -áætlun. Nánar er fjallað um starfssvið regluvörslu í kafla B.1.1.4.
Stjórnir Sjóvár og Sjóvá lífs ráða innri endurskoðanda en endurskoðunarnefndir meta óhæði hans og hafa eftirlit með störfum hans, en starfssviðið heyrir beint undir stjórn. Félögin tryggja að innri endurskoðandi sinni ekki öðrum störfum tengdum rekstri félaganna og að hann sé ekki undir ótilhlýðilegum áhrifum annarra starfssviða, þ.m.t. lykilstarfssviða, þetta er m.a. tryggt með útvistun starfssviðs. Við endurskoðun og við mat og upplýsingagjöf á niðurstöðum endurskoðunar, tryggja félögin að innri endurskoðandi sé ekki háður áhrifum stjórnar eða framkvæmdastjórnar sem getur skert sjálfstæði og óhlutdrægni hans. Árlega leggur innri endurskoðandi fram endurskoðunaráætlun til samþykktar af endurskoðunarnefndum og stjórnum en áætlunin er hluti af þriggja ára endurskoðunaráætlun. Notast er við áhættumiðaða nálgun við ákvörðun um forgangsröðun. Innri endurskoðandi hefur ótakmarkaðan aðgang að öllum þáttum í starfsemi samstæðunnar sem tryggir að hann nái markmiðum endurskoðunar. Innri endurskoðandi hefur samskipti við ytri endurskoðanda og fær ytri endurskoðandi aðgang að skýrslum innri endurskoðanda þegar niðurstöður liggja fyrir. Helstu verkefni innri endurskoðunar er að greina og meta hvort eftirlitsferlar eða -kerfi séu viðeigandi og skilvirk. Skýrslur innri endurskoðanda eru kynntar stjórnendum, afhentar og

kynntar endurskoðunarnefndum til umsagnar áður en þær eru kynntar stjórnum. Innri endurskoðandi fundar reglulega með forstjóra, endurskoðunarnefndum og stjórnum. Árlega er haldinn sérstakur fundur þar sem stjórn, endurskoðunarnefnd og ytri og innri endurskoðendur fjalla um innra eftirlit og áhættustýringu.
Helstu verkefni eru útreikningur vátryggingaskuldar, útreikningur á gjaldþolskröfu og lágmarksfjármagni, gæði gagna, skýrsluskil til Fjármálaeftirlitsins, aðkoma að eigið áhættu og gjaldþolsmati í samvinnu við áhættustjóra auk þess að gefa álit á áhættutöku og endurtryggingavernd.
Í samræmi við útvistunarstefnu skal ávallt metið hvort verkefni eða þjónusta geti talist útvistun eða ekki. Ef verkefnið/þjónustan telst hluti af reglulegri starfsemi Sjóvá og ef um viðvarandi samningssamband við útvistunaraðila er að ræða telst það útvistun sem fellur undir útvistunarstefnu. Kaup á hugbúnaðarleyfum flokkast ekki sem útvistun.
Til mikilvægra útvistunarverkefna samkvæmt stefnu Sjóvá flokkast:
Sjóvá útvistar verkefnum ef það er talið leiða til eins eða fleiri eftirtalinna þátta: minni áhættu, aukins öryggis, lægri kostnaðar eða aukinna afkasta.
Útvistun tekur mið af innri stefnum Sjóvá, sérstaklega upplýsingatæknistefnu, upplýsingaöryggisstefnu og áhættustefnum.
Sjóvá tekur tillit til þess að útvistun komi ekki í veg fyrir góða stjórnarhætti og að útvistun feli ekki í sér óþarfa áhættu fyrir rekstur félagsins, þ.á.m. orðspors- og samþjöppunaráhættu.
Sjóvá metur áhættu af fyrirhugaðri útvistun verkefna á grunni undirliggjandi rekstraráhættu sem leiðir af eðli og umfangi þeirra. Við slíkt mat skal horft til þess hvort útvistun kunni að leiða til hagsmunaárekstra. Mat skal endurskoða ef upp koma alvarlegir ágallar á virkni útvistaðra verkefna eða upplýsingar um verulegar breytingar á þjónustu eða högum útvistunaraðila.
Sjóvá kt. 650909-1270 - Sjóvá Líf kt. 680568-2789 Kringlunni 5, 103 Reykjavík [email protected] 32

Sjóvá leitast ávallt við að tryggja að útvistunaraðili búi yfir tilskilinni hæfni til að sinna útvistuðum aðgerðum.
Forstjóri og framkvæmdastjórar geta tekið endanlega ákvörðun um útvistun verkefna og skulu allir samningar sem tengjast útvistun yfirfarnir og undirritaðir af forstjóra eða framkvæmdastjóra sem ber ábyrgð á þeim verkefnum sem verið er að útvista.
Eftirfarandi mikilvægum verkefnum hefur verið útvistað: innri endurskoðun, hýsingu og grunnrekstri upplýsingakerfa, almennum grunnrekstri SAP, milliinnheimtu vanskilakrafna og samskiptaforriti. Hjá Sjóvá líf er allri almennri starfsemi útvistað til móðurfélagsins. Öll útvistun á mikilvægri starfsemi og verkefnum er innan íslenskrar lögsögu.
Áður en verkefnum er útvistað metur Sjóvá áhættu af fyrirhugaðri útvistun verkefna út frá undirliggjandi rekstraráhættu sem leiðir af eðli og umfangi þeirra. Við slíkt mat er horft til þess hvort útvistun kunni að leiða til hagsmunaárekstra. Mat er endurskoðað ef upp koma alvarlegir ágallar á virkni útvistaðra verkefna eða upplýsingar um verulegar breytingar á þjónustu eða högum útvistunaraðila. Þess er gætt að útvistun komi ekki í veg fyrir góða stjórnarhætti og að hún feli ekki í sér óþarfa áhættu fyrir rekstur félagsins, þ.á.m. orðspors- og samþjöppunaráhættu. Ávallt er leitast við að tryggja að útvistunaraðili búi yfir tilskilinni hæfni til að sinna útvistuðum verkefnum.
Sjóvá telur að stjórnkerfið sé virkt og fullnægjandi, miðað við eðli, umfang og flækjustig þeirrar áhættu sem fylgir rekstri félagsins, og er það mat í samræmi við niðurstöður innri úttekta sem framkvæmdar eru reglulega sem og árlegra úttekta innri og ytri endurskoðenda.
Ekki er um aðrar veigamiklar upplýsingar um stjórnkerfi að ræða en þær sem fram koma í köflum B.1-B.7.

Áhættustefna lýsir umgjörð samhæfðrar áhættustýringar hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf., móðurfélaginu, og hjá dótturfélaginu Sjóvá-Almennum líftryggingum hf. Áhættustefnan var sett saman í samræmi við lög um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016. Stefnan er rýnd árlega og var núverandi stefna samþykkt af stjórn móðurfélags í desember 2024 og stjórn Sjóvá lífs í janúar 2025.
Auk áhættustefnu hafa verið settar stefnur fyrir helstu áhættuþætti en þeir eru vátryggingaáhætta, áhætta við eigna- og skuldastýringu, markaðsáhætta, lausafjáráhætta, samþjöppunaráhætta, rekstraráhætta, eiginfjáráhætta og áhætta vegna mótaðila og endurtryggingaverndar. Félögin hafa skilgreint ábyrgðaraðila og stýringar fyrir einstaka þætti sem skilgreindir eru í viðeigandi stefnum.
Framkvæmdastjórn mótar og samþykkir reglulega mælikvarða sem fylgjast skal með sem tryggja hlítingu við áhættustefnu félaganna. Einnig er samþykkt hversu oft skal framkvæma mælingar fyrir hvern mælikvarða og hvaða aðili framkvæmdastjórnar ber ábyrgð á því að haldið sé utan um mælingar. Framkvæmdastjórn skilgreinir þolmörk fyrir þá mælikvarða sem við á, en aðrir mælikvarðar eru frekar ætlaðir til þess að fylgjast með þróun milli tímabila. Þolmörk skulu sett með tilliti til þess hvað framkvæmdastjórn telur starfsemina þola, þ.e. hvenær talin er ástæða til að flagga í áhættuskýrslu til stjórnar. Mótun þolmarka tekur mið af skilgreindum áhættuvilja sem lýsir vilja stjórnenda til áhættutöku til að ná markmiðum félaganna.
Ef niðurstöður mælinga leiða í ljós að mælikvarði liggur utan þolmarka ber að upplýsa áhættustjóra og/eða áhættu- og öryggisnefnd félagsins. Áhættustjóri tilkynnir stjórn frávikið strax eða í síðasta lagi í næstu ársfjórðungslegu áhættuskýrslu.
Í áhættuskýrslu sem er gefin út ársfjórðungslega og kynnt stjórnum má finna mælikvarða sem taldir eru endurspegla þróun áhættu félagsins.
Áhættan sem felst í hverjum vátryggingasamningi samanstendur af áhættu á að vátryggður atburður eigi sér stað og óvissu um endanlega tjónafjárhæð. Félögin hafa skilgreint vátryggingaáhættu sem áhættuna á tapi eða ófyrirséðri breytingu á virði vátryggingaskuldbindinga vegna ófullnægjandi verðlagningar eða mats á vátryggingaskuld. Markmiðið með stefnu um vátryggingaáhættu er að meta áhættu vegna sölu vátrygginga og meðhöndlunar tjóna á hlutlægan og samræmdan máta og ná áætlun samstæðunnar um afkomu. Helstu áhættuþættir vátryggingaáhættu eru sala vátrygginga og áhættumat, vöruþróun og verðlagning, afgreiðsla tjóna og mat á vátryggingaskuld.
Áhættan við sölu er að ófullnægjandi áhættumat liggi til grundvallar þannig að
verðlagning sé ekki í samræmi við áhættutöku. Einnig er hætta á að skráðu verklagi og verðstefnu sé ekki fylgt, sem og að misræmi sé á milli skilmála og þeirrar vöru sem viðskiptavinur telur sig vera að kaupa.
Áhættan við vöruþróun og verðlagningu er að iðgjaldaskrá og verðstefna endurspegli ekki vátryggingalega áhættu.
Áhættan við afgreiðslu tjóna er að bótaskylda sé ranglega ákvörðuð eða rangar bótafjárhæðir greiddar.
Áhættan við ófullnægjandi mat á vátryggingaskuld er að tjónin reynast verða hærri en mat gerir ráð fyrir.
Allir sem selja vörur félaganna skulu fylgja skráðu verklagi við sölu og ráðgjöf og tryggja þar með rétt og samræmd vinnubrögð. Áhættumat er lagt til grundvallar nýsölu. Verðlagning miðast við gögn um tjónasögu og skal fylgja verðstefnu.
Áhættunni er stýrt með ferlum sem fylgja ber í sölu á tryggingum og því áhættumati sem þar kemur fram. Helsta áhættan er að ekki reynist mögulegt að ná fullnægjandi iðgjöldum vegna markaðsaðstæðna eða vegna þess að mat á nægjanlegu iðgjaldi er ekki rétt.
Áhættan er takmörkuð með því að kaupa endurtryggingar á þeim áhættum sem metnar eru stærstar hjá félaginu. Ef tjónatíðni er vanmetin mun það koma niður á afkomu félagsins en endurtryggingavernd félagsins miðar að því að minnka tjónakostnað félagsins í stórum tjónum en tekur almennt ekki á tjónatíðni.
Til að tryggja rétta verðlagningu er reglulega fylgst með afkomu einstakra vátryggingagreina. Ef afkoma er ófullnægjandi eða tekur miklum breytingum er gerð ítarleg afkomugreining. Iðgjaldaskrár eru metnar og endurskoðaðar eftir þörfum með hliðsjón af fyrirliggjandi afkomugreiningum og er verðstefna byggð á niðurstöðum þeirra greininga. Leitast er við að tryggja að gæði gagna sem lögð eru til grundvallar séu heildstæð, nákvæm og viðeigandi og í samræmi við stefnu þar um. Gerð og uppfærsla skilmála fylgir skráðu verklagi.
Helstu áhættuþættir í verðlagningu er mat á væntu meðaltjóni, tjónatíðni eða samþjöppun áhætta. Rangt mat á væntu meðaltjóni getur m.a. stafað af breyttri tækni, breyttri samsetningu tjóna eða röngum verðbólguforsendum. Vanmat á tjónatíðni getur orsakast af breyttu umhverfi, tæknibreytingum eða breytingum á efnahagslegum aðstæðum. Samþjöppun áhætta getur stafað af einum atburði t.d. heimsfaraldri, ofsaveðri eða stórbruna.
Árlega ber forstöðumaður tekjustýringar ábyrgð á að fara yfir þær vátryggingategundir sem í gildi eru og meta hvort þörf sé á afkomugreiningu. Þörfin getur ýmist komið

vegna þróunar á afkomu eða vísbendingar í þá átt eða vegna ábendinga frá söluaðilum eða starfsmönnum tjónadeildar. Þá berast iðulega óskir um afkomugreiningu vegna hugmynda um vöruþróun, tjónaþróunar eða annarra atriða sem hafa áhrif á afkomu greinanna.
Til að tryggja að greidd tjón séu í samræmi við skilmála og að tjónakröfur séu afgreiddar innan settra tímamarka, skulu allir sem afgreiða tjón fylgja skráðu verklagi um skráningu tjóna, móttöku tjónstilkynninga, mati á bótaskyldu og bótafjárhæðum. Í siðareglum félagsins er m.a. kveðið á um að starfsfólk eigi ekki að afgreiða sig sjálft vegna eigin viðskipta, náinna skyldmenna eða vina.
Helstu áhættuþættir við mat á vátryggingaskuld eru breytingar á uppgjöri og afgreiðslu tjóna, lagalegur ágreiningur sem breytir uppgjörsaðferðum og áhrif vaxtabreytinga og verðbólgu á greinar sem hafa langan uppgjörstíma (e. long-tail). Þar ber helst að nefna lögboðnar ökutækjatryggingar, ábyrgðartryggingar og atvinnuslysatryggingar. Mótvægi við hækkun tjónaskuldar vegna vaxta- og verðbólguáhrifa eru milduð með fjárfestingum í verðtryggðum eignum.
Vátryggingaskuld skiptist upp í tjónaskuld, iðgjaldaskuld og ágóðahlutdeild.
Tjónaskuld er reiknuð ársfjórðungslega. Heildarskuld er reiknuð niður á Solvency flokka og farið yfir þróun áætlana og greiðslna þess á milli. Niðurstaðan er borin saman við greidd tjón og áætlun tjónadeildar eftir hagnaðarstöðvum og tjónsárum.
Í ársfjórðungslegum útreikningi á gjaldþolskröfu (SCR) eru væntar skuldbindingar vegna bókaðra iðgjalda sem tekjufærast eftir uppgjörsdag reiknaðar samkvæmt reglum Solvency II. Þær skuldbindingar eru einungis notaðar í SII efnahagsreikningi sem er grunnur að gjaldþoli.
Í ágóðaskuld er áætluð stofnendurgreiðsla. Hluti iðgjalda er færður í ágóðaskuld og kemur til greiðslu 13 mánuðum síðar til tjónlausra viðskiptavina.
Uppsöfnun tjóna tengt einum atburði getur verið mikil og orsakað stórtjón. Endurtryggingavernd félaganna miðar að því að lágmarka tjón í hluta félaganna og kaup á endurtryggingavernd gegn stórtjónum í öllum vátryggingaflokkum. Atburður sem getur valdið stórtjóni er t.d. ofsaveður á öllu landinu, heimsfaraldur eða stórslys.
Samþjöppun getur einnig átt sér stað ef fleiri en ein áhætta kemur fyrir á einum stað eins t.d. í eignatryggingum. Ef samanlögð vátryggingafjárhæð (samáhætta) í brunatryggingu, lausafjártryggingu, og/eða rekstrarstöðvunartryggingu fer yfir ákveðið hámark skal fara fram sérstök áhættuskoðun.
Sjóvá kt. 650909-1270 - Sjóvá Líf kt. 680568-2789 Kringlunni 5, 103 Reykjavík [email protected] 36

Til viðbótar við ofangreinda endurtryggingavernd er keypt vernd fyrir skilgreindan 200 metra atburð samkvæmt Solvency II. Sá atburður miðast við stórbruna þar sem tiltekin er hæsta samanlagða vátryggða fjárhæð sem félagið er berskjaldað fyrir og rúmast innan 200 metra geisla miðað við gefna staðsetningu.
Í persónutjónum er keypt endurtryggingavernd ef stórslys verður, ökutækjaslys falla þó undir aðra endurtryggingasamninga.
Allir endurtryggjendur skulu hafa lánshæfiseinkunn að lágmarki A- hjá S&P eða sambærilegt frá öðrum matsfyrirtækjum. Komi til ósk um undanþágu þar á þarf Áhættu- og öryggisnefnd að samþykkja hana. Sérstök áhersla er lögð á að kortleggja alla samáhættu, þ.e. heildar vátryggingafjárhæð sem tengjast geta í sama atburði, þannig að öruggt sé að endurtryggingarvernd falli innan almennra (sjálfvirkra) endurtryggingasamninga félagsins ellegar keyptar verða sérstakar endurtryggingar þar á.
Áhættu- og öryggisnefnd tekur afstöðu til tilboða um endurtryggingar ásamt því að fara yfir álit tryggingastærðfræðings á gæðum endurtryggingaverndarinnar í samræmi við 272. grein reglugerðar 2015/35/EB og ákvarðar hvort félagið samþykki þá skilmála og eigin áhættu sem lögð er til.
Árlega skal tryggingastærðfræðingur taka saman áhrif reynslu á útreikninga vátryggingaskuldar. Tryggingastærðfræðingur skal yfirfara forsendur þeirra útreikninga sem notaðir eru við mat á vátryggingaskuld og bera saman við reynslu. Sé kerfisbundinn munur á besta mati á vátryggingaskuld og reynslu vátryggingafélags skal gera viðeigandi breytingar á þeim tryggingastærðfræðilegu aðferðum sem notaðar eru og, ef við á, þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar matinu.
Atburðir sem geta haft verulegar afleiðingar á afkomu vátryggingareksturs eru af ýmsum toga og hafa þær helstu verið tilgreindar hér að framan. Engu að síður er mikilvægt að vera stöðugt á varðbergi og fara yfir helstu áhættur sem geta steðjað að og munu hafa áhrif á afkomu félagsins. Þá er mikilvægt að gera sér grein fyrir umfangi áfalls og hve stórt það gæti orðið án þess að rekstur félagsins sé beinlínis í hættu.
Áhrif á gjaldþolshlutfall ef vanmat heildar tjónaskuldar reynist vera 10% annars vegar og 20% hins vegar koma fram á mynd C.1.
Í ársreikningi félagsins er eftirfarandi áhætta skoðuð og áhrif breytinga á afkomu hennar:

Mynd C.1: Gjaldþolshlutfall næmnigreining vátryggingaáhætta
Félögin hafa skilgreint markaðsáhættu sem áhættuna á tapi eða ófyrirséðri breytingu á verðmati á fjáreignum. Markmið með stýringu markaðsáhættu er að stýra og takmarka áhættu við skilgreind mörk ásamt því að ná fram ásættanlegri ávöxtun á fjárfestingaeignir. Helstu áhættuþættir félagsins eru hlutabréfaáhætta, vaxtaáhætta, vikáhætta og gjaldmiðlaáhætta.
Hlutabréfaáhætta er hættan á neikvæðum áhrifum á fjárhagslega stöðu samstæðunnar vegna verðbreytinga á hlutabréfum. Til viðbótar við áhættuna af verðbreytingunum sjálfum er áhætta fólgin í takmarkaðri og jafnvel neikvæðri fylgni íslenskra hlutabréfa við EIOPA vísitöluna sem ákvarðar samhverfustuðul hlutabréfa. Samhverfustuðull er álag (+/-) reiknað á hlutabréfaáfall. Þá getur mikil hækkun einstakra hlutabréfa eða áhrif á aðrar eignir vegna mikillar lækkunar hlutabréfa lækkað þröskuld samþjöppunaráhættu.
Vaxtaáhætta er hætta vegna breytinga á virði skuldabréfa vegna vaxtabreytinga sem myndi hafa neikvæð áhrif á afkomu og gjaldþolshlutfall félagsins.
Áhættan er mikil breyting á álagi skuldabréfa umfram vaxtaferil ríkisskuldabréfa. Breytingar á álagi geta m.a. stafað af umtalsverðum breytingum í áhættumati fjárfesta (e. "flight-to-quality") þ.e. þegar fjárfestar selja eignir sem þeir telja áhættusamar (fyrirtækjaskuldabréf) og kaupa í staðinn áhættuminni eignir (ríkisskuldabréf).
Í efnahagsreikningi félagsins eru bæði eignir og skuldir í erlendum gjaldmiðlum. Gjaldmiðlaáhætta er sú áhætta að breytingar á gengi gjaldmiðla hafi óhagstæð áhrif á virði þess hluta eigna eða skulda samstæðunnar sem eru í öðrum gjaldmiðlum en íslenskum krónum.
Sjóvá miðar samsetningu eignasafnsins við varfærnisregluna sem segir að einungis sé heimilt að hafa í safni sínu eignir sem félagið getur greint, fylgst með og stjórnað. Þannig er stærstur hluti fjárfestingaeigna félagsins skráður á skipulegan verðbréfamarkað sem gerir félaginu kleift að greina og fylgjast með verðbreytingum og bregðast við þeim. Samstæðan uppfyllir varfærnisregluna með settum fjárfestingastefnum og -reglum og verklagi sem lýtur að eftirliti og framkvæmd fjárfestingastefnu annars vegar fyrir móðurfélagið og hins vegar fyrir líftryggingafélagið. Markmið fjárfestingastefnu og reglna um eignastýringu er að stuðla að því að félögin eigi traustar og seljanlegar eignir á móti eigin tjónaskuld og að eignasöfn félaganna taki mið af áhættuvilja stjórnar og fjármagnsskipan. Reglunum er ætlað að styðja við og tryggja að fjárfestingar félagsins séu varfærnar og ábyrgar og að ákvarðanir um þær séu faglegar.
Samkvæmt fjárfestingastefnu og reglum um eignastýringu er um aðskilin eignasöfn að ræða, annars vegar fyrir móðurfélagið og hins vegar fyrir líftryggingafélagið. Eignasöfnin skulu að lágmarki innihalda auðseljanlegar eignir (laust fé, ríkisskuldabréf, sértryggð skuldabréf og önnur skuldabréf fjármálastofnana) fyrir því sem nemur 50% af 12 mánaða meðaltali eigin tjónaskuldar félaganna. Líftími skuldabréfasafns félaganna er mældur mánaðarlega fyrir móðurfélagið og ársfjórðungslega fyrir líftryggingafélagið og borinn saman við líftíma eigin tjónaskuldar hvors félags fyrir sig og kynntar fyrir stjórn.
Stjórn ákvarðar vikmörk fjárfestingastefnu fyrir fyrirfram skilgreinda eignaflokka sem endurspeglar áhættuvilja hennar og tryggir jafnframt áhættudreifingu í eignasafninu. Sjálfvirkt eftirlitskerfi hefur verið sett upp sem tilkynnir frávik frá fjárfestingarstefnu daglega til áhættustjóra og starfsmanna fjárfestinga. Þá tekur áhættustjóri mánaðarlega fyrir móðurfélag, og ársfjórðungslega fyrir líftryggingafélagið, saman yfirlit yfir hlítingu og kynnir fyrir stjórn.
Fjárfestinganefnd móðurfélagsins fundar að jafnaði vikulega þar sem m.a. er farið yfir markaðsaðstæður, ávöxtun eignasafnsins, stærstu breytingar frá síðasta fundi ásamt hlítni við fjárfestingastefnu til viðbótar við tilfallandi mál sem borin eru undir fjárfestinganefnd til ákvörðunar.
Fjárfestinganefnd líftryggingafélagsins fundar að jafnaði mánaðarlega þar sem m.a. er farið yfir markaðsaðstæður, ávöxtun eignasafnsins, stærstu breytingar á eignasafninu frá síðasta fundi ásamt hlítni við fjárfestingastefnu til viðbótar við tilfallandi mál sem borin eru undir fjárfestinganefnd til ákvörðunar.
Fjárfestinganefnd hefur heimild til að eiga viðskipti sem rúmast innan marka fjárfestingarstefnu í öllum öðrum eignaflokkum en óskráðum hlutabréfum og afleiðum.

Slíkar ákvarðanir krefjast samþykkis stjórnar. Fjárfestinganefnd skal heimilt að selja eða taka kauptilboði í eignir sem stjórn hafði áður veitt heimild til að kaupa.
Eignir eru nánast allar skráðar á verðbréfamarkað og þeirra er aflað að undangenginni athugun á hlutfallslegri áhættu og ávöxtun. Að því gefnu að ekki sé um stórfelldar misfellur að ræða í verðlagningu skráðra verðbréfa þá ætti ávöxtunin að vera ásættanleg miðað við áhættu hverju sinni. Áhættan er síðan ákvörðuð með heimildum í fjárfestingastefnu um fjárfestingar í mismunandi eignaflokkum.
Samþjöppunaráhættu er stýrt með dreifingu á milli eignaflokka, en skiptingin er birt í fjárfestingastefnu félaganna. Þá eru efri mörk sett á einstaka eignaflokka eftir útgefendum/mótaðilum. Einnig eru sett efri mörk um hlutfall eftir eðli fjárfestinga.
Staðalregla Solvency II metur samþjöppunaráhættu eigna félaganna.
Eignir sem mæta vátryggingaskuldbindingum skulu vera í samræmi við eðli, gjaldmiðil og líftíma hennar og er því tekið mið af vaxtanæmni. Líftími vátryggingaskuldbindinga og eigna sem mæta þeim er borinn saman mánaðarlega fyrir móðurfélagið og ársfjórðungslega fyrir líftryggingafélagið.
Ekki er heimilt að fjárfesta í öðrum eignaflokkum en þeim sem eru tilgreindir í fjárfestingarstefnu félaganna. Sé fjárfest í verðbréfasjóði, samlagshlutafélagi, fagfjárfestasjóði eða öðru félagsformi utan um fjárfestingar, skulu undirliggjandi eignir þess ráða hvort fjárfestingin falli undir fjárfestingarstefnu og þá í hvaða eignaflokk.
Sjálfvirkt eftirlitskerfi hefur verið sett upp sem tilkynnir frávik frá fjárfestingarstefnu daglega til áhættustjóra og starfsmanna fjárfestinga. Þá tekur áhættustjóri saman yfirlit yfir hlítingu og kynnir fyrir stjórn. Yfirlitin eru mánaðarleg fyrir móðurfélagið og ársfjórðungsleg fyrir líftryggingafélagið.
Regluleg upplýsingagjöf til fjárfestinganefndar og stjórnar er mikilvægur þáttur í vöktun áhættu. Mánaðarlega fær stjórn skýrslur frá forstöðumanni fjárfestinga og áhættustjóra.
Mynd C.2 sýnir áhrif mismunandi sviðsmynda á gjaldþolshlutfall félagsins. Öll áföll voru fyrst skoðuð ein og sér þ.e. gert var ráð fyrir að allt annað héldist óbreytt (einföldun). Síðan voru einnig skoðuð nokkur samsett áföll.

Mynd C.2: Gjaldþolshlutfall næmnigreining markaðsáhættu.
Félögin hafa skilgreint kröfuáhættu (útlánaáhætta, e. credit risk) sem hættu á tapi eða óhagstæðum breytingum á fjárhagslegri stöðu sem stafa af sveiflum í lánshæfi útgefanda verðbréfa, mótaðila og annarra sem vátryggingafélög eiga kröfu á. Undir kröfuáhættu fellur mótaðilaáhætta, vikáhætta og samþjöppun markaðsáhættu.
Áhætta sem getur skapast vegna taps eða breytinga á gjaldþolskröfu vegna gjaldþrots eða sveiflna í lánshæfismati mótaðila.
Áhætta á að fjárhagslegur styrkur endurtryggjenda sé ekki nægur til að standa við skuldbindingar. Áhætta vegna endurtryggingaverndar getur skapast ef einn einstakur tjónsatburður setur fjárhagslegan styrkleika félagsins í hættu.
Áhættan sem hlýst af því að álag skuldabréfa (annarra skuldabréfa en með ríkisábyrgð) ofan á ríkisskuldabréf aukist.
Áhætta á að of mikil samþjöppun í vátryggingastofni eða eignasafni útsetji félögin fyrir óhóflegri áhættu. Áhættan getur verið fólgin í mismunandi fjármálagerningum og vátryggingasamningum á sama aðila eða aðila sem eru með samleita áhættu.

Fjallað er um mótaðilaáhættu vegna fjárfestinga í kafla C.3.
Áhættan vegna endurtrygginga er milduð með að skipta eingöngu við endurtryggjendur með fjárhagslegan styrkleika að lágmarki A- samkvæmt mati S&P. Þá er skuldbindingum dreift með fjölda endurtryggjenda og þátttökuhlutdeild í huga. Samþjöppunaráhættu vegna vátrygginga er stýrt með víðtæku framboði vátrygginga fyrir einstaklinga og atvinnurekstur, bæði í líf- og skaðatryggingum. Mikilvægt er að ná tilteknum fjölda innan hverrar vátryggingagreinar svo áhætta dreifist nægjanlega. Sjá nánar í kafla C.2.
Fjárfestingastefna Sjóvár á að stýra samþjöppunaráhættu vegna fjárfestinga en áhættan er að félagið hafi mikilla fjárhagslegra hagsmuna að gæta gagnvart einum einstökum aðila eða tengdum aðilum. Áhættan getur verið fólgin í mismunandi fjármálagerningum og vátryggingasamningum á sama aðila eða aðila sem eru með samleita áhættu. Sjá nánar um stýringu samþjöppunaráhættu fjárfestinga í kafla C.3.
Stærsta kröfuáhætta sem Sjóvá er útsett fyrir er áhætta tengd íslensku viðskiptabönkunum í formi óveðtryggðra skuldabréfa og hlutabréfa. Mynd C.3 sýnir áhrifin á gjaldþolshlutfall ef viðskiptabankarnir yrðu gjaldþrota svipað og gerðist árið 2008. Sjóvá notar endurtryggingavernd til áhættuvarna og semur aðeins við endurtryggjendur með hátt lánshæfismat til að tryggja að enginn einn einstakur tjónsatburður geti sett fjárhagslegan styrkleika í hættu. Ef frá er talið stórt hlutabréfaáfall sem nefnt er í markaðsáhættukaflanum er það mat Sjóvár að enginn einn viðskiptavinur/mótaðili geti sett fjárhagslegan styrkleika í hættu.
Vikáhættu í fjárfestingum er haldið innan hóflegra marka að mati félagsins með heimildum til fjárfestinga í skuldabréfum sem ekki eru með ríkisábyrgð í fjárfestingastefnu. Vikáhætta er lítill hluti af markaðsáhættu félagsins og skýrist að miklu leyti af vikáhættu vegna sértryggðra skuldabréfa sem talin eru áhættulítil.
Allir endurtryggjendur skulu hafa lánshæfiseinkunn ekki lægri en A- hjá S&P. Allar undanþágur frá því þarf Áhættu- og öryggisnefnd að samþykkja. Sérstök áhersla er lögð á að kortleggja alla samáhættu, þ.e. heildar vátryggingarfjárhæð sem tengjast geta í sama atburð, þannig að öruggt sé að keypt verði endurtryggingarvernd innan sjálfvirkra samninga eða sem sérendurtryggð áhætta. Sérstaklega skal gæta að undanþágum í sjálfvirkum endurtryggingarsamningum og að samræmi sé við vátryggingarskilmála félagsins sem og að allir hagsmunaðilar (Viðskiptaþróun, Sala og ráðgjöf) séu upplýstir um þær breytingar sem kunna að verða.
Áhættu- og öryggisnefnd tekur afstöðu til tilboða um endurtryggingar ásamt því að fara yfir álit tryggingastærðfræðings á gæðum endurtryggingaverndarinnar í samræmi við 272. grein reglugerðar 2015/35/EB og ákvarðar hvort félagið samþykki þá skilmála og eigin áhættu sem lagt er til. Lýsing á áhættuvörnum og vöktun tengt

fjárfestingum má finna í kafla C.3.
Á mynd C.3 má sjá áhrif mismunandi sviðsmynda á gjaldþolshlutfall félagsins. Öll áföll voru fyrst skoðuð ein og sér þ.e. gert var ráð fyrir að allt annað héldist óbreytt (einföldun). Svo voru þó nokkur samsett svartsýn áföll skoðuð.

Mynd C.3: Gjaldþolshlutfall næmnigreining kröfuáhætta.
Sjóvá samstæðan hefur skilgreint lausafjáráhættu sem áhættuna á að félögin hafi ekki yfir tiltækum fjármunum að ráða eða geti selt eignir í tæka tíð til að mæta skuldbindingum. Markmið stefnu um lausafjáráhættu er að félögin eigi nægt laust fé og fjármagn til að geta staðið tímanlega við skuldbindingar sínar, jafnvel undir erfiðum aðstæðum. Sjóvá samstæðan flokkar lausafjáráhættu í tvennt, annars vegar vegna innstæðna sem falla til daglegs rekstrar og hins vegar vegna seljanleika fjárfestingaeigna.
Tryggja skal fullnægjandi lausafé til þess að standa undir rekstrarkostnaði og tjónagreiðslum og tryggja fullnægjandi ávöxtun þess fjármagns sem umfram er. Stór óvænt tjón eða óvænt aukin tjónatíðni á stuttum tíma getur aukið lausafjárþörf.
Tryggja skal að í eignasafni félaganna séu eignir sem með auðveldum hætti er hægt að selja til þess að standa undir óvæntri lausafjárþörf.
Skráð verklag tryggir að stýring lausafjár byggi á áætlunum um inn- og útgreiðslur. Ábyrgðaraðilar lausafjárstýringar funda að jafnaði tvisvar í mánuði og meta lausafjárstöðu.

Við mat á lausafjárþörf skal horft til þróunar fjármálamarkaða og regluverks.
Sjóvá er ekki útsett fyrir mikilli lausafjáráhættu sökum þess hve stór hluti eignasafnsins er í auðseljanlegum eignum. Þá eru ákvæði í endurtryggingasamningum um tímamörk greiðslu þess hluta tjóna sem fellur á endurtryggjendur. Þessi ákvæði draga verulega úr lausafjáráhættu Sjóvár.
Stefna félagsins er að Sjóvá geti auðveldlega selt eignir/verðbréf til að standa undir óvæntri lausafjárþörf ef þurfa þykir. Félagið setur sér það markmið að eiga í það minnsta auðseljanlegar eignir fyrir því sem nemur 50% af 12 mánaða meðaltali eigin tjónaskuldar félagsins. Í fjárfestingastefnu er skilgreint hvaða eignir teljast auðseljanlegar.
Félögin skulu á hverjum tíma eiga nægilega hátt hlutfall auðseljanlegra eigna til að mæta rekstrarkostnaði og eigin tjónskostnaði.
Sjóvá samstæðan skilgreinir rekstraráhættu sem áhættu vegna ófullnægjandi eða gallaðra kerfa, vegna starfsmanna eða annarra innri eða ytri þátta sem leitt geta til fjárhagslegs taps eða verulegra rekstrartruflana. Markmið með stefnu um rekstraráhættu er að bera kennsl á, meta og stýra áhættu sem felst í starfsemi, ferlum og kerfum. Rekstraráhætta félaganna er samsett úr nokkrum þáttum; þ.e. starfsmannaáhættu, áhættu sem skapast vegna upplýsingakerfa eða upplýsingaöryggi og lagalegri áhættu. Rekstraráhætta nær til allra rekstrareininga samstæðunnar.
Skráðu verklagi er fylgt við ráðningar og starfslok starfsmanna. Starfsmannavelta mæld á 6 mánaða frest. Félagið er með jafnlaunavottun samkvæmt staðlinum ÍST 85∶2012 og mælir árlega starfsánægju. Lögð er rík áhersla á fræðslu og þjálfun, meðal annars til að auka áhættumeðvitund og hlítingu við lög og reglur. Leitast er við að tryggja öryggi starfsmanna og starfsstöðva í hvívetna og gert er sálfélagslegt áhættumat á tveggja ára fresti til að meta áhættuþætti í starfsumhverfi starfsmanna. Öryggishandbók félagsins lýsir hvernig staðið er að öryggi starfsmanna og hafa allir starfsmenn félagsins undirritað handbókina.
Sjóvá er með vottun samkvæmt alþjóðlega staðlinum ISO 27001 um stjórnun upplýsingaöryggis. Einnig uppfyllir félagið kröfur leiðbeinandi tilmæla FME nr. 1/2019 vegna áhættu við rekstur upplýsingakerfa eftirlitsskyldra aðila og viðmiðunarreglna EIOPA

um útvistun til skýjaþjónustuaðila (EIOPA-BoS-20-002) og viðmiðunarreglna EIOPA um upplýsingatækni og netnotkun vegna upplýsinga- og samskiptatækni og stjórnarhætti þeim tengdum (EIOPA-BoS-20-600).
Regluvörður, ásamt lögfræðiþjónustu, hefur eftirlit með breytingum á lögum og reglum sem áhrif geta haft á félagið. Regluvörður ber ábyrgð á að upplýsa framkvæmdastjórn og aðra hagsmunaaðila um allar laga- og reglugerðarbreytingar eftir þörfum. Sjóvá hefur, í gegnum Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu, beina og óbeina aðkomu að lagasetningu sem álitsgjafi. Mótuð hefur verið og innleidd hlítingarstefna og hlítingaráætlun. Stefnan tekur til regluvörslu sem ber ábyrgð á eftirliti með að í daglegri starfsemi félagsins sé ávallt verið að hlíta gildandi lögum, reglum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum.
Stærstu rekstraráhættur Sjóvár tengjast ófyrirséðum tölvuinnbrotum eða kerfisbilunum sem og áhættu í daglegum rekstri. Sjóvá hefur lágmarkað áhættuna með ýmsum hætti, t.a.m. með því að hafa skráð verklag skýrt, en jafnframt með frávikaskráningu og með úttektum innri og ytri aðila.
Sjóvá hlaut vottun árið 2014 á upplýsingaöryggi samkvæmt ISO/IEC 27001 staðlinum og hefur haldið þeirri vottun við síðan.
Til að mæla og milda áhættu eru framkvæmdar áhættugreiningar með það að markmiði að kortleggja ógnir og áhættuþætti ásamt því að meta stýringar, setja áætlanir og úrbótaverkefni til að koma í veg fyrir að þær raungerist.
Hjá félaginu hefur verið komið á heildstæðri viðbúnaðarumgjörð til að bregðast við áföllum til að tryggja samfelldan rekstur, þar sem skilgreind eru hlutverk, ábyrgð, verkefni og áhættuliðir.
Tilvist neyðaráætlunar ýtir einnig undir öruggara rekstrarumhverfi með því að draga úr hættu á áföllum og stuðla að rekstrarsamfellu með fyrirbyggjandi aðgerðum.
Rekstraráhættan er reiknuð með staðalformúlunni og reiknast sem hlutfall af iðgjöldum og vátryggingaskuld.
Önnur veigamikil áhætta er skilgreind sem áhætta sem getur haft veruleg áhrif á markmið samstæðunnar. Markmiðið er að greina, meta og stýra annarri veigamikilli áhættu. Undir aðra veigamikla áhættu flokkast m.a. stefnumótunaráhætta, orðsporsáhætta, ný áhætta (e. emerging risk) og áhætta tengd loftslagsbreytingum.
Stefnumótunaráhætta er áhætta sem getur skapast af viðskiptalegum ákvörðunum,

framkvæmd þeirra eða skorts á viðbrögðum við breytingum á rekstrarumhverfi sem leitt geta til rekstrartaps eða lækkunar gjaldþols.
Orðsporsáhætta er áhætta sem félagið kann að standa frammi fyrir vegna þess að orðspor hefur beðið hnekki, s.s. vegna neikvæðrar umfjöllunar vegna málefna eða ákvarðana stjórnenda eða eiganda. Einnig ef félagið verður uppvíst að ófullnægjandi meðferð trúnaðarupplýsinga eða svörunar kvartana.
Áhættustýring einblínir ekki eingöngu á áhættu sem hefur verið greind og metin heldur er leitast við að greina nýja áhættu (e. emerging risk). Sem dæmi um nýja áhættu má nefna pólitíska áhættu (e. geopolitical risk), nýja tækni og áhrif loftslagsbreytinga á rekstur samstæðunnar.
Áhætta tengd loftslagsbreytingum skiptist í raunlæga áhættu (e. physical risk) sem er sú áhætta sem stafar beint af loftslagsbreytingunum og umbreytingaráhættu (e. transition risk) sem er sú áhætta sem kemur til vegna aðgerða til að stemma stigu við loftlagsbreytingum.
Öll svið félagsins framkvæma reglulegar áhættugreiningar þar sem farið er yfir helstu áhættur sviðsins, þær greindar, metnar og skoðað hvað gert er til að draga úr því að þær verði virkar.
Til að draga úr áhættu eru framkvæmdar áhættugreiningar með það að markmiði að kortleggja verðmæti, ógnir, veikleika og áhættuþætti ásamt því að meta stýringar og skilgreina úrbótaverkefni til að draga úr áhættu. Álagspróf og næmnigreiningar eru framkvæmdar a.m.k. árlega og kynntar stjórnum félagana sem partur af SFCR/RSR og ORSA skýrslum.
Við greiningu og mat á nýjum (e. emerging risk) og núverandi áhættum eru innri og ytri áhættuþættir rýndir af helstu sérfræðingum og framkvæmdastjórn ársfjórðungslega. Niðurstöður eru kynntar stjórnum félaganna sem hluti af áhættuskýrslu stjórnar.
Árlega er haldinn fundur með starfsfólki þar sem stefna félagsins er rýnd. Í framhaldi er haldinn stefnumótunarfundur með stjórn, framkvæmdastjórn og helstu sérfræðingum félagsins og niðurstöður kynntar starfsfólki. Markmiðasetning er unnin árlega samkvæmt skráðu verklagi. Ákvarðanataka og áætlanagerð skal vera í samræmi við stefnumótun og jafnframt taka mið af breytingum á mörkuðum.

Til að draga úr orðsporsáhættu hafa félögin m.a. sett sér verklag varðandi samskipti við fjölmiðla. Félögin hafa sett sér siðareglur sem kveða meðal annars á um æskilega viðskiptahætti. Allar ábendingar frá viðskiptavinum eru skráðar og brugðist er við þeim. Orðsporsáhætta er nátengd öðrum áhættuflokkum og er hugað að henni við stærri ákvarðanir og metin samhliða öðrum áhættum.
Sjóvá framkvæmir mikilvægisgreiningu, en með slíkri greiningu er leitast við að afmarka hvaða sjálfbærniþættir hafa mesta þýðingu fyrir Sjóvá og hagaðila þess og ættu því að vera í forgrunni við ófjárhagslega upplýsingagjöf félagsins. Félagið gefur út sérstaka skýrslu um sjálfbærni og samfélagsábyrgð, hana má finna hér á vefsíðu Sjóvá.
Helstu áhættuþættir á sviði vátryggingastarfsemi og umhverfisþátta tengdum loftslagsáhættu snúa að vátryggðum áhættum og endurtryggingum. Árlega er gengið frá samningum við endurtryggjendur og geta þessar áhættur haft áhrif á umfang og kostnað við endurtryggingar.
Helstu áhættuþættir snúa að breytingum á veðurfari og afleiddum áhættum svo sem vegna aukinnar hættu á gróðureldum, en einnig vegna afleiddra áhætta í kjölfar skriðufalla og flóða.
Loftslagsvá hefur margvísleg áhrif á alþjóðasamfélagið fyrir utan aukningu í tjónakostnaði. Áskoranir sem stjórnvöld og fyrirtæki standa frammi fyrir eru m.a. breytingar á vörustjórnun og viðskiptakeðjum, stefnumótun og breytingastjórnunaráhætta sem fylgir því að aðlagast nýjum aðstæðum. Jafnframt þurfa fyrirtæki að vera vakandi fyrir áhrifum nýrra lagasetninga. Gera má ráð fyrir að þessu fylgi aukin þjóðhagsáhætta m.a. í formi verðbólgu og óvissu um hagvöxt.
Ekki er um að ræða aðrar upplýsingar en koma fram í kafla C.1 – C.6.

Verðbréf samstæðunnar eru metin á gangvirði í efnahagsreikningi. Skráð gengi er til fyrir meirihluta þessara eigna. Mat á gangvirði óskráðra verðbréfa byggir á viðurkenndum aðferðum. Mat á gangvirði tekur mið af markaðsaðstæðum og þeim upplýsingum sem eru til staðar um viðkomandi fjáreign á matsdegi. Í einhverjum tilfellum er byggt á hlutlægu mati sem getur verið háð óvissu. Mat á virði óskráðra eigna er vísað til fjárfestinganefndar og endurskoðunarnefndar til umfjöllunar og samþykktar.
| Eignir | Solvency II | IFRS 17 | Mismunur |
|---|---|---|---|
| Óefnislegar eignir | 0 | 0 | 0 |
| Viðskiptavild | 0 | 244 | -244 |
| Rekstrarfjármunir | 553 | 553 | 0 |
| Skatteign | 0 | 0 | 0 |
| Verðbréf | 62.573 | 62.576 | -2 |
| Ríkisskuldabréf | 21.878 | 20.838 | 1.040 |
| Fyrirtækjaskuldabréf | 18.137 | 18.753 | -616 |
| Skráð hlutabréf | 16.324 | 16.324 | 0 |
| Óskráð hlutabréf | 1.980 | 2.251 | -270 |
| Sjóðir | 4.254 | 4.410 | -156 |
| Handbært fé | 1.570 | 1.568 | 2 |
| Aðrar fjárfestingar | 0 | 0 | |
| Fjárfestingar með ábyrgð líftryggingataka |
5.494 | 5.493 | 1 |
| Endurtryggingaeignir | 2.355 | 2.041 | 314 |
| Viðskiptakröfur og aðrar kröfur | 9.840 | 2.006 | 7.834 |
| Leigueign | 1.212 | 1.212 | 0 |
| Eigin hlutabréf | 0 | 0 | 0 |
| Samtals | 83.596 | 75.692 | 7.904 |
| Skuldir | |||
| Vátryggingaskuld | 47.475 | 41.713 | 5.762 |
| Líftryggingaskuld með ábyrgð líftryggingataka |
5.494 | 5.493 | 1 |
| Leiguskuld | 1.314 | 1.314 | 0 |
| Skattskuldbinding | 332 | 53 | 279 |
| Viðskiptaskuldir og aðrar skammtímaskuldir |
3.095 | 1.992 | 1.103 |
| Samtals | 57.709 | 50.565 | 7.145 |
| Eignir umfram skuldir | 25.887 | 25.128 | 759 |
Tafla D.1: Efnahagsreikningur Solvency II og IFRS 17 m.v. 31.12.2024 (í m.kr.)
Mismunur eigna og skulda:
Sjóvá kt. 650909-1270 - Sjóvá Líf kt. 680568-2789 Kringlunni 5, 103 Reykjavík [email protected] 48
Viðskiptavild: Viðskiptavild samstæðunnar að fjárhæð 244 m.kr. er vegna kaupa á líftryggingarekstri hennar. Viðskiptavild telst ekki til eigna í Solvency II.
Verðbréf: Virði verðbréfa er í heildina það sama í IFRS og Solvency II fyrir utan lítilsháttar gengismun sem orsakast af mismunandi gengisskráningum milli vörsluaðila. Fyrir Solvency II er notast við vegið meðaltalsgengi fjárfestinga. Innbyrðis flokkun eigna getur þó verið mismunandi sem útskýrir að langstærstum hluta mismuninn á milli einstakra fjárfestingaflokka.
Viðskiptakröfur og aðrar kröfur: Áður var skuld vegna innborgaðra tekna vegna vátryggingaverndar sem tilheyrir síðari tímabilum hluti af iðgjaldaskuld, skv. IFRS 4, og færð á skuldahlið efnahagsreikningsins. Iðgjaldaskuldin innihélt einnig skuldbindingu vegna þeirrar vátryggingaverndar sem tilheyrir síðari tímabilum þar sem tekjur voru óinnheimtar. Á móti þeirri skuldbindingu voru færðar viðskiptakröfur á eignahlið efnahagsreikningsins. Með innleiðingu IFRS 17 falla niður óinnheimt iðgjöld og skuldbinding vegna þeirra og heildareignir og heildarskuldir samstæðunnar lækka því verulega. Þessi breyting nær ekki til Solvency II.
Eigin hlutabréf: Koma fram á eignahlið efnahagsreiknings Solvency II en teljast ekki með í gjaldþoli. Þau teljast ekki til eigna í IFRS. Félagið á engin eigin bréf í lok árs 2024.
Vátryggingaskuld: Munur á mati á vátryggingaskuld liggur í iðgjaldaskuld en hún er skilgreind með ólíkum hætti samkvæmt Solvency II og IFRS. Samkvæmt Solvency II er iðgjaldaskuld vænt greiðsluflæði skuldbindinga vegna þeirra iðgjalda sem félagið hefur samþykkt og skuldbundið sig vegna og hagnaður/tap þeirra iðgjalda áætlaður. Iðgjaldaskuld IFRS 17, eða skuldbinding vegna eftirstæðrar vátryggingaverndar, samanstendur af innborguðum tekjum vegna vátryggingaverndar sem tilheyrir síðari tímabilum, frestuðum kostnaði við öflun samninga, skuldbindingu vegna íþyngjandi samninga og viðskiptaskuldum sem tilheyra eftirstæðri vátryggingavernd.
Einnig er munur á áhættuálagi samkvæmt Solvency II og öryggisálagi IFRS 17 sem veldur mismunandi mati á vátryggingaskuld.
Skattur til greiðslu: Vegna þess hvernig skuldbinding vegna bókfærðra og útgefinna iðgjalda sem tilheyrir næsta ári er reiknað í Solvency II og framtíðarhagnaður reiknast til lækkunar á iðgjaldaskuld reiknast einnig skattur á ætlaðan hagnað og er færður sem skattskuldbinding í efnahagsreikningi Solvency II.
Óefnislegar eignir: Óefnislegar eignir svo sem vörumerkið, viðskiptatengsl og hugbúnaður, eru ekki færðar í yfirlit yfir fjárhagsstöðu nema að fyrir liggi verð og að fyrir liggi að hægt sé að selja óefnislegu eignina.
Rekstrarfjármunir: Rekstrarfjármunir eru færðir til eignar á kostnaðarverði að frá-

dregnum uppsöfnuðum afskriftum og virðisrýrnun. Innifalinn er kostnaður sem rekja má beint til kaupa á eigninni.
Endurtryggingaeignir: Endurtryggingavernd er keypt til að draga úr áhættu samstæðunnar. Endurtryggjendur bera ýmist ákveðið hlutfall af bótafjárhæðum eða alla áhættu umfram umsamda fjárhæð. Kröfur á endurtryggjendur vegna iðgjalda og tjóna eru færðar sem endurtryggingaeignir. Þar er um að ræða kröfur vegna hlutdeildar þeirra í tjónum samkvæmt endurtryggðum vátryggingasamningum og hlutdeild í iðgjaldaskuld. Skuldbindingar vegna endurtrygginga er hlutdeild endurtryggjenda í iðgjöldum vegna endurtryggingasamninga sem færð eru í rekstrarreikning við endurnýjun samninganna. Í IFRS 17 eru eignir og skuldir endurtryggjenda teknar saman og færðar sem endurtryggingaeignir meðan að skuldir á endurtryggjendur eru hluti af viðskiptaskuldum og öðrum skammtímaskuldum í Solvency II.
Vátryggingaskuld samanstendur af tjónaskuld, iðgjaldaskuld, áhættuálagi og ágóðaskuld. Staðan um síðustu áramót var eins og kemur fram í töflu D.2.
Við mat á vátryggingaskuld er hvorki umbreyttum áhættulausum vaxtaferli, sem um getur í grein 308 c-lið tilskipunar 2009/138/EB né umbreytingarfrádrátti, sem um getur í grein 308 d-lið sömu tilskipunar, beitt við mat á vátryggingaskuld félagsins.
| Iðgjalda skuld |
Tjóna skuld |
Áhættu álag |
Ágóða hlutdeild |
Vátrygginga skuld |
Hluti endur trygginga |
Eigin vátrygg inga skuld |
|
|---|---|---|---|---|---|---|---|
| Eignatr | 1.853 | 5.018 | 169 | 207 | 7.247 | 1.384 | 5.863 |
| Sjó-, flug og farmtr | 65 | 558 | 25 | 54 | 701 | 120 | 581 |
| Lögb ökutækjatr | 4.450 | 17.072 | 701 | 444 | 22.667 | 73 | 22.595 |
| Frjálsar ökuttr | 2.473 | 1.283 | 57 | 89 | 3.901 | 0 | 3.901 |
| Ábyrgðartr | 510 | 4.685 | 185 | 4 | 5.383 | 193 | 5.190 |
| Greiðslu- og efndatr | 2 | 0 | 0 | -18 | -16 | 0 | -16 |
| Alm slysa- og sjúkratr | 457 | 1.858 | 79 | 103 | 2.496 | 0 | 2.496 |
| Atvinnuslysatr | 140 | 3.013 | 117 | -52 | 3.217 | 123 | 3.094 |
| Sjúkrakostnaðartr | 3 | 10 | 0 | 0 | 14 | 0 | 14 |
| Erlendar endurtr. | 0 | 66 | 0 | -3 | 64 | 0 | 64 |
| Líftr | 344 | 205 | 33 | 0 | 582 | 32 | 550 |
| Heilsutr (líf) | 491 | 664 | 64 | 0 | 1.219 | 428 | 791 |
| Samtals | 10.787 | 34.432 | 1.429 | 827 | 47.475 | 2.355 | 45.120 |
Tafla D.2: Sundurliðun vátryggingaskuldar SII greinaflokka 31.12.2024 (í m.kr.)
Samkvæmt reglum Solvency II skal núvirða vátryggingaskuldina og styðjast við vaxtaferil sem gefinn er út af EIOPA (European Insurance and Occupational Pensions Authority). Tjónaskuldin er stærstur hluti vátryggingaskuldarinnar og ber að reikna hana þannig að hún skuli vera nægileg að meðaltali (e. Best Estimate) til að standa undir tjónum þeim sem tilheyra liðnu tímabili. Aðferðin byggir á því að meta vænt gildi eða meðaltal (líkindafræðilegt vegið meðaltal) á núvirtu greiðsluflæði fyrir núverandi skuldbindingar,

dreift yfir uppgjörstímabil samningsins. Auk besta mats er reiknað áhættuálag sem er sú fjárhæð sem ásamt besta mati er ætlað að tryggja að vátryggingaskuld samsvari þeirri fjárhæð sem gera má ráð fyrir að önnur vátryggingafélög áskilji sér við að taka að sér og standa við þær skuldbindingar sem vátryggingaskuld er ætlað að mæta. Áhættuálag er skilgreint sem sá fjármagnskostnaður við að leggja til eigið fé til jafns við þá gjaldþolskröfu sem nauðsynleg er til að standa undir vátryggingaskuldbindingum á uppgjörstíma þeirra. Í árslok var áhættuálagið 1.429 m.kr. og bætist við tjónaskuld. Þá skal áætla uppgjörskostnað sem ákveðið álag á skuldina en það er sá kostnaður sem þarf til að gera upp þau tjón sem áætlað er fyrir í tjónaskuldinni.
Ársfjórðunglega reiknar tryggingastærðfræðingur besta mat tjónaskuldar félagsins. Reiknað er fyrir hvern greinaflokk samkvæmt greinaflokkaskiptingu laga nr. 100/2016. Þau reiknilíkön sem stuðst er við eru Chain Ladder, Munich Chain Ladder og Bournehutter Ferguson þar sem notast er við söguleg gögn um tjón og tjónakostnað leiðrétt fyrir verðlagi. Í litlum greinaflokkum þar sem ekki eru til nægjanleg gögn fyrir notkun nefndra reiknilíkana eru tjón metin sérstaklega. Í kjölfar útreiknings er lagt mat á uppgjörskostnað tjóna sem fellur til við að gera upp vátryggingaskuldbindingar félagsins og það mat lagt við besta mat tjónaskuldar. Við mat á framtíðarverðbólgu notar félagið þekktar aðferðir, verðbólguálag er reiknað út frá verðtryggðum og óverðtryggðum skuldabréfum á markaði.
Vátryggingaskuld Sjóvár, samkvæmt Solvency II, í árslok 2024 er 45.120 m.kr. og 42.820 m.kr. í árslok 2023. Til samanburðar þá eru samtala skuldbindinga vegna eftirstæðrar vátryggingaverndar og skuldbindinga vegna orðinna tjóna, þ.e. skv. IFRS 17, 41.713 m.kr. í árslok 2024 en var 36.748 m.kr. í lok árs 2023. Sundurliðun á vátryggingaskuld SII má sjá á mynd D.1.

Mynd D.1: Vátryggingaskuld 2024 og 2023 (í m.kr.)
Vöxtur í vátryggingaskuld er í samræmi við vöxt tekna (iðgjalda) milli ára. Eins er um nokkur stór brunatjón að ræða og hækkar tjónaskuld eignatrygginga töluvert. Lotuð iðgjöld (iðgjaldaskuld skv. IFRS41 ) er sá hluti iðgjalda sem búið er að bókfæra en gilda fyrir vátryggingatímabil sem ekki er hafið á uppgjörsdegi óháð því hvort þau hafi verið greidd
1Áður en IFRS 17 tók gildi við upphaf árs 2023 var IFRS iðgjaldaskuld jöfn lotuðum iðgjöldum

eða ekki. Í IFRS 17 er tekið tillit til þess hvort iðgjöld hafi í raun verið greidd eða ekki. Iðgjaldaskuld í Solvency II er besta mat áætlaðs greiðsluflæðis vegna þeirra skuldbindinga sem félagið hefur gert við vátryggingataka um áramót fyrir þann tíma sem ekki er hafið á uppgjörsdegi og núvirði þess reiknað. Stuðst er við áætlað samsett hlutfall eftir greinaflokkum. Munur á milli lotaðra iðgjalda og iðgjaldaskuldar Solvency II kemur fram í töflu D.3. Iðgjaldaskuld Solvency II er metin með eftirfarandi einföldun:
$$BE = CR \cdot VM + (CR - 1) \cdot PVFP + AER \cdot PVFP \tag{1}$$
Sjá nánari útlistun á útreikningi í leiðbeiningum EIOPA: Guidelines on the valuation of technical provisions. Væntur hagnaður innifalin í framtíðariðgjöldum (e. expected profit in future premium) er metinn með
$$(CR-1)\cdot PVFP.\tag{2}$$
Aðferðin gefur mismunandi útkomu eftir greinaflokkum. Fer það eftir væntu samsettu hlutfalli eins og það er í samþykktri áætlun félagsins. Hlutfallslega er það lægst í greinaflokkum Sjóvá lífs en þar er samsett hlutfall lægra en þekkist í skaðatryggingafélaginu. Mismunur þessi kemur fram í töflu D.3.
| Solvency II | Lotuð iðgjöld | Mismunur | |
|---|---|---|---|
| Eignatryggingar | 1.853 | 2.369 | -515 |
| Sjó-, flug og farmtryggingar | 65 | 64 | 1 |
| Lögb ökutækjatryggingar | 4.450 | 4.517 | -67 |
| Frjálsar ökuttryggingar | 2.473 | 2.130 | 343 |
| Greiðslu- og efndatryggingar | 2 | 3 | -1 |
| Ábyrgðartryggingar | 510 | 528 | -18 |
| Alm slysa- og sjúkratryggingar | 457 | 515 | -58 |
| Atvinnuslysatryggingar | 140 | 137 | 2 |
| Sjúkrakostnaðartryggingar | 3 | 8 | -5 |
| Líftryggingar | 344 | 666 | -322 |
| Heilsutryggingar (líf) | 491 | 874 | -383 |
| Samtals | 10.787 | 11.809 | -1.023 |
Tafla D.3: Samanburður á iðgjaldaskuld Solvency II og lotaðra iðgjalda (í m.kr.)
Ágóðahlutdeild er sá hluti iðgjalda sem áætlað er að muni greiðast til baka til tjónlausra viðskiptavina en það er hluti af vildarkerfi Sjóvár. Við útreikning á tjónaskuld er safninu skipt í einsleita áhættuflokka sem eru samkvæmt Solvency II flokkun sem FÍT (Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga) gaf út og er tjónaskuld reiknuð fyrir hvern flokk fyrir sig.


Mynd D.2: Tjónaskuld (í m.kr.) 31.12.2024 og 31.12.2023
Tjónaskuldin hefur hækkað á milli ára í öllum greinaflokkum en langmesta hækkunin er í stærsta greinaflokkunum, lögboðnum ökutækjatryggingum, eignatryggingum og ábyrðartryggingum. Stækkun ökutækjatrygginga undanfarin ár endurspeglast í aukinni tjónaskuld en töluverðan tíma getur tekið að gera upp slysatjón greinarinnar.
Töluvert var um brunatjón á árinu sem hafa haft bein áhrif til hækkunar tjónaskuldar eignatrygginga. Helsta óvissa í tjónaskuld er að einstök tjón þróist öðruvísi en fyrri útreikningar gerðu ráð fyrir. Þá getur alltaf verið ákveðin óvissa í áætlun stærri einstakra tjóna sem áhrif hefur á þróun tjónaskuldarinnar. Áætluð verðbólga í væntu greiðsluflæði getur einnig þróast öðruvísi en áætlað var sem og breytingar á vöxtum. Óvissan er þó einna mest í nýjustu tjónstímabilunum sem geta þróast á annan máta en þau ár sem liggja til grundvallar útreikningum og spár um niðurstöður byggja á. Þá er enn töluvert um orðin en ótilkynnt tjón sem geta þróast öðruvísi en reiknast í áætlun. Í skýringu 27 í ársreikningi og eins í kafla C.2.5 kemur fram að 10% vanmat tjónaskuldar í langtímagreinum hafi þau áhrif að afkoma félagsins eftir skatta verði lægri en sem nemur rúmlega 2.100 m.kr. Myndir D.2 og D.3 sýna þróun tjónaskuldar á milli ára (áhættuálag er innifalið). Tjónaskuld í reikningsskilum er sú sama og stuðst er við í gjaldþolsútreikningum. Ekki er stuðst við aðlögun vegna óstöðugleika (e. volatility adjustment). Hluti endurtryggjenda í tjónaskuld hefur hækkað á milli ára og munar þar um hækkun tjónaskuldar í eignatryggingum og er um að ræða áætlun í hlut endurtryggjenda í fjórum stórum brunatjónum. Hluti endurtryggjenda í tjónaskuld sést á mynd D.4.
Virði annarra skulda er það sama í efnahagsreikningi IFRS 17 og Solvency II. Ekki stendur til að breyta matsaðferðum annarra skuldbindinga frá því sem nú er.
Ekki er notast við aðrar matsaðferðir við mat á gjaldþoli en notað er í reikningsskilum og er því ekki um neinn mismun að ræða.

Mynd D.3: Helstu breytingar á tjónaskuld félagsins (í m.kr.) eftir greinaflokkum m. áhættuálagi

Mynd D.4: Hluti endurtryggjenda í tjónaskuld (í m.kr.) í 31.12.2024 og 31.12.2023
Ekki er um aðrar upplýsingar að ræða varðandi mat á eignum og skuldum vegna gjaldþolsstöðu en fram hafa komið í köflum D.1-D.4.
Markmið eiginfjárstýringar er að viðhalda sterkum eiginfjárgrunni til að stuðla að stöðugleika og fjárhagslegum styrk til að mæta kröfum vátryggingataka, eftirlitsaðila og hagsmunaaðila. Gjaldþolskrafa er reiknuð í það minnsta ársfjórðungslega og hafa stjórnir félaganna sett viðmið um gjaldþolshlutfall sem stýrt er eftir. Í það minnsta árlega er eigið áhættu- og gjaldþolsmat (ORSA) framkvæmt samhliða því að rekstraráætlun er unnin og sýn til fimm ára sett fram.
Lágmarksfjármagn (Minimum Capital Requirement, MCR) er sú fjárhæð sem samstæðunni ber að eiga umfram skuldbindingar að lágmarki. Almenna krafan er að eign umfram skuldbindingar samkvæmt Solvency II, þ.e. gjaldþol, skuli alla jafna vera að lágmarki reiknuð gjaldþolskrafa, þ.e. gjaldþolshlutfall 1,0, og er sú fjárhæð töluvert hærri en lágmarksfjármagnið. Hlutfall gjaldþols og gjaldþolskröfu í árslok 2024 er 1,42 eftir áætlaða arðgreiðslu og er innan viðmiða stjórnar um gjaldþolshlutfall samstæðunnar, sem er á bilinu 1,4 til 1,7.
Gjaldþolshlutfall samstæðunnar fór undir viðmið stjórnar á öðrum ársfjórðungi 2024 og mældist þá 1,34. Það var þó komið í 1,45 á þriðja ársfjórðungi.
Stjórnir félaganna og fjárfestinganefnd hafa eftirlit með að unnið sé samkvæmt samþykktri fjárfestingastefnu. Stjórn Sjóvá lífs hefur eftirlit með að unnið sé samkvæmt samþykktri fjárfestingastefnu þess félags. Tryggingastærðfræðingur sér um útreikning á gjaldþolskröfu og er áhættustjóri ábyrgur fyrir því að stjórn sé upplýst um frávik frá fjárfestingastefnu.
Allir gjaldþolsliðir sem mæta eiga gjaldþolskröfu flokkast í eiginfjárþátt 1. Á það einnig við um aðra viðurkennda kjarnaeiginfjárliði sem mæta eiga kröfu um lágmarksfjármagn. Eina undantekningin þar á er í þeim tilvikum sem um skatteign er að ræða en hún fellur ekki undir eiginfjárþátt 1. Fjárhæð skatteignar er alla jafna óveruleg og árin 2023 og 2024 var hún engin.
Tafla E.1 sýnir skiptingu eigin fjár félagsins í flokka og fjárhæðir m.v. árslok 2023 og 2024 og breytinguna þar á milli. Gjaldþolskrafa félagsins hækkaði á árinu í samræmi við stærri vátryggingastofn. Markaðsáhætta hækkaði lítillega en mótaðilaáhætta félagsins dróst saman. Tapgleypni frestaðra skatta hækkaði einnig sem hafði áhrif til lækkunar á gjaldþolskröfu. Þeir þættir sem höfðu áhrif á gjaldþolskröfuna koma fram á mynd E.1.
Gjaldþol samstæðunnar hækkaði um tæpar 2.100 m.kr. á árinu 2024 og var í árslok 25.887 m.kr (fyrir áætlaða arðgreiðslu) í samanburði við 23.791 m.kr í árslok 2023. Á mynd E.3 má sjá hvaða þættir höfðu áhrif á gjaldþolið. Greiddur var út á árinu arður vegna rekstrarafkomu ársins á undan að fjárhæð tæpar 2.450 m.kr. Hagnaður ársins 2024 var rúmar 4.200 m.kr. eftir skatt. Félagið keypti engin eigin bréf á árinu.
Munur er á gjaldþoli félagsins og eigin fé samkvæmt IFRS og koma þeir liðir fram á mynd E.4. Viðskiptavild telst með í efnahagsreikningi IFRS17 en ekki á efnahagsreikningi SII. Helsti munurinn liggur í í þeim framtíðarhagnaði sem reiknað er með skv. SII og telst til gjaldþols. Tekið hefur verið tillit til þess skatts sem félagið þarf að greiða vegna þessa
| 2024 | 2023 | ||||
|---|---|---|---|---|---|
| Eigið fé | Eigið fé samtals |
Eiginfjár þáttur 1 |
Eigið fé samtals |
Eiginfjár þáttur 1 |
Breyting |
| Hlutafé | 1.157 | 1.157 | 1.157 | 1.157 | 0 |
| Yfirverðsreikningur hlutafjár | 289 | 289 | 317 | 317 | -28 |
| Óráðstafað eigið fé | 21.041 | 21.041 | 19.867 | 19.867 | 1.173 |
| Víkjandi skuldabréf | - | - | - | - | - |
| Gjaldþol til móts við gjaldþolskröfu, SCR |
22.486 | 22.486 | 21.341 | 21.341 | 1.146 |
| Gjaldþol til móts við lágmarksgjaldþols-kröfu, MCR |
22.486 | 22.486 | 21.341 | 21.341 | 1.146 |
| Fyrirhuguð arðgreiðsla og endurkaup | 3.400 | 3.400 | 2.450 | 2.450 | 950 |
| Gjaldþol | 25.887 | 25.887 | 23.791 | 23.791 | 2.096 |
| Eigin bréf | 0 | 0 | 743 | 743 | -743 |
| Eignir umfram skuldir SII | 25.887 | 25.887 | 24.534 | 24.534 | 1.352 |
Tafla E.1: Niðurbrot og flokkun eigin fjár (í m.kr.) m.v. árslok 2023 og 2024

Mynd E.1: Þróun gjaldþolskröfu (í m.kr.) milli ársloka 2023 og 2024
vænta hagnaðar. Munur er á öryggisálagi IFRS17 og áhættuálagi SII og sést munurinn einnig á myndinni.
Engar fjárhæðir gjaldþols falla undir bráðabirgðaákvæði laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi né er um stuðningsgjaldþolsliði að ræða.
Stjórnir félaganna hafa sett félaginu arðgreiðslustefnu þar sem fram kemur að stefnt skuli að því að árlegar arðgreiðslur til hluthafa nemi að lágmarki 50% af hagnaði hvers árs eftir skatta. Forsendur arðgreiðslu eru að félögin haldist fjárhagslega sterk m.a. með tilliti til gjaldþols. Þá er félaginu heimilt að kaupa eigin bréf samhliða arðgreiðslu, ef hluthafafundur metur það hagstætt. Við slíkt mat er mið tekið af markaðsaðstæðum, mati á afkomu og eiginfjárstöðu hverju sinni. Tilgangur kaupa á eigin hlutum er að lækka hlutafé samstæðunnar.
Á aðalfundi Sjóvár þann 13. mars 2025 var samþykkt að greiða út arð vegna rekstr-


Mynd E.2: Samsetning gjaldþolskröfu (í m.kr.) í lok árs 2024

Mynd E.3: Þróun gjaldþols (í m.kr.) milli ársloka 2023 og 2024
Sjóvá kt. 650909-1270 - Sjóvá Líf kt. 680568-2789 Kringlunni 5, 103 Reykjavík [email protected] 57

Mynd E.4: Munur á eigin fé IFRS17 og gjaldþoli félagsins í árslok 2024 (í m.kr.)
arársins 2024 að fjárhæð 3.400 m.kr. eða sem nemur 2,94 kr. á hvern hlut.
Gjaldþolskrafa samstæðunnar var reiknuð m.v. 31. desember 2024. Útreikningur er samkvæmt staðalreglu. Ekki var notast við einfaldanir við útreikningana, einu undantekninguna er að finna í mótaðilaáhættu en þar er notast við einföldun við útreikning á gjaldþolskröfu vegna endurtryggingaeigna félagsins. Tafla E.2 sýnir niðurbrot gjaldþolskröfu og þær breytingar sem hafa orðið milli ára.
| Stöðudagsetning | 31.12.2024 | 31.12.2023 | Breyting | |||
|---|---|---|---|---|---|---|
| Gjaldþolskrafa | ||||||
| Grunngjaldþolskrafa | 17.066 | 16.279 | 5% | |||
| Rekstraráhætta | 1.313 | 1.176 | 12% | |||
| Tapgleypni frestaðra skatta | -2.573 | -2.164 | 19% | |||
| Gjaldþolskrafa, SCR | 15.806 | 15.290 | 3% | |||
| Lágmarksfjármagn (MCR) | 6.766 | 6.269 | 8% | |||
| Grunngjaldþolskrafa | ||||||
| Markaðsáhætta | 9.552 | 9.446 | 1% | |||
| Heilsutryggingaáhætta | 2.503 | 2.263 | 11% | |||
| Mótaðilaáhætta | 1.544 | 1.695 | -9% | |||
| Líftryggingaáhætta | 804 | 763 | 5% | |||
| Skaðatryggingaáhætta | 10.030 | 9.110 | 10% | |||
| Fjölþættingaráhrif | -7.367 | -6.998 | 5% | |||
| Grunngjaldþolskrafa, BSCR | 17.066 | 16.279 | 5% |
Tafla E.2: Þróun SCR gjaldþolskröfu (í m.kr.) milli ársloka 2023 og 2024.

Gjaldþolskrafa SCR hækkar um 3% á milli ára. Markaðsáhættan stendur nokkurn veginn í stað, hækkar um 1%. Samhverfi aðlögunarstuðullinn (e. symmetric adjustment) hækkar um 1,4%-stig á á milli ára og endar í 2,86%. Mótaðilaáhættan lækkar um 9% og stafar þessi lækkun einna helst af lægri stöðu innlána í erlendri mynt sem mynuðust vegna sölu Kerecis árið áður. Vátryggingaáhættan hækkar um 10% og er til komin vegna stækkunar stofns. Hækkun á rekstraráhættu helst í hendur við stækkun vátryggingastofnsins.
Félögin reikna gjaldþolskröfu og lágmarksfjármagn eftir staðalreglu og hafa ekki orðið umtalsverðar breytingar á gjaldþolskröfu og lágmarksfjármagni á árinu 2024. Ekki er stuðst við eigin stika eða eigið líkan í staðalreglu.

Mynd E.5: Niðurbrot lágmarksfjármagns (MCR) niður í Solvency II flokka (í m.kr.)
Lágmarksfjármagn samkvæmt staðalreglu reiknast m.a. út frá eigin bókfærðum iðgjöldum síðustu 12 mánaða og stöðu eigin tjónaskuldar og skiptist eftir vátryggingaflokkum eins og fram kemur á mynd E.5.
Samstæðan hefur sett sér stefnu um nýtingu tapgleypni frestaðra skatta til lækkunar á gjaldþolskröfu. Útreikningar byggja á að leggja mat á rekstrarhæfi félagsins eftir áfall að stærðargráðu samtölu grunngjaldþolskröfu og gjaldþolskröfu rekstraráhættu, áfall að stærðargráðunni 18.400 m.kr. Samstæðan setur fram 5 ára áætlun eftir áfall til að tryggja endurheimtanleika á þeirri skatteign sem myndast í kjölfar tapsins. Sú áætlun er varfærin og eru forsendur hennar ekki hagstæðari en venjubundin rekstraráætlun. Einnig tekur hún mið af þeirri óvissu sem skapast við þess konar áfall.
Á ekki við.
Sjóvá kt. 650909-1270 - Sjóvá Líf kt. 680568-2789 Kringlunni 5, 103 Reykjavík [email protected] 59

Sjóvá og Sjóvá líf reikna gjaldþolskröfu og lágmarksfjármagn eftir staðalreglu og hafa ekki orðið umtalsverðar breytingar á gjaldþolskröfu og lágmarksfjármagni á árinu. Ekki er stuðst við eigin stika í staðalreglu.
Sjóvá og Sjóvá líf uppfylla lágmarksfjármagn MCR og gjaldþolskröfu SCR. Á árinu 2024 var ekki um nein frávik frá kröfu um lágmarsfjármagn (MCR) eða gjaldþolskröfu (SCR).
Ekki er um að ræða aðrar upplýsingar varðandi gjaldþol en þær sem fram koma í köflum E.1-E2.
Have a question? We'll get back to you promptly.