AI Terminal

MODULE: AI_ANALYST
Interactive Q&A, Risk Assessment, Summarization
MODULE: DATA_EXTRACT
Excel Export, XBRL Parsing, Table Digitization
MODULE: PEER_COMP
Sector Benchmarking, Sentiment Analysis
SYSTEM ACCESS LOCKED
Authenticate / Register Log In

Hagar

Quarterly Report Jan 16, 2025

2196_ir_2025-01-16_15b039b2-10ba-444d-8b44-8f02911b967b.pdf

Quarterly Report

Open in Viewer

Opens in native device viewer

Hagar hf: Uppgjör Haga á 3. ársfjórðungi 2024/25

Rekstur gengur vel og starfsemi útvíkkuð til Færeyja

Árshlutareikningur Haga hf. fyrir þriðja ársfjórðung 2024/25 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 16. janúar 2025. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars til 30. nóvember 2024. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur hvorki verið kannaður né endurskoðaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf.

________________________________________________________________________________________________________________________

________________________________________________________________________________________________________________________

Helstu lykiltölur

  • Vörusala 3F nam 43.659 m.kr. (0,1% samdráttur frá 3F 2023/24). Vörusala 9M nam 134.305 m.kr. (2,9% vöxtur frá 9M 2023/24). [3F 2023/24: 43.683 m.kr., 9M 2023/24: 130.482 m.kr.]
  • Framlegð 3F nam 9.885 m.kr. (22,6%) og 29.596 m.kr. (22,0%) fyrir 9M. [3F 2023/24: 9.062 m.kr. (20,7%), 9M 2023/24: 27.037 m.kr. (20,7%)]
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 3F nam 3.653 m.kr. eða 8,4% af veltu. EBITDA 9M nam 10.881 m.kr. eða 8,1% af veltu. [3F 2023/24: 3.230 m.kr. (7,4%), 9M 2023/24: 10.223 m.kr. (7,8%)]
  • Hagnaður 3F nam 1.391 m.kr. eða 3,2% af veltu. Hagnaður 9M nam 3.964 m.kr. eða 3,0% af veltu. [3F 2023/24: 1.116 m.kr. (2,6%), 9M 2023/24: 3.853 m.kr. (3,0%)]
  • Grunnhagnaður á hlut 3F var 1,29 kr. og 3,66 kr. fyrir 9M. [2F 2023/24: 1,03 kr., 9M 2023/24: 3,50 kr.]. Þynntur hagnaður á hlut 3F var 1,26 kr. og 3,59 kr. fyrir 9M. [3F 2023/24: 1,01 kr., 9M 2023/24: 3,43 kr.]
  • Eigið fé nam 29.669 m.kr. í lok tímabils og eiginfjárhlutfall 35,4%. [Árslok 2023/24: 28.188 m.kr. og 36,5%]
  • Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2024/25 gerir ráð fyrir að EBITDA verði 14.000-14.500 m.kr. Afkomuspáin var hækkuð samhliða tilkynningu um kaup félagsins á SMS í Færeyjum í lok 3F.

Helstu fréttir af starfsemi

  • Almennt gekk rekstur á þriðja ársfjórðungi vel, vörusala var á pari við fyrra ár og afkoma í samræmi við áætlanir. Vörusala starfsþáttar verslana og vöruhúsa jókst en samdráttur var hjá Olís.
  • Framlegð í krónum talið jókst um 9,1% milli ára og framlegðarhlutfallið jókst um 1,9% stig, úr 20,7% í 22,6%. Framlegð styrktist bæði í dagvöru- og eldsneytishluta samstæðunnar.
  • Afkoma styrktist m.v. fyrra ár, en EBITDA jókst um 13,1% milli ára og hagnaður um 24,6%. EBITDA-hlutfall eykst um 1,0%-stig milli ára.
  • Á 3F fjölgaði heimsóknum viðskiptavina í dagvöruverslun um 1,3% á milli ára á meðan seldum stykkjum fækkaði um 1,6%, m.a. vegna breyttrar samsetningar vörukaupa.
  • Seldum eldsneytislítrum fækkaði um 2,6% á fjórðungnum – aukning var á smásölusviði á fjórðungnum en samdráttur hjá stórnotendum í samanburði við sterkt ár á undan.
  • Í lok 3F gengu Hagar frá samningi um kaup á öllu hlutafé P/F SMS í Færeyjum – SMS er leiðandi verslunarfélag með umfangsmikla starfsemi á sviði dagvöruverslunar, rekstri veitingastaða, framleiðslu og fasteigna.
  • Rétt eftir lok ársfjórðungs, þann 3. desember sl., var tilkynnt að óskuldbindandi tilboð hafi borist í Olíudreifingu og ákveðið að bjóða þremur aðilum áfram í söluferlinu.
  • Í samræmi við samþykkt hluthafafundar þann 30. ágúst sl. var þann 15. nóvember úthlutað kaupréttum til lykilstjórnenda fyrir samtals 3,25 millj. hlutum í félaginu, eða sem samsvarar 0,29% af hlutafé.

Finnur Oddsson, forstjóri:

Rekstur Haga hf. á þriðja ársfjórðungi rekstrarársins 2024/25 gekk vel. Vörusala samstæðu var á pari við fyrra ár, 43,7 ma. kr., en afkoma styrktist á fjórðungnum, EBITDA nam 3.653 m.kr. og hagnaður 1.391 m.kr., hvoru tveggja umtalsverð aukning frá fyrra ári.

Starfsemi Haga gekk ágætlega á öllum sviðum, en bætta afkomu á milli ára má að töluverðu leyti rekja til sterkari rekstrar hjá Olís. Tekjur Olís námu ríflega 12,7 ma. kr. og drógust saman á milli tímabila. Afkoma var engu að síður góð og umfram væntingar. Samdrátt í tekjum má að mestu rekja til mikillar lækkunar á heimsmarkaðsverði olíu á milli ára. Sala í lítrum dróst lítillega saman, einkum vegna minni umsvifa hjá stórnotendum, en á móti var töluverð aukning á smásölumarkaði. Viðskiptavinir taka auknu þjónustu- og vöruframboði vel en töluverð aukin sala var í þurrvöru og veitingum, m.a. hjá Grill 66 og Lemon Mini. Áfram er unnið að því að þróa þjónustu stöðva, en því tengt verða nýjar þvottastöðvar Olís opnaðar á árinu 2025 undir vörumerkinu Glans. Söluferli ODR gengur samkvæmt áætlun, en í framhaldi af óskuldbindandi tilboðum hefur þremur aðilum verið boðið að halda áfram í söluferlinu.

Tekjur tengdar verslunum og vörhúsum, þ.e. Bónus, Hagkaup, Eldum rétt, Aðföng, Bananar, Zara og Stórkaup, voru ríflega 31,5 ma. kr. og jukust um 4,2% miðað við sama fjórðung á fyrra ári. Heimsóknum viðskiptavina í dagvöruverslun fjölgar áfram en seldum stykkjum fækkaði lítillega. Hér spilar m.a. inn í breytt samsetning vörukaupa, en ekki síður aukið framboð af stærri og hagkvæmari sölueiningum sem mælst hafa vel fyrir hjá viðskiptavinum en torvelda aðeins samanburð á seldum stykkjum. Hjá Bónus er áfram unnið að því að auðvelda viðskiptavinum hagkvæm matvöruinnkaup, m.a. með aukinni þjónustu en nú er Gripið & Greitt sjálfskönnun í boði í 11 verslunum og hentar vel þegar mikið er verslað. Þá hefur sérstök áhersla á umbætur í framsetningu og meðhöndlun ávaxta og grænmetis skilað sér í meiri ferskleika, betra úrvali, gæðum og aukinni sölu. Tekjur hjá Hagkaup jukust lítillega, en félagið hefur að undanförnu kappkostað að efla þjónustu við viðskiptavini á margvíslegan hátt. Í samstarfi við Þjóðskrá geta landsmenn nú sótt vegabréf og nafnskírteini í verslun Hagkaups í Skeifunni, allan sólarhringinn, alla daga vikunnar. Mikil aukning varð í netverslun Hagkaups, m.a. vegna vel heppnaðra tilboðsdaga í nóvember. Veigar opnaði netverslun með áfengi í september, þar sem Hagkaup sinnir þjónustuhlutverki við félagið en viðskiptavinir geta sótt pantanir í Hagkaup Skeifu, fengið sent í aðrar Hagkaupsverslanir, þjónustustöðvar Olís eða afhendingarstaði Dropp. Rekstur Eldum rétt heldur áfram að styrkjast, enda eftirspurn mikil og hafa stjórnendur náð góðum árangri í framleiðslu með sjálfvirkni- og vélvæðingu. Starfsemi annara eininga, þ.e. Aðfanga, Banana, Stórkaups og Zara gekk vel og hefur afkoma heilt yfir heldur styrkst á milli ára.

Stóru tíðindi fjórðungsins voru að undir lok hans var gengið frá samningi um kaup Haga á öllu hlutafé í færeyska verslunarfélaginu P/F SMS, sem m.a. rekur 13 verslanir í eyjunum, veitingastaði, kjötvinnslu, verksmiðjubakarí, líkamsræktarstöðvar og verslunarmiðstöð. Að auki á félagið fasteignasafn sem telur ríflega 11.000 m2, sem bætist við stórt fasteignasafn Haga sem nú telur vel yfir 60 þúsund m2. Kaupin á SMS eru í samræmi við markmið okkar og stefnu um að horfa til nýrra tækifæra til að efla starfsemi, bæði tengt kjarnastarfsemi og nýjum tekjustraumum. Með kaupunum rennum við nýrri stoð undir rekstur Haga og styrkjum félagið á sviði dagvöruverslunar, með auknum umsvifum og tækifærum sem felast í því að efla þjónustu Haga á Íslandi og SMS í Færeyjum. Sérstaklega verður horft til tækifæra sem felast í að bæta vöruframboð, kostnaðarsamlegð og fjármögnun, en við hlökkum til að vinna að þessum verkefnum með nýjum kollegum okkar í Færeyjum.

Heilt yfir erum við sátt við rekstur samstæðunnar á fjórðungnum og rekstrarárinu og ánægð með stefnumótandi skref sem felast í kaupum á SMS í Færeyjum. Við höfum allt þetta ár beitt okkur af einurð gegn stöðugum verðhækkunum á aðföngum til dagvöruverslunar og þannig lagt okkar af mörkum til að stuðla að hjöðnun matarverðbólgu á síðasta ári. Þetta verður áfram áberandi áhersla í okkar starfi, en til skemmri tíma höfum við enn nokkrar áhyggjur af þróun á verði aðfanga frá birgjum. Þar treystum við sem fyrr á gott samstarf við heildsala og framleiðendur, að hófs sé gætt í verðhækkunum, svo treysta megi stöðugleika verðlags sem er enn eitt stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja í landinu.

Staða Haga er heilt yfir góð og hefur styrkst með tilkomu nýrrar og öflugrar rekstrareiningar í SMS í Færeyjum. Fjárhagur er traustur, staða helstu rekstrareininga er sterk og augljós ný tækifæri til að efla rekstur hafa orðið til með tilkomu SMS. Horfur í rekstri eru góðar.

Rekstrarreikningur samstæðunnar

3F 2024/25 3F 2023/24 9M 2024/25 9M 2023/24
í millj. kr. 01.09-30.11 01.09-30.11 Breyting Breyting % 01.03-30.11 01.03-30.11 Breyting Breyting %
Vörusala 43.659 43.683 (24) -0,1% 134.305 130.482 3.823 2,9%
Kostnaðarverð seldra vara (33.774) (34.621) 847 -2,4% (104.709) (103.445) (1.264) 1,2%
Framlegð 9.885 9.062 823 9,1% 29.596 27.037 2.559 9,5%
Framlegð % 22,6% 20,7% - 1,9% 22,0% 20,7% - 1,3%
Aðrar rekstrartekjur 341 139 202 145,3% 604 543 61 11,2%
Laun og launatengd gjöld (4.444) (4.094) (350) 8,5% (13.069) (11.907) (1.162) 9,8%
Annar rekstrarkostnaður (2.129) (1.877) (252) 13,4% (6.250) (5.450) (800) 14,7%
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) 3.653 3.230 423 13,1% 10.881 10.223 658 6,4%
EBITDA % 8,4% 7,4% - 1,0% 8,1% 7,8% - 0,3%
Afskriftir (1.283) (1.285) 2 -0,2% (3.895) (3.767) (128) 3,4%
Rekstrarhagnaður (EBIT) 2.370 1.945 425 21,9% 6.986 6.456 530 8,2%
Hrein fjármagnsgjöld (658) (625) (33) 5,3% (2.193) (1.890) (303) 16,0%
Áhrif hlutdeildarfélaga 40 60 (20) -33,3% 192 209 (17) -8,1%
Hagnaður fyrir tekjuskatt 1.752 1.380 372 27,0% 4.985 4.775 210 4,4%
Tekjuskattur (361) (264) (97) 36,7% (1.021) (922) (99) 10,7%
Heildarhagnaður 1.391 1.116 275 24,6% 3.964 3.853 111 2,9%

Lykiltölur á 3. ársfjórðungi 2024/25

Vörusala á 3F nam 43.659 m.kr. og stóð nánast í stað á milli ára. Söluaukning verslana og vöruhúsa nam 4,2% en samdráttur var í sölu hjá Olís sem nemur 9,6% milli ára, einkum vegna umtalsverðrar lækkunar á heimsmarkaðsverði olíu m.v. fyrra ár.

Á 3F fjölgaði heimsóknum viðskiptavina í dagvöruverslun um 1,3% en seldum stykkjum fækkaði á sama tíma um 1,6%. Seldum eldsneytislítrum fækkaði hjá Olís um 2,6% á fjórðungnum – aukning á smásölusviði en samdráttur hjá stórnotendum.

Framlegð á 3F nam 9.885 m.kr. og jókst um 9,1% frá fyrra ári. Framlegðarhlutfall nam 22,6% og hækkaði um 1,9%-stig milli ára. Framlegðarhlutfall hækkaði bæði í dagvöru- og eldsneytishluta samstæðunnar á tímabilinu.

Aðrar rekstrartekjur hækka um 202 m.kr. milli ára, að talsverðu leyti vegna söluhagnaðar af fasteign hjá Olís.

Laun hækkuðu um 8,5% og annar rekstrarkostnaður hækkaði um 13,4% á 3F. Launa- og kostnaðarhlutfall hækkar úr 13,7% í 15,1% milli ára.

EBITDA á 3F hækkar um 13,1% þar sem EBITDA hjá verslunum og vöruhúsum hækkar um 3,7% og EBITDA Olís um 39,3%.

Hagnaður ársfjórðungsins nam 1.391 m.kr. og hækkar um 24,6% milli ára.

Rekstur fyrstu 9 mánuði 2024/25

Vörusala tímabilsins nam 134.305 m.kr., samanborið við 130.482 m.kr. árið áður. Söluaukning milli ára nam 2,9%. Söluaukning verslana og vöruhúsa nam 5,5% en samdráttur var í sölu hjá Olís um 3,0%.

Framlegð tímabilsins var 29.596 m.kr., samanborið við 27.037 m.kr. árið áður, eða aukning sem nemur 9,5%. Framlegðarhlutfall nam 22,0% og hækkaði um 1,3%-stig frá fyrra ári. Hækkun framlegðarhlutfalls liggur bæði í dagvöru og eldsneytishluta samstæðunnar.

Launakostnaður hækkaði um 9,8% milli ára og annar rekstrarkostnaður hækkaði um 14,7%. Launa- og kostnaðarhlutfall á tímabilinu hækkar úr 13,3% í 14,4%.

EBITDA nam 10.881 m.kr., samanborið við 10.223 m.kr. árið áður. EBITDA-hlutfall var 8,1%, samanborið við 7,8% á fyrra ári. EBITDA verslana og vöruhúsa jókst um 7,3% milli ára og EBITDA Olís jókst um 4,2%.

Afskriftir hækka um 3,4% milli ára og fjármagnskostnaður hækkar um 16,0%.

Heildarhagnaður tímabilsins nam 3.964 m.kr., sem jafngildir 3,0% af veltu en heildarhagnaður á fyrra ári var 3.853 m.kr. sem jafngildir einnig 3,0% af veltu. Hagnaður eykst um 2,9% milli ára.

Efnahagsreikningur samstæðunnar

í millj. kr. 30.11.2024 29.02.2024 Breyting Breyting %
Eignir
Fastafjármunir 56.323 56.085 238 0,4%
Veltufjármunir 27.567 21.129 6.438 30,5%
Eignir samtals 83.890 77.214 6.676 8,6%
Eigið fé og skuldir
Hlutafé 1.084 1.084 -- 0,0%
Annað eigið fé 28.585 27.104 1.481 5,5%
Eigið fé samtals 29.669 28.188 1.481 5,3%
Langtímaskuldir 27.006 23.139 3.867 16,7%
Vaxtaberandi skammtímaskuldir 6.027 5.818 209 3,6%
Aðrar skammtímaskuldir 21.188 20.069 1.119 5,6%
Skuldir samtals 54.221 49.026 5.195 10,6%
Eigið fé og skuldir samtals 83.890 77.214 6.676 8,6%

Lykiltölur efnahags 30.11.2024

  • Heildareignir samstæðunnar í lok tímabils námu 83.890 m.kr. og hækkuðu um 6.676 m.kr. frá árslokum 2023/24.
  • Fastafjármunir voru 56.323 m.kr. og hækkuðu um 238 m.kr. frá árslokum 2023/24 og veltufjármunir námu 27.567 m.kr. og hafa hækkað um 6.438 m.kr. það sem af er árs.
  • Vörubirgðir eru alla jafna stærsti hluti veltufjármuna og námu 13.562 m.kr. í lok nóvember. Birgðir hækka um 494 m.kr. frá árslokum 2023/24 en hafa hækkað um 633 m.kr. frá lokum 3F 2023/24. Veltuhraði birgða er nú 10,5 en var 10,0 á fyrra ári.
  • Viðskiptakröfur og aðrar skammtímakröfur námu 12.471 m.kr. og hækka um 6.237 m.kr. á tímabilinu en viðskiptakröfur eru 4.957 m.kr. hærri en í lok 3F á fyrra ári. Hér gætir áhrifa af kaupum félagsins á SMS í Færeyjum en hluti uppgjörs viðskiptanna fór fram í lok 3F þegar reiðufé var greitt á biðvörslu við undirritun kaupsamnings. Bókun eignarhlutar SMS í Hagasamstæðunni og áhrifa í rekstri mun hins vegar ekki gæta fyrr en á síðasta ársfjórðungi rekstrarársins.
  • Innheimtutími viðskiptakrafna er nú 12,3 dagar samanborið við 11,9 daga á fyrra ári.
  • Veltufjárhlutfall er 1,01 og lausafjárhlutfall 0,51 í lok tímabils. Aðgangur að skammtímafjármögnun í formi lánalína að upphæð 6,2 ma. kr. hjá viðskiptabanka er tryggður en auk þess fjármagnar félagið sig til skamms tíma með útgáfu víxla.
  • Eigið fé í lok tímabilsins var 29.669 m.kr. og eiginfjárhlutfall 35,4%. Arðsemi eigin fjár var 19,1%. Eiginfjárhlutfall við lok síðasta rekstrarárs var 36,5% og arðsemi eigin fjár 18,1%. Félagið átti eigin hluti að nafnverði 22,1 millj. í lok 3F. Afhending eigin bréfa í viðskiptum með SMS fóru fram á 4F.
  • Heildarskuldir samstæðunnar í lok tímabils námu 54.221 m.kr. en þar af voru vaxtaberandi skuldir 19.783 m.kr. og leiguskuldir 12.667 m.kr. Nettó vaxtaberandi skuldir, með leiguskuldum, í lok tímabils voru 30.916 m.kr. eða 2,3 x 12 mánaða EBITDA.
  • Vaxtaberandi skammtímaskuldir námu 6.027 m.kr. en þar af námu víxilskuldir 1.660 m.kr. og skammtímafjármögnun í DKK vegna kaupa félagsins á SMS nam 3.907 m.kr.

__________________________________________________________________________________________

Sjóðstreymisyfirlit samstæðunnar

3F 2024/25 3F 2023/24 9M 2024/25 9M 2023/24
í millj. kr. 01.09-30.11 01.09-30.11 Breyting Breyting % 01.03-30.11 01.03-30.11 Breyting Breyting %
Handbært fé frá rekstri 2.695 1.244 1.451 116,6% 8.252 7.030 1.222 17,4%
Fjárfestingarhreyfingar (6.058) (880) (5.178) 588,4% (7.157) (4.007) (3.150) 78,6%
Fjármögnunarhreyfingar 1.913 (1.207) 3.120 -258,5% (1.388) (4.009) 2.621 -65,4%
Hækkun á handbæru fé (1.450) (843) (607) 72,0% (293) (986) 693 -70,3%
Handbært fé í byrjun tímabils 2.984 2.726 258 9,5% 1.827 2.869 (1.042) -36,3%
Handbært fé í lok tímabils 1.534 1.883 (349) -18,5% 1.534 1.883 (349) -18,5%

Sjóðstreymi fyrstu 9 mánuði 2024/25

  • Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 8.252 m.kr., samanborið við 7.030 m.kr. á fyrra ári.
  • Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 7.157 m.kr., samanborið við 4.007 m.kr. á fyrra ári. Einkum var fjárfest í áhöldum og innréttingum á tímabilinu en einnig töluvert í nýjum upplýsingatæknikerfum og stafrænni þróun. Þá koma fram áhrif af fjárfestingu í SMS í Færeyjum en kaupverð var að stærstum hluta greitt á biðvörslu í lok ársfjórðungs, þó áhrifa af rekstri SMS og eignarhlutur í félaginu komi ekki fram fyrr en á fjórða ársfjórðungi.
  • Fjármögnunarhreyfingar tímabilsins voru 1.388 m.kr., samanborið við 4.009 m.kr. á fyrra ári. Ekki hafa verið keypt eigin bréf á tímabilinu en á fyrra ári námu endurkaup 2.333 m.kr. Arðgreiðsla var greidd í júní 2024 og nam hún 2.522 m.kr. til samanburðar við arðgreiðslu á fyrra ári sem nam 2.475 m.kr.
  • Handbært fé í lok nóvember 2024 nam 1.534 millj., samanborið við 1.883 millj. í nóvemberlok í fyrra.

__________________________________________________________________________________________

Staðan og framtíðarhorfur

Rekstur gekk vel á þriðja ársfjórðungi 2024/25 og var í samræmi við áætlanir. Afkoma tímabilsins var nokkuð betri en á fyrra ári. Þar munar m.a. um sterkan ársfjórðung hjá Olís, þar sem hreyfingar á heimsmarkaðsverði olíu og einskiptistekjur vegna söluhagnaðar fasteignar styðja við afkomu. Vörusala samstæðunnar í heild stóð í stað á fjórðungnum, en framlegð í krónum jókst um ríflega 9%. Rekstrarkostnaður hækkaði um 10,1% milli ára en EBITDA afkoma fjórðungsins hækkaði um 13,1% frá fyrra ári. Heildarhagnaður jókst um 24,6% milli ára.

Þann 22. október 2024 var greint frá því að Hagar og eigendur P/F SMS í Færeyjum hefðu undirritað skilyrt samkomulag um kaup og sölu á öllu hlutafé í SMS. Þann 27. nóvember 2024 var endanlegur kaupsamningur vegna viðskiptanna undirritaður. Uppgjörsdagur viðskiptanna var mánudagurinn 2. desember 2024 og mun SMS því verða hluti af samstæðuuppgjöri Haga á síðasta fjórðungi rekstrarársins 2024/25, þ.e. áhrifa í rekstri mun gæta frá og með þeim tíma auk þess sem eignarhlutur verður þá bókfærður. Kaupverð (e. enterprise value) í viðskiptunum nam tæplega 467 mDKK og virði hlutafjár (e. equity value) tæplega 327 mDKK. Kaupverð byggði m.a. á rekstri og áætlunum SMS fyrir rekstrarárið 2024, en tekjur fyrir árið voru áætlaðar um 730 mDKK og hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) um 63 mDKK. Kaupverð byggði einnig á mati á fasteignasafni SMS. Vert er að benda á að áhrifa leigustaðals IFRS 16 gætir ekki í uppgefnum afkomutölum SMS. Hagar greiddu kaupverð með reiðufé að upphæð um 267 mDKK og afhendingu 13.867.495 hluta eigin bréfa að virði 60 mDKK í viðskiptunum. Hluti kaupverðs sem var í reiðufé var greiddur í lok 3. ársfjórðungs (á biðvörslu) en afhending bréfa fór fram þann 2. desember 2024, þ.e. í upphafi 4. ársfjórðungs. Hagar fjármögnuðu hluta kaupverðs með nýju 200 mDKK láni til 12 mánaða en unnið verður að langtímafjármögnun á næstu misserum. SMS er leiðandi verslunarfélag í Færeyjum og rekur m.a. átta Bónus lágvöruverðsverslanir víða í Færeyjum, fjórar smærri dagvöruverslanir í Þórshöfn undir nafninu Mylnan og stórverslunina Miklagarður í Þórshöfn. SMS er einnig umsvifamikið í annarri starfsemi, m.a. rekstri stærstu verslunarmiðstöðvar Færeyja, fjölda veitingastaða, smávöruverslana, brauð- og kökugerðar, kjötvinnslu og líkamsræktarstöðva. Að auki á félagið fjölbreytt fasteignasafn sem telur um 11.000 m2 sem er að mestu nýtt undir eigin starfsemi en að hluta leigt til þriðja

aðila. Markmið kaupanna er að renna frekari stoðum undir og styrkja rekstur Haga á sviði dagvöruverslana og auka skilvirkni rekstrar og vöruúrval SMS í Færeyjum.

Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2024/25 gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) verði á bilinu 14.000-14.500 millj. kr. en afkomuspáin var hækkuð í lok ársfjórðungs samhliða tilkynningu um kaup félagsins á SMS í Færeyjum. Fjárhagsleg staða samstæðunnar er sterk og er fjármögnun tryggð. Aðgangur að skammtímafjármögnun í formi lánalína, að fjárhæð 4,5 ma. kr. og USD 12,5 millj. er tryggður en einnig hefur félagið undanfarið nýtt sér skammtímafjármögnun í formi víxlaútgáfu. Útgáfa víxlanna er í samræmi við grunnlýsingu 10 ma. kr. útgáfuramma sem stjórn félagsins hefur samþykkt. Gera má ráð fyrir að félagið nýti sér áfram markaðsfjármögnun á næstu misserum.

Þann 26. september 2024 var tilkynnt um að Olís, dótturfélag Haga, hafi ásamt meðeigendum sínum komist að samkomulagi um að hefja formlegt söluferli á eignarhlutum félaganna í Olíudreifingu. Borist hafa óskuldbindandi tilboð í félagið og þremur aðilum boðið að halda áfram í söluferlinu. Á þessu stigi liggur ekki fyrir nein vissa um hvort söluferlið muni leiða til skuldbindandi tilboða í Olíudreifingu, sem gæti lokið með sölu á félaginu.

Hlutafé og hluthafar

• Markaðsvirði Haga í lok tímabilsins nam 110,6 ma. kr. og lokaverð þann 30. nóvember 2024 var 100,0 kr./hlut.

__________________________________________________________________________________________

  • Skráð hlutafé Haga í lok tímabilsins nam 1.106 m.kr. Félagið átti 22,1 millj. eigin hluti í lok tímabils og er útistandandi hlutafé því 1.084 m.kr.
  • Þann 30. maí 2024 samþykkti aðalfundur félagsins að greiddur yrði arður til hluthafa sem nemur 50,0% af hagnaði síðasta reikningsárs eða samtals 2.522 m.kr. Arðgreiðslan nam því 2,33 kr. á hlut útistandandi hlutafjár. Arðurinn var greiddur þann 7. júní 2024.
  • Í samræmi við samþykkt hluthafafundar þann 30. ágúst 2024 var tilkynnt þann 31. ágúst 2024 að ákveðið hafi verið að veita tilteknum lykilstarfsmönnum félagsins kauprétti fyrir samtals 12.918.615 hlutum í félaginu, eða sem samsvarar 1,17% af hlutafé Haga þegar kaupréttarkerfið var samþykkt. Þar af var 11.037.686 hlutum úthlutað til framkvæmdastjórnar. Þann 15. nóvember 2024 var úthlutað til viðbótar 3.250.000 hlutum til lykilstarfsmanna, eða sem nemur 0,29% af hlutafé Haga.
  • Hluthafar voru 968 í byrjun tímabils og 909 í lok þess. 10 stærstu hluthafar félagsins áttu 77,74% eignarhlut í félaginu í lok þriðja ársfjórðungs.

__________________________________________________________________________________________

Rafrænn kynningarfundur föstudaginn 17. janúar 2025

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn föstudaginn 17. janúar kl. 08:30, þar sem Finnur Oddsson, forstjóri, og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, munu kynna rekstur og afkomu félagsins ásamt því að svara fyrirspurnum.

Tekið verður við spurningum sem tengjast uppgjörinu á meðan á útsendingu stendur á netfangið [email protected] og verður þeim svarað eins og kostur er í lok fundar.

Fundinum verður streymt og er skráning á fundinn hér: https://www.hagar.is/skraning

Kynningargögn verða aðgengileg á heimasíðu Haga, www.hagar.is, við upphaf fundar.

__________________________________________________________________________________________

Fjárhagsdagatal 2024/25

Fjárhagsupplýsingar eru birtar eftir lokun markaða.

Uppgjörstímabil Vikudagur Birtingardagur
4F – 1. mars til 28. febrúar Þriðjudagur 15. apríl 2025
Aðalfundur 2025 Miðvikudagur 21. maí 2025

Fréttatilkynning þessi og uppgjörsgögn verða aðgengileg á ensku þann 20. janúar á https://www.hagar.is/en/

___________________________________________________________________________________________________

Press release and financial statements will be available in English on January 20 th at https://www.hagar.is/en/ ___________________________________________________________________________________________________

Nánari upplýsingar veita Finnur Oddsson, forstjóri félagsins ([email protected]), og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs ([email protected]), í síma 530-5500 eða tölvupósti.

___________________________________________________________________________________________________

Talk to a Data Expert

Have a question? We'll get back to you promptly.