AI Terminal

MODULE: AI_ANALYST
Interactive Q&A, Risk Assessment, Summarization
MODULE: DATA_EXTRACT
Excel Export, XBRL Parsing, Table Digitization
MODULE: PEER_COMP
Sector Benchmarking, Sentiment Analysis
SYSTEM ACCESS LOCKED
Authenticate / Register Log In

Festi

Legal Proceedings Report Nov 28, 2024

2195_iss_2024-11-28_97e5c714-5e8f-407f-ae08-5324917080b8.pdf

Legal Proceedings Report

Open in Viewer

Opens in native device viewer

Sátt

vegna rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á brotum Festi hf. gegn ákvæðum í sátt, dags. 30. júlí 2018, vegna samruna N1 hf. og Festi hf.

Festi hf., kt. 540206-2010, Dalvegi 10-14, 201 Kópavogi (hér eftir "Festi") og Samkeppniseftirlitið hafa gert með sér eftirfarandi sátt í samræmi við 17. gr. f samkeppnislaga nr. 44/2005, með síðari breytingum, og 22. gr. reglna nr. 880/2005 um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins.

Samkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar ætluð brot Festi gegn skilyrðum í sátt fyrirtækisins við eftirlitið, dags. 30. júlí 2018. Sáttin var gerð vegna samruna N1 hf. og Festi hf. en nánar er fjallað um samrunann og tilefni sáttarinnar í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2019. Rannsóknin tekur til háttsemi Festi frá því tímamarki sem sáttin var gerð árið 2018. Rannsóknin tekur einkum til háttsemi á markaði fyrir sölu eldsneytis en einnig á markaði fyrir sölu á dagvörum. Jafnframt hafa verið til rannsóknar ætluð brot Festi á upplýsingaskyldu skv. 19. gr. og 17. gr. og 17. gr. a-g samkeppnislaga, sbr. og þágildandi reglur nr. 684/2008 um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum með síðari breytingum.

Festi viðurkennir að fyrirtækið hafi brotið gegn tilteknum ákvæðum sáttarinnar frá 30. júlí 2018 og ákvæðum samkeppnislaga um upplýsingaskyldu á afmörkuðum tímabilum innan rannsóknartímabilsins. Með undirritun sáttarinnar telst því máli lokið sem lýtur að þeim brotum sem tilgreind eru í sátt þessari.

1. gr.

Viðurkenning

Festi viðurkennir að hafa brotið skilyrði sem fram koma í sátt fyrirtækisins við Samkeppniseftirlitið frá 30. júlí 2018 vegna samruna N1 hf. og Festi hf., sbr. ákvörðun eftirlitsins nr. 8/2019. Háttsemin fór með alvarlegum hætti gegn markmiðum sáttarinnar, en henni var ætlað að afstýra þeim samkeppnishömlum sem leiddu af samruna N1 hf. og Festi hf.

Viðurkennt er að brot Festi á sáttinni hafi falist í þeim aðgerðum sem tilgreindar eru 2. til 5. gr. þessarar sáttar.

Festi viðurkennir einnig að hafa brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga um upplýsingaskyldu við rannsókn Samkeppniseftirlitsins á samruna N1 hf. og Festi hf., sbr. 6. gr.

2. gr.

Ákvæði sem varða samkeppni á eldsneytismarkaði

Brot gegn ákvæði 3. gr. sáttarinnar um sölu á eldsneyti til nýrra keppinauta. Fólst brotið í því að synja nýjum aðila um tilboð í eldsneytisviðskipti, og síðar að svara ekki verðfyrirspurnum hans.

Brot gegn ákvæði d-liðar 2. mgr. 10. gr., með því að haga ekki verðlagningu á eldsneyti til Dælunnar í samræmi við ákvæðið og kostnaðarforsendur á hverjum tíma, og með því að grípa til annarra aðgerða sem voru til þess fallnar að hafa áhrif á samkeppnisstöðu hennar og verðmæti eigna, sbr. 1. mgr. 14. gr. og 11. gr.

Brot gegn ákvæði 4. gr. sáttarinnar um heildsölutengilið eldsneytis, með því tryggja ekki með fullnægjandi hætti að heildsölutengiliður og starf hans uppfyllti skilyrði ákvæðisins á hverjum tíma.

3. gr.

Ákvæði sem varða samkeppni á dagvörumarkaði

Brot gegn 15., 12. og 13. gr. sáttarinnar um sölu verslunar á Suðurlandi, með því að selja ekki verslunina eða aðrar tilgreindar eignir fyrr en eftir að tímamörk samkvæmt sáttinni voru liðin.

4. gr.

Ákvæði sem varðar endurskoðun samnings við keppinaut

Brot gegn ákvæði 20. gr. sáttarinnar um viðræður og endurskoðun samnings Festi við Samkaup hf. Fólst brot Festi í því að hafa ekki beitt sér nægjanlega snemma fyrir því að viðræður við Samkaup yrðu hafnar og þeim lokið innan tímamarka sáttarinnar.

Brot gegn ákvæði 3. mgr. 20. gr. sáttarinnar um skráningu samskipta við Samkaup hf. Brotið fólst í því að skráning samskiptanna var ekki samræmi við kröfur sáttarinnar.

5. gr.

Ákvæði er varðar eftirlit óháðs kunnáttumanns

Brot gegn ákvæði 4. mgr. 30. gr. sáttarinnar sem kveður á um að Festi skuli veita óháðum kunnáttumanni nauðsynlegar upplýsingar og aðstoð við eftirlit með sáttinni.

6. gr.

Afhending gagna og upplýsinga

Festi viðurkennir að hafa brotið gegn ákvæðum 19. gr. og 17. gr. og 17. gr. a-g samkeppnislaga um upplýsingaskyldu með því að hafa ekki veitt tímanlega nauðsynleg og fullnægjandi gögn í þágu rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á samruna N1 hf. og Festi hf. og með því að hafa ekki gert Samkeppniseftirlitinu fullnægjandi grein fyrir sjónarmiðum félagsins við gerð sáttar.

7. gr.

Sekt

Vegna framangreindra brota fellst Festi á að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 750.000.000 króna. Sektina skal greiða inn á reikning 0001-26-25874, kt. 540269-6459, í eigu ríkissjóðs eigi síðar en mánuði eftir dagsetningu þessarar sáttar.

8. gr.

Fullnaðarlyktir málsins

Með undirritun sáttar þessarar telst því máli lokið sem lýtur að þeim brotum sem tilgreind eru í sáttinni. Í samræmi við lokamálslið 1. mgr. 17. gr. f samkeppnislaga er sáttin bindandi fyrir Festi og verður efni hennar og meðferð Samkeppniseftirlitsins á málinu því hvorki borin undir áfrýjunarnefnd samkeppnismála né dómstóla. Í samræmi við framangreint kemur ekki til frekari rannsóknar og málsmeðferðar gagnvart Festi, starfsfólki þess eða öðrum einstaklingum, af hálfu Samkeppniseftirlitsins, vegna þeirra atvika sem lýst er í andmælaskjali Samkeppniseftirlitsins frá 20. desember 2023.

Reykjavík, 28. nóvember 2024

Samkeppniseftirlitið Festi hf.

Undirritunarsíða

Páll Gunnar Pálsson

Undirritað af: Páll Gunnar Pálsson 1509674659 Dags: 28.11.2024 Tími: 15:41:56 Ástæða: Samþykkt Signet ID: 8b28b747- 524c-424b-9a0f-144cd7fe7209

Ásta Sigríður Fjeldsted

Undirritað af: Ásta Sigríður Fjeldsted 3101823389 Dags: 28.11.2024 Tími: 16:28:55 Ástæða: Samþykkt Signet ID: 8b28b747- 524c-424b-9a0f-144cd7fe7209

Talk to a Data Expert

Have a question? We'll get back to you promptly.