AI Terminal

MODULE: AI_ANALYST
Interactive Q&A, Risk Assessment, Summarization
MODULE: DATA_EXTRACT
Excel Export, XBRL Parsing, Table Digitization
MODULE: PEER_COMP
Sector Benchmarking, Sentiment Analysis
SYSTEM ACCESS LOCKED
Authenticate / Register Log In

Hampiðjan hf.

Annual / Quarterly Financial Statement Mar 7, 2024

6172_10-k_2024-03-07_0e171f2b-632e-42e9-b7f7-82338f91b332.pdf

Annual / Quarterly Financial Statement

Open in Viewer

Opens in native device viewer

Hampiðjan hf.

Ársreikningur samstæðu 2023

Ársreikningur samstæðu 2023

Efnisyfirlit: Bls. Skýrsla og áritun stjórnar og forstjóra............................................................................ 2 - 3 Áritun óháðs endurskoðanda......................................................................................... 4 - 6 Rekstrarreikningur samstæðu....................................................................................... 7 Yfirlit um heildarafkomu samstæðu............................................................................... 7 Efnahagsreikningur samstæðu...................................................................................... 8 Yfirlit um breytingar á eigin fé samstæðu...................................................................... 9 Sjóðstreymi samstæðu.................................................................................................. 10 Skýringar........................................................................................................................ 11 - 28 Viðaukar - óendurskoðaðir Ófjárhagslegar upplýsingar............................................................................................ 29 - 30 Skýrslugjöf vegna flokkunarreglugerðar ESB................................................................ 30 - 35 Stjórnarháttayfirlýsing.................................................................................................... 36 - 39

Hampiðjan hf. kt. 590169-3079 Skarfagörðum 4 Reykjavík

Skýrsla og áritun stjórnar og forstjóra

Ársreikningur samstæðunnar hefur að geyma ársreikning Hampiðjunnar hf. og dótturfélaga. Dótturfélögin eru, Hampidjan New Zealand á Nýja Sjálandi, Hampidjan USA í Bandaríkjunum, Swan Net Gundry á Írlandi, Cosmos Trawl í Danmörku, Von í Færeyjum, Hampidjan Canada í Kanada, Hampidjan Baltic í Litháen, Hampidjan Australia í Ástralíu, Hampiðjan TorNet á Spáni, Hampiðjan Russia í Rússlandi, Jackson Trawl og Jackson Offshore í Skotlandi, Hampiðjan Ísland á Íslandi, Hampiðjan Offshore á Íslandi, Voot á Íslandi, Fasteignafélagið Miðhús á Íslandi og Mørenot Holding í Noregi

Meginstarfsemi samstæðunnar er framleiðsla og sala á veiðarfærum, íhlutum þeirra og ofurköðlum. Móðurfélagið, Hampiðjan hf., er hlutafélag og starfar á grundvelli laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

Ársreikningur samstæðunnar er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þeir hafa verið staðfestir af Evrópusambandinu. Ársreikningur samstæðunnar hefur að geyma ársreikning Hampiðjunnar hf. (félagið) og dótturfélaga þess (samstæðan).

Rekstur og fjárhagsleg staða 2023

Í byrjun febrúar var gengið frá kaupum á 100% hlut í Holding Cage I sem var móðurfélag Mørenot samstæðunnar. Mørenot er alþjóðlegt fyrirtæki sem var með starfstöðvar á 30 stöðum víðsvegar um heiminn. Félagið veitir þjónustu og selur vörur til fyrirtækja í sjávarútvegi, fiskeldi og olíuiðnaði. Hjá Mørenot störfuðu um 750 starfsmenn. Kaupverðið var að mestu greitt með hlutabréfum í Hampiðjunni en seljendur fengu afhenta 50.981.049 hluti í Hampiðjunni. Mørenot kemur inn í samstæðu Hampiðjunnar frá og með 1. febrúar 2023. Áhrif Mørenot á samstæðu Hampiðjunnar má sjá í skýringu nr. 5, starfsþáttaryfirlit með ársreikningi þessum.

Á árinu hefur félagið unnið markvisst með stjórnendum Mørenot að úrbótum í rekstri félagsins og hefur umtalsverður árangur náðst í þeim efnum. Vaxtaberandi skuldir Mørenot hafa verið greiddar niður um rúmlega helming og fjármögnun félagsins til lengri tíma tryggð. Unnið hefur verið að fækkun og sameiningu félaga innan Mørenot samstæðunnar ásamt því að færa starfsemi milli eininga innan samstæðu Hampiðjunnar til að byrja að ná í þá samlegð sem í kaupunum er fólgin. Mørenot samstæðan samanstendur nú af þremur meginstoðum (Mørenot Fishery, Mørenot Aquaculture og Hampidjan Advant). Með nýrri skiptingu hefur tekist að hagræða í yfirstjórn Mørenot og ná fram nauðsynlegum sparnaði til að hvert félag geti tekið fulla ábyrgð á eigin rekstri og skilað hagnaði í framhaldinu. Meginstoðirnar hafa sínar eigin yfirstjórnir sem munu halda sínum störfum áfram með skýra ábyrgð á rekstri og afkomu sinnar einingar og munu heyra beint undir stjórn viðkomandi félags og stjórnendur Hampiðjunnar hf.

Þann 2. júní lauk almennu hlutafjárútboði Hampiðjunnar. Hlutafé var aukið um 85. milljón hluti og nam heildarsöluandvirði hlutafjárútboðsins um 10,9 ma.kr. Alls bárust um 3.700 áskriftir að andvirði um 32,3 ma.kr. sem samsvarar ríflega þrefaldri eftirspurn. Í beinu framhaldi af útboðinu færði félagið viðskipti með hlutabréf félagsins yfir á Aðalamarkað Nasdaq Iceland hf. og voru bréf Hampiðjunnar tekin til viðskipta þar þann 9. júní.

Í Skagen í Danmörku hefur Cosmos, dótturfélag Hampiðjunnar, hafist handa við að byggja nýtt 4.800m2 netaverkstæði sem stefnt er að taka í notkun á sumarmánuðum 2024. Hið nýja netaverkstæði verður eitt hið tæknilegasta og fullkomnasta netaverkstæði sem völ er á. Það mun auka möguleika okkar til að þjónusta skip sem koma til hafnar í Skagen en þar er ein stærsta uppsjávarhöfn í Evrópu.

Í Færeyjum var áfram unnið að uppbyggingu á fiskeldisþjónustu í Norðskála en þar er verið að leggja lokahönd á byggingu fyrir íburðartæki og þurrkaðstöðu fyrir fiskeldiskvíar eftir að lokið hefur verið við lagfæringar og þvott. Þar með líkur uppbyggingunni á svæðinu en búið er að endurnýja allt húsnæðið og stækka verulega viðgerðaraðstöðu fyrir fiskeldiskvíar.

Í Kanada flutti Hampiðjan Canada starfsemi sína í St.John's úr leiguhúsnæði yfir í húsnæði sem keypt var fyrir starfsemina. Hentar nýja húsnæðið starfseminni töluvert betur en þar sem starfsemin var áður.

Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu voru 322,1 milljónir evra en árið áður voru rekstrartekjur 193,8 milljónir evra. Unnin ársverk hjá samstæðunni voru 1.947, en voru 1.206 árið áður. Um 59% starfsmanna hjá samstæðunni eru karlar og 41% konur, en 95% stjórnenda eru karlar og 5% konur. Laun og launatengd gjöld námu 85,9 milljónum evra, þar af voru 11,0 milljónir evra launatengd gjöld. Hagnaður ársins var 11,8 milljónir evra en árið áður var hagnaður 14,3 milljónir evra. Heildareignir samstæðunnar voru 490,0 milljón evrur í árslok og eigið fé var 270,3 milljónir evra en af þeirri upphæð eru 14,7 milljónir evra hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaganna, Von í Færeyjum, Swan Net Gundry á Írlandi, Jackson Trawl og Jackson Offshore Supply á Skotlandi, Voot á Íslandi, Hampiðjunni Ástralíu, dótturfélaga Von í Færeyjum, dótturfélags Cosmos Trawl í Danmörku og dótturfélags Hampidjan USA í Bandaríkjunum. Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er talin með eigin fé, var 55,2% í árslok

Vegna rekstrarársins 2023 leggur stjórn Hampiðjunnar til að á árinu 2023 verði greiddur 1,1 kr. arður af hverjum hlut útistandandi hlutafjár til hluthafa að upphæð kr. 700 milljónir. Að öðru leyti er vísað í ársreikninginn varðandi breytingar á eigin fé félagsins.

Stríðið í Úkraínu

Félög innan samstæðunnar hafa selt veiðarfæri til útgerða í Rússlandi. Ekki er um að ræða verulegan hluta af veltu samstæðunnar og áhrifin á starfsemi samstæðunnar því takmörkuð.

Skýrsla og áritun stjórnar og forstjóra

Hlutafé og samþykktir

Útgefið hlutafé Hampiðjunnar er kr. 636 milljónir í lok ársins, en félagið á eigin hluti að upphæð kr. 10,4 milljónir. Hlutaféð er í einum flokki sem er skráð í Nasdaq OMX Nordic Exchange. Fjöldi hluthafa í félaginu var 2.665 í árslok og í byrjun ársins var fjöldi hluthafa 373. Allir hlutir njóta sömu réttinda. Tíu stærstu hluthafar í árslok voru:

31.12.2023
Nafnverð
Hluthafi í þús. kr. Hlutd.%
Hvalur hf 232.896 37,23%
Lífeyrissjóður verslunarmanna 50.685 8,10%
Lífsverk lífeyrissjóður 25.805 4,13%
Festa - lífeyrissjóður 21.598 3,45%
Gildi lífeyrissjóður 19.600 3,13%
Lífeyrissj.starfsm.rík. A-deild 19.208 3,07%
Ingibjörg Björnsdóttir 17.274 2,76%
Hlér ehf 16.029 2,56%
Lífeyrissjóður Vestmannaeyja 10.662 1,70%
Birta lífeyrissjóður 13.064 2,09%
426.822 68,22%
Aðrir hluthafar 198.722 31,78%
Útistandandi hlutafé 625.545 100,00%
Eigin hlutir 10.437
Útgefið hlutafé 635.981

Stjórnunarhættir

Stjórn Hampiðjunnar hefur sett sér starfsreglur og er þar leitast við að fylgja ,,Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja" sem Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq OMX Iceland og Samtök atvinnulífsins gáfu út 1. júlí 2021. Hlutfall kynja í stjórn félagsins er þrír karlmenn (60%) og tveir kvenmenn (40%).

Frekari upplýsingar um stjórn og stjórnarhætti er að finna í viðaukanum Stjórnarháttaryfirlýsing sem fylgir ársreikningnum.

Ófjárhagslegar upplýsingar

Ófjárhagslegar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að leggja mat á þróun, umfang, stöðu og áhrif Hampiðjunnar í tengslum við umhverfismál, félagsmál og starfsmannamál sem og stefnu félagsins í mannréttindamálum, mútu- og spillingamálum eru birtar í viðauka.

Yfirlýsing stjórnar og forstjóra

Samkvæmt bestu vitneskju er það álit okkar að samstæðuársreikningur Hampiðjunnar hf. gefi glögga mynd af rekstrarafkomu samstæðunnar á árinu 2023 og eignum, skuldum og fjárhagsstöðu hennar þann 31. desember 2023. Jafnframt staðfestum við að samstæðuársreikningur félagsins, auðkenndur sem ,,25490002T5TRM5T6US82-2023-12-31-is.zip" er gerður í samræmi við ESEF reglugerðina.

Jafnframt er það álit okkar að samstæðuársreikningurinn og skýrsla stjórnar og forstjóra geymi glöggt yfirlit um þróun og árangur í rekstri samstæðunnar, stöðu í árslok og lýsi helstu áhættuþáttum sem samstæðan býr við.

Stjórn og forstjóri Hampiðjunnar hf. hafa í dag farið yfir samstæðuársreikning félagsins fyrir árið 2023 og staðfesta hann með undirritun sinni. Stjórn og forstjóri leggja til við aðalfund félagsins að samþykkja ársreikning samstæðunnar.

Reykjavík 7. mars 2024

Stjórn:

Forstjóri:

Hjörtur Erlendsson

Formaður stjórnar Vilhjálmur Vilhjálmsson

Auður Kristín Árnadóttir Stjórnarmaður

Stjórnarmaður Guðmundur Ásgeirsson

Kristján Loftsson Stjórnarmaður

Sigrún Þorleifsdóttir Stjórnarmaður

Áritun óháðs endurskoðanda

Til stjórnar og hluthafa Hampiðjunnar hf

Álit

Við höfum endurskoðað meðfylgjandi samstæðuársreikning Hampiðjunnar og dótturfélaga (samstæðan) fyrir árið 2023, að undanskilinni skýrslu stjórnar.

Það er álit okkar að samstæðuársreikningurinn gefi glögga mynd af afkomu samstæðunnar á árinu 2023, efnahag hennar 31. desember 2023 og breytingu á handbæru fé á árinu 2023, í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þeir hafa verið samþykktir af Evrópusambandinu og viðeigandi ákvæði í lögum um ársreikninga.

Álit okkar er í samræmi við skýrslu okkar til endurskoðunarnefndar.

Samstæðuársreikningurinn innifelur

  • Skýrsla og áritun stjórnar og forstjóra.
  • Rekstrarreikning og yfirlit yfir aðra heildarafkomu samstæðu fyrir árið 2023.
  • Efnahagsreikning samstæðu þann 31. desember 2023.
  • Yfirlit um breytingar á eigin fé samstæðu 2023.
  • Sjóðstreymi samstæðu 2023.
  • Skýringar, sem innifela mikilvægar reikningsskilaaðferðir og aðrar skýringar.

Skýrsla og áritun stjórnar og forstjóra, skýring 24 og viðaukar eru undanskilin endurskoðun, sbr. kafla um aðrar upplýsingar.

Grundvöllur álits

Endurskoðað var í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Ábyrgð okkar samkvæmt stöðlunum er nánar útskýrð í kaflanum um ábyrgð endurskoðenda.

Óhæði

Við erum óháð samstæðunni samkvæmt ákvæðum laga um endurskoðendur og endurskoðun og siðareglna sem gilda um endurskoðendur á Íslandi og varða endurskoðun okkar á ársreikningi samstæðunnar. Við uppfyllum jafnframt aðrar kröfur um starf okkar sem endurskoðendur í samræmi við ákvæði siðareglna.

Samkvæmt okkar bestu vissu, lýsum við yfir að önnur þjónusta sem við höfum veitt samstæðunni og félögum innan hennar er í samræmi við ákvæði íslenskra laga og reglna og að við höfum ekki veitt þjónustu sem óheimilt er að veita samkvæmt ákvæðum 5.1. gr. Evrópureglugerðar nr. 537/2014.

Gerð er grein fyrir annarri þjónustu sem við höfum veitt samstæðunni og félögum innan hennar, á tímabilinu 1. janúar 2023 til 31. desember 2023, í skýringu 7.

Við teljum að við endurskoðunina höfum við aflað nægjanlegra og viðeigandi gagna til að byggja álit okkar á.

Lykilatriði endurskoðunarinnar

Lykilatriði endurskoðunarinnar eru þau atriði sem að okkar faglega mati höfðu mesta þýðingu í endurskoðun okkar á ársreikningi samstæðunnar árið 2023. Sem hluti af endurskoðun okkar á samstæðuársreikningnum voru þessi lykilatriði skoðuð sérstaklega. Við látum ekki í ljós sérstakt álit varðandi þessi lykilatriði, einungis er látið í ljós álit á samstæðuársreikningnum í heild.

Endurskoðunaraðgerðir
Við skoðun okkar á kaupunum höfum við framkvæmt
eftirfarandi prófanir:
Fengum og yfirfórum kaupsamninga á milli aðila og
verðmöt á eignum félagsins sem unnin voru í tengslum
við kaupin og önnur samningsatriði tengd kaupunum til
að afla nægjanlegs skilnings á þeim svo hægt væri að
meta hvort að framsetningin sé í samræmi við IFRS 3
um sameiningar félaga.
Yfirfórum gögn í tengslum við hlutafjárhækkun félagsins
vegna kaupanna.
Farið yfir skýringu 23 með tillit til þess hvort hún uppfylli
kröfur IFRS 3.

Áritun óháðs endurskoðanda

Aðrar upplýsingar, þ.m.t. skýrsla stjórnar

Stjórn og forstjóri bera ábyrgð á öðrum upplýsingum. Aðrar upplýsingar eru skýrsla og áritun stjórnar og forstjóra, skýring nr. 24 ársfjórðungayfirlit og viðaukar sem lágu fyrir við áritun okkar.

Álit okkar á samstæðuársreikningnum nær ekki til annarra upplýsinga, þ.m.t. skýrslu stjórnar og við staðfestum þær ekki á neinn hátt.

Í tengslum við endurskoðun okkar á ársreikningi samstæðunnar ber okkur að yfirfara aðrar upplýsingar, sem tilgreindar eru hér að ofan, þegar þær liggja fyrir og meta hvort þær eru í verulegu ósamræmi við samstæðuársreikninginn eða skilning sem við höfum aflað við endurskoðunina eða ef svo virðist að verulegar rangfærslur séu í þeim. Ef við, á grundvelli vinnu okkar, ályktum að verulegar rangfærslur séu í öðrum upplýsingum ber okkur að skýra frá því. Við höfum ekki greint atriði sem ber að greina sérstaklega frá.

Hvað varðar skýrslu stjórnar höfum við, í samræmi við ákvæði 104. gr. laga um ársreikninga nr. 3/2006, yfirfarið að skýrsla stjórnar hafi að geyma þær upplýsingar sem þar ber að veita í samræmi við lög um ársreikninga komi þær ekki fram annars staðar í samstæðuársreikningnum.

Ábyrgð stjórnar og forstjóra á samstæðuársreikningnum

Stjórn og forstjóri eru ábyrg fyrir gerð og framsetningu samstæðuársreikningsins í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þeir hafa verið samþykktir af Evrópusambandinu og viðeigandi ákvæði í lögum um ársreikninga. Stjórn og forstjóri eru einnig ábyrg fyrir því innra eftirliti sem nauðsynlegt er að sé til staðar varðandi gerð og framsetningu samstæðuársreikningsins, þannig að hann sé án verulegra annmarka hvort sem er vegna sviksemi eða mistaka.

Við gerð samstæðuársreikningsins ber stjórnendum samstæðunnar að meta hæfi hennar til áframhaldandi starfsemi. Stjórnendum ber að semja ársreikning samstæðunnar á þeirri forsendu að um áframhaldandi starfsemi sé að ræða, nema stjórnendur ætli að leysa samstæðuna upp eða hætta rekstri hennar, eða hafi ekki raunhæft val um annað en að hætta starfsemi samstæðunnar. Stjórnendum samstæðunnar ber að setja fram viðeigandi skýringar varðandi hæfi hennar til áframhaldandi starfsemi ef við á og hvers vegna stjórnendur beita forsendunni um áframhaldandi starfsemi við gerð og framsetningu samstæðuársreikningsins.

Stjórn og endurskoðunarnefnd skulu hafa eftirlit með gerð og framsetningu samstæðuársreikningsins.

Ábyrgð endurskoðenda á endurskoðun samstæðuársreikningsins

Markmið okkar er að afla nægjanlegrar vissu um að samstæðuársreikningurinn sé án verulegra annmarka, hvort sem er vegna sviksemi eða mistaka og gefa út áritun með áliti okkar. Nægjanleg vissa er mikil vissa en ekki trygging þess að endurskoðun, sem framkvæmd er í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla, muni ávallt leiða í ljós alla verulega annmarka séu þeir til staðar. Annmarkar geta stafað af sviksemi eða mistökum og eru metnir verulegir ef þeir, einir og sér eða samanlagðir, gætu haft áhrif á fjárhagslegar ákvarðanir notenda sem grundvallaðar eru á samstæðuársreikningnum.

Endurskoðun í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla byggir á faglegu mati og faglegri tortryggni. Við framkvæmum einnig eftirfarandi:

Greinum og metum áhættuna af verulegum annmörkum, vegna sviksemi eða mistaka, og skipuleggjum endurskoðunaraðgerðir til að mæta þessari áhættu og öflum endurskoðunargagna sem eru nægjanleg og viðeigandi grunnur fyrir áliti okkar. Áhættan af því að greina ekki verulega annmarka sem stafa af sviksemi er meiri en áhætta af annmörkum vegna mistaka, þar sem sviksemi getur stafað af fölsun, misvísandi framsetningu samstæðuársreiknings, að mikilvægum atriðum sé viljandi sleppt, samanteknum ráðum eða að innra eftirlit sé sniðgengið.

Öflum skilnings á innra eftirliti sem er viðeigandi fyrir endurskoðun okkar í þeim tilgangi að hanna endurskoðunaraðgerðir, en ekki til þess að gefa álit á virkni innra eftirlits samstæðunnar.

Metum hvort val stjórnenda á reikningsskilaaðferðum sé viðeigandi og hvort matsaðferðir þeirra séu raunhæfar. Einnig skoðum við hvort tengdar skýringar séu við hæfi. Við höfum kannað árshlutareikning þennan fyrir samstæðu Hampiðjunnar hf.

Ályktum um notkun stjórnenda á forsendunni um áframhaldandi starfsemi og metum á grundvelli endurskoðunarinnar hvort verulegur vafi leiki á rekstrarhæfi samstæðunnar eða hvort aðstæður séu til staðar sem gætu valdið verulegum efasemdum um rekstrarhæfi hennar. Ef við teljum að veruleg óvissa ríki, ber okkur að vekja sérstaka athygli á viðeigandi skýringum í samstæðuársreikningnum um óvissuna og ef þær upplýsingar eru ekki nægjanlegar að okkar mati, víkjum við frá fyrirvaralausu áliti. Niðurstaða okkar byggir á þeim endurskoðunargögnum sem við höfum aflað fram að dagsetningu áritunar okkar. Engu að síður geta atburðir eða aðstæður í framtíðinni leitt til þess að samstæðan verði ekki lengur rekstrarhæf.

Áritun óháðs endurskoðanda

Metum framsetningu, gerð og innihald samstæðuársreikningsins í heild, að meðtöldum skýringum og hvort hann grundvallast á fyrirliggjandi færslum og atburðum og gefi glögga mynd samanber álit okkar.

Öflum nægjanlegra endurskoðunargagna vegna fjárhagsupplýsinga félaga og eininga innan samstæðunnar og gefum út álit á samstæðuársreikningnum. Við erum ábyrg fyrir skipulagi, umsjón og framgangi endurskoðunar samstæðunnar. Við berum ábyrgð á áliti okkar.

Við upplýsum stjórn og endurskoðunarnefnd meðal annars um áætlað umfang og tímasetningu endurskoðunarinnar og veruleg atriði sem upp geta komið í endurskoðun okkar, þar á meðal verulega annmarka í innra eftirliti ef við á.

Við höfum lýst því yfir við stjórn og endurskoðunarnefnd að við uppfyllum nauðsynleg siðferðis- og óhæðisskilyrði og við munum láta þeim í té allar upplýsingar um hugsanleg tengsl og önnur atriði sem gætu haft áhrif á óhæði okkar og trúnað.

Við höfum lagt mat á hvaða atriði, af þeim atriðum sem við höfum upplýst stjórn og endurskoðunarnefnd um, höfðu mesta þýðingu á yfirstandandi ári og eru það lykilatriði endurskoðunarinnar. Við lýsum þessum lykilatriðum í áritun okkar nema lög og reglur leyfi ekki að upplýst sé opinberlega um tiltekin atriði eða í algjörum undantekningartilfellum þegar mat okkar er að neikvæðar afleiðingar af birtingu slíkra upplýsinga vegi þyngra en ávinningur almennings af birtingu upplýsinganna.

Önnur atriði samkvæmt ákvæðum laga og reglna

Áritun vegna rafræns skýrslusniðs (e. European Single Electronic Format - ESEF reglur)

Í tengslum við endurskoðun okkar á samstæðuársreikningi Hampiðjunnar hf. framkvæmdum við aðgerðir til að geta gefið álit á það hvort samstæðuársreikningur Hampiðjunnar hf. fyrir árið 2023 með skráarheitið "25490002T5TRM5T6US82-2023-12- 31-is.zip" hafi í meginatriðum verið gerður í samræmi við kröfur laga um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu nr. 20/2021 um sameiginleg rafræn skýrslusnið (e. European Single Electronic Format) og reglugerð Evrópusambandsins nr. 2019/815 (ESEF reglur) sem innihalda skilyrði sem tengjast gerð samstæðuársreiknings á XHTML formi og iXBRL merkingum samstæðuársreikningsins.

Stjórn og forstjóri eru ábyrg fyrir gerð og framsetningu samstæðuársreikningsins í samræmi við lög um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu. Í þeirri ábyrgð felst meðal annars að útbúa samstæðuársreikning á XHTML formi í samræmi við ákvæði reglugerðar Evrópusambandsins nr. 2019/815, um sameiginleg rafræn skýrslusnið (e. European Single Electronic Format).

Ábyrgð okkar er að afla hæfilegrar vissu um hvort samstæðuársreikningurinn, byggt á þeim gögnum sem við höfum aflað, sé í öllum meginatriðum í samræmi við ESEF reglur og gefa út áritun með áliti okkar. Eðli, tímasetning og umfang aðgerða sem valdar eru byggja á mati endurskoðandans, þar á meðal mati á áhættunni að vikið sé í verulegum atriðum frá kröfum sem fram koma í ESEF reglum, hvort sem er vegna sviksemi eða mistaka.

Það er álit okkar að samstæðuársreikningur Hampiðjunnar hf fyrir árið 2023 með skráarheitið "25490002T5TRM5T6US82- 2023-12-31-is.zip" hafi í öllum meginatriðum verið gerður í samræmi við ákvæði reglugerðar Evrópusambandsins nr. 2019/815, um sameiginleg rafræn skýrslusnið (e. European Single Electronic Format).

Kosning endurskoðanda

Við vorum kosin endurskoðendur á aðalfundi félagsins árið 2001. Kosning okkar hefur verið endurnýjuð árlega á aðalfundi félagsins og höfum við því verið endurskoðendur félagsins samfellt í 23 ár.

Reykjavík, 7. mars 2024.

PricewaterhouseCoopers ehf.

Kristinn Kristinsson löggiltur endurskoðandi

Rekstrarreikningur samstæðu

Skýringar 2023 2022
Sala 322.124 193.759
Beinn framleiðslukostnaður (235.328) (138.408)
Framlegð 86.796 55.351
Rekstrarkostnaður 7 (63.329) (34.287)
Rekstrarhagnaður 23.467 21.064
Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld 8 (8.531) (3.692)
Áhrif af rekstri hlutdeildarfélaga 13 193 131
(8.338) (3.561)
Hagnaður fyrir skatta 15.129 17.503
Tekjuskattur 9 (3.383) (3.178)
Hagnaður ársins 11.746 14.325
Skipting hagnaðar
Hluti hluthafa móðurfélagsins 10.422 12.622
Hluti minnihluta í afkomu dótturfélaga 1.324 1.703
11.746 14.325
Grunnhagnaður og þynntur hagnaður á hlut (EUR á hlut) 10 2,02 2,93
EBITDA 37.547 28.726

Yfirlit um heildarafkomu samstæðu

2023 2022
Hagnaður ársins 11.746 14.325
Liðir sem síðar verða færðir í rekstrarreikning
Þýðingarmunur vegna starfsemi erlendra dótturfélaga
(1.145) (1.766)
Liðir sem verða ekki færðir í rekstrarreikning
Matsbreyting fjárfestingareigna
14
(326) 356
Heildarafkoma ársins 10.275 12.915
Skipting heildarafkomu
Hluti hluthafa móðurfélagsins
Hluti minnihluta
9.010
1.265
11.272
1.643
Heildarafkoma ársins 10.275 12.915

Skýringar á bls. 11 - 28 eru óaðskiljanlegur hluti þessara samstæðureikningsskila

Efnahagsreikningur samstæðu

Eignir Skýringar 2023 2022
Fastafjármunir
Varanlegir rekstrarfjármunir 11 169.571 108.172
Óefnislegar eignir 12 76.854 46.754
Eignarhlutir í hlutdeildarfélögum 13 1.415 1.235
Fjárfestingareignir 14 2.292 2.637
Skuldabréf og langtímakröfur 1.574 86
Tekjuskattsinneign 19 250 0
251.956 158.884
Veltufjármunir
Birgðir 15 125.824 90.160
Viðskiptakröfur og aðrar skammtímakröfur 16 59.244 33.921
Handbært fé 17 52.974 12.503
238.042 136.584
Eignir samtals 489.998 295.468
Eigið fé og skuldir Skýringar 2023 2022
Eigið fé
Hlutafé 6.403 5.498
Yfirverðsreikningur hlutafjár 117.156 957
Matsbreytingar og aðrir varasjóðir 25 (474) 938
Annað bundið eigið fé 62.980 54.066
Óráðstafað eigið fé 69.519 73.880
255.584 135.339
Hlutdeild minnihluta 14.690 14.168
Eigið fé samtals 270.274 149.507
Skuldir
Langtímaskuldir
Langtímaskuldir 18 120.157 83.738
Tekjuskattsskuldbinding 19 7.285 5.670
127.442 89.408
Skammtímaskuldir
Viðskiptaskuldir og aðrar skammtímaskuldir 20 41.223 26.151
Ógreiddir skattar 3.199 3.317
Skuldir við lánastofnanir 18 47.860 27.085
92.282 56.553
Skuldir samtals 219.724 145.961
Eigið fé og skuldir samtals 489.998 295.468

8

Yfirlit um breytingar á eigin fé samstæðu

Hlutafé Yfir-
verðsr.
Matsbr.
og aðrir
varasj.
Annað
bundið
eigið fé
Óráðst.
eigið fé
Hlutd.
minnihl.
Samtals
Staða 1. janúar 2022
Heildarafkoma:
5.498 957 2.288 45.626 76.052 13.870 144.291
Heildarafkoma ársins 2022 eftir skatta
Hl. í afk. dótturfélaga umfram móttekinn arð
(1.350) 0
8.440
12.622
(8.440)
1.643 12.915
0
0 0 (1.350) 8.440 4.182 1.643 12.915
Eigendur:
Úthlutaður arður til eigenda 1,8 kr. á hlut
Minnihluti, breyting
(6.354) (674)
(671)
(7.028)
(671)
0 0 0 0 (6.354) (1.345) (7.699)
Staða 31. desember 2022 / 1. janúar 2023
Heildarafkoma:
5.498 957 938 54.066 73.880 14.168 149.507
Heildarafkoma ársins 2023 eftir skatta
Hl. í afk. dótturfélaga umfram móttekinn arð
(1.412) 0
8.914
10.422
(8.914)
1.265 10.275
0
Eigendur: 0 0 (1.412) 8.914 1.508 1.265 10.275
Úthlutaður arður til eigenda 1,63 kr. á hlut.
Aukning hlutafjár v. kaupa á dótturfélagi
Aukning hlutafjár innborguð
Kostnaður vegna hlutafjáraukningar
336
569
0
45.092
72.207
(1.100)
(5.869) (743) (6.612)
45.428
72.776
(1.100)
905 116.199 0 0 (5.869) (743) 110.492
Staða 31. desember 2023 6.403 117.156 (474) 62.980 69.519 14.690 270.274

Fjöldi hluta í byrjun árs var 500 milljónir. Á árinu var hlutafé aukið um 136 milljónir hluta og hlutafé í lok tímabilsins var því 636 milljónir hlutir og er hver hlutur að nafnverði 1. kr. Vegna kaupa á dótturfélaginu Mørenot var hlutafé aukið um 45,4 milljónir evra og Innborgað hlutafé á árinu var 72,8 milljón evrur. Beinn kostnaður, 1,1 milljónir evra, vegna innborgaðrar aukningar er færður til lækkunar á innborguðu hlutafé. Hlutafé í byrjun ársins var 6.455 þúsund evrur og eftir aukningu hlutafjár á tímabilinu er hlutafé í lok tímabilsins því 123,6 milljónir evra. Allt hlutafé er greitt. Félagið átti eigin hluti í lok tímabilsins að nafnverði 10,4 millj. kr (31/12 2022: 10,4 millj. kr.).

Matsbreyting fjárfestingareigna

Fjárfestingareignir eru færðar á markaðsvirði m.v. matsdag í efnahagsreikningi, liggi það fyrir. Liggi markaðsvirði ekki fyrir þá er notast við kostnaðarverð að frádreginni niðurfærslu vegna virðisrýrnunar.

Annað bundið eigið fé

Samkvæmt 41. gr. ársreikningalaga ber félögum að færa hlutdeild í rekstri dótturfélaga og hlutdeildarfélaga umfram því sem nemur mótteknum arði eða þeim arði sem ákveðið hefur verið að úthluta, á bundinn reikning meðal eigin fjár.

Nánari sundurliðun á öðrum varasjóðum og matsbreytingum fjárfestingaeigna er að finna í skýringu 25.

Sjóðstreymi samstæðu

Skýringar 2023 2022
Rekstrarhreyfingar
Rekstrarhagnaður 23.467 21.064
Rekstrarliðir sem hafa ekki áhrif á fjárstreymi:
Afskriftir 14.080 7.662
EBITDA 37.547 28.726
Söluhagnaður varanlegra rekstrarfjármuna (390) (633)
Breytingar á rekstrartengdum eignum og skuldum (5.267) (16.359)
Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta 31.890 11.734
Innborgaðir vextir 2.496 648
Innborgaður arður 38 44
Greiddir vextir (12.747) (3.390)
Greiddir skattar (2.537) (2.924)
Handbært fé frá rekstri 19.140 6.112
Fjárfestingahreyfingar
Kaup og sala varanlegra rekstrarfjármuna (15.715) (8.471)
Kaup og sala óefnislegra eigna (1.071) (572)
Fjárfesting í dótturfélögum 23 (1.589) (765)
Fjárfesting og sala í öðrum félögum 0 (3)
Skuldabréf og langtímakröfur, breyting 9 0
Handbært fé frá fjárfestingum (til fjárfestinga) (18.366) (9.811)
Fjármögnunarhreyfingar
Skammtímalán, breyting (4.187) 7.722
Tekin ný langtímalán 22.348 8.550
Afborganir langtímalána (50.545) (7.701)
Innborguð aukning á hlutafé 23 71.676 0
Arður greiddur til hluthafa (5.869) (6.354)
Arður greiddur til minnihluta (744) (674)
Handbært fé frá fjármögnun (til fjármögnunar) 32.679 1.543
Hækkun (lækkun) á handbæru fé 33.453 (2.156)
Handbært fé í byrjun ársins 17 12.503 14.805
Gengismunur vegna handbærs fjár (121) (146)
Handbært fé frá keyptu dótturfélagi 7.139 0
Handbært fé í lok ársins 17 52.974 12.503
Fjárfestinga- og fjármögnunarhreyfingar án greiðsluáhrifa:
Útgefið nýtt hlutafé vegna kaupa á dótturfélagi 23 (45.428) 0

Skýringar á bls. 11- 28 eru óaðskiljanlegur hluti þessara samstæðureikningsskila

1. Almennar upplýsingar

Meginstarfsemi samstæðunnar er framleiðsla og sala á veiðarfærum, íhlutum þeirra og ofurköðlum. Móðurfélagið, Hampiðjan hf., er hlutafélag og starfar á grundvelli laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

Hampiðjan hf. er með heimilisfesti á Íslandi að Skarfagörðum 4, Reykjavík.

Félagið er skráð á Aðalmarkað Nasdaq á Íslandi.

Stjórn félagsins samþykkti þessi reikningsskil 7. mars 2024.

2. Reikningsskilaaðferðir

Helstu reikningsskilaaðferðir sem beitt var við gerð þessara reikningsskila eru tilgreindar hér á eftir. Þessum aðferðum var beitt á samræmdan hátt á bæði árin sem sett eru fram, nema annað sé tekið fram.

2.1 Grundvöllur reikningsskila

Ársreikningur samstæðu Hampiðjunnar hf. fyrir árið 2023 er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þeir hafa verið samþykktir af Evrópusambandinu (ESB).

Ársreikningurinn er gerður samkvæmt kostnaðarverðsaðferð. Ársreikningurinn er birtur í evrum, sem er starfrækslugjaldmiðill móðurfélagsins. Allar fjárhæðir eru í þúsundum evra.

Gerð ársreikninga í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla krefst þess að notaðar séu tilteknar aðferðir við reikningshaldslegt mat. Nánar er greint frá þeim aðferðum í skýringu nr. 4.

2.1.1 Breytingar á reikningsskilaaðferðum og framsetningu

Á árinu tók í gildi nýr reikningsskilastaðall, IFRS 17 um vátryggingarsamninga. Staðallinn hefur ekki áhrif á reikningsskil samstæðunnar. Auk þess tóku í gildi á árinu eftirfarandi breytingar á stöðlunum:

  • Skilgreining á reikningshaldslegu mati breyting á IAS 8
  • Frestaður tekjuskattur vegna eigna og skulda sem myndast við ein viðskipti breyting á IAS 12
  • Skýringar um reikningsskilareglur breyting á IAS 1 og leiðbeinandi verklagi í IFRS Practise Statement 2

Breytingar á ofangreindum stöðlum höfðu óveruleg áhrif á reikningsskil samstæðunnar.

Nýir reikningsskilastaðlar og túlkanir sem ekki hafa tekið gildi

Nokkrar breytingar á reikningsskilastöðlum hafa verið gerðar sem hafa ekki tekið í gildi fyrir reikningsskil 31.desember 2023 og hafa ekki verið innleitt fyrir gildistíma við gerð þessara reikningsskila. Ekki er búist við að breytingar á þessum reikningsskilastöðlum munu hafa veruleg áhrif á reikningsskil samstæðunnar.

2.2 Samstæðureikningsskil

a) Dótturfélög

Dótturfélög eru öll fyrirtæki þar sem samstæðan hefur vald til að ráða fjárhagslegri og stjórnunarlegri stefnu, sem fylgir að öðru jöfnu eignarhlut með meira en helmingi atkvæðaréttar. Dótturfélög eru að fullu hluti samstæðunnar frá þeim degi þegar yfirráð eru færð yfir til samstæðunnar. Þau eru tekin út úr samstæðunni frá þeim degi þegar yfirráðum lýkur.

Kaupaðferð í reikningshaldi er notuð við færslu kaupa samstæðunnar á dótturfélögum. Kaupverð er metið sem gangvirði tilgreindra eigna sem látnar eru af hendi, útgefinna eiginfjárgerninga og skulda sem stofnað er til eða teknar eru yfir á viðskiptadegi, auk kostnaðar sem rekja má beint til yfirtökunnar. Aðgreinanlegar eignir og skuldir og skuldbindingar sem eru yfirteknar við sameiningu fyrirtækja eru metnar í upphafi á gangvirði á yfirtökudegi, án tillits til hversu mikil hlutdeild minnihluta er. Sú fjárhæð kaupverðs sem er umfram gangvirði eignarhluta samstæðunnar í yfirteknum aðgreinanlegum hreinum eignum er skráð sem viðskiptavild.

Viðskipti á milli fyrirtækja, innbyrðis stöður og áætlaður óinnleystur hagnaður af færslum á milli fyrirtækja samstæðunnar eru felldar niður í samstæðureikningsskilunum. Reikningsskilaaðferðum dótturfélaga hefur verið breytt, þar sem þörf er á, til að tryggja samræmi við aðferðir samstæðunnar.

b) Hlutdeildarfélög

Hlutdeildarfélög eru rekstrareiningar sem samstæðan hefur veruleg áhrif í en hefur ekki yfirráð yfir. Fjárfestingar í hlutdeildarfélögum eru færðar með hlutdeildaraðferð við reikningsskil og eru færðar í upphafi á kostnaðarverði. Hlutur samstæðunnar í hagnaði eða tapi hlutdeildarfélaga eftir kaup er færður í rekstrarreikning og hlutur hennar í hreyfingum eiginfjárreikninga er færður á aðra heildar afkomu. Uppsafnaðar hreyfingar eftir yfirtöku eru leiðréttar gagnvart bókfærðri fjárhæð fjárfestingarinnar. Þegar hlutur samstæðunnar í tapi hlutdeildarfélagsins er jafnmikill eða meiri en hlutdeild hennar í hlutdeildarfélaginu, þ.m.t. allar aðrar ótryggðar viðskiptakröfur, færir samstæðan ekki frekari tap nema hún hafi stofnað til skuldbindinga eða innt af hendi greiðslur fyrir hönd hlutdeildarfélagsins.

2.3 Starfsþáttaskýrslur

Rekstrarstarfsþáttur er aðgreinanlegur hluti samstæðunnar vegna ólíkra efnislegra eða landfræðilegra þátta sem eru mótaðir af stýringu og eftirliti stjórnenda samstæðunnar. Samstæðan skilgreinir starfsemina í sex rekstrarþætti.

2.4 Umreikningur á erlendum gjaldmiðlum

(a) Starfrækslugjaldmiðill og reikningsskilagjaldmiðill

Í reikningsskilum fyrirtækja innan samstæðunnar eru liðir færðir í gjaldmiðli þess efnahagslega umhverfis sem þau starfa í (starfrækslugjaldmiðillinn). Samstæðureikningsskilin eru sett fram í þúsundum evra, sem er bæði starfrækslugjaldmiðill og framsetningargjaldmiðill samstæðunnar.

(b) Viðskipti og stöður

Viðskipti í erlendum gjaldmiðli eru umreiknuð yfir í starfrækslugjaldmiðil á því gengi sem er í gildi á viðskiptadeginum. Hagnaður eða tap, sem stafa af uppgjöri slíkra viðskipta og af umreikningi á gengi peningalegra eigna og skulda í erlendri mynt í lok ársins, eru færð í rekstrarreikning.

(c) Félög samstæðunnar

Afkoma og efnahagur félaga samstæðunnar þar sem starfrækslugjaldmiðill er annar en framsetningargjaldmiðilinn, eru umreiknuð í framsetningargjaldmiðilinn með eftirfarandi hætti:

(i) eignir og skuldir efnahagsreiknings eru umreiknaðar á gengi í lok ársins

(ii) liðir rekstrarreiknings eru umreiknaðir á meðalgengi ársins

(iii) allar breytingar á gengi sem af þessu leiða eru færðar sem sérgreindur liður meðal eigin fjár

2.5 Varanlegir rekstrarfjármunir

Til fasteigna teljast fyrst og fremst verksmiðjur, netaverkstæði og skrifstofur. Varanlegir rekstrarfjármunir eru tilgreindir á upphaflegu kostnaðarverði að frádregnum afskriftum. Upphaflegt kostnaðarverð felur í sér kostnað sem rekja má beint til kaupa á viðkomandi eignum.

Viðbótarfjárfesting sem fellur til síðar er innifalin í bókfærðu verði eignarinnar eða færð sem sérgreind eign, eftir því sem við á. Það gerist þó einungis þegar líklegt er að efnahagslegur ávinningur, sem tengist fjárfestingunni, muni í framtíðinni renna til samstæðunnar og að unnt sé að meta kostnaðarverð með öruggum hætti. Viðgerðir og viðhald eru gjaldfærðar í rekstrarreikningi á því tímabili þegar stofnað er til þeirra.

Land er ekki afskrifað. Afskriftir annarra eigna eru reiknaðar þannig að mismunur á kostnaðarverði þeirra og áætluðu hrakvirði er dreift línulega á áætlaðan nýtingartíma eignanna, sem er eftirfarandi:

Vélar og önnur framleiðslutæki 12-15 ár
Bifreiðar 5-10 ár
Fasteignir 25-67 ár
Skrifstofubúnaður, áhöld og þróunarkostnaður 3-5 ár
Einkaleyfi 5-20 ár
Hugbúnaður 2-7 ár

Meiriháttar endurbætur eru afskrifaðar á líftíma viðkomandi eignar eða þeim tíma sem líður að næstu meiriháttar endurbótum, hvort sem skemur er.

Hrakvirði eigna og nýtingartími eru endurskoðað árlega og leiðrétt, ef við á.

Söluhagnaður og -tap reiknast sem mismunur söluverðs að frádregnum kostnaði við söluna og bókfærðs verðs seldra eigna á söludegi. Söluhagnaður og -tap er fært í rekstrarreikning. Þegar endurmetnar eignir eru seldar eru fjárhæðir sem eru innifaldar í öðrum varasjóðum og þeim tengjast, færðar yfir á óráðstafað eigið fé.

2.6 Óefnislegar eignir

(a) Viðskiptavild

Viðskiptavild endurspeglar þá fjárhæð kaupverðs sem er umfram gangvirði hluta samstæðunnar í hreinum aðgreinanlegum eignum yfirtekins dótturfélags á yfirtökudegi. Viðskiptavild vegna samruna og kaupa dótturfélaga er hluti af óefnislegum eignum samstæðunnar. Viðskiptavild er metin árlega að teknu tilliti til virðisrýrnunar og er bókfærð á kostnaðarverði að frádregnu uppsöfnuðu virðisrýrnunartapi.

Viðskiptavild er skipt á fjárskapandi einingar í því skyni að meta hana með tilliti til virðisrýrnunar. Virðisrýrnun viðskiptavildar, byggð á virðisrýrnunarprófum í samræmi við IAS-staðal 36, er gjaldfærð í rekstrarreikningi.

(b) Einkaleyfi

Einkaleyfi er tilkomið vegna kaupa á útgefnum einkaleyfum og umsóknum á öðrum einkaleyfum er tengjast framleiðsluvörum samstæðunnar. Einkaleyfin eru færð á kaupverði eða áætluðu kostnaðarverði að frádregnum uppsöfnuðum afskriftum.

(c) Hugbúnaður

Hugbúnaðarleyfi sem hafa verið keypt eru eignfærð miðað við þann kostnað sem stofnað var til við að kaupa og koma í notkun þessum tiltekna hugbúnaði. Hugbúnaður er færður á kostnaðarverði að frádregnum uppsöfnuðum afskriftum.

2.7 Virðisrýrnun eigna

Eignir sem hafa óskilgreindan líftíma og eru ekki afskrifaðar á kerfisbundinn hátt eru metnar árlega með tilliti til virðisrýrnunar. Eignir sem eru afskrifaðar eru skoðaðar með tilliti til virðisrýrnunar þegar breytingar á umhverfi eða atburðir benda til þess að bókfært verð þeirra sé lægra en endurheimtanlegt virði þeirra. Sérstök niðurfærsla er færð ef endurheimtanlegt virði þeirra, sem er hærra af nettó söluverði af frádregnum sölukostnaði og notkunarvirði, er lægra en kostnaðarverð þeirra að frádregnum afskriftum. Í virðisrýrnunarprófi eru eignir flokkaðar eins og mögulegt er svo hægt sé að mæla áætlað sjóðstreymi þeirra.

2.8 Fjárfestingar

Eignarhlutir í öðrum félögum en dóttur- og hlutdeildarfélögum eru flokkaðir sem fjárfestingareignir. Fjárfestingareignir eru færðar á markaðsvirði m.v. matsdag í efnahagsreikningi, liggi það fyrir.

2.9 Birgðir Kaup og sala fjárfestinga er færð á viðskiptadegi - þann dag sem samstæðan skuldbindur sig til að kaupa eða selja eignina.

Hráefni eru metin á innkaupsverði. Kostnaðarverð vara í framleiðslu og fullunninna vara samanstendur af beinum launa- og efniskostnaði ásamt öðrum kostnaði sem beint eða óbeint tengist framleiðslu varanna. Kostnaðarverð er ákvarðað með því að nota "fyrst inn-, fyrst út" aðferðina (FIFO-aðferðina). Birgðir samanstanda af netum, köðlum, járnavörum, veiðarfærum, vörum í vinnslu og hráefnum til neta, kaðla og hleraframleiðslu. Niðurfærsla er færð á móti vörum sem hreyfast hægt.

2.10 Viðskiptakröfur

Viðskiptakröfur eru færðar á nafnverði að frádreginni niðurfærslu til að mæta þeim kröfum sem kunna að tapast. Niðurfærslan er byggð á mati á tapsáhættu gagnvart einstökum kröfum auk þess sem áætlað tap á líftíma kröfunnar er fært við upphaflega skráningu hennar. Kröfur sem eru endanlega tapaðar eru færðar út úr bókum samstæðunnar.

2.11 Handbært fé og ígildi þess

Handbært fé innifelur reiðufé, inneignir í bönkum og aðrar skammtímafjárfestingar sem auðvelt er að skipta í reiðufé og eru með binditíma allt að þrem mánuðum. Yfirdráttur í banka er sýndur í lántöku meðal skammtímaskulda í efnahagsreikningi.

2.12 Hlutafé

Almennir hlutir eru flokkaðir sem eigið fé.

Ef eitthvert félag samstæðunnar kaupir eigið hlutafé félagsins (eigin hlutabréf) er endurgjaldið sem greitt er, að meðtöldum öllum viðbótarkostnaði sem rekja má beint til kaupanna (að frádregnum tekjusköttum), dregið frá eigin fé þar til hlutirnir eru afskrifaðir, endurútgefnir eða þeim ráðstafað. Þegar slíkir hlutir eru síðan seldir eða endurútgefnir er hvers kyns endurgjald sem móttekið er, að frádregnum öllum viðbótarkostnaði við viðskiptin sem má rekja beint til kaupanna og tengdra áhrifa vegna tekjuskatta, innifalið í eigin fé.

2.13 Lántökur

Lántaka er færð í upphafi á gangvirði en við síðara mat á afskrifuð kostnaðarverði. Lántökukostnaður sem telst hluti af vöxtum lánsins er færður á lánstíma með aðferð virkra vaxta en annar lántökukostnaður er gjaldfærður um leið og hann fellur til.

Lán eru flokkuð meðal skammtímaskulda ef þau gjaldfalla innan 12 mánaða annars eru þau flokkuð meðal langtímaskulda.

2.14 Frestaður tekjuskattur

Frestaður tekjuskattur af tímabundnum mismunum milli skattverðs eigna og skulda og bókfærðra fjárhæða þeirra í samstæðureikningsskilunum er færður að fullu til skuldar. Frestaður tekjuskattur er hins vegar ekki færður ef hann myndast vegna upphaflegrar færslu eignar eða skuldar í öðrum viðskiptum en sameiningu fyrirtækja sem hefur hvorki áhrif á reikningshaldslegan né skattskyldan hagnað eða tap. Frestaður tekjuskattur er ákvarðaður með því að nota skatthlutföll sem hafa verið lögleidd fyrir dagsetningu efnahagsreiknings eða fyrir liggur að verði lögleidd og vænst er að verði í gildi þegar tengd frestuð skattinneign er innleyst eða frestaða tekjuskattskuldbindingin er gerð upp.

Frestaður tekjuskattur vegna tímabundinna mismuna sem stafa af fjárfestingum í dótturfélögum og hlutdeildarfélögum er færður nema þegar samstæðan stjórnar því hvenær tímabundni mismunurinn er bakfærður og líklegt er að tímabundni mismunurinn muni ekki snúast við í fyrirsjáanlegri framtíð.

Frestaðar skattinneignir eru færðar að því marki sem líklegt er að unnt verði að nýta tímabundna mismuni á móti skattalegum framtíðarhagnaði.

2.15 Starfsmannasamningar

Ágóðahlutir og bónusgreiðslur

Undir vissum kringumstæðum er færð skuldbinding vegna lykilstarfsmanna vegna áunninna réttinda til ágóðahluta. Til þess að svo sé þarf ákvörðun um greiðslu að liggja fyrir áður en reikningsskilin eru gefin út.

2.16 Aðrar skuldbindingar

Aðrar skuldbindingar eru færðar þegar samstæðan hefur tekið á sig skuldbindingu vegna liðinna atburða, líkur eru taldar á að til greiðslu þeirra komi og hægt er að mæla þær með ábyggilegum hætti. Samstæðan veitir ábyrgð á vissum vörum og skuldbindur sig til þess að gera við vörur sem vinna ekki með eðlilegum hætti.

2.17 Innlausn tekna

Tekjur samanstanda af gangvirði vegna sölu á vörum og þjónustu, að frádregnum virðisaukaskatti og afslætti og eftir að innbyrðis sala innan samstæðunnar hefur verið felld niður.

(a) Sala á vöru og þjónustu

Samstæðan framleiðir og selur úrval af vörum í smásölu og heildsölu. Tekjur af sölu eru færðar þegar yfirráð yfir vörunum hefur verið flutt til kaupenda, sem er þegar vörurnar hafa verið afhentar. Afhending fer fram þegar kaupandi hefur tekið við vörunum, áhættan á úreldingu og tapi hefur verið flutt til hans og annaðhvort hefur kaupandi samþykkt vörurnar í samræmi við sölusamninginn, staðfestingarákvæði hafa liðið eða samstæðan hefur hlutlægar vísbendingar um að öll skilyrði fyrir viðurkenningu hafi verið fullnægt. Greiðslur fyrir sölu á vöru og þjónustu eru samkvæmt venjulegum viðskiptaskilmálum.

Samstæðan selur þjónustu sem felst í gerð nýrra veiðarfæra og viðgerðum á eldri veiðarfærum. Tekjur af veittri þjónustu eru færðar þegar kaupandi þjónustunnar hefur fengið tekið við nýjum eða viðgerðum veiðarfærum.

(b) Vaxtatekjur

Vaxtatekjur eru færðar í rekstrarreikning með aðferð virkra vaxta vegna allra fjármálagerninga sem færðir eru á kostnaðarverði.

(c) Arðstekjur

Arðstekjur eru færðar þegar réttur til að taka á móti greiðslu er fastsettur.

2.18 Leigusamningar

Félög innan samstæðunnar færa upp alla verulega leigusamninga í samræmi staðal um leigusamninga (IFRS 16) . Samstæðan skráir nýtingarrétt til eignar og samsvarandi leiguskuldbindingu vegna allra leigusamninga, nema skammtímaleigu ( innan við 12 mánuði). Félagið færir upp leiguskuld sem er upphaflega metin á núvirði framtíðarleigugreiðslna. Leigugreiðslur skiptast í vaxtagjöld og greiðslur af höfuðstól. Nýtingarréttur jafnframt færður upp og er afskrifaður á því sem styttra reynist af líftíma leigusamnings eða leigueignar.

2.19 Úthlutun arðs

Úthlutun arðs til hluthafa félagsins er færð sem skuld í reikningsskil samstæðunnar á því tímabili sem hluthafar félagsins samþykkja arðgreiðslurnar.

3. Fjárhagsleg áhættustjórnun

Samstæðan starfar í umhverfi með ýmiss konar fjárhagsáhættu, þar með talið lánsáhættu, lausafjáráhættu og markaðsáhættu. Heildaráætlun samstæðunnar um áhættustjórnun beinist fyrst og fremst að ófyrirséðri hegðun fjármálamarkaða og með henni er reynt að draga sem mest úr hugsanlegum neikvæðum áhrifum á rekstrarárangur samstæðunnar.

Stjórn móðurfélagsins ber ábyrgð á að innleiða og hafa eftirlit með áhættustýringu samstæðunnar. Stjórnin hefur falið forstjóra móðurfélagsins umsjón með daglegri áhættustýringu samstæðunnar.

(a) Lánsáhætta

Lánsáhætta er hættan á fjárhagslegu tapi samstæðunnar ef viðskiptamaður eða mótaðili í fjármálagerningi getur ekki staðið við umsamdar skuldbindingar sínar. Lánsáhætta samstæðunnar er einkum vegna viðskiptakrafna.

Viðskiptakröfur og aðrar kröfur

Lánsáhætta samstæðunnar ræðst einkum af fjárhagsstöðu og starfsemi einstakra viðskiptamanna.

Margir viðskiptamenn samstæðunnar hafa átt í áralöngum viðskiptum við hana og tapaðar viðskiptakröfur hafa verið óverulegar í hlutfalli af veltu. Við stýringu lánsáhættu vegna viðskiptamanna er einkum horft til aldurs krafna og fjárhagsstöðu einstakra viðskiptamanna.

Samstæðan myndar niðurfærslu vegna áætlaðrar virðisrýrnunar viðskiptakrafna, annarra krafna og fjárfestinga. Niðurfærslan er í meginatriðum sérstök niðurfærsla vegna einstakra viðskiptamanna.

Ábyrgðir

Það er stefna samstæðunnar að veita aðeins dótturfélögum eða móðurfélagi ábyrgðir. Þann 31. desember 2023 voru engar umtalsverðar ábyrgðir í gildi.

Mesta mögulegt tap vegna lánsáhættu án tillits til veða

Eftirfarandi tafla sýnir mesta mögulega tap vegna lánsáhættu án tillits til veða þann 31. desember 2023 og 2022. Fyrir efnahagsliði er mesta mögulega tapið byggt á bókfærðu verði eignanna á uppgjörsdegi.

Mesta mögulega tap
Lánsáhætta tengd efnahagsliðum 2023 2022
Viðskiptakröfur og aðrar skammtímakröfur 59.244 33.921
Handbært fé 52.974 12.503
Samtals mesta mögulega tap vegna lánsáhættu 112.218 46.424

b) Lausafjáráhætta

Lausafjáráhætta er hættan á því að samstæðan geti ekki staðið við fjárhagsskuldbindingar sínar eftir því sem þær gjaldfalla. Markmið samstæðunnar er að stýra lausafé þannig að tryggt sé að hún hafi alltaf nægt laust fé til að mæta skuldbindingum sínum eftir því sem þær gjaldfalla.

Töflurnar hér að neðan greinir skuldir samstæðunnar í flokka eftir gjalddögum þeirra. Upphæðir í töflunni eru ónúvirtar samningsbundnar greiðslur.

Bókfært
verð
Sjóðstreymi
skv.
samningum
Innan
1 árs
1 - 2 ár 2 - 5 ár Yfir 5 ár
168.017 188.522 56.014 18.082 33.582 80.845
44.422 44.422 44.422 0 0 0
212.439 232.944 100.436 18.082 33.582 80.845
Staða 31. desember 2022 Sjóðstreymi
Bókfært
verð
skv.
samningum
Innan
1 árs
1 - 2 ár 2 - 5 ár Yfir 5 ár
Lántökur 110.823 143.693 32.300 10.830 28.684 71.879
Viðskiptaskuldir 29.468 29.468 29.468 0 0 0
140.291 173.161 61.768 10.830 28.684 71.879

c) Markaðsáhætta

Markaðsáhætta er hættan á því að breytingar í markaðsverði erlendra gjaldmiðla, vaxta og gengi hlutabréfa hafi áhrif á afkomu samstæðunnar eða virði fjárfestinga hennar í fjármálagerningum.

Gengisáhætta

Samstæðan býr við gengisáhættu vegna eigna, skulda og viðskipta í öðrum gjaldmiðlum en starfrækslugjaldmiðlum einstakra samstæðufélaga. Helstu starfrækslugjaldmiðlar einstakra samstæðufélaga eru danskar krónur (DKK), evrur (EUR), norsk króna (NOK), bandarískur dollari (USD), sterlingspund (GBP) og íslenskar krónur (ISK). Þeir gjaldmiðlar sem einkum skapa gengisáhættu eru ISK, GBP, NOK og USD.

Samstæðan metur það sem svo að til að hafa áhrif á afkomu samstæðunnar þyrfti verulegar gengissveiflur. Rekstur Hampiðjunnar á Íslandi, bæði tekjur og gjöld, eru að einhverju leyti í íslenskum krónum, en gengisáhrif jafnast að verulegu leyti út. Hjá Hampiðjunni hf. eru það fjárfestingar í dótturfélögum sem skapa gengisáhættu, gengismunur af þeim er færður undir aðra heildarafkomu, sjá eiginfjáryfirlit.

Vaxtaáhætta

Lántökur samstæðunnar eru að stærstum hluta með breytilegum vöxtum. Hækkun á vöxtum á uppgjörsdegi um eitt prósentustig á árinu 2023 hefði lækkað afkomu samstæðunnar fyrir tekjuskatt um 1.680 þúsund evrur. Árið 2022 hefði lækkunin orðið 1.108 þúsund evrur. Útreikningurinn miðast við rekstraráhrif á ársgrundvelli. Þessi greining byggir á því að allar aðrar breytur, sérstaklega gengi gjaldmiðla, haldist óbreyttar.

3.1 Áhættustýring eiginfjár

Samstæðan stýrir fjármögnun sinni með það að markmiði að viðhalda getu hennar til áframhaldandi reksturs til að greiða eigendum sínum arð.

Félagið getur breytt arðgreiðslustefnu, endurgreitt hlutafé, gefið út nýtt hlutafé eða selt eignir til að minnka skuldir til að viðhalda eða lagfæra skipulag fjármögnunar.

Eftirfarandi tafla sýnir fjármögnun samstæðunnar og eiginfjárhlutfall (fjárhæðir í þúsundum evra):

2023 2022
Lántökur, langtíma 120.157 83.738
Lántökur, skammtíma 47.860 27.085
Frádregið: Handbært fé (52.974) (12.503)
Skuldir nettó 115.043 98.320
Eigið fé 270.274 149.507
Fjármögnun samtals 385.317 247.827
Eiginfjárhlutfall 55,2% 50,6%

4. Mikilvæg atriði sem varða reikningshaldslegt mat

Skráning eigna og skulda með tilliti til næsta fjárhagsárs er byggð á mati samstæðunnar. Farið er yfir slíkt mat með hliðsjón af reynslu og öðrum þáttum svo sem framtíðarvæntingum sem taldar eru eðlilegar miðað við aðstæður. Slíkt reikningshaldslegt mat er sjaldan nákvæmlega í samræmi við raunverulega niðurstöðu.

Mat og forsendur þess eru í stöðugri endurskoðun. Breytingar á reikningshaldslegu mati eru færðar á því tímabili sem breytingin á sér stað og þeim framtíðartímabilum sem breytingarnar hafa áhrif á.

Upplýsingar um mikilvægar ákvarðanir sem tengjast reikninghaldslegu mati má meðal annars finna í skýringu 12 um virðisrýrnunarpróf vegna viðskiptavildar samstæðunnar. Aðrir helstu matskenndir liðir reikningsskilanna er mat á líftíma eigna, sjá skýringu 2.5, mat á niðurfærslu viðskiptakrafna, sjá skýringu 3 og 16, og mat á niðurfærslu birgða, sjá skýringu 15.

5. Starfsþáttayfirlit

Rekstrarstarfsþættir

Rekstrarstarfsþáttur er aðgreinanlegur hluti samstæðunnar vegna ólíkra efnislegra eða landfræðilegra þátta sem eru mótaðir af stýringu og eftirliti stjórnenda samstæðunnar. Samstæðan skilgreinir starfsemina í sex starfsþætti.

Starfsþáttur 1. Starfsemi Hampiðjunnar sem er yfirstjórn samstæðunnar, endursala og fjárfestingar.
Starfsemi Hampidjan Baltic í Litháen, sem er verksmiðjuframleiðsla á netum, köðlum og
ofurtógi.
Starfsþáttur 2. Starfsemi veiðarfærafélagana í Swan Net Gundry á Írlandi og tengdra félaga ásamt
Jackson Trawls og Jackson Offshore Supply í Skotlandi.
Starfsþáttur 3. Starfsemi veiðarfærafélagsins Cosmos Trawl og dótturfélaganna Nordsötrawl og Strandby
Net.
Starfsþáttur 4. Starfsemi veiðarfærafélaganna Hampidjan New Zealand, Hampidjan Canada, Hampidjan
USA og dótturfélagsins Swan net USA, Hampidjan Australia, Hampiðjan Ísland, Voot,
Fasteignafélagsins Miðhúsa, Hampiðjan TorNet og Hampiðjan Offshore.
Starfsþáttur 5. Starfsemi veiðarfærafélagsins P/F Von og dótturfélaganna P/F Vónin, Vónin Refa, Qalut
Vónin, Vónin Lithuania, Vónin Canada, Vónin Ísland og Volu Ventis.
Starfsþáttur 6. Starfsemi eignarhaldsfélagsins Mørenot Holding AS og veiðarfærafélaganna Mørenot
Aquaculture AS, Mørenot Denmark, Poldan Nets, Mørenot Mediterranean, Mørenot Baltic,

Mørenot Canada, Mørenot Fishery AS, Mørenot Island, North American Fishing Supplies,

5. Starfsþáttayfirlit, framhald

Starfsþ. Starfsþ. Starfsþ. Starfsþ. Starfsþ. Starfsþ. Milli
2023 (1) (2) (3) (4) (5) (6) viðskipti Samtals
Rekstrartekjur 43.864 25.742 19.169 80.373 85.512 115.349 (47.885) 322.124
Beinn framl.kostn (36.221) (18.823) (15.259) (61.690) (62.755) (86.385) 45.805 (235.328)
7.643 6.919 3.910 18.683 22.757 28.964 86.796
Rekstrarkostnaður (9.239) (4.494) (1.896) (11.112) (12.743) (25.924) 2.079 (63.329)
Rekstrarhagnaður (-tap) (1.596) 2.425 2.014 7.571 10.014 3.040 23.467
Sem hlutfall af rekstrartekjum -4% 9% 11% 9% 12% 3% 7%
Fjármunat. (fjármagnsgj.) (1.938) (516) (173) (1.753) (1.054) (3.097) (8.531)
Hlutdeildarafkoma 154 0 0 0 39 0 193
Tekjuskattur 450 (573) (403) (974) (1.824) (59) (3.383)
Hagnaður (tap) ársins (2.930) 1.336 1.438 4.844 7.175 (116) 11.746
Afskriftir fastafjármuna 2.171 506 672 1.770 3.004 5.957 14.080
Kaup/sala fastafjármuna (1.801) (409) (1.779) (3.242) (4.227) (5.328) (16.786)
EBITDA 576 2.931 2.685 9.341 13.017 8.997 37.547
Starfsþ. Starfsþ. Starfsþ. Starfsþ. Starfsþ. Starfsþ. Milli
2022 (1) (2) (3) (4) (5) (6) viðskipti Samtals
Rekstrartekjur 48.687 24.706 16.826 75.546 81.170 0 (53.176) 193.759
Beinn framl.kostn (41.947) (18.265) (12.941) (58.357) (58.309) 0 51.411 (138.408)
6.740 6.441 3.885 17.189 22.861 0 55.351
Rekstrarkostnaður (7.215) (3.649) (2.209) (10.822) (12.158) 0 1.766 (34.287)
Rekstrarhagnaður (-tap) (475) 2.792 1.676 6.367 10.703 0 21.064
Sem hlutfall af rekstrartekjum -1% 11% 10% 8% 13% 11%
Fjármunat. (fjármagnsgj.) (1.806) (83) (123) (1.016) (664) 0 (3.692)
Hlutdeildarafkoma 88 0 0 0 43 0 131
Tekjuskattur 425 (456) (307) (820) (2.020) 0 (3.178)
Hagnaður (tap) ársins (1.768) 2.253 1.246 4.531 8.062 0 14.325
Afskriftir fastafjármuna 1.917 497 676 1.684 2.888 0 7.662
Kaup/s. fastafjármuna (5.868) (267) (99) (1.701) (1.108) 0 (9.043)
EBITDA 1.444 3.289 2.352 8.050 13.591 0 28.726
Starfsþ. Starfsþ. Starfsþ. Starfsþ. Starfsþ. Starfsþ. Milli-
(1) (2) (3) (4) (5) (6) viðskipti Samtals
2023
Fastafjármunir 66.031 15.163 12.931 23.260 75.653 81.749 (22.831) 251.956
Veltufjármunir 65.601 17.082 9.742 54.775 50.276 62.410 (21.844) 238.042
Langtímaskuldir 64.955 800 5.713 20.283 16.950 41.571 (22.830) 127.442
Skammtímaskuldir 35.337 3.079 4.961 24.187 26.232 20.329 (21.843) 92.282
2022
Fastafjármunir 62.245 15.103 11.831 19.756 69.258 0 (19.309) 158.884
Veltufjármunir 30.932 16.025 8.510 53.454 47.541 0 (19.878) 136.584
Langtímaskuldir 69.967 731 6.134 17.223 14.662 0 (19.309) 89.408
Skammtímaskuldir 22.810 2.367 3.174 25.585 22.299 0 (19.682) 56.553

6. Laun og launatengd gjöld

Starfsmannamál 2023 2022
Laun og launatengd gjöld sundurliðast þannig:
Laun 74.917 46.491
Launatengd gjöld og annar starfsmannakostnaður 10.985 5.967
85.902 52.458
Meðalfjöldi starfsmanna á árinu 1.947 1.206
Meðalstarfsmannafjöldinn skiptist þannig milli kynja að 1.143 eru karlkyns og 804 eru kvenkyns.
Félagið hefur ekki gert neina samninga við starfsmenn eða stjórnendur um lífeyris- eða eftirlaunagreiðslur.
Laun og launatengd gjöld skiptast á eftirfarandi hátt í rekstrarreikningi 2023 2022
Framleiðslukostnaður
Annar rekstrarkostnaður
54.921
30.981
36.050
16.408
85.902 52.458
7. Rekstrarkostnaður 2023 2022
Keyptar vörur og þjónusta 25.423 13.828
Einskiptiskostnaður v. kaupanna á Mørenot, hlutafjáraukningar og skráningar á aðallista Nasdaq 1.758 1.365
Einskiptiskostnaður v. endurskipulagningar í Mørenot 1.495 0
Laun og launatengd gjöld 30.981 16.408
Afskrifaðar viðskiptakröfur 160 85
Afskriftir varanlegra rekstrarfjármuna 3.512 2.601

Þóknun endurskoðenda fyrir endurskoðun ársreikninga var 540 þús. evrur (2022: 304 þús. evrur) og þóknun fyrir könnun árshlutareikninga og aðra þjónustu var 175 þús. evrur (2022: 138 þús. evrur).

8. Fjármunatekjur og (fjármagnsgjöld) 2023 2022
Fjármunatekjur
Vaxtatekjur 2.598 119
Fenginn arður 38 94
Gengismunur 2.378 13
5.014 226
Fjármagnsgjöld
Vaxtagjöld (12.925) (3.918)
Afskrifaðar langtímakröfur og fjármunaeignir (620) 0
(13.545) (3.918)
Fjármunatekjur og (fjármagnsgjöld) nettó (8.531) (3.692)
9. Tekjuskattur 2023 2022
Tekjuskattur til greiðslu 2.591 2.789
Frestaður tekjuskattur (Skýring 19) 792 389
3.383 3.178
Reiknaður tekjuskattur af hagnaði samstæðunnar fyrir skatta (virkur tekjuskattur) er frábrugðinn þeirri fjárhæð sem kæmi út ef
tekjuskattshlutfall er notað til útreikningsins sem hér greinir:
Hagnaður fyrir skatta, skv. rekstrarreikningi 15.129 17.503
Reiknaður tekjuskattur með tekjuskattshlutfalli viðkomandi lands 2.536 3.463
Óskattskyldar tekjur, söluhagnaður fjárfestingareigna og hagnaður hlutdeildarfélaga (46) (45)

10. Hagnaður á hlut

Hagnaður á hlut er reiknaður með því að deila þeim hagnaði sem skipta má á hluthafa í móðurfélaginu með vegnu meðaltali almennra hluta sem gefnir eru út á árinu, að undanskildum almennum hlutum sem félagið hefur keypt og heldur sem eigin hlutum.

2023 2022
Hagnaður á árinu (þúsundir evra)
Veginn meðalfjöldi útistandandi hluta (í þúsundum)
11.746
582.371
14.325
489.563
Grunnhagnaður og þynntur hagnaður á hlut (EUR á hlut) 2,02 2,93

Heildarfjöldi hluta nemur 636 milljónum, þar af eru eigin hlutir 10,4 milljón, hver að nafnverði 1 ISK. Í upphafi árs nam heildarfjöldi hluta 500 milljónum. Þann 8. febrúar hlutafé aukið um 51 milljón hluta í tengslum við greiðslu fyrir hlutabréf í Mørenot og þann 11. júní var hlutafé aftur aukið um 85 milljón hluta uppskráningu á aðallista Nasdaq á Íslandi.

11. Varanlegir rekstrarfjármunir

Vélar,
áhöld og
Fasteignir tæki Samtals
Staða 1. janúar 2022
Kostnaðarverð 94.065 55.327 149.392
Uppsafnaðar afskriftir (21.654) (27.468) (49.122)
Bókfært verð 72.411 27.859 100.270
Hreyfingar árið 2022
Bókfært verð í byrjun árs 2022 72.411 27.859 100.270
Nýir leigusamningar 2.807 314 3.121
Gengismunir 734 (895) (161)
Viðbætur 7.375 6.604 13.979
Selt og aflagt (1.698) (106) (1.804)
Afskriftir (3.238) (3.995) (7.233)
Bókfært verð í lok árs 2022 78.391 29.781 108.172
Staða 1. janúar 2023
Kostnaðarverð 103.286 61.012 164.298
Uppsafnaðar afskriftir (24.895) (31.231) (56.126)
Bókfært verð 78.391 29.781 108.172
Hreyfingar árið 2023
Bókfært verð í byrjun árs 2023 78.391 29.781 108.172
Nýir leigusamningar 2.753 1.359 4.112
Gengismunir (4.000) 258 (3.742)
Viðbætur vegna kaupa á dótturfélögum 43.249 14.681 57.930
Viðbætur 9.556 12.445 22.001
Selt og aflagt (728) (4.676) (5.404)
Afskriftir (6.681) (6.817) (13.498)
Bókfært verð í lok árs 2023 122.540 47.031 169.571
Staða 31. desember 2023
Kostnaðarverð 171.191 116.332 287.523
Uppsafnaðar afskriftir (48.651) (69.301) (117.952)
Bókfært verð í lok árs 2023 122.540 47.031 169.571
Afskriftir varanlegra rekstrarfjármuna greinast á eftirfarandi hátt í rekstrarreikningi:
2023 2022
Framleiðslukostnaður 10.333 4.887
Annar rekstrarkostnaður 3.165 2.346
13.498 7.233

12. Óefnislegar eignir

Viðskipta Hugb
vild Einkaleyfi þróunark. Samtals
Staða 1. janúar 2022
Kostnaðarverð 46.073 1.114 3.157 50.344
Uppsafnaðar afskriftir (350) (1.042) (1.514) (2.906)
Bókfært verð 45.723 72 1.643 47.438
Hreyfingar árið 2022
Bókfært verð í byrjun árs 2022 45.723 72 1.643 47.438
Gengismunir (826) (1) 0 (827)
Viðbætur 0 0 572 572
Afskriftir 0 (22) (407) (429)
Bókfært verð í lok árs 2022 44.897 49 1.808 46.754
Staða 1. janúar 2023
Kostnaðarverð 45.247 1.114 3.729 50.090
Uppsafnaðar afskriftir (350) (1.065) (1.921) (3.336)
Bókfært verð 44.897 49 1.808 46.754
Hreyfingar árið 2023
Bókfært verð í byrjun árs 2023 44.897 49 1.808 46.754
Gengismunir (448) 0 (334) (782)
Viðbætur vegna kaupa á dótturfélögum 17.468 0 11.496 28.964
Viðbætur 452 0 2.910 3.362
Selt og aflagt 0 0 (862) (862)
Afskriftir 0 (21) (561) (582)
Bókfært verð í lok árs 2023 62.369 28 14.457 76.854
Staða 31. desember 2023
Kostnaðarverð 62.720 1.114 24.499 88.333
Uppsafnaðar afskriftir (351) (1.086) (10.042) (11.479)
Bókfært verð í lok árs 2023 62.369 28 14.457 76.854
Afskriftir óefnislegra eigna greinast á eftirfarandi hátt í rekstrarreikningi:
2023 2022
Framleiðslukostnaður 235 174
Annar rekstrarkostnaður 347 255
582 429

12. Óefnislegar eignir frh.

Virðisrýrnunarpróf vegna viðskiptavildar:

Viðskiptavild er skipt á fjárskapandi einingar samstæðunnar (CGU) og er skilgreind með sama hætti og starfsþættir félagsins sbr. skýringu nr. 5.

Endurheimtanleg fjárhæð fjárskapandi rekstrareininga er ákvörðuð miðað við útreikning á notkunarvirði. Tekið er tillit til skilgreiningar á hinni fjárskapandi einingu sem viðskiptavildinni fylgir við mat á virðisrýrnun hennar og undirliggjandi fastafjármuna og veltufjármuna. Útreikningar byggja á áætluðu fjárstreymi fyrir næstu 5 ár, ásamt eilífðarvirði út frá þeim tíma. Gerð er vegin nafnverðskrafa á fjárflæði en um er að ræða ávöxtunarkröfu sem til samræmis við uppruna fjárstreymisins, er gert miðað við mynd þess fjárstreymis sem um ræðir.

Áætluð framlegð er eins og stjórnendur hafa ákvarðað hana miðað við fyrri árangur og væntingar þeirra um markaðsþróun. Afvöxtunarstuðlarnir endurspegla sérstaka áhættu sem tengist tengdum starfsþáttum.

Starfsþáttur 6. er starfsemi Mørenot samstæðunnar sem kemur inn í samstæðu Hampiðjunnar frá og með 1. febrúar 2023. Ekki er gert virðisrýrnunarpróf á einingunni í lok árs þar sem farið var yfir virði eigna og skulda við kaup á árinu. Samstæðan hefur 12 mánuði frá yfirtökudegi til að útdeila yfirverði tengdum kaupunum á virðisskapandi einingar innan Mørenot.

Útreikningar á endurheimtanlegri fjárhæð leiddi ekki til virðisrýrnunartaps á árunum 2023 og 2022.

Bókfært virði viðskiptavildar skipt niður á fjárskapandi einingar 2023 2022
Starfsþáttur 1 9.493 9.493
Starfsþáttur 2 5.652 5.580
Starfsþáttur 3 1.594 1.598
Starfsþáttur 4 6.069 6.081
Starfsþáttur 5 22.129 22.145
Starfsþáttur 6 17.432 0
Samtals 62.369 44.897
Fjárskapandi einingar, starfsþættir
Forsendur Ár 1 2 3 4 5 6
Meðalvöxtur tekna til 5 ára 2023 8,5% 1,1% 6,2% 0,7% 5,6% e/v
Meðalvöxtur tekna til 5 ára 2022 5,7% 0,7% 8,8% 3,0% 5,3% e/v
Framtíðarvöxtur 2023 2,5% 2,5% 2,5% 2,5% 2,5% e/v
Framtíðarvöxtur 2022 2,5% 2,5% 2,5% 2,5% 2,5% e/v
Ávöxtunarkrafa 2023 9,2% 9,6% 8,6% 11,1% 9,1% e/v
Ávöxtunarkrafa 2022 10,8% 10,3% 9,3% 11,2% 9,6% e/v

Fjárhæðir hér að ofan eru meðaltalstölur fyrir þær CGU sem undir viðkomandi starfsþætti.

13. Eignarhlutur í hlutdeildarfélögum

Hampiðjan á 45% hlut í hlutdeildarfélaginu Sp/f Sílnet í Færeyjum. Jafnframt á dótturfélagið P/F Von 44% eignarhlut í P/F Trolverkstaðið Bergið.

2023 2022
Eignarhluti Hlutdeild
í hagnaði
Bókfært
verð
Eignarhluti Hlutdeild
í hagnaði
Bókfært
verð
Sp/f Sílnet 45,00% 153 1.009 45,00% 88 855
P/F Trolverkstaðið Bergið 44,40% 40 406 44,40% 43 380
193 1.415 131 1.235

14. Fjárfestingareignir

Fjárfestingareignir greinast þannig: 2023 2022
Hampiðjan á hlutabréf að nafnverði kr. 3 milljónir í Síldarvinnslunni hf. Virði þessara hlutabréfa er fært upp í markaðsvirði í
ársreikningnum í gegnum aðra heildarafkomu vegna þess að hlutabréf Síldarvinnslunnar hf. voru á árinu 2021 skráð á aðalmarkað

Kauphallarinnar, Nasdaq Iceland. Aðrar fjárfestingareignir eru færðar á upphaflegu kaupverði.

Síldarvinnslan hf
Önnur félög
2.093
199
2.419
218
2.292 2.637
15. Birgðir
Birgðir greinast þannig: 2023 2022
Net, kaðlar, járnavara, veiðarfæri og aðrar afurðir 117.908 83.620
Vörur í vinnslu 4.184 3.189
Hráefni fyrir hlera, neta- og kaðlaframleiðslu 3.732 3.351
125.824 90.160

Birgðir eru færðar niður vegna aldurs um 3,4 milljón evrur í efnahagsreikningi samstæðunnar. Árið áður voru birgðir færðar niður um 1,3 milljón evrur.

16. Viðskiptakröfur og aðrar kröfur

Viðskiptakröfur og aðrar kröfur greinast þannig: 2023 2022
Viðskiptakröfur 55.544 32.283
Niðurfærsla viðskiptakrafna (1.537) (1.015)
Viðskiptakröfur nettó í lok árs 54.007 31.268
Skuldabréf og aðrar kröfur 6.811 2.739
Viðskiptakröfur og aðrar kröfur í lok árs 60.818 34.007
Þar af langtímakröfur (1.574) (86)
59.244 33.921

Viðskiptakröfur eru færðar niður um 1.537 þúsund evrur í efnahagsreikningi samstæðunnar og greinist niðurfærslureikningurinn á eftirfarandi hátt:

2023 2022
Niðurfærsla í byrjun árs 1.015 968
Niðurfærsla viðskiptakrafna frá keyptu dótturfélagi 412 0
Endanlega tapaðar kröfur á árinu (50) (38)
Breyting niðurfærslu á árinu 160 85
1.537 1.015

17. Handbært fé

2023 2022
Handbært fé í banka sem reiðufé og aðrar skammtímafjárfestingar 52.974 12.503
52.974 12.503

18. Lántökur

Lántökur eru tryggðar með lóðum, fasteignum og birgðum í eigu samstæðunnar. Eignir sem keyptar hafa verið með kaupleigu eru veðsettar með viðkomandi eignum til tryggingar eftirstöðvum skulda.

Langtímaskuldir greinast þannig eftir gengistryggingarákvæðum: 2023 2023 2022 2022
Hlutfall Staða Hlutfall Staða
ISK 0,2% 204 0,0% 7
EUR 53,3% 69.725 77,2% 71.192
USD 2,9% 3.837 0,7% 634
AUS 0,7% 974 1,2% 1.119
NZD 1,2% 1.542 1,7% 1.600
DKK 5,3% 6.871 8,4% 7.751
NOK 34,8% 45.492 10,7% 9.880
GBP 0,5% 620 0,0% 0
Annað 1,1% 1.459 0,0% 0
100% 130.724 100% 92.183

Samningsbundnar 12. mánaða afborganir af langtímaskuldum samstæðunnar í lok tímabilsins / ársins samkvæmt lánasamningum frá lánastofnunum, greinast þannig á næstu ár:

2023 2022
Árið 2024 / 2023 10.567 8.445
Árið 2025 / 2024 16.440 6.881
Árið 2026 / 2025 11.465 6.237
Árið 2027 / 2026 11.292 6.259
Síðar 80.960 64.361
130.724 92.183
Skuldir við lánastofnanir koma þannig fram í efnahagsreikningi:
Langtímaskuldir: 2023 2022
Vaxtaberandi langtímaskuldir 101.259 79.373
Leiguskuldbinding, IFRS 16 29.465 12.810
Næsta árs afborganir (10.567) (8.445)
120.157 83.738
Skammtímaskuldir: 2023 2022
Næsta árs afborganir langtímaskulda 10.567 8.445
Vaxtaberandi skammtímaskuldir 37.293 18.640
47.860 27.085

Hér að neðan er afstemming á þeim efnahagsliðum sem eru að baki fjármögnunarhreyfingum til sjóðstreymis

Bankalán Skuldbinding
Eigið fé skuldir IFRS 16 Samtals
Staða 1.1.2022 … 144.291 86.093 10.756 241.140
Arður greiddur til hluthafa … (7.028) (7.028)
Bankalán breyting … 8.571 8.571
Afborganir leiguskuldbindingar …
Handbært fé frá fjármögnun (til fjárm.) … (7.028) 8.571 1.543
Aðrar hreyfingar sem ekki hafa áhrif á handbært fé… 12.244 3.349 2.054 17.647
Staða 31.12.2022… 149.507 98.013 12.810 260.330
Bankalán breyting… (32.384) (32.384)
Arður greiddur til hluthafa… (6.613) (6.613)
Innborgað aukið hlutafé… 71.676 71.676
Handbært fé frá fjármögnun (til fjárm.) … 65.063 (32.384) 0 32.679
Aðrar hreyfingar sem ekki hafa áhrif á handbært fé… 55.704 72.923 16.655 145.282
Staða 31.12.2023 … 270.274 138.552 29.465 438.291

19. Frestaður tekjuskattur

Frestuð tekjuskattsskuldbinding nettó greinist þannig á eftirfarandi liði: 2023 2022
Tekjuskattskuldbinding í ársbyrjun 5.670 5.673
Tekjuskattur á árinu 3.383 3.178
Tekjuskattur til greiðslu (2.591) (2.789)
Tekjuskattur færður yfir eigið fé 573 (392)
Tekjuskattskuldbinding í lok ársins 7.035 5.670
Frestuð tekjuskattsskuldbinding greinist þannig á eftirfarandi liði: 2023 2022
Varanlegir rekstrarfjármunir 9.258 6.516
Aðrir efnahagsliðir (458) 258
Yfirfæranlegt skattalegt tap (1.515) (1.104)
7.285 5.670
Frestuð tekjuskattsinneign greinist þannig á eftirfarandi liði: 2023 2022
Ýmsir efnahagsliðir 16 0
Yfirfæranlegt skattalegt tap 234 0
250 0
7.035 5.670

Samstæðan á yfirfæranlegt skattalegt tap sem nýtist á móti skattalegum hagnaði hennar. Yfirfæranlega skattalega tapið er 1.749 þúsund evrur, sem skiptist þannig: 106 þúsund evrur nýtast til ársins 2027, 233 þúsund evrur nýtast til ársins 2028, 90 þúsund evrur nýtast til ársins 2029 og 347 þúsund evrur nýtast til ársins 2030, 15 þúsund evrur nýtast til ársins 2031, 540 þúsund evrur nýtast til ársins 2032 og 418 þúsund evrur til 2033.

20. Viðskiptaskuldir og aðrar skammtímaskuldir

Viðskiptaskuldir og aðrar skammtímaskuldir greinast þannig: 2023 2022
Viðskiptaskuldir 39.844 24.829
Aðrar skammtímaskuldir 1.379 1.322
41.223 26.151

21. Tengdir aðilar

Skilgreining tengdra aðila:

Hlutdeildarfélög, hluthafar með veruleg áhrif, stjórnarmenn og stjórnendur teljast vera tengdir aðilar samstæðunnar. Viðskipti milli samstæðufélaga eru felld niður við gerð samstæðureiknings

Viðskipti við tengda aðila:

Viðskipti samstæðunnar við hluthafa og aðra tengda aðila voru eins og um viðskipti ótengdra aðila væri að ræða.

Viðskipti við stjórnendur:

Laun og hlunnindi til stjórnar og lykilstjórnenda félagsins vegna starfa fyrir félög í samstæðunni þeirra í félaginu greinast þannig:

Laun og
hlunnindi
Aðrar
greiðslur
Fjöldi hluta
í árslok*
Heildargr.
fyrra árs
Hjörtur Erlendsson, forstjóri … 620 242 260 529
Vilhjálmur Vilhjálmsson, stjórnarformaður 70 8.387 64
Kristján Loftsson, stjórnarmaður 23 233.063 21
Auður Kristín Árnadóttir, stjórnarmaður 23 0 21
Guðmundur Ásgeirsson, stjórnarmaður … 23 16.685 21
Sigrún Þorleifsdóttir, stjórnarmaður 23 39 21
Lykilstjórnendur ( 23 talsins ) 4.146 1.486 101 3.731
Samtals… 4.929 1.728 258.535 4.407

*Með eignarhlutum að ofan eru taldir eignarhlutir fjárhagslega tengdra aðila. Hlutir eru að nafnverði í þúsundum IKR.

22. Vátryggingar

Samstæðan hefur keypt rekstrarstöðvunartryggingar sem ætlað er að bæta tjón vegna rekstrarstöðvunar í allt að 12 mánuði á grundvelli skilmála um eignatryggingar en fjárhæðinn nemur allt að 112 milljónum evra vegna . Vátryggingarverðmæti fasteigna samstæðunnar nemur 163 milljónum evra. Vátryggingarverðmæti framleiðsluvéla og -tækja, hug- og skrifstofubúnaðar og vörubirgða nemur 196 milljónum evra.

*Með eignarhlutum að ofan eru taldir eignarhlutir fjárhagslega tengdra aðila. Hlutir eru að nafnverði í þúsundum IKR.

23. Kaup á Mørenot

Þann 17. nóvember 2022 undirritaði Hampiðjan samning um kaup á norska félaginu Holding Cage I AS sem er eignarhaldsfélag Mørenot samstæðunnar. Mørenot er alþjóðlegt fyrirtæki með starfsstöðvar á um 30 stöðum víðs vegar um heiminn. Félagið veitir þjónustu og selur vörur til fyrirtækja í sjávarútvegi, fiskeldi og olíuiðnaði. Undirritunin var gerð í kjölfar áreiðanleikakannanna. Kaupsamningurinn var gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlita Íslands, Grænlands og Færeyja ásamt því að hluthafafundur Hampiðjunnar samþykkti heimild til stjórnar Hampiðjunnar um útgáfu nýrra hluta til greiðslu kaupverðsins. Öllum fyrirvörum var aflétt í byrjun febrúar 2023 og í framhaldinu var gengið frá kaupunum.

Kaupverðið var að mestu greitt með hlutabréfum í Hampiðjunni en seljendur fengu afhenta 50.981.049 nýja hluti í Hampiðjunni og var miðað við gengið 112 ISK á hlut í þeim útreikningi en það var 20,4% yfir því markaðsgengi við lokun markaða á þeim degi sem tilkynnt var um viðskiptin. Samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilareglum ber að færa viðskiptin á gengi hlutabréfanna á þeim degi sem bréfin eru afhent óháð því hvernig þau voru metin í útreikningi á viðskiptunum. Bréfin voru afhent þann 7. febrúar 2023 og var gengið á þeim degi 135 ISK á hlut og færast viðskiptin því í bækur Hampiðjunnar á því gengi.

Kaupverð

100% eignarhlutur Hampiðjunar hf. greiddur með peningum 1.589
100% eignarhlutur Hampiðjunar hf. greiddur með útgefnu hlutafé í Hampiðjunni 45.428
47.017
Eignir og skuldir keyptar, á gangvirði Gangvirði
Varanlegir rekstrarfjármunir 57.930
Óefnislegar eignir 28.964
Skuldabréf og langtímakröfur 1.737
Vörubirgðir 42.790
Viðskiptakröfur 18.304
Handbært fé 7.139
Aðrir veltufjármunir 10.029
Tekjuskattsskuldbinding (1.364)
Langtímaskuldir (50.923)
Skammtímaskuldir (35.840)
Skammtímaskuldir við lánastofnanir (32.201)
Nettó eignir keyptar 46.565
Viðskiptavild, mismunur á kaupverði og gangvirði eigna og skulda 452
Eignir keyptar 47.017

Mat eigna á kaupdegi var byggt á bókfærðu virði eignanna þann 1.2.2023. Yfirverðið er tilkomið vegna tekjuhæfis eignanna og möguleika á samlegð milli félaganna tveggja. Vegna viðskiptanna er viðskiptavild að fjárhæð 452 þúsund evra færð í samstæðunni, einnig var viðskiptavild í Mørenot að fjárhæð um 17,5 m. EUR. Útdeilingu á yfirverði var ekki lokið um áramót en félagið hefur heimild til að taka allt að 12 mánuði í kaupverðsútdeilingu og mun sú údeiling koma inn í uppgjör félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2024. Hluti af vinnu við útdeilingu á yfirverð tengist óefnislegum eignum sem voru til staðar í bókum Mørenot og verða hluti af útdeilingunni.

Í ársreikninginn koma á tímbilinu sölutekjur frá félaginu að fjárhæð um 115,3 milljónir evra, EBITDA að fjárhæð 8,9 milljónir evra og tap að fjárhæð um 116 þúsundir evra. Upplýsingar um efnahag og rekstur félagsins eru í skýringu nr. 5 um starfsþætti. Kostnaður sem féll til vegna kaupanna um 1,7 milljónir evra sem hefur verið gjaldfærður á árinu og er færður meðal rekstrarkostnaðar. Bókfært verð viðskiptakrafna félagsins, 18,3 milljónir evra, er jafnt gangvirði þeirra.

Ef Mørenot hefði verið hluti af samstæðunni allt árið 2023 þá hefðu tekjur aukist um 10,3 milljónir evra og rekstarhagnaður um 613 þúsund evrur.

Áhrif á handbært fé
Greiðslur vegna kaupa á Mørenot, færðar meðal fjárfestingahreyfinga í sjóðstreymi (1.589)
Handbært fé til staðar í Mørenot við kaup 7.139

24. Árshlutayfirlit*

Rekstur samstæðunnar greinist þannig á árshluta:

okt. - des.
2023
júl. -sept.
2023
jan. - jún.
2023
okt. - des.
2022
júl. -sept.
2022
jan. - jún.
2022
Rekstrartekjur 74.984 80.900 166.240 54.654 44.304 94.801
Rekstrargjöld án afskrifta (67.989) (71.683) (144.905) (47.141) (37.647) (80.245)
Rekstrarhagnaður án afskrifta (EBITDA) 6.995 9.217 21.335 7.513 6.657 14.556
Afskriftir (1.522) (4.393) (8.165) (2.080) (1.849) (3.733)
Rekstrarhagnaður (EBIT) 5.473 4.824 13.170 5.433 4.808 10.823
Fjármunatekjur og (fjármagnsgjöld) (4.601) (154) (3.583) (2.092) (788) (681)
Hagnaður fyrir skatta 872 4.670 9.587 3.341 4.020 10.142
Tekjuskattur (493) (1.177) (1.713) (724) (604) (1.850)
Hagnaður árshluta 379 3.493 7.874 2.617 3.416 8.292

*Fjárhæðir í árshlutayfirlitum eru óendurskoðaðar.

Þar sem félagið var skráð á aðalmarkað í júní liggur niðurbrot á fyrsta og öðrum árshluta ekki fyrir.

25. Aðrir varasjóðir Matsbr.
fjár.eigna
Lögbundinn
varasjóður
Þýðingar
munur
Samtals
Staða 1. janúar 2022 1.888 1.384 (984) 2.288
Þýðingarmunur ársins 2022 (1.706) (1.706)
Matsbreyting fjárfestingareigna ársins 2022 356 356
Staða 31. desember 2022 2.244 1.384 (2.690) 938
Staða 1. janúar 2023
Þýðingarmunur ársins 2023
2.244 1.384 (2.690)
(1.086)
938
(1.086)
Matsbreyting fjárfestingareigna ársins 2023 (326) 0 (326)
Staða 31. desember 2023 1.918 1.384 (3.776) (474)

Matsbreyting fjárfestingareigna

Fjárfestingareignir eru færðar á markaðsvirði m.v. matsdag í efnahagsreikningi, liggi það fyrir. Liggi markaðsvirði ekki fyrir þá er notast við kostnaðarverð að frádreginni niðurfærslu vegna virðisrýrnunar.

Lögbundinn varasjóður

Fært er í lögbundinn varasjóð samkvæmt íslenskum hlutafélagalögum. Ekki er heimilt að greiða lögbundinn varasjóð til hluthafa í formi arðs. Samkvæmt hlutafélagalögum skal leggja í varasjóðinn þar til hann hefur náð 25% af hlutafé.

Þýðingarmunur

Á þýðingarmun er færður allur gengismunur sem verður til vegna umreiknings reikningsskila félaga innan samstæðunar sem er aðskiljanlegur hluti af rekstri móðurfélagsins.

26. Yfirlit yfir félög í samstæðu

Eignarhluti Eignarhluti
í eigu í eigu
Nafn félags Staðsetning Starfsemi samstæðu minnihluta
Hampidjan Baltic UAB Litháen Veiðarfæraefnisfrl. 100%
Hampidjan Australia Ltd Ástralía Veiðarfæragerð 80% 20%
Hampidjan New Zealand Ltd Nýja Sjáland Veiðarfæragerð 100%
Hampidjan Canada Ltd Kanada Veiðarfæragerð 100%
Hampidjan USA Inc Bandaríkin Eignarhaldsfélag 100%
Swan Net USA, dótturfélag Hampidjan USA Inc Bandaríkin Veiðarfæragerð 75% 25%
Cosmos Trawl A/S Danmörk Veiðarfæragerð 100%
Strandby Net A/S, dótturfélag Cosmos Trawl A/S Danmörk Veiðarfæragerð 80% 20%
Swan Net Gundry Ltd (SNG) Írland Veiðarfæragerð 65% 35%
Costal Cages, dótturf. SNG Írland Veiðarfæragerð 65% 35%
Swan Net East Coast Services, dótturfélag SNG Bandaríkin Veiðarfæragerð 65% 35%
Hampiðjan Ísland ehf Ísland Veiðarfæragerð 100%
Hampiðjan Russia Ltd Rússland Sölufélag 60% 40%
Voot ehf. Ísland Sölufélag 68% 32%
Fasteignafélagið Miðhús ehf Ísland Fasteignafélag 53% 47%
Hampidjan TorNet SA Spánn Veiðarfæragerð 100%
P/F Von Færeyjar Eignarhaldsfélag 99% 1%
P/F Vónin, dótturfélag P/F Von Færeyjar Veiðarfæragerð 100%
Vonin Canada Ltd, dótturfélag P/F Vónin Kanada Veiðarfæragerð 100%
Qalut Vonin, dótturfélag P/F Vónin Grænland Veiðarfæragerð 75% 25%
Vónin Ísland ehf, dótturfélag P/F Vónin Ísland Veiðarfæragerð 100%
Volu Ventis ApS, dótturfélag P/F Vónin Danmörk Vöruþróun 100%
Vónin Refa AS, dótturfélag P/F Von Noregur Veiðarfæragerð 100%
Heroy Terminal AS, dótturfélag Vónin Refa AS Noregur Fasteignafélag 100%
UAB Vónin Lithuania, dótturfélag P/F Von Litháen Veiðarfæragerð 100%
Vonin Scotland, dótturfélag P/F Von Skotland Veiðarfæragerð 100%
Jackson Trawls Ltd Skotland Veiðarfæragerð 80% 20%
Jackson Offshore Supply Ltd Skotland Sölufélag 80% 20%
Hampiðjan Offshore ehf. Ísland Sölufélag 100%
Mørenot Holding AS Noregur Eignarhaldsfélag 100%
Mørenot Fishery AS, dótturf. Mørenot Holding AS Noregur Veiðarfæragerð 100%
Mørenot Aquaculture AS, dótturf. Mørenot Holding AS Noregur Veiðarfæragerð 100%
Hampidjan Advant AS, dótturf. Mørenot Holding AS Noregur Veiðarfæragerð 100%
Mørenot Eiendom I AS, dótturf. Mørenot Fishery Noregur Fasteignafélag 100%
Mørenot Eiendom II AS, dótturf. Mørenot Fishery Noregur Fasteignafélag 100%
Mørenot Eiendom III AS, dótturf, Mørenot Aquaculture Noregur Fasteignafélag 100%
Mørenot Denmark AS, dótturf. Mørenot Aquaculture Danmörk Veiðarfæragerð 100%
Poldan Nets, dótturfélag Mørenot Denmark AS Pólland Veiðarfæragerð 100%
Mørenot Baltic, dótturf. Mørenot Fishery AS Litháen Veiðarfæragerð 100%
Mørenot China, dótturf. Mørenot Fishery AS Kína Veiðarfæragerð 100%
Mørenot China Trading, dótturf. Mørenot Fishery Kína Veiðarfæragerð 100%
Morenot Korea Co. Ltd., dótturf. Mørenot Fishery S Kórea Veiðarfæragerð 100%
Mørenot Canada, dótturf. Mørenot Aquaculture Kanada Veiðarfæragerð 100%
Mørenot Mediterranean, dótturf. Mørenot Aquaculture Spánn Veiðarfæragerð 100%
Mørenot Island, dótturf. Mørenot Fishery Ísland Veiðarfæragerð 90% 10%

Hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga í lok tímabilsins er 14,7 milljónir evra. Af þeirri fjárhæð er hluti minnihluta í Swan Net Gundry ltd. 6,5 milljónir evra. Aðrir hlutar minnihluta eru í Hampidjan USA, Cosmos Trawl A/S, P/F Von, Hampidjan Australia, Voot ehf, Fasteignafélaginu Miðhús ehf., Jackson Trawls Ltd og Jackson Offshore Supply Ltd.

Swan Net Gundry Ltd á Írlandi er eina félagið innan samstæðunnar sem telst vera með minnihluta sem er verulegur fyrir samstæðuna. Upplýsingar um efnahag og rekstur félagsins koma fram í skýringu nr. 5 um starfsþætti, starfsþáttur 2.

Ófjárhagslegar upplýsingar

Um Hampiðjuna

Hampiðjan er hlutafélag sem stofnað var vorið 1934. Meginstarfsemi Hampiðjunnar er framleiðsla og sala á veiðarfærum, íhlutum þeirra og ofurköðlum ásamt vörum og þjónustu fyrir fiskeldisfyrirtæki.

Hampiðjan var meðal 5 fyrstu fyrirtækjanna sem fengu hlutabréf sín skráð hjá nýstofnuðum Hlutabréfamarkaði hf. í nóvember árið 1985. Félagið fór síðan á Verðbréfaþing Íslands árið 1992 sem síðar varð Nasdaq OMX og á First North árið 2007. Félagið færði sig síða upp á aðalmarkað Nasdaq OMX á Íslandi og voru bréfin tekin til viðskipta þann 9. júní sl.

Í árslok 2023 samanstendur samstæða Hampiðjunnar af 46 fyrirtækjum í 21 landsvæði víðs vegar um heim. Hjá félaginu starfa 1.947 starfsmenn.

Hampiðjan framleiðir efni, kaðla og net, fyrir veiðarfæri í verksmiðju sinni í Litháen og selur þau síðan til annarra fyrirtækja innan samstæðunnar. Þau selja síðan þær vörur ásamt öðrum vörum, keyptum af þriðja aðila, til fyrirtækja, einkum í sjávarútvegi, bæði sem fullbúin veiðarfæri og sem íhluti í veiðarfæri og kvíar fyrir fiskeldi. Einnig framleiðir Hampiðjan vörur fyrir olíuiðnað, djúpsjávarverkefni og stroffur fyrir þungalyftur.

Umhverfismál

Stjórn og stjórnendur leggja mikla áherslu á umhverfismál í gegnum bæði daglegan rekstur sem og í rannsóknar- og þróunarvinnu. Hampiðjan hf. hefur sett sér umhverfisstefnu sem er aðgengileg á heimasíðu félagsins og er grundvöllur vinnu félagsins í umhverfismálum. Unnið er að innleiða stefnuna hjá öllum dótturfélögum samstæðunnar.

Stöðugt er unnið að því að hanna veiðarfæri og íhluti veiðarfæra til að minnka umhverfisáhrif þeirra. Troll sem eru léttari í tógi minnka eldsneytiseyðslu um borð í skipunum ásamt því að fara betur með botninn á veiðislóðum. Í dag er meginhluti veiðarfæra sem félagið hannar og framleiðir endurunninn og á það einnig við um sjókvíar fyrir fiskeldi.

Á árinu 2021 fékk Hampiðjan vottun í umhverfisstjórnunarkerfi ISO 14001 frá Det Norska Veritas (DNV) fyrir starfsemi sína á Íslandi. Þessi alþjóðulegi staðall nær yfir stefnumótun, markmiðasetningu, framkvæmd og eftirlit allra umhverfisþátta félagsins. Einnig hefur Hampiðjan Baltic, dótturfélag Hampiðjunnar í Litháen og meginframleiðslueining samstæðunnar, hlotið ISO 14001 vottun frá DNV. Til stendur að fá samskonar vottun fyrir öll dótturfélög samstæðunnar.

Hampiðjan leggur mikla áherslu á flokkun og endurvinnslu. Allur úrgangur er flokkaður og það sem hægt er að endurvinna er sent í viðeigandi endurvinnslu.

Hampiðjan vinnur með viðskiptavinum sínum að endurvinnslu á notuðum veiðarfærum meðal annars með því að hluta eldri veiðarfæri í sundur og aðskilja milli efna Hampiðjan hefur fundið samstarfsaðila sem sérhæfa sig í endurvinnslu á efnum sem notuð eru í veiðarfæri. Nefna má sérstaklega Plastix í Danmörku sem endurvinnur PE net og kaðla, Polivektris í Litháen sem endurvinnur nylon og Aquafil í gegnum Nofir sem endurvinnur nætur frá fiskeldi. Einnig erum við með samstarfsaðila í Hollandi, Granuband, fyrir endurvinnslu á gúmmíbobbingalengjum. Allar þessar endurvinnsluleiðir skapa tækifæri til að skapa nýjar vörur úr notuðum veiðarfærum sem fá áframhaldandi líf t.d. í bílum, á leikvöllum eða í líkamsræktarsölum. Hampiðjan vinnur einnig í samstarfi við þessi enduvinnslufyrirtæki á þann hátt að kanna möguleika til að nota endurunnið hráefni aftur í veiðarfæragerð og með því að loka hringrásinni. Hampiðjan vinnur einnig áfram að því að finna endurvinnsluleiðir fyrir öll hráefni innan vöruframboðs Hampiðjunnar hf.

Innan Hampiðjunnar Baltic er eigin endurvinnsla á PE efnum sem falla til í framleiðsluferlinu ásamt því að samskonar hrein efni sem falla til hjá fyrirtækum samstæðunnar eru flutt til aftur til Hampiðjunnar Baltic til endurvinnslu og eru notuð aftur í veiðarfæragerð.

Hampiðjan er einn af aðal stuðningsaðilum Bláa Hersins sem eru umhverfisverndarsamtök sem leggja áherslu á baráttuna við plastmengun í hafinu með hreinsunarstörfum, hvatningu og vitundarvakningu.

Samfélagsleg ábyrgð

Starfsmenn og fjölskyldur þeirra hafa unnið með umhverfissamtökunum Bláa hernum í því að hreinsa strendur landsins. Hefur verið tekinn heill dagur þar sem farið er með Bláa hernum á ákveðna strönd sem forsvarsmenn Bláa hersins hafa valið til hreinsunar og vinna starfsmenn þar með Bláa hernum í því að fjarlægja allt rusl sem í fjörunni er. Afrakstur þessara hreinsunardaga er væntanlega á milli 7 til 8 tonn af ýmsum úrgangi sem komið hefur verið í endurvinnslu eða urðun eftir því sem við á.

Hampiðjan er aðili að Festu sem er miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Hlutverk Festu er að auka þekkingu á samfélagsábyrgð og sjálfbærni fyrirtækja, stofnana og hverskyns skipulagsheilda.

Hampiðjan er einnig styrktaraðili ýmissa samfélagslegra verkefna á þeim svæðum sem félagið er með starfsemi.

Hampiðjan hefur ekki sett sér stefnu um veitingu styrkja til samfélagslegra mála en styrktarbeiðnir eru skoðaðar og til þeirra tekin afstaða þegar þær berast.

Starfsmannamál, mannauður og öryggismál

Hampiðjan leggur áherslu á að félagið hafi á að skipa hæfu og heiðarlegu starfsfólki og að starfsfólki sé gefin sem best starfsskilyrði til að sinna þeim verkefnum sem þeim er falið hverju sinni. Hampiðjan leggur áherslu á að skapa starfsfólki sínu jöfn tækifæri og að ekki sé mismunað á grundvelli kynferðis, kynþáttar, trúar, aldurs eða uppruna. Hampiðjan vill í störfum sínum stuðla að því að reynsla og hæfileikar starfsfólks komi félaginu, starfsmönnum og samfélaginu til ávinnings.

Stjórn félagsins er skipuð fimm einstaklingum, þremur körlum og tveimur konum.

Félagið hefur lokið vinnu í tengslum við uppsetningu á jafnlaunakerfi fyrir Hampiðjuna hf. og Hampiðjuna Ísland ehf. Kerfið hefur verið tekið út af vottunaraðilum og hlotið vottun í samræmi við þau lög sem gilda um jafnlaunavottun.

Hampidjan Baltic, sem er aðalframleiðslufyrirtæki samstæðunnar og með flesta starfsmenn dótturfyrirtækjanna er með Det Norske Veritas vottað stjórnkerfi fyrir heilsu og öryggi samkvæmt staðlinum OHSAS ISO 18001.

Mannréttindi, siðferði, spilling og mútumál

Hampiðjan virðir almenn mannréttindi og rétt allra til félagafrelsis og kjarasamninga. Hampiðjan leggur áherslu á að undirverktakar fari eftir gildandi lögum í landinu er varðar sína starfsmenn.

Hampiðjan leggur áherslu á heiðarleg vinnubrögð og er hvorki spilling né mútuþægni liðin.

Félagið hefur sett sér stefnu varðandi þessi málefni sem er samþykkt af stjórn félagsins. Vinna er í gangi við að innleiða þau viðmið sem stjórn félagsins hefur samþykkt hjá öllum félögum innan samstæðunnar í takt við lög og reglur í þeim löndum sem félögin starfa í.

Frekari upplýsingar um stefnur og reglur sem félagið hefur sett sér má finna í stjórnarháttaryfirlýsingu sem fylgir þessum ársreikningi sem og á heimasíðu félagins www.hampidjan.is

Skýrslugjöf vegna flokkunarreglugerðar ESB

1. Almennar upplýsingar

Flokkunarreglugerð ESB tók gildi á Íslandi 1. júní 2023 með lögum nr. 25/2023 um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar. Lögin voru afturvirk til 1. janúar 2023 og gilda því um allt fjárhagsárið 2023.

Tilgangur reglugerðarinnar er að skilgreina hvaða atvinnustarfsemi telst vera umhverfislega sjálfbær út frá tæknilegum matsviðmiðum sem koma fram í framseldri reglugerð ESB 2021/2139 og á að stuðla að gagnsæi í sjálfbærniupplýsingagjöf. Til þess að fyrirtæki geti talist umhverfislega sjálfbær í skilningi reglugerðarinnar þurfa þau að uppfylla viðmið fyrir umhverfislega sjálfbæra atvinnustarfsemi skv. 3.gr. reglugerðarinnar. Í fyrsta lagi þarf atvinnustarfsemin að stuðla verulega að einu eða fleiri umhverfismarkmiðum, á sama tíma má hún ekki skaða önnur markmið. Hún þarf að vera stunduð í samræmi við lágmarksverndarráðstafanir og að lokum að hlíta tæknilegum matsviðmiðum.

Umhverfismarkmiðin eru sex: mildun loftslagsbreytinga, aðlögun að loftslagsbreytingum, sjálfbær notkun og verndun vatns- og sjávarauðlinda, umskipti yfir í hringrásarhagkerfi, mengunarvarnir og eftirlit með mengun, og vernd og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa. Tæknileg matsviðmið fyrir mildun og aðlögun loftslagsbreytingum hafa verið innleidd með framseldri reglugerð ESB 2021/2139 og atvinnustarfsemi sem þar er tekin fram fellur undir upplýsingaskyldu á Íslandi en framseld reglugerð ESB 2023/2486 um önnur umhverfismarkmið og framseld reglugerð ESB 2023/2485 um uppfærslu á loftslagsmarkmiðum tóku gildi innan ESB árið 2023 og bíða innleiðingar hér á landi.

Gerð er krafa á að fyrirtæki birti hlutfall veltu, fjárfestingagjalda (CapEx) og rekstrargjalda (OpEx) fyrir nýliðið rekstrartímabil á hæfri starfsemi, það er, starfsemi sem fellur undir flokkunarreglugerðina. Að sama skapi skal birta sömu lykilmælikvarða fyrir starfsemi sem uppfyllir öll viðmið reglugerðarinnar og telst vera samræmd starfsemi eða umhverfislega sjálfbær.

Á Íslandi gildir reglugerðin um fyrirtæki sem falla undir skyldu til að skila ófjárhagslegum upplýsingum skv. gr. 66d í ársreikningalögum nr. 3/2006 og er Hampiðjan þar á meðal. Umfang þessarar skýrslu nær yfir starfsemi Hampiðjunnar á Íslandi, Noregi og Færeyjum. Í framhaldinu mun umfangið stækka til að ná til annarra svæða alþjóðlegrar starfsemi Hampiðjunnar.

2. Hæf starfsemi Hampiðjunnar í skilningi reglugerðarinnar

Hampiðjan hóf yfirferð á starfsemi sinni í samræmi við tæknileg matsviðmið þar sem starfsemi félagsins var borin saman við þau tæknilegu matsviðmið sem nú þegar hafa verið birt út frá umhverfismarkmiðunum mildun loftslagsbreytinga og aðlögun að loftslagsbreytingum. Við mat á hæfri starfsemi kom í ljós að meirihluti atvinnustarfsemi Hampiðjunnar – framleiðsla og sala á veiðarfærum, fiskeldisbúnaður og búnaður fyrir úthafsiðnað fellur ekki undir flokkunarreglugerðina eins og er. Hins vegar kom í ljós að flokkur 7.7 Kaup og eignarhald á byggingum, undir umhverfismarkmiðinu mildun loftslagsbreytinga getur talist sem hæf starfsemi Hampiðjunnar. Einnig hefur verið litið til leiguhúsnæðis sem félagið hefur keypt sem hluti af þessum flokk. Hampiðjan bæði á og leigir fasteignir sem aðallega hýsa rekstur félagsins.

3. Samræmd starfsemi

Hampiðjan hóf yfirferð á starfsemi sinni í samræmi við tæknileg matsviðmið þar sem starfsemi félagsins var borin saman við þau tæknilegu matsviðmið sem nú þegar hafa verið birt út frá umhverfismarkmiðunum mildun loftslagsbreytinga og aðlögun að loftslagsbreytingum. Við mat á hæfri starfsemi kom í ljós að meirihluti atvinnustarfsemi Hampiðjunnar – framleiðsla og sala á veiðarfærum, fiskeldisbúnaður og búnaður fyrir úthafsiðnað fellur ekki undir flokkunarreglugerðina eins og er. Hins vegar kom í ljós að flokkur 7.7 Kaup og eignarhald á byggingum, undir umhverfismarkmiðinu mildun loftslagsbreytinga getur talist sem hæf starfsemi Hampiðjunnar. Einnig hefur verið litið til leiguhúsnæðis sem félagið hefur keypt sem hluti af þessum flokk. Hampiðjan bæði á og leigir fasteignir sem aðallega hýsa rekstur félagsins.

Viðmið Mat Hampiðjunnar
Verulegt framlag 1) mildun loftslagsbreytinga Ekki uppfyllt þar sem engin bygginga Hampiðjunnar
getur framvísað orkunýtingarvottorði í flokki A, né sýnt
fram á að byggingin sé innan efstu 15% af
landsbundnum eða svæðisbundnum byggingarkosti,
gefið upp sem frumorkuþörf. (Fyrir frekari upplýsingar,
sjá 3.1 Verulegt framlag)
2) Aðlögun að
loftslagsbreytingum
Á ekki við þar sem ekki er unnt að uppfylla verulegt
framlag (Fyrir frekari upplýsingar, sjá 3.2 Ekki valda
umtalsverðu tjóni)
Að valda ekki umtalsverðu tjóni
(DNSH)
3) Sjálfbær notkun og
verndun vatns- og
sjávarauðlinda
Á ekki við (Kemur ekki fram í tæknilegum
matsviðmiðum)
4) Umskipti yfir í
hringrásarhagkerfi
Á ekki við (Kemur ekki fram í tæknilegum
matsviðmiðum)
5) Mengunarvarnir og eftirlit
með mengun
Á ekki við (Kemur ekki fram í tæknilegum
matsviðmiðum)
6) Vernd og endurheimt
líffræðilegrar fjölbreytni og
vistkerfa
Á ekki við (Kemur ekki fram í tæknilegum
matsviðmiðum)
Lágmarksverndarráðstafanir Á ekki við þar sem ekki er unnt að uppfylla verulegt
framlag (Fyrir frekari upplýsingar, sjá 3.3
Lágmarksverndarráðstafanir)

Tafla 3.1: Mat á starfsemi 7.7 Kaup og eignarhald á byggingum

Niðurstaða matsins var sú að engar byggingar Hampiðjunnar á Íslandi, í Noregi eða Færeyjum uppfylla kröfur um verulegt framlag og teljast því ekki umhverfislega sjálfbærar skv. viðmiðum flokkunarreglugerðarinnar.

3.1 Verulegt framlag

Til að uppfylla kröfur um verulegt framlag út frá mildun loftslagsbreytinga fyrir flokk 7.7 Kaup og eignarhald á byggingum, þurfa fyrirtæki að sýna fram á að byggingin sé í orkunýtingarflokki A, sem skilgreinir orkunýtingu byggingarinnar. Að öðrum kosti þarf byggingin að falla innan efstu 15% af landsbundnum eða svæðisbundnum byggingarkosti, gefið upp sem frumorkuþörf. Fyrir byggingar sem byggðar eru eftir 31. desember 2020 þarf frumorkuþörfin að vera a.m.k. 10% minni en viðmiðunarmörk út frá orkunýtingu.

Orkunýting er skilgreind í tilskipun ESB 2010/31 og frumorkuþörf byggir á þeirri skilgreiningu. Ísland er með undanþágu frá innleiðingu tilskipunarinnar og þar af leiðandi hafa orkunýtingarvottorð ekki verið gefin út. Aðrar kröfur sem ekki tengjast umræddri tilskipun er ekki að finna í viðmiðinu. Því var ákveðið að fara ekki lengra með mat á samræmdri starfsemi fyrir byggingar staðsettar á Íslandi. Að sama skapi voru engin orkunýtingarvottorð eða leiðbeiningar varðandi frumorkuþörf til staðar í Færeyjum.

Því var mat á samræmi einungis framkvæmt fyrir byggingar í Noregi. Við matið kom í ljós að engin af þeim byggingum sem Hampiðjan á eða leigir í Noregi gæti verið með orkunýtingarvottorð í flokki A. Þar sem ekki voru til staðar sannanir fyrir því að neinar byggingar Hampiðjunnar væru innan efstu 15% af landsbundnum eða svæðisbundnum byggingarkosti, gefið upp sem frumorkuþörf þýðir það að byggingar félagsins geta ekki uppfyllt skilyrði um verulegt framlag og eru þar af leiðandi ekki samræmdar (e. Aligned).

3.2 Að valda ekki umtalsverðu tjóni

Mat á því hvort byggingar Hampiðjunnar valdi ekki umtalsverðu tjóni var ekki framkvæmt að þessu sinni, þar sem þær uppfylla ekki kröfuna um verulegt framlag. Hins vegar mun Hampiðjan hefja mat á viðmiðunum fyrir byggingar félagsins á Íslandi, í Noregi og Færeyjum og byrja á loftslagsáhættu- og veikleikamati á starfsemi Hampiðjunnar.

3.3 Lágmarksverndarráðstafanir

18.gr. flokkunarreglugerðarinnar mælir fyrir um lágmarksverndarráðstafanir þar sem horft er til viðmiðunarreglna Efnahags- og framfarastofnunarinnar, leiðbeinandi meginreglna Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og mannréttindi auk átta grundvallarsamþykkta í yfirlýsingu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Vettvangur um sjálfbær fjármál hefur skilgreint kjarnaviðfangsefni út frá þessum kröfum vera mannréttindi, spilling og mútur, skattlagning og sanngjörn samkeppni.

Hampiðjan metur sem svo að félagið sé í reglufylgni við lágmarksverndarráðstafanir. Hampiðjan hefur skuldbundið sig til að fara að lögum og reglum sem gilda um starfsemi félagsins og stunda viðskipti í samræmi við grundvallarmannréttindi sem kveðið er á um í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, svo og alþjóðlega viðurkennd mannréttindi. Frekari upplýsingar má finna í Siðareglum Hampiðjunnar og Mannréttindastefnu Hampiðjunnar.

4. Lykilmælikvarðar

Evrópusambandið hefur gefið út leiðbeiningar um útreikning á lykilmælikvörðum í framseldri reglugerð 2021/2178. Hlutfall veltu, fjárfestingargjalda og rekstrargjalda er reiknað í samræmi við 8.gr. flokkunarreglugerðarinnar. Hins vegar er möguleiki á því að kröfur eða aðferðafræði muni taka breytingum eftir því sem reglugerðin verður uppfærð og getur það haft áhrif á framtíðarútreikninga félagsins.

Vegna umfangsmikillar starfsemi Hampiðjunnar á heimsvísu var ákveðið að þrengja umfjöllunina til þeirra landsvæða þar sem mesta starfsemi fyrirtækisins á sér stað: Ísland, Noregur og Færeyjar. Aðrir staðir munu fylgja í kjölfarið eftir því sem vinnu við flokkunarreglugerðina vindur fram. Fyrir alla lykilmælikvarða tekur teljari og nefnari því einungis tillit til fyrirtækja Hampiðjunnar á Íslandi, í Noregi og Færeyjum. Því er ekki hægt að samræma heildarveltu og fjárfestingakostnað við viðeigandi skýringar í uppgjöri Hampiðjunnar.

Velta

Hlutfall veltu samkvæmt skilgreiningu flokkunarreglugerðarinnar nær yfir tekjur sem eru færðar skv. a-lið 82. mgr. alþjóðlegs reikningsskilastaðals (IAS-staðli) 1. Heildar velta í samræmi við skilgreininguna er í samræmi við heildar veltu viðkomandi eininga samstæðunnar fyrir árið 2023. Hæf velta Hampiðjunnar á við allar leigutekjur af byggingum félagsins til utanaðkomandi aðila. Eins og sjá má í töflu 4.1 Velta eru engar slíkar tekjur innan félagsins. Sjá hlutföll í töflu 4.1 Velta.

Fjárfestingargjöld (CapEx)

Við höfum úthlutað fjárfestingargjöldum á hæfa starfsemi í samræmi við flokkunarreglugerðina. Fjárfestingargjöld samkvæmt 8. gr. flokkunarreglugerðarinnar samanstanda af viðbótum vegna efnislegra og óefnislegra eigna á rekstrarárinu fyrir afskriftir, niðurgreiðslur og endurmat, að undanskildum breytingum á gangvirði. Fjárfestingarútgjöld námu alls 11.430 tEUR á árinu 2023 í samræmi við viðbætur ársins. Hæf fjárfestingargjöld Hampiðjunnar vísa til hvers kyns viðbóta sem gerðar eru á árinu við byggingar eða lóðir í eigu eða leigu félagsins. Þar af eru 40% vegna starfsemi sem fellur að flokkunarkerfinu. Sjá hlutföll í töflu 4.2 Fjárfestingagjöld.

Rekstrargjöld (OpEx)

Flokkunarreglugerðin skilgreinir rekstrargjöld þrengra en almennt gildir um rekstrargjöld í reikningshaldslegum skilningi. Undir rekstrargjöld skal falla beinn kostnaður sem ekki er færður til eignar, sem varðar rannsóknir og þróun, ráðstafanir vegna endurnýjun bygginga, skammtímaleigu, viðhald og viðgerðir og önnur bein útgjöld vegna daglegs viðhalds varanlegra rekstrarfjármuna fyrirtækisins eða þriðja aðila sem starfsemi er útvistað til, sem þörf er á til að tryggja áframhaldandi skilvirka starfrækslu slíkra eigna. Rekstrargjöld námu alls 1.570 tEUR á árinu 2023 og voru til komin vegna viðhalds og viðgerða tengdum byggingum eða lóðum í eigu eða leigu félagsins. Þar af eru 23% vegna starfsemi sem fellur að flokkunarkerfinu. Sjá hlutföll í töflu 4.3 Rekstrargjöld.

Tafla 4.1 Velta
-- -- -- -- ----------------- --
Viðmið fyrir verulegt framlag Viðmið fyrir verulegt tjón ("Veldur ekki verulegu tjóni")
Atvinnustarfsemi (1)
me
r (2
)
He
ilda
rve
lta
(3)
Hlu
tfa
ll v
elt
u (4
)

tvæ
gi v
ið l
oft
sla
gsb
rey
tin
gar
(5
)*

lög
un

loft
sla
gsb
rey
tin
gu
m (
6)
Va
tns
- o
g s
jáv
(7)
ara

lind
ir
Hri
ngr
ása
(8)
rha
gke
rfið
Me
(9)
ngu
n
Líff

ðile
g fj
ölb
rey
tni
og
vis
tke
rfi
(10
)

tvæ
gi v
ið l
oft
sla
gsb
rey
tin
gar
(1
1)

lög
un

loft
sla
gsb
rey
tin
gu
m (
12)
Va
tns
- o
g s
jáv
ara

lind
ir(1
3)
Hri
ngr
ása
(14
rha
)
gke
rfið
Me
(15
ngu
)
n
Líff

ðile
g fj
ölb
(16
rey
)
tni
og
vis
tke
rfi
Lág
ma
rks
ve
(17
rnd
)
arr
áðs
taf
ani
r
Hlutfall
veltu sem
fellur að
flokkunar
kerfinu, ár N
1 (19)
Flokkur(starf
semi sem gerir
annarri
starfsemi kleift
að stuðla að
umhverf
ismark- miðum
(20)
Flokkur
"(umbreytin
gar
starfemi)"
(21)
EUR % % % % % % % Já/Nei Já/Nei Já/Nei Já/Nei Já/Nei Já/Nei Já/Nei % E T
A. STARFSEMI SEM FLOKKUNARKERFIÐ NÆR YFIR 0%
A.1. Umhverfissjálfbær starfsemi (sem fellur að flokkunarkerfinu)
0 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0%
Velta frá umhverfissjálfbærri starfsemi (sem fellur að flokkunarkerfinu)(A.1) 0 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0%
A.2 Starfsemi sem flokkunarkerfið nær yfir en er ekki umhverfissjálfbær (sem
fellur ekki að flokkunarkerfinu)
Kaup og eignarhald á byggingum 7.7 0 0%
Velta frá starfsemi sem flokkunarkerfið nær yfir en er ekki umhverfissjálfbær
(starfsemi sem fellur ekki að flokkunarkerfinu) (A.2)
0 0% %
Alls (A.1+A.2) 0 0% %
B. STARFSEMI SEM FLOKKUNARKERFIÐ NÆR EKKI YFIR
Velta frá starfsemi sem flokkunarkerfið nær ekki yfir (B) 204.905 100%
Alls (A+B) 204.905 100%

Tafla 4.2 Fjárfestingargjöld (CapEx)

Viðmið fyrir verulegt framlag Viðmið fyrir verulegt tjón ("Veldur ekki verulegu tjóni")
Atvinnustarfsemi (1)
me
r (2
)
He
ilda
rve
lta
(3)
Hlu
tfa
ll fj
árf
est
ing
arg
jald
a (4
)

tvæ
gi v
ið l
oft
sla
gsb
rey
tin
gar
(5
)*

lög
un

loft
sla
gsb
rey
tin
gu
m (
6)
Va
tns
- o
g s
jáv
(7)
ara

lind
ir
Hri
ngr
ása
(8)
rha
gke
rfið
Me
(9)
ngu
n
Líff

ðile
g fj
ölb
rey
tni
og
vis
tke
rfi
(10
)

tvæ
gi v
ið l
oft
sla
gsb
rey
tin
gar
(1
1)

lög
un

loft
sla
gsb
rey
tin
gu
m (
12)
Va
tns
- o
g s
jáv
ara

lind
ir(1
3)
Hri
ngr
ása
(14
rha
)
gke
rfið
Me
(15
ngu
)
n
Líff

ðile
g fj
ölb
(16
rey
)
tni
og
vis
tke
rfi
Lág
ma
rks
ve
rnd
(17
)
arr
áðs
taf
ani
r
Hlutfall
fjárfestingar
gjalda sem
fellur að
flokkunar
kerfinu, ár N
1 (19)
Flokkur(starf
semi sem gerir
annarri
starfsemi kleift
að stuðla að
umhverf
ismark- miðum
(20)
Flokkur
"(umbreytin
gar
starfemi)"
(21)
EUR % % % % % % % Já/Nei Já/Nei Já/Nei Já/Nei Já/Nei Já/Nei Já/Nei % E T
A. STARFSEMI SEM FLOKKUNARKERFIÐ NÆR YFIR 40%
A.1. Umhverfissjálfbær starfsemi (sem fellur að flokkunarkerfinu)
0 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0%
Fjárfestingargjöld frá starfsemi sem er umhverfissjálfbær (sem fellur að
flokkunarkerfinu) (A.1)
0 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0%
A.2 Starfsemi sem flokkunarkerfið nær yfir en er ekki umhverfissjálfbær (sem
fellur ekki að flokkunarkerfinu)
Kaup og eignarhald á byggingum 7.7 4.533 40%
Fjárfestingargjöld frá starfsemi sem flokkunarkerfið nær yfir en er ekki
umhverfissjálfbær (starfsemi sem fellur ekki að flokkunarkerfinu) (A.2)
4.533 40% %
Alls (A.1+A.2) 4.533 40% %
B. STARFSEMI SEM FLOKKUNARKERFIÐ NÆR EKKI YFIR
Fjárfestingargjöld frá starfsemi sem flokkunarkerfið nær ekki yfir (B) 6.897 60%
Alls (A+B) 11.430 100%

Tafla 4.3 Rekstrargjöld (OpEx)

Viðmið fyrir verulegt framlag Viðmið fyrir verulegt tjón ("Veldur ekki verulegu tjóni")
Atvinnustarfsemi (1)
me
r (2
)
He
ilda
r re
kst
rar
gjö
ld (
3)
Hlu
tfa
ll re
kst
rar
gja
lda
(4
)

tvæ
gi v
ið l
oft
sla
gsb
rey
tin
gar
(5
)*

lög
un

loft
sla
gsb
rey
tin
gu
m (
6)
Va
tns
- o
g s
jáv
(7)
ara

lind
ir
Hri
ngr
ása
(8)
rha
gke
rfið
Me
(9)
ngu
n
Líff

ðile
g fj
ölb
rey
tni
og
vis
tke
rfi
(10
)

tvæ
gi v
ið l
oft
sla
gsb
rey
tin
gar
(1
1)

lög
un

loft
sla
gsb
rey
tin
gu
m (
12)
Va
tns
- o
g s
jáv
ara

lind
ir(1
3)
Hri
ngr
ása
(14
rha
)
gke
rfið
Me
(15
ngu
)
n
Líff

ðile
g fj
ölb
(16
rey
)
tni
og
vis
tke
rfi
Lág
ma
rks
ve
rnd
(17
)
arr
áðs
taf
ani
r
Hlutfall
rekstrargjal
da sem
fellur að
flokkunar
kerfinu, ár N
1 (19)
Flokkur(starf
semi sem gerir
annarri
starfsemi kleift
að stuðla að
umhverf
ismark- miðum
(20)
Flokkur
"(umbreytin
gar
starfemi)"
(21)
EUR % % % % % % % Já/Nei Já/Nei Já/Nei Já/Nei Já/Nei Já/Nei Já/Nei % E T
A. STARFSEMI SEM FLOKKUNARKERFIÐ NÆR YFIR 23%
A.1. Umhverfissjálfbær starfsemi (sem fellur að flokkunarkerfinu)
0 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0%
Rekstrargjöld frá starfsemi sem er umhverfissjálfbær (sem fellur að
flokkunarkerfinu)( (A.1)
0 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0% 0%
A.2 Starfsemi sem flokkunarkerfið nær yfir en er ekki umhverfissjálfbær
(starfsemi sem fellur ekki að flokkunarkerfinu)
Kaup og eignarhald á byggingum 7.7 366 23%
Rekstrargjöld frá starfsemi sem flokkunarkerfið nær yfir en er ekki
umhverfissjálfbær (starfsemi sem ekki fellur að flokkunarkerfinu) (A.2)
366 23% %
Alls (A.1+A.2) 366 23% %
B. STARFSEMI SEM FLOKKUNARKERFIÐ NÆR EKKI YFIR
Rekstrargjöld frá starfsemi sem flokkunarkerfið nær ekki yfir (B) 1.204 77%
Alls (A+B) 1.570 100%

Stjórnarháttayfirlýsing

1. Stjórnarhættir

a. Fylgni við leiðbeiningar um stjórnarhætti, lög og reglur

Hampiðjan hf. (hér eftir "Hampiðjan" eða "félagið") er hlutafélag og hefur félagið fengið hlutabréf sín tekin til viðskipta á aðalmarkaði NASDAQ á Íslandi. Tilgangur félagsins, samkvæmt samþykktum, er að stunda veiðarfæraiðnað, þjónustu við sjávarútveg og fiskeldi, ásamt sölu og framleiðslu á tógum og stroffum úr ofurefnum, og fjárfestingar í félögum tengdum sömu greinum, ásamt því að reka verslanir með eigin framleiðsluvörur og aðrar skyldar vörur.

Helstu lög sem tengjast stjórnarháttum og gilda um Hampiðjuna eru lög nr. 2/1995 um hlutafélög og ársreikningalög nr. 3/2006. Helstu önnur lög sem gilda um starfssemi félagsins eru samkeppnislög nr. 44/2005, lög nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, lög nr. 60/2021 um aðgerðir gegn markaðssvikum og lög nr. 90/2003 um tekjuskatt. Jafnframt byggja stjórnarhættir á ákvæðum samþykkta félagsins, dags. 2. júní 2023, og starfsreglum stjórnar, sem síðast voru uppfærðar þann 9. mars 2023. Gildandi samþykktir stjórnar og starfsreglur stjórnar má finna á heimasíðu Hampiðjunnar.

Stjórn félagsins telur stjórnarhætti vera í samræmi við leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja sem gefnar eru út af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq Iceland og Samtökum atvinnulífsins, en 6. útgáfa leiðbeininganna var gefin út 2021, nema annars sé getið í stjórnarháttayfirlýsingu þessari. Leiðbeiningarnar má finna á leidbeiningar.is.

b. Frávik frá leiðbeiningum um stjórnarhætti.

Það er ekki starfandi tilnefningarnefnd hjá félaginu. Ekki hefur verið kallað eftir því af hálfu hluthafa að tilnefningarnefnd sé komið á fót á vettvangi félagsins. Þá hefur stjórn ekki séð ástæðu til að setja á laggirnar slíka nefnd við núverandi aðstæður. Ekki er heldur starfandi starfskjaranefnd stjórnar á vettvangi félagsins en stjórn félagsins hefur ekki þótt ástæða til að hafa slíka nefnd.

C. Aðrar reglur og viðmið sem farið er eftir.

Stjórn Hampiðjunnar hefur sett félaginu og dótturfélögum þess ýmsar reglur og stefnur sem fara ber eftir í samstæðu félagsins, m.a. með það að markmiði að viðhafa góða stjórnarhætti.

Starfskjarastefna:

Í samræmi við skyldur samkvæmt ákvæðum 79. gr. a. í lögum um hlutafélög nr. 2/1995 var starfskjarastefna Hampiðjunnar samþykkt á aðalfundi félagsins þann 24. mars 2023. Starfskjarastefnan byggir á meginreglum sem gilda um góða stjórnarhætti fyrirtækja og tekur mið af langtímahagsmunum félagsins, hluthafa, starfsfólks og viðskiptamanna þess. Félagið hefur það að markmiði að búa vel að starfsfólki sínu og tryggja því eðlilegan afrakstur vinnu sinnar. Starfskjarastefnan skal gera félaginu kleift að laða til sín og halda í hæft starfsfólk, ekki síst það sem ber meginábyrgð á stjórnun og þróun félagsins. Þá segir í starfskjarastefnunni að miðað sé að því að stjórn félagsins sé kleift að bjóða samkeppnishæf laun og aðrar greiðslur, svo sem kaupauka til að markmiðum starfskjarastefnunnar verði náð.

Persónuverndarstefna:

Hampiðjan hefur sett sér persónuverndarstefnu á grundvelli laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Er tilgangur stefnunnar að tryggja sem best fylgni við ákvæði laganna varðandi meðferð persónuupplýsinga. Gildandi persónuverndarstefna félagsins var samþykkt 18.mars 2021 og er birt á heimasíðu félagsins.

Umhverfisstefna:

Hampiðjan hefur sett sér umhverfisstefnu til staðfestingar á því að félagið vinnur að því markmiði að draga úr öllum neikvæðum umhverfisáhrifum af sinni daglegu starfsemi. Umhverfisstefnan er mörkuð fyrir Hampiðjuna og er jafnframt stefnumarkandi fyrir dótturfélög félagsins víða um heim. Gildandi umhverfisstefna félagsins var samþykkt 18. mars 2021 og er birt á heimasíðu félagsins.

Siðareglur:

Hampiðjan hefur sett siðareglur sem gilda um starfsemi félagsins og dótturfélaga þess. Reglunum er ætlað að stuðla að að heiðarlegri og siðferðilega réttri hegðun félagsins, dótturfélaga og starfsfólks. Gildandi siðareglur félagsins voru samþykktar 23. nóvember 2023 og eru birtar á heimasíðu félagsins.

Þá hefur Hampiðjan sett birgjum sínum og dótturfélögum félagsins siðareglur þar sem settar eru fram ákveðnar lágmarkskröfur sem félagið ætlast til að birgjar félagsins uppfylli. Birgjar félagsins skulu afhenda vörur og veita þjónustu sem uppfylla skilyrði laga og reglugerða og siðareglur félagsins fyrir birgja. Gildandi siðareglur félagsins fyrir birgja voru samþykktar 23. nóvember 2023 og eru birtar á heimasíðu félagsins.

Arðgreiðslustefna:

Stjórn félagsins hefur markað félaginu þá stefnu að við útgreiðslu arðs skuli haft til hliðsjónar að félagið haldi sterkum efnahag og geti mætt þeim sveiflum sem fylgt geta því rekstrarumhverfi sem félagið starfar í. Segir í stefnunni að mikilvægt sé að félagið hafi getu til þess að grípa góð tækifæri til vaxtar og styrkingar fyrir félagið og hluthafa þess. Í stefnunni kemur fram að stjórnin telur einnig mikilvægt að greiða hluthöfum eðlilegan arð af því fé sem þeir hafa bundið í félaginu. Það er því stefnt að því að félagið greiði hluthöfum sínum árlegan arð sem nemi 30-40% af hagnaði liðins rekstrarárs.

Mannréttindastefna:

Félagið hefur sett sér mannréttindastefnu sem á við um það og dótturfélög þess. Auk þess væntir Hampiðjan þess að allir birgjar og viðskiptafélagar fylgi siðareglum birgja Hampiðjunnar.Mannréttindastefnan er aðgengileg á heimasíðu félagsins.

Stefna varðandi uppljóstrun:

Hampiðjan hefur sett sér stefnu varðandi uppljóstrun sem hefur að geyma leiðbeiningar og verkferla sem taka mið af lögum nr. 40/2020. Stefnan er aðgengileg á heimasíðu félagsins.

Jafnlauna og jafnréttisstefna:

Félagið hefur sett sér stefnu í jafnréttismálum og jafnlaunamálum til að jafna stöðu starfsfólks og tryggja jöfn tækifæri fyrir einstaklinga á sem flestum sviðum, óháð aldri, kyni, uppruna eða öðrum persónubundum þáttum. Stefnan var samþykkt þann 25.ágúst 2022 og er birt á heimasíðu félagsins.

Að auki hefur félagið sett sér vinnuverndarstefnu og eldvarnarstefnu ásamt stefnu og viðbragðsáætlun gegn einelti, áreitni og ofbeldi. Þær stefnur eru flokkaðar sem innanhússtefnur og ekki birtar á heimasíðu félagsins.

2. Innra eftirlit og áhættustýring.

a. Innra eftirlit og áhættustýring.

Innra eftirlit hefur það að markmiði að styðja við að félagið nái markmiðum sínum. Öll starfsemi félagsins, og dótturfélaga þess, er samtvinnuð innra eftirliti og er hluti af stjórnkerfi þess þar sem hlutverk, völd og ábyrgð einstakra stjórnareininga eru skilgreind. Innra eftirlit félagsins felst í því að fyrirbyggja hugsanleg mistök með því að fyrir liggi skýrir verkferlar í tengslum við starfsemi félagsins og dótturfélaga þess, s.s. varðandi vöruþróun og framleiðslu, en einnig í skilvirku eftirliti með virkni og framkvæmd þessara verkferla, sem og í yfirsýn og eftirliti með fjárhagslegum þáttum starfseminnar.

Starfssemi samstæðu félagsins teygir sig til 21 landsvæðis og eru dótturfélög félagsins samtals 45. Innra eftirlit og áhættustjórnun eru lykilþættir í starfssemi félagsins. Virkt innra eftirlit með starfsemi allra dótturfélaga dregur úr áhættu m.a. við samningu reikningsskilmála. Til staðar er viðeigandi aðgreining starfa.

Eitt af hlutverkum endurskoðunarnefndar er að hafa eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila og virkni innra eftirlits og áhættustýringar. Rekstur félagsins í heild, og hvers dótturfélags, er gerður upp mánaðarlega, sem gerir stjórnendum og stjórn kleift að bera árangur saman við áætlanir, fylgjast með breytingum og gera ráðstafanir ef vart verður við verulega neikvæðar breytingar. Til að tryggja að reikningsskil félagsins séu í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla hefur félagið lagt áherslu á vel skilgreind ábyrgðarsvið, reglulega skýrslugjöf og gegnsæi í starfseminni.

b. Ytri endurskoðandi.

Endurskoðunarfélag Hampiðjunnar er PricewaterhouseCoopers ehf. Endurskoðendur félagsins eru kosnir árlega á aðalfundi félagsins. Endurskoðendur skulu endurskoða reikningsskil félagsins á grundvelli alþjóðlegra endurskoðunarstaðla.

c. Regluvarsla

Stjórn félagsins hefur skipað regluvörð fyrir félagið. Hlutverk regluvarðar er m.a. að hafa umsjón með að lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum og reglugerð MAR sé fylgt í starfsemi félagsins. Regluvörður félagsins er Emil Viðar Eyþórsson fjármálastjóri og nýtur hann ráðgjafar Ólafs Arinbjarnar Sigurðssonar lögmanns í störfum sínum en staðgengill regluvarðar er Jón Oddur Davíðsson.

3. Stjórn

a. Samsetning og starfsemi stjórnar

Stjórn félagsins var kjörin á aðalfundi félagsins þann 24. mars 2023 og var stjórnarformaður kosinn sérstaklega. Stjórnina skipa þrír karla og tvær konur og uppfyllir samsetning stjórnar því skilyrði 1. mgr. 63. gr. laga um hlutafélög varðandi kynjahlutföll.

Stjórnarmenn hafa lagt fram persónulegar upplýsingar, til að mynda um önnur trúnaðarstörf og möguleg hagsmunatengsl, í þeim tilgangi að auðvelda mat á hæfi þeirra. Allir stjórnarmenn teljast óháðir félaginu og daglegum stjórnendum. Tveir stjórnarmenn teljast óháðir stórum hluthöfum.

Stjórn félagsins hefur sett sér starfsreglur sem eru yfirfarnar árlega og voru gildandi starfsreglur samþykktar af stjórn hinn 9. mars 2023. Í starfsreglunum er m.a. kveðið á um skipan stjórnar, verkaskiptingu, verksvið stjórnar, fyrirsvar, boðun funda, ákvörðunarvald, fundargerðir, þagnar- og trúnaðarskyldu, vanhæfi, skýrslugjöf, störf forstjóra, upplýsingagjöf, skipan undirnefnda, reglur verðbréfamarkaðarins, árangursmat og nýja stjórnarmenn.

Á líðandi starfsári voru haldnir alls 10 stjórnarfundir og var hluti þeirra helgaður hlutafjárútboði á nýjum hlutum í félaginu, sem fram fór í tengslum við kaup félagsins á öllu hlutafé Holding Cage I AS.

Stjórnarfundir eru að jafnaði haldnir á aðalskrifstofu félagsins. Fundina sitja að jafnaði, auk stjórnarmanna, forstjóri, fjármálastjóri og framkvæmdastjóri Hampiðjan Ísland ehf. Fundargerðir stjórnarfunda ritar framkvæmdastjóri Hampiðjan Ísland ehf. Drög fundargerða eru afhent stjórnarmönnum innan sjö daga frá stjórnarfundi.

b. Upplýsingar um stjórnarmenn

Vilhjálmur Vilhjálmsson (1953) er stjórnarformaður Hampiðjunnar. Vilhjálmur hefur setið í stjórn Hampiðjunnar frá árinu 2013 og verið formaður allan þann tíma. Vilhjálmur var forstjóri HB Granda hf. á árunum 2012-2018, stýrði uppsjávardeild HB Granda á árunum 2005-2012 og var framkvæmdastjóri Tanga hf. 2003-2004. Frá árinu 1986 hefur Vilhjálmur gengt ýmsum störfum tengdum sjávarútvegi. Hann er með verslunarpróf frá Verslunarskóla Íslands, farmannapróf frá Stýrimannaskóla Íslands og útgerðartækni frá Tækniskóla Íslands. Vilhjálmur telst vera óháður félaginu, daglegum stjórnendum þess og stórum hluthöfum.

Auður Kristín Árnadóttir (1974) hefur setið í stjórn Hampiðjunnar frá 2012. Hún er skrifstofustjóri Íspan Glerborgar ehf. Var áður sjálfstætt starfandi, framkvæmdastjóri Opal gistingar ehf á árunum 2015-2017, verkefnastjóri hjá embætti umboðsmanns barna frá 2004-2016. Ýmis önnur tímabundin störf, m.a. á skrifstofu Hampiðjunnar 1996 til 2000. Hún er með MA próf í alþjóðasamskiptum frá University of Warwick í Englandi, próf í kennslufræði til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands og BA í sagnfræði með viðskiptafræði sem aukagrein frá HÍ. Auður telst vera óháð félaginu, daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum.

Guðmundur Ásgeirsson (1939) hefur setið í stjórn Hampiðjunnar frá 2014. Hann er stjórnarmaður hjá Köfunarþjónustunni ehf., Köfunarþjónustu Íslands ehf., Salteyri ehf., Saltkaup ehf., Fáfni Offshore hf., Hlér ehf. og Pentland ehf. Guðmundur hefur m.a. verið stjórnarmaður í mörgum félög tengdum flutningaskipum á Íslandi og erlendis. Hann er einn stofnanda Nesskipa hf. og starfaði sem framkvæmdastjóri félagsins 1975 til 2004. Var áður til sjós, bæði á fiski- og farskipum. Hann er með gagnfræðapróf frá sjóvinnudeild Verknámsskólans við Brautarholt, farmannapróf frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík og nam Shipping and Commerce við London School of Foreign Trade. Guðmundur telst vera óháður félaginu, daglegum stjórnendum þess og stórum hluthöfum.

Kristján Loftsson (1943) hefur setið í stjórn Hampiðjunnar frá árinu 2000. Hann er framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Hvals hf., stjórnarformaður Fiskveiðihlutafélagsins Venusar hf. og Eldkórs ehf. Kristján er með verslunarpróf frá Verslunarskóla Íslands og stundaði nám í Cardiff í Wales. Kristján telst vera óháður félaginu og daglegum stjórnendum þess.

Sigrún Þorleifsdóttir (1968) hefur setið í stjórn Hampiðjunnar frá 2014. Hún er mannauðs- og gæðastjóri hjá innviðaráðuneytinu. Áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri gæðastjórnunar og mannauðs hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, framkvæmdastjóri vörustjórnunarsviðs Coca-Cola European Partners Ísland hf. og semframkvæmdastjóri mannauðssviðs Vífilfells hf. Hún var einn af eigendum Attentus -mannauðs og ráðgjafar ehf. og Vendum ehf. og starfaði þar í samtals 5 ár sem stjórnunarráðgjafi. Þá var hún stjórnandi í rúm 15 ár hjá Eimskip, SH/Icelandic. Kenndi leiðtogafræði í MBA námi Háskóla Íslands. Sigrún telst vera óháð félaginu, daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum.

4. Framkvæmdarstjórn félagsins.

Hjörtur Valdemar Erlendsson (1958) hefur verið forstjóri Hampiðjunnar hf. frá árinu 2014 og hefur hann starfað í um 39 ár hjá Hampiðjunni hf. og dótturfélögum. Hann var framkvæmdastjóri Hampiðjan Baltic 2003-2014, framkvæmdastjóri Hampiðjan Danmark 2003-2006, framleiðslustjóri Hampiðjunnar 1991-2003 og áður framleiðslustjóri í þráða-, flétti- og kaðladeild Hampiðjunnar á árunum 1985-1991. Hjörtur er með BS próf í Operational Engineering Technology frá Ingeniørhøjskolen København Teknikum 1985 og lauk vélstjóramenntun frá Vélskóla Íslands 1979. Hjörtur gegnir stöðu stjórnarformanns í fjölda dótturfélaga Hampiðjunnar og er jafnframt stjórnarmaður og meðeigandi í fyrirtækinu Innlifun ehf. ásamt konu sinni en það fyrirtæki hannar og selur eldhúsinnréttingar.

Hjörtur skipar framkvæmdastjórn félagsins ásamt Emil Viðari Eyþórssyni (1980), fjármálastjóra.

5. Undirnefndir stjórnar

a. Endurskoðunarnefnd

Hlutverk endurskoðunarnefndar er m.a. að hafa eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila og fer yfir mikilvæg atriði varðandi reikningsskil félagsins. Endurskoðunarnefnd er eingöngu til ráðgjafar en getur ekki tekið ákvörðun fyrir hönd stjórnar. Endurskoðunarnefnd er skipuð af stjórn Hampiðjunnar og skal halda a.m.k einn fund með endurskoðanda félagsins á hverju ári þar sem farið er yfir endurskoðaða ársreikninga og endurskoðunarskýrslu. Á fjárhagsárinu sem lauk hinn 31. desember 2023 voru haldnir tveir fundir í endurskoðunarnefnd og full mæting á alla fundina.

Endurskoðunarnefnd Hampiðjunnar skipa samkvæmt ákvörðun stjórnar þann 2. júní 2023 þau Vilhjálmur Vilhjálmsson stjórnarformaður, Sigrún Þorleifsdóttir stjórnarmaður og Jóhann Gunnar Jóhannsson, endurskoðandi og fjármálastjóri Securitas.

6. Fyrirkomulag samskipta hluthafa og stjórnar.

Stjórnarformaður Hampiðjunnar, í samráði við forstjóra, annast milligöngu milli stjórnar og hluthafa fyrirtækisins.

Talk to a Data Expert

Have a question? We'll get back to you promptly.